16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

106. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru nokkrar athugasemdir, sem ég vil að gefnu tilefni gera hér til viðbótar framsöguræðu minni, áður en málið fer til nefndar.

Í fyrsta lagi er því haldið fram, að þetta tekjuöflunarfrv. sé óþarft, vegna þess að tekjuáætlunin í fjárl. fyrir árið 1965 sé allt of lág, eins og einn hv. þm. orðaði það, og jafnvel vísvitandi röng, eins og haft hefur verið á orði. Þessu til sönnunar er bent á það, að tekjur hafa reynzt verulega umfram áætlun árin 1962 og 1963. Ég skal aðeins rekja það, hvernig tekjuáætlanir hafa reynzt þessi 4 ár eða 5 ár, sem núv. stjórn hefur setið.

Varðandi fyrstu fjárlögin, fyrir 1960, þá reyndust tekjur ríkissjóðs heldur lægri en áætlað var. Árið 1961 reyndust þær lítilsháttar hærri, en ekki neitt verulega. Árin 1962 og 1963 reyndust þær allverulega miklu hærri, eins og ég gat um í minni frumræðu, vegna þess aðallega, að innflutningur varð miklu meiri en menn höfðu gert ráð fyrir. Ég býst við, að hvorki hv. stjórnarandstæðingar né við höfum séð það fyrir, að þessi mikla innflutningsaukning yrði á þeim árum. Og eins og ég hef tekið fram áður, þá voru þessar áætlanir, sem aðflutningsgjöld voru byggð á, bæði í fjárl. fyrir 1962 og 1963, fyrst og fremst byggðar á áætlunum Seðlabanka Íslands og Efnahagsstofnunar og þó, ef ég man rétt, áætlun um aðflutningsgjöldin sett endanlega í fjárl. nokkru hærri en þessar stofnanir höfðu áætlað. Varðandi árið 1964 liggur það fyrir, að tekjuáætlun fjárl. mun verða mjög nærri sanni, þannig að tekjurnar verða sáralítið, eftir því sem nú horfir, umfram áætlun fjárlaga.

Af þessari reynslu af fjárl. 5 síðustu ára fer því fjarri, að nokkur heimild sé að draga þá ályktun, sem hér hefur verið gerð, að áætlanir hafi öll þessi undanfarin ár verið vísvitandi röng, tekjuáætlun hafi verið vísvitandi röng. Þetta er staðhæfing, sem enginn fótur er fyrir.

Þá er næst afkoma ársins 1964, sem hér var óskað eftir upplýsingum um. Hv. 4. þm. Norðurl. e. lét orð falla á þá lund, að það væri hneyksli, að fjvn. hefði ekki enn verið gefið yfirlit um afkomu ársins 1964. Ég tók það fram í ræðu við 2. umr. fjárl., af hverju það stafaði. Það stafaði einfaldlega af þeirri eðlilegu ástæðu, að athugun og endurskoðun á tekjuáætlun fjárlagafrv. var látin bíða til 3. umr. og þess vegna eðlilegt, meðan öll þessi mál voru í deiglunni, að bæði grg. um tekjuáætlun í frv. 1965 og þá samhliða henni áætlun um afkomu ársins 1964 biði þangað til milli 2. og 3. umr. Á fundi fjvn. á morgun, ætla ég, að gefin verði grg. um þetta, enda nú auðvelt, þar sem búið er að gera það dæmi upp, hvað þarf til þess, að fjárl. verði afgreidd hallalaus. En það er rétt til glöggvunar hér aðeins að gefa yfirlit og samanburð við s.l. ár um niðurstöðutölur. og tek ég þá yfirlit um tekur og gjöld ríkissjóðs fyrstu 11 mánuði áranna 1963 og 1964.

