25.11.1964
Sameinað þing: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (2672)

37. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Það er almennt talið, að fiskimiðin hér við Ísland séu meðal beztu fiskimiða í heimi. En fiskigöngur eru misjafnar og aflabrögð misjöfn frá ári til árs. Í draumi Faraós voru feitar og magrar kýr. Í íslenzkum sjávarútvegi og sjávarútvegi einstakra byggðarlaga hér á landi eru líka feit og mögur ár, aflaár og aflaleysisár. Þessar breytingar, þessi mismunandi ár og mismunandi árferði í sjávarútveginum skapa sveiflur í þessum atvinnuvegi, sem oft hafa orðið erfiðar fyrir þá sem þennan atvinnuveg stunda og fyrir þjóðarbúskapinn. Það er þess vegna langt síðan framsýnir menn fóru að hafa orð á því, að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess að færa eitthvað af verðmætum frá góðu árunum yfir til hinna verri ára. Og ráðstafanir til framkvæmda í þessu efni voru gerðar með setningu laga um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins 1949. Það var meginatriði þessara laga frá öndverðu, að sjávarútvegurinn og þjóðfélagið myndaði sjóð, sem væri til þess að létta undir með útveginum, þegar afli bregzt. Með lögum um Hlutatryggingasjóð bátaútvegsins var lagt hlutatryggingagjald á útfluttar sjávarafurðir og á móti skyldi koma framlag úr ríkissjóði.

Árið 1962 voru gerðar töluverðar breytingar á l. um hlutatryggingasjóð og var nafni sjóðsins þá breytt, þannig að hann heitir nú Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins, hét áður Hlutatryggingasjóður bátaútvegsins. Voru l. þá jafnframt gefin út að nýju sem ný lög. Það, sem einkum fólst í hinum nýju breytingum í l. frá 1962, var það, að togaraflotinn, sem hafði verið utan við starfsemi hlutatryggingasjóðs, var nú tekinn inn í hlutatrygginguna og einnig var gerð nokkur breyting á hlutfallinu milli aflatryggingagjalds og framlags ríkissjóðs. Samkv. l., eins og þau nú eru, skiptist sjóðurinn í fjórar deildir, síldveiðideild, almenna deild bátaflotans, almenna deild togaraflotans og jöfnunardeild, en hlutverk jöfnunardeildarinnar er, eins og segir í l., að veita hinum deildunum lán eða styrki, er svo stendur á. Í l. er svo ákvæði um það, hversu mikið hver deild skuli fá af tekjum sjóðsins og er gert ráð fyrir, að þessi jöfnunardeild fái helminginn af tekjunum. En síðan er veitt fé úr henni, annaðhvort lán eða opinbert framlag, til hinna deildanna. Aflatryggingagjaldið, sem lagt er á útfluttar sjávarafurðir, er nú 1¼%, en framlag ríkisins ár hvert helmingurinn af tekjum sjóðsins af þessu gjaldi. Ég hygg, að það muni láta nærri, að tekjur sjóðsins, sem hann fær á þennan hátt, muni á þessu ári geta orðið 75–80 millj. kr. Þetta er raunar ágizkun, því að það liggur ekki fyrir enn þá, en tekjurnar skiptast milli deilda sjóðsins á þann hátt, sem ég nefndi áðan.

Nú er það svo, að þegar l. voru sett um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins fyrir 15 árum, skorti reynslu í þessum efnum, en framkvæmd slíkra trygginga er að sjálfsögðu mjög vandasöm. Það er ákaflega vandasamt verkefni að bæta upp aflatjón, hvenær það skuli gert og á hvern hátt það skuli gert, til þess að sú starfsemi nái tilgangi sínum. Og það væri ekkert undarlegt nú eftir 15 ár, að ástæða væri til, að fulltrúar Alþingis settust nú niður að nýju til þess að íhuga reynsluna af þessum málum, framkvæmd þessara mála og gera það upp við sig, hvort ekki væri ástæða til þess að breyta til. Enda er það svo, að á undanförnum árum hafa verið á ýmsum vettvangi uppi till. um, að rétt væri að breyta einu og öðru í sambandi við þessa tryggingastarfsemi. Ég vil í því sambandi leyfa mér að minna á ýmsar raddir, sem fram hafa komið í blöðum, fundarsamþykktir, sem gerðar hafa verið, meðferð málsins á fiskiþingi, þar sem komið hafa fram raddir um ákveðnar breytingar á vissum atriðum í löggjöfinni um aflatryggingar og ég vil að lokum leyfa mér að minna á samþykkt, sem nú alveg nýlega var gerð um það efni á þingi Alþýðusambands Íslands, þar sem talin er ástæða til þess, að fram fari athugun á því, eins og það er orðað, „hvort ekki sé hagkvæmast, að aflatryggingasjóður verði efldur með auknu ríkisframlagi og reglum um starfsemi sjóðsins verði breytt,“ svo að hann geti betur en nú þjónað þessu hlutverki, sem þar er um rætt, þ.e.a.s. koma í veg fyrir stöðvun sjávarútvegsins í einstökum byggðarlögum.

