25.03.1965
Sameinað þing: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2684)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við setningu nýrra vegal. fyrir næstsíðustu áramót varð samkomulag milli allra þingflokka um að standa að hækkun benzíngjalds, þungaskatts og gúmmígjalds, alls um nálega 100 millj. kr. á ári, í því skyni að auka fjárveitingar til vegamála í landinu. Af hálfu Alþb. var því lýst yfir, að þingflokkurinn setti það að algeru skilyrði fyrir samþykki sínu við hækkun gjaldanna, að þeir nýju skattar á umferðina kæmu fram sem algert viðbótarframlag til vegaframkvæmda í landinu, en rynnu ekki á einn eða annan hátt til ríkissjóðs sem eyðslufé til annarra hluta, t.d. á þann veg, að ríkissjóður drægi úr framlögum sínum til vegamálanna. Af hálfu Alþb. var gerð tilraun til að tryggja þetta sjónarmið á þann hátt að bæta því ákvæði í l., að framlag ríkissjóðs skyldi jafnan vera ákveðin hlutfallstala af heildarfjárveitingum til vegaframkvæmda og var þá m.a. höfð í huga sú öra verðbólga, sem gerir fjárhæð, sem er í krónutölu jafnhá frá ári til árs, sífellt minni að raungildi. Sú till. Alþb. var felld og hæstv. vegamálaráðh. lýsti því yfir, að engin hætta væri á því, að framlag ríkissjóðs sjálfs minnkaði. Hæstv. ráðh. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hygg, að úr því að þessu sinni er ákveðið, að framlag ríkissjóðs skuli vera 47 millj. kr., þurfi varla að óttast það, að sú upphæð verði lækkuð, ef miðað er við reynslu undanfarinna ára, en miklu líklegra, að sú upphæð verði hækkuð.“

Þetta var einn þátturinn í aðdragandanum að setningu hinna nýju vegal. og á því er ekki vafi, að almennur skilningur var á nauðsyn nýrrar lagasetningar, þrátt fyrir það að jafnframt væru mjög hækkuð gjöld á ökutækjum og ekki fengist að fullu fram sú krafa, að beinum sérsköttum af ökutækjum væri að öllu leyti varið til vegaframkvæmda, heldur lentu í almennan rekstur ríkissjóðs, svo sem leyfisgjöld af bifreiðum.

Menn væntu sér án efa mikils af þessum ráðstöfunum og bjuggust við því, að verulega auknar fjárveitingar fengjust til vegaframkvæmda á næstu árum. Enn er ekki fengin löng reynsla af framkvæmd nýju vegal. Vegáætlun fyrir árið 1964 var afgreidd fyrir ári og nú liggur fyrir að afgreiða vegáætlun fyrir árin 1965–1968. Það er þó þegar orðið ljóst, að ein af þeim breytingum á framkvæmd vegamála, sem horfði mjög til bóta frá því, sem áður var og góðar vonir voru tengdar við, þ.e.a.s. að framkvæmdaáætlun væri gerð til fjögurra ára í senn, verður ekki að þeim notum, sem orðið gæti við eðlilegar þjóðfélagsástæður, vegna þess, hversu öll efnahagsmál eru á hverfanda hveli í þeirri óðaverðbólgu, sem ríkir hér á landi. Sú verðbólga er svo ör orðin og óvissan í efnahagsmálum svo alger, að það er orðið takmarkað, að hve miklum notum það getur komið Íslendingum að taka upp þau annars sjálfsögðu vinnubrögð að gera framkvæmdaáætlanir til langs tíma. Öllum er ljóst, að undir viðreisnarstjórn er gersamlega útilokað að gera áætlanir til fjögurra ára, eins og nú ber að gera um vegaframkvæmdir, svo að nokkurt mark verði á tekið. Sést það bezt við meðferð þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir um vegaframkvæmdir næstu 4 ár, þegar allar tölur verða úreltar og breyta um gildi, meðan fjvn. er að fjalla um þær og enginn tekur í rauninni mark á seinni hluta áætlunarinnar. Er varla of fast að orði kveðið, að í þeirri ringulreið, sem við búum nú við í efnahagsmálum, sé naumast unnt að gera fjárhags- eða framkvæmdaáætlun til eins árs, hvað þá lengri tíma.