Varðandi árið 1963 voru tekjur og gjöld svo að segja jöfn eftir 11 mánuði ársins eða í nóvemberlok, eða um það bil 2037 millj. Tekjur og gjöld sem sagt stóðust á í lok þess mánaðar. Í lok nóvembermánaðar 1964 hafa tekjur orðið samtals 2281 millj. kr., en útgjöld 2579 millj. M.ö.o.: gjöldin voru í lok nóvembermánaðar þessa árs nærri 300 millj. hærri en tekjurnar. Af þessu má sjá, að í nóvemberlok 1964 var staða ríkissjóðs nær 300 millj. lakari en á sama tíma í fyrra. Með þessu er auðvitað ekki sagt, að endanleg niðurstaða í reikningi verði þetta miklum mun lakari árið 1964 heldur en 1963, vegna þess að enn eiga eftir að breytast nokkuð þessar tölur, væntanlega ríkissjóði fremur í hag. En samt sem áður gefur þessi samanburður mynd af því, hversu fráleitt það er að ætla að byggja á því, að tekjur ríkissjóðs og greiðslujöfnuður verði jafngóður á árinu 1964 og árunum 1962 og 1963. Annað dæmi, sem sýnir þetta glögglega, er að sjálfsögðu hinn fasti viðskiptareikningur ríkissjóðs við Seðlabankann, sem stendur nú um þessar mundir miklu lakar en á sama tíma í fyrra, sem nemur á 3. hundrað millj. kr. Með þessu hef ég svarað þeirri fullyrðingu að verða að ganga út frá verulegum greiðsluafgangi ríkissjóðs í ár.

Þá kom það fram hjá tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, að aðferðin til þess að losna við þessar nýju skattaálögur, en þó væntanlega halda áfram niðurgreiðslum að fullu, væri niðurfærsla útgjalda og sparnaður, sem væri umtalsverður. Því var lýst yfir hér af einum hv. þm. stjórnarandstöðunnar, hv. 5. þm. Reykn., að stjórnarandstaðan væri tilbúin til samstarfs um sparnað og niðurfærslu útgjalda. Hann virtist tala þarna í umboði bæði Framsfl. og allra arma Alþb., hann hafði a.m.k. engan fyrirvara um annað. En þegar maður nú lítur á, hvað gerzt hefur undanfarna daga í þinginu í sambandi við fjárl., er ekki að undra, þótt manni verði á að hvá og velta fyrir sér, hversu mikil alvara er þarna á bak við. Við 2. umr. fjárl. flutti t.d. Framsfl. till. um útgjaldahækkanir, sem námu yfir 200 millj. kr. Ég hef ekki talið saman, hvað hækkunartill. Alþb. voru miklar, en ég held þó, að Framsfl. hafi örugglega haft vinninginn í þessu efni.

Er það nú líklegt, að sá flokkur eða þeir flokkar, sem flytja svo stórkostlegar útgjaldahækkunartill., væru reiðubúnir til þess ekki aðeins að falla frá þeim öllum, heldur ganga inn á niðurskurð á fjárl.? Ég veit ekki betur en ýmsir framámenn Alþb. hafi undanfarna mánuði stært sig mjög af því, að með júnísamkomulaginu hafi þeir tryggt stóraukið fé til byggingarframkvæmda. Er það líklegt, að þm., sem fluttu till, um að hækka framlög til vegamála á næsta ári um 60 millj., mundu reiðubúnir til að falla frá þeim hækkunartill. og jafnvel draga eitthvað saman seglin? Er það líklegt, að þeir, sem fluttu till. um að hækka framlög til hafna um 10—20 millj., til raforku um 15 millj., atvinnubótasjóðs um 15 millj. og flugvalla um 10 millj., svo að ég nefni nokkrar tölur, að þessir hv. þm. hefðu talið sjálfsagt að falla frá þessum till. og jafnvel ganga í þess stað til niðurskurðar á ýmsum útgjaldaliðum fjárl. bara fyrir þá sök, að ríkisstj. hefði talað við þá og óskað samstarfs?

Í umr. um fjárl. í sameinuðu þingi var einn af leiðtogum Alþb., sem kom einnig inn á þetta sama, að hér þyrfti niðurskurð og sparnað. Hann byrjaði á því að telja upp nokkra liði. Þeir urðu aldrei fleiri en þrír, sem hann vildi spara á. Hann vildi leggja niður Kaupmannahafnarprestinn, hann vildi leggja niður almannavarnir, og hann vildi ekki veita aukið fé til endurbóta á prestsetrum. Þetta, sem þessi hv. þm. taldi upp, mun hafa numið samtals lækkunum um einar 5—6 millj. Sem sagt, það náði ekki einu sinni 2% af fjárlagaupphæðinni. Þegar maður lætur verkin þannig tala og lítur bara á það, sem hefur verið að gerast þessa dagana hér, og að hv. stjórnarandstæðingar hafa ekki aldeilis sýnt í verki vilja sinn til niðurskurðar, heldur þvert á móti að þenja út fjárl. og auka stórlega útgjöld þeirra, án þess að sjá fyrir tekjum á móti, þá verður maður að leggja með nokkurri varúð trúnað á það, að þeir séu reiðubúnir til niðurskurðar á fjárl. og útgjöldum ríkisins, sem geri nýjar skattaálögur óþarfar, bara ef ríkisstj. vildi láta svo lítið að segja við þá: Við skulum setjast niður saman, góðir hálsar, og framkvæma þetta allt svona til niðurskurðar.