Með tilliti til þessa höfum við, sem stöndum að till., sem hér liggur fyrir á þskj. 38, talið rétt, að endurskoðun l. fari nú fram, og við leggjum til, að það verði gert á þann hátt, eins og segir í till., að Alþingi kjósi 7 manna mþn. til að endurskoða lög um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og gera till. um breytingar á þeim, eftir því sem henni þykir ástæða til. Í till. segir, að í starfi sínu skuli n. hafa samráð við Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda. Enn fremur skuli hún sérstaklega gera sér far um að kynna sér skoðanir útvegsmanna og sjómanna í einstökum landshlutum varðandi málið og reynslu þeirra af starfsemi hlutatryggingasjóðs og aflatryggingasjóðs.

Við flm. teljum ekki tímabært nú, þegar við leggjum til, að kosin verði mþn. til þess að endurskoða l. um aflatryggingasjóð, að gefin verði fyrirmæli um það, hverjar breytingar skuli gerðar á l. Það mun koma í ljós, þegar n. tekur til starfa og hefur rannsakað málið, hvað það er, sem hún einkum telur ástæðu til þess að breyta. Ég vil þó leyfa mér, áður en ég lýk máli mínu, að minna á nokkur atriði, sem menn hafa borið í tal eða komið hafa fram í umr. um þetta mál á undanförnum árum. Ég vil nefna t.d. sem efnisatriði til athugunar í því sambandi hlutfallið, sem nú gildir milli tekna sjóðsins af aflatryggingagjaldi og framlags úr ríkissjóði, en þessu hlutfalli hefur verið breytt. Þá vil ég nefna skipun sjóðsstjórnarinnar og meðferð mála á vegum sjóðsins. Það er ekki örgrannt um, að ýmsum þyki sú aðferð, sem eftir l. þarf að viðhafa við ákvörðun bóta, nokkuð seinvirk. Ég skal ekki um það dæma, hvort svo sé, en þá skoðun hef ég heyrt og sýnist l. reyndar vera þannig úr garði gerð, að ætla megi, að þetta sé ekki að óþörfu mælt. Þá vil ég nefna það, að ýmsum þykir það orka nokkuð tvímælis, hvort aðstoð við togaraútgerðina, sem nauðsynlegt hefur reynzt að veita og veitt hefur verið vegna erfiðleika togaraflotans, eigi að vera á vegum aflatryggingasjóðs og á þann hátt veitt, sem l. nú gera ráð fyrir. Þetta er áreiðanlega ákvæði, sem ástæða er til þess að athuga gaumgæfilega og þá jafnframt ákvæði l. um hina svonefndu jöfnunardeild. En sú aðstoð við togaraflotann, sem fer fram á vegum aflatryggingasjóðs, fer i rauninni fram á vegum þessarar jöfnunardeildar. Þetta er sem sé eitt af þeim atriðum, sem nokkuð er um rætt um þessar mundir og gæti verið og án efa er ástæða til þess að athuga nánar. Og þá vil ég að lokum nefna reglurnar um svokallað meðalveiðimagn, sem úthlutun bótanna byggist á. Mér er kunnugt um, að þessar lagareglur og framkvæmdareglur um meðal veiðimagnið og viðmiðunina við það hafa sætt verulegri gagnrýni, t.d. á fiskiþingi og verið uppi ákveðnar till. um að bæta þar um, sérstaklega úr vissum landshlutum. Og sumir telja, að hér eigi einnig að koma til önnur sjónarmið. Ég tel, að þetta sé eitt af þeim atriðum, sem væntanleg nefnd þurfi að athuga. Fleira mætti nefna til athugunar fyrir þessa nefnd eða til þess að gera grein fyrir þeim viðfangsefnum, sem væntanleg nefnd mundi væntanlega taka til meðferðar, en ég skal ekki telja fleira að sinni.

Ég vil svo að lokum aðeins minnast á það, að eins og ég sagði áðan, voru gerðar breytingar á l. um Hlutatryggingasjóð bátaútvegsins árið 1962 og þá um leið l. gefin út sem ný lög og nafni þeirra breytt, vegna þess að tryggingarnar voru færðar yfir á breiðari grundvöll, þegar togaraflotinn var tekinn inn í aflatrygginguna. Ég tel og við flm. þessarar till., að einnig þær breytingar, — og ég hef reyndar komið að því áður, — sem gerðar voru 1962, séu þess eðlis, að þær út af fyrir sig þurfi endurskoðunar við, þótt ekki sé lengra síðan þær voru gerðar og er ekkert óeðlilegt við það. En í öðru lagi teljum við, að þó að þessar breytingar væru gerðar á l. árið 1962, hafi í raun og veru í sambandi við þær ekki verið um að ræða þá almennu endurskoðun, sem eðlilegt sé að fram fari á löggjöf, sem í upphafi var nýmæli og búin er að gilda þetta lengi.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.