31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2664)

21. mál, aðstoð við þróunarlöndin

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Utanrmn. hefur rætt till. á þskj. 221, um aðstoð við þróunarlöndin og mælir einróma með samþykkt hennar. Telur n. nauðsynlegt, að upplýsinga verði aflað um það, á hvaða sviði Íslendingar geti lagt fram lið sitt til hjálpar þessum löndum og hvers konar aðstoð þeim sé sérstaklega þörf á. Það er einmitt öflun slíkra upplýsinga, sem till. stefnir fyrst og fremst að, þar sem lagt er til, að ríkisstj. láti fram fara athugun á því, með hverjum hætti Íslendingar geti veitt þróunarlöndunum aðstoð til eflingar framförum þar. Að þessari upplýsingasöfnun lokinni er gert ráð fyrir, að ríkisstj. leggi niðurstöður athugunarinnar fyrir Alþingi.

Í utanrmn. kom sú skoðun fram, að aðallega væri um 3 leiðir að ræða í þessum efnum. Í fyrsta lagi að styðja að dvöl fólks frá þróunarlöndunum hér á landi til þess að afla sér menntunar. Í öðru lagi, að Íslendingar sendi sérfræðinga héðan til þróunarlandanna. Í þriðja lagi, að Íslendingar veiti þá aðstoð, sem þeir geta í té látið, fyrir milligöngu alþjóðastofnana, sem við erum aðilar að.

Vitað er, að Norðurlandaþjóðirnar hafa allar beitt sér fyrir aðstoð á ýmsum sviðum við þjóðir hinna svokölluðu þróunarlanda. Norðmenn hafa t.d. haldið námskeið heima í Noregi fyrir námsfólk frá Indlandi. Við Íslendingar höfum einnig sent skipstjórnarmenn til Indlands á vegum Landbúnaðar- og matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna til þess að kenna indverskum fiskimönnum fiskveiðar. Þá má geta þess, að Rauði kross Íslands hefur nú tekið upp samvinnu við Rauða kross hinna Norðurlandanna um ýmiss konar mannúðar- og heilbrigðisaðgerðir í Nígeríu. Munu þessi samtök hafa í hyggju að beita sér fyrir hliðstæðum hjálparráðstöfunum í fleiri Afríkulöndum.

Allir hljóta að sjálfsögðu að viðurkenna og gera sér ljóst, að takmörkuð fjárráð íslenzku þjóðarinnar valda því, að ekki verður um að ræða víðtæka aðstoð af okkar hálfu við þjóðir þróunarlandanna. En við getum engu að síður sýnt lit á því, að við viljum vera með í því mikla uppbyggingar- og mannúðarstarfi, sem nauðsynlegt er að vinna meðal örsnauðra og fákunnandi þjóða, sem búa við frumstæðar aðstæður á flestum sviðum þjóðlífsins.

Kjarni þessarar till. er, að ríkisstj. láti fram fara athugun á því, hvaða leiðir séu færar í þessum efnum og á hvaða sviðum Íslendingar kynnu að geta látið í té sérþekkingu og aðra aðstoð, sem að gagni mætti koma í fyrrgreindum löndum. Á grundvelli þessarar skoðunar leggur utanrmn. einróma til, að þáltill. á þskj. 21 verði samþ. óbreytt.