Nei, það er ósköp auðvelt að tala um sparnað og niðurskurð, en sýna svo í verki allt annað og gera enga tilburði til þess að benda á neitt, sem máli skiptir, til niðurskurðar.

Ég skal svo að lokum aðeins minnast á skattamálin, sem hv. þm. hafa gert nokkuð að umtalsefni. Einn hv. þm. eða raunar tveir töldu, að það hefðu verið mikil vonbrigði, að ríkisstj. hafi ekki treyst sér til þess að veita neina tilslökun á álögðum sköttum í ár, og var svo að skilja, að ríkisstj. hefði þar brugðizt einhverju, sem hún hefði lýst yfir. Ég kannast ekki við, að ríkisstj. hafi nokkurn tíma gefið nokkurt fyrirheit um það, að þau útsvör og þeir skattar, sem voru á lagðir í ár, yrðu lækkaðir. Eftir tilmælum Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja þótti ríkisstj. hins vegar sjálfsagt að hefja viðræður við þá aðila, og eftir uppástungu hennar voru settir til þess 4 menn að kanna, hvort möguleikar væru á því að veita afslátt á þessum gjöldum í ár. Í því að setja slíka trúnaðarmenn til slíkrar rannsóknar felst auðvitað ekki neitt fyrirheit eða loforð um það, að þessar álögur verði lækkaðar. Í þessa fjögurra manna nefnd var tilnefndur fulltrúi ríkisstj., fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, fulltrúi, sem A.S.Í. valdi, og fulltrúi, sem bandalag opinberra starfsmanna valdi. Þessi nefnd lagði í þetta mjög mikla vinnu og samdi álít, sem var einróma. Og í þessu áliti — og því fylgdi ýtarleg grg. og upplýsingar — lagði n. ekki til, að gefinn yrði afsláttur á útsvörum eða tekjuskatti á lögðum í ár. Eftir að hafa kynnt sér málin, treysti hún sér ekki til að mæla með því, m.a. fulltrúi Alþýðusambandsins og fulltrúi opinberra starfsmanna. Því fer svo fjarri, að ríkisstj. hafi þannig gengið á bak orða eða fyrirheita í þessu efni, þau hafa aldrei verið gefin. En hv. þm. hafa notað um það sterk orð, að almenningur greiði nú hærri tekjuskatta en nokkru sinni áður, og þrátt fyrir nokkuð mismunandi orðalag hafa þeir þm., sem hér hafa talað úr stjórnarandstöðunni, verið þó sammála um þessa óskaplegu skattpíningu og þá sérstaklega talað um beinu skattana. Nú eru útsvörin ekki hér til umr., en tekjur ríkissjóðs hins vegar, og vil ég því aðeins minnast á tekjuskattinn.

Nú má auðvitað skoða tekjuskatt manna á tvo vegu: annars vegar, hvort hann er hærri í krónutölu en áður, hins vegar, hvort hann er hærri eða lægri í prósentu af tekjum. Vitanlega er það ákaflega villandi og eiginlega ekki sæmilegur samanburður, þegar verið er að tala um hækkaða skatta, þótt þeir hafi hækkað í krónutölu, ef þeir eru lægri prósenta af tekjum manna vegna hækkandi launa og breytts verðlags. Ég hef áður bent á það, gerði það í útvarpsræðu í ágúst í sumar, hvað meðalverkamannafjölskylda greiddi í ár af tekjum sínum frá í fyrra, bæði eftir núgildandi lögum, eftir tekjuskattsl. frá í fyrra og eftir þeim l., sem giltu, þegar vinstri stjórnin lét af völdum. Sá samanburður var auðvitað á þá leið, að skatturinn var sem enginn af þessari meðalverkamannafjölskyldu í ár, hann var nokkur í fyrra, en margfaldur samkv. vinstristjórnarl., ef þau giltu enn.

