03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2648)

47. mál, radarspeglar á suðurströnd landsins

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér er um að ræða till. til þál. um uppsetningu radarspegla á suðurströnd landsins, en flm. er hv. 10. landsk. þm. Allshn. hefur fengið þessa till. til athugunar og leitaði eftir umsögnum, í fyrsta lagi frá vita- og hafnarmálastjóra, í öðru lagi frá Alþýðusambandi Íslands, í þriðja lagi frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og í fjórða lagi frá Sjómannasambandi Íslands. Í umsögnum frá þessum 3 síðastnefndu launþegasamtökum er mjög eindregið mælt með samþykkt þessarar till. Afstaða er aftur á móti ekki tekin berum orðum í umsögn vita- og hafnarmálastjóra, en ég held ég megi segja, að hún sé nokkuð jákvæð. Hann segir, að mál þetta sé í athugun hjá vitamálastjórninni og líkur á, að niðurstöður fáist á næsta ári. Í bréfi hans segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem kunnugt er, eru sandarnir skaftfellsku eitthvert mesta hættusvæði skipa, sem fyrirfinnst með ströndum Íslands. Hefur því athygli vitamálastjórnarinnar fyrir löngu beinzt að þessu atriði og hefur það verið til ýtarlegrar athugunar, hvað gera megi til aukins öryggis á þessum slóðum. Hættan við siglingar við suðurströndina fyrir skip búin radartækjum er sú, að þar geta skipin siglt af talsverðu dýpi fast inn að ströndinni og séð endurkast fjallanna, er liggja langt að baki strandarinnar, á sjónfleti ratsjárinnar, þótt ströndin hins vegar komi alls ekki fram. Geta því skipin, ef staðsetning þeirra er ónákvæm, siglt upp í brimgarðinn í vissu þess að vera í mikilli fjarlægð frá ströndinni.“

Vita- og hafnarmálastjóri segir hins vegar, að nauðsynlegt sé og óhjákvæmilegt, að fjöldi radarspeglanna sé allmikill. Hann segir, að á s.l. sumri hafi verið gerðar nokkrar tilraunir með þessa spegla, m.a. einum komið fyrir í Kolbeinsey og hann gefið allgóða raun. Hins vegar segir hann, að til greina geti komið fleiri tæki, þ.e.a.s. svokallaðir radarvitar og jafnvel önnur leiðbeiningartæki fyrir radar og beri að athuga það frekar. Einnig segir hann, að væntanleg sé alþjóðaráðstefna um tæknileg vitamál og sé réttast að bíða eftir niðurstöðu frá þeirri ráðstefnu.

Eins og ég sagði áðan, er umsögn vitamálastjóra jákvæð og að þessum umsögnum athuguðum telur n. þarflegt, að till. nái fram að ganga og mælir með því, að hún verði samþ., en gerir á henni lítils háttar breytingu, þannig að í staðinn fyrir að í till. sjálfri var fyrst og fremst miðað við að auka öryggi sjófarenda við suðurströnd landsins, þá er þetta atriði víkkað út og miðað við, að það sé alls staðar annars staðar, þar sem þörf kynni að vera á slíkum speglum og einnig er minnzt á það í breytingunni, að önnur leiðbeiningartæki komi til greina. Breytingin er prentuð á þskj. 267 og eins og ég segi, með þeirri breytingu mælir allshn, með að till. verði samþ.