31.03.1965
Sameinað þing: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2675)

37. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Til. til þál. á þskj. 38, um endurskoðun l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, hefur verið til meðferðar í allshn. um alllangan tíma. Dráttur sá, sem orðið hefur á afgreiðslu frá n. á þessu máli, stafar einkum af því, að töf hefur orðið á því, að þær umsagnir bærust n., sem hún hafði óskað eftir um þetta mál. En umsögn um málið hefur n. fengið frá Fiskifélagi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Umsagnir beggja þessara aðila eru, eins og segir í nál. á þskj. 354, jákvæðar, en jafnframt er þar lagt til, að n. sú, sem gert er ráð fyrir í till. að vinni að endurskoðun laganna, verði að mestu skipuð samkv. tilnefningu þeirra aðila, sem getið er í till., en formaður stjórnskipaður. Um þessa breytingu varð samkomulag í n. að fengnum umsögnum og n. leggur til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur á sama þskj. og nál. og er í því fólgin að breyta til um skipan n. Hlutverk hennar samkv. brtt. er hins vegar hið sama og gert var ráð fyrir í till. Ég skal taka það fram, að n. leitaði einnig umsagnar stjórnar Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins um þetta mál, en sú umsögn barst ekki til n. og lá því ekki fyrir, þegar n. tók málið fyrir til afgreiðslu.

Á þessum fundi hafa þegar orðið nokkrar umr. um Aflatryggingasjóð í sambandi við fyrirspurn, sem til umræðu var. Sú fyrirspurn og þær umr. staðfesta í raun og veru enn á ný þá nauðsyn, sem á því er að endurskoða l. Ég ætla ekki að fara nánar út í það mál, gerði það lítils háttar við fyrri umr. um till., en mér hefur þótt rétt í sambandi við framsögu þessa máls að fá hjá stjórn Aflatryggingasjóðsins nokkrar upplýsingar um hag sjóðsins nú um síðustu áramót og um helztu niðurstöður í starfsemi hans, síðan l., sem nú gilda, voru samþ. 1962 og til síðustu áramóta. Þessar upplýsingar vil ég nú leyfa mér að láta koma fram.

Samkv. 3. gr. l. frá 1962, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, skiptist sjóðurinn í fjórar deildir með aðgreindum fjárhag. Þessar deildir eru síldveiðideild, hin almenna deild bátaflotans, sem stundum hefur verið kölluð þorskveiðideild, hin almenna deild togaraflotans og hin svonefnda jöfnunardeild. Fyrstu heitin þrjú bera með sér, hvert sé verkefni hverrar deildar fyrir sig, en hlutverk jöfnunardeildar er samkv. sömu grein l. að „veita hinum deildunum lán eða styrki, þegar svo stendur á.“ Þær upplýsingar, sem ég hef fengið hjá stjórn sjóðsins, ef miðað er við síðustu áramót, eru þessar:

Í fyrsta lagi um eignir sjóðsins. Eignir bátadeildar voru um síðustu áramót 42,3 millj. kr., eignir síldveiðideildar 9.5 millj, kr., togaradeildar 0.5 millj. kr., þ.e.a.s. ½ millj., og eignir jöfnunardeildar 54.4 millj. kr. Þetta er ekki nettóeign, heldur brúttóeign. Hins vegar eru taldar skuldir deildanna. Bátadeildin skuldar ekkert, síldveiðideildin skuldar 19.8 millj. og togaradeildin skuldar 75.3 millj. Nú er, eins og kunnugt er, tekjuöflun sjóðsins þannig háttað, að hann fær tekjur sínar jöfnum höndum sem gjald af sjávarafurðum og hins vegar framlag úr ríkissjóði. Og þess er hér getið, að innstæða Aflatryggingasjóðs í heild, þ.e.a.s. allra deildanna, hjá ríkissjóði hafi hinn 1. jan. 1965 numið 85.2 millj. kr.

Þá eru hér upplýsingar um tekjur einstakra deilda á þessum þremur árum, 1962–1964. Kem ég þá fyrst að hinni almennu bátadeild eða hinni almennu deild bátaflotans, eins og hún heitir í l. Tekjur hennar voru árið 1962 15.7 millj. kr., 1963 17.6 millj. og 1964 áætlaðar 20.6 millj. Tekjur síldveiðideildar voru árið 1962 9.6 millj., 1963 11.8 millj. og 1964 16.2 millj. Tekjur togaradeildar voru árið 1962 1.2 millj., 1963 3.9 millj. og 1964 3.2 millj. Tekjur jöfnunardeildar voru árið 1962 24.2 millj., árið 1963 33.4 millj. og árið 1964 40 millj., en samkv. l. fær jöfnunardeildin í sinn hlut 50% af tekjum af útfluttum afurðum og framlag til móts við það úr ríkissjóði. Mér er tjáð, að þessi skipting milli deildanna sé að vísu ekki alveg nákvæm af sérstökum ástæðum, en mun þó ekki miklu máli skipta.

Að lokum er svo yfirlit yfir bætur greiddar úr hinum einstöku deildum til veiðiskipa á árunum 1962–1964. Kemur þá í fyrsta lagi hin almenna bátadeild. Hún greiddi á árinu 1962 í bætur 8.5 millj., árið 1963 9.8 millj. og árið 1964 10.3 millj. Síldveiðideildin greiddi á árinu 1962 0.1 millj., 1963 28.6 millj. og 1964 10.5 millj. Togaradeildin greiddi á árinu 1962 19.6 millj., á árinu 1963 20.9 millj., en fyrir árið 1964 liggja skýrslur enn ekki fyrir um greiddar bætur úr togaradeildinni, en mér sýnist eftir líkum að dæma, að bætur það ár kunni að verða ekki fjarri þeirri upphæð, sem þær voru á árinu 1963, en þá voru þær nálægt 21 millj. kr. Um bætur úr jöfnunardeildinni er hér ekki rætt, sökum þess að hún greiðir ekki bætur til veiðiskipa, heldur eru viðskipti hennar við hinar deildirnar sem lán eða styrkur samkv. lögunum.

Þessar upplýsingar frá stjórn sjóðsins hef ég talið rétt að láta fylgja þessari framsögu, en ég endurtek fyrir hönd n., að hún leggur til, að till. á þskj. 38 verði samþ. með þeirri breytingu, sem gerð er grein fyrir á þskj. 354.