Nú hefur þessum samanburði verið mótmælt, því að það sé fráleitt að láta sér detta í hug, að nokkur stjórn eða nokkurt þing hafi getað látið skattalög vinstri stjórnarinnar vera enn í gildi. Við skulum þá taka málið frá annarri hlið. Hagstofan hefur reiknað út í mörg ár, hverjar væru meðaltekjur verkamanna í krónutölu, og við skulum þá athuga, hvað meðalverkamannafjölskylda hefur þurft að borga af sínum tekjum, við skulum segja t.d. af tekjum ársins 1958 og svo aftur nú í ár, og um þetta er ýtarleg greinargerð og tafla í grg. fjögurra manna nefndarinnar, sem ég gat um. Þar kemur í ljós, að 1958 voru samkvæmt útreikningi hagstofunnar meðallaunatekjur verkamanns tæpar 63 þús. kr. Af þessum tekjum, þ.e.a.s. það er miðað við hjón með tvö börn, greiddi hann 1644 kr., en það var 2 1/2% af hans þáverandi launum, sem hann greiddi í tekjuskatt til ríkisins. Þessi sama fjölskylda hafði á árinu 1963 tæplega 112 þús. kr. í tekjur eftir útreikningi hagstofunnar. Af þessu greiddi hún í ár 90 kr. eða 0.1% af sínum tekjum. Ef við tökum t.d. iðnaðarmann, sem hafði árið 1958 68 600 kr. í tekjur, greiddi hann af því í tekjuskatt 1884 kr. eða 2.7% af sínum tekjum. Hann hafði á s.l. ári 125 þús. kr. í tekjur, greiddi af því í tekjuskatt 960 kr. eða 0.8%.

Mér finnst þurfa töluverð brjóstheilindi til þess af mönnum eins og hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hefur vafalaust haft þessa skýrslu alla og útreikninga undir höndum, því að ég geng út frá því, að fulltrúi Alþýðusambandsins í n. hafi látið stjórn Alþýðusambandsins þessar skýrslur í té, og veit raunar, að svo er, — það þarf töluverð brjóstheilindi til að koma hér upp í ræðustólinn og segja, að tekjuskattur á almenningi sé hærri en nokkru sinni hefur áður verið. Varðandi þessi dæmi dugir ekki eingöngu sú blekking, sem hv. stjórnarandstæðingum er svo kær og töm, að miða bara við krónutöluna, því að einnig í krónutölu er tekjuskatturinn af þessari verkamannafjölskyldu og meðal iðnaðarmannafjölskyldu miklu lægri en hann var áður, en af verkamannafjölskyldunni er sem sé nú tekið 0.1% af tekjum hans í tekjuskattinn til ríkisins. en var 1958 2.5%, og af iðnaðarmanninum nú 0.8%, en var þá 2.7 %.

Hv. þingmenn virðast sumir skáka í því skjólinu, að það moldviðri, sem tókst að þyrla upp í sumar út af sköttum, sé enn með sama hætti. Þegar þessi alda var liðin hjá, frá því í ágúst, og menn fóru að skoða málin, þá vissu þeir, að megnið af því, sem þá var skrifað og talað um þetta, fékk ekki staðizt. Það var öllum vitanlegt, að eftir skattalögunum frá síðasta þingi voru skattarnir lægri en þeir hefðu orðið eftir lögunum, sem áður giltu. Hitt mátti svo auðvitað hverjum manni vera ljóst, að þegar tekjur manna hækkuðu jafnmikið almennt og raun var á árinu 1963 frá árinu 1962, þá urðu menn að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því, að skattur þeirra hækkaði. Ég skal ekki fara út í ýmsar ástæður, sem ollu þessu, en vitanlega er það öllum mönnum ljóst, að ekkert er auðveldara í þjóðfélaginu heldur en að gera menn óánægða með skattana sína, og hv. stjórnarandstæðingar gengu á það lagið. Það er létt verk og löðurmannlegt.

Eitt vil ég þó taka fram. Það er auðvitað ljóst, að ein af ástæðunum til þess, að slíku moldviðri tekst að þyrla upp, er sú, að okkur hefur ekki enn tekizt að koma hér á þeirri sjálfsögðu umbót, vil ég segja, að menn greiði skatta af tekjum sínum jafnóðum og þeirra er aflað. Það er í fyrsta skipti nú í tíð þessarar ríkisstj., sem gerð hefur verið gangskör að því að undirbúa það mál með það fyrir augum að koma því á í náinni framtíð. Ég geri þó ekki ráð fyrir, að það geti komizt á á næsta ári, því að þetta þarf mikils undirbúnings við, en að því er unnið.

Þá er það loks eitt atriði, sem ég vildi nefna hér til leiðréttingar. Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að tekjuskattur yrði í ár 47 millj. meiri en áætlað er í fjárl., og annar hv. þm. sagði, að beinu skattarnir, átti þá náttúrlega við tekjuskatt og eignarskatt, færu stórlega fram úr áætlun á þessu ári. Hvort tveggja þetta er rangt. Það kemur einnig fram í þessari athugun fjögurra manna n. og fylgir þar með bréf frá ríkisskattstjóra, þar sem niðurstaðan er sú, að tekjuskatturinn í ár verði 264 millj., sem er sambærileg upphæð við áætlun fjárl. í ár, sem er 255 millj. M.ö.o.: það er áætlun ríkisskattstjóra í september. (Gripið fram í.) Þetta er hliðstæð tala við fjárlagaáætlun, og fjárlagatalan er að sjálfsögðu fundin eða hún á að sýna það, hvað gert er ráð fyrir að innheimtist á reikningsárinu, og það er sú tala, sem í fjárl. stendur, 255 millj. Þessi tala er þannig fundin og hefur verið undanfarin ár, að það er gert ráð fyrir, að um 75% af álögðum gjöldum innheimtist á árinu, og þessu til viðbótar koma svo eftirstöðvarnar.

Það, sem villir hv. þm., að því er virðist, í þessu og gerir það að verkum, að þeir bera saman ósambærilegar tölur, er, að álagður tekjuskattur og eignarskattur á árinu í ár var 301 millj. kr. Af því sem sagt er gert ráð fyrir, að innheimtist í ár 75% eða 226 millj. og að auki innheimtist um 40 millj. af eftirstöðvum fyrri ára, þannig að niðurstaðan verður um 264 millj. eða 9 millj. fram yfir það, sem fjárl. gera ráð fyrir.

Þá spurði hv. 4. þm. Norðurl. e. að lokum um það og krafðist svars, hvað orðið hefði af greiðsluafgangi fyrri ára. Hann á þar við árin 1962 og 1963, og greiðsluafgangur þeirra ára varð samtals um 300 millj. kr. Af þessum 300 millj. kr. voru lagðar í jöfnunarsjóð ríkisins 100 millj. Það voru notaðar til skuldagreiðslu við Seðlabankann um 40 millj., og ákveðið var að greiða 20 millj. vegna vangoldinna framlaga ríkissjóðs til sjúkrahúsa og 20 millj. vegna vangoldinna framlaga til hafna. Þessar eru þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið. Að öðru leyti stendur greiðsluafgangur nú eins og áður, þegar um greiðsluafgang hefur verið að ræða, inni í ríkissjóði sem rekstrarfé ríkissjóðs. Þessi afgangur af greiðsluafganginum, ef svo má segja, hefur þó hvergi nærri nægt sem rekstrarfé ríkissjóðs, eins og kemur í ljós í því, að um miðjan desember er yfirdráttur í Seðlabankanum nokkuð á 3. hundrað millj. kr. Ef ætti að taka þessar eftirstöðvar greiðsluafgangs fyrri ára og nota þær t.d. til þess að greiða til niðurgreiðslna, þá þýðir það auðvitað, að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann mundi hækka nákvæmlega að sama skapi, og ef slík ráðstöfun verkar ekki verðbólguaukandi, þá veit ég ekki, hvaða ráðstafanir það eru, sem hafa slík áhrif. Þegar allir þykjast vilja reyna að forðast verðbólgu og stjórnarandstæðingar eiga ekki nógu sterk orð til þess að lýsa því, hversu ráðstafanir stjórnarinnar auki verðbólguna, þá er ljóst, að ef ætti þannig að sækja í Seðlabankann á annað hundrað millj. og dæla því út í niðurgreiðslum, þá mundi það vafalaust auka verðbólguna mjög myndarlega.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara inn é fleiri atriði að sinni í þessum umræðum.