Að öðru leyti má segja það um reynsluna af framkvæmd hinna nýju vegal., að allmikilla vonbrigða gætir hjá þeim, sem hin auknu gjöld hafa greitt og mest eiga undir því, að auknar séu framkvæmdir í vegamálum hjá þeim, sem mest fyrirheit fengu um byltingu í vegaframkvæmdum. Það hefur komið í ljós, að samkv. vegáætlun næstu fjögurra ára verða fjárveitingar til vegaframkvæmda miklu knappari, en menn höfðu gert sér vonir um. Þær standa nánast í stað öll árin og má þar að auki reikna með, að sú óðaverðbólga, sem nú geisar, rýri framkvæmdamátt krónunnar með ári hverju, svo að horfurnar séu þannig lakari, en tölurnar einar benda til. Greinilegt er, að framkvæmdir fyrir tekjur vegasjóðs næstu 4 árin verða að mjög litlu leyti, ef að nokkru meiri, en um var að ræða, áður en nýju vegal. voru sett með þeim hækkuðu gjöldum, sem þá voru ákveðin. Þau vonbrigði, sem þessar dökku horfur valda, koma m.a. fram í bréfi, sem hv. fjvn. hefur borizt frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda í tilefni af vegáætlun til næstu fjögurra ára, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Aths. við till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1965–1968, lagða fyrir Alþ. á 85. löggjafarþingi 1964. Hér er um að ræða áætlun um fjárframlög ríkisins til vegaframkvæmda fyrir næstu 4 ár. Samkv. henni verður varið til vegamála árið 1965 261 millj. kr., 1966 254 millj. kr., 1967 264 millj. kr. og 1968 278 millj. kr. Þegar vegal, voru samþ. á s.l. ári, var gert ráð fyrir um 250 millj. kr. til vega og brúa árið 1964. Í grg., sem Félag ísl. bifreiðaeigenda sendi samgmn. Alþ. um vegalagafrv., var þess getið, að fjárframlag þetta mundi reynast algerlega ófullnægjandi. Reyndin hefur einnig orðið sú, að ástand fárra vega hefur batnað, flestir eru svipaðir, en nokkrir eru jafnvel verri en áður. Kvörtunum um ástand slæmra vega hefur stöðugt fjölgað. Í upphafi ársins 1964 var í flestum stjórnarblöðum gefið í skyn, að vænta mætti mikilla framfara í vegamálum vegna hinna nýju vegal. og aukinna fjárframlaga. Hin auknu fjárframlög námu hundruð millj. kr. miðað við árið 1962 og var þeirra eingöngu aflað með nýjum sköttum á bifreiðaeigendur. Hið fasta framlag ríkisins, 47 millj. kr., hélzt óbreytt og er gert ráð fyrir, að það haldist svo næstu 4 árin. Þegar tekið er fullt tillit til hinnar ört vaxandi dýrtíðar, sem varð í lok ársins 1963 og á öndverðu ári 1964 og einnig með hliðsjón af aukinni umferð á vegum landsins og lengingu þjóðvegakerfisins ásamt nýjum ákvæðum um fjárframlög til gatna í kaupstöðum, kemur í ljós, að heildarframkvæmdamáttur vegafjárins 1964 hefur aðeins aukizt um rúm 10% miðað við árið 1963. Í áðurnefndum aths. Félags ísl. bifreiðaeigenda við vegal. var gert ráð fyrir, að til vegamála hér á landi þyrfti a.m.k. 350–400 millj. kr. á ári. Að sjálfsögðu þarf fjárhæð þessi að hækka árlega í hlutfalli við aukna umferð á vegunum. Viðhald margra malarvega hér á landi er þegar orðið óviðráðanlegt, en með of knöppum fjárveitingum til vegamála fjölgar stöðugt þeim vegum, sem þannig er ástatt um.“

Þetta er hluti af umsögn Félags ísl. bifreiðaeigenda um vegáætlunina. Þrátt fyrir þessar horfur og brýna þörf á auknum fjárveitingum til vegaframkvæmda, hefur ríkisstj. gripið til þess að hækka gjöld á ökutækjum með 25% hækkun leyfisgjalds af bifreiðum, án þess að láta þá hækkun renna til vegamála, heldur er henni ráðstafað í almennar þarfir ríkissjóðs. Það hefur einnig komið í ljós, að á þeim stutta tíma, sem liðinn er, frá því að vegal. voru sett, hefur því miður ekki staðizt það fyrirheit, sem hæstv. vegamálaráðh. gaf við setningu vegal. og ég vitnaði til áðan, að framlag ríkissjóðs mundi fremur hækka, en lækka eftir setningu nýju vegal. Það er þegar komið í ljós, að það var ekki að ástæðulausu, að af hálfu Alþb. var gerð till. um, að tryggt yrði með l., að sú upphæð yrði ekki skert. Í fyrsta lagi er á vegáætlun næstu 4 ára einungis gert ráð fyrir jafnhárri upphæð að krónutölu úr ríkissjóði til vegaframkvæmda öll þessi ár, þrátt fyrir þá verðbólguskriðu, sem rýrir framkvæmdagildi þessarar upphæðar jafnt og þétt og veldur því, að hér er í rauninni um síminnkandi upphæð að ræða. Á sama tíma og ríkissjóður mun án efa stórauka heildartekjur sínar við setningu hverra fjárl., ef að vanda lætur, er gert ráð fyrir sömu krónutölu til vegamála, sem þýðir að sjálfsögðu, að ríkissjóður er á þennan hátt smátt og smátt að koma sér undan að láta nokkra upphæð af hendi til vegaframkvæmda í landinu. Í öðru lagi bætist þar á ofan, að nú þegar liggur fyrir, að á árinu 1965 verður þessi upphæð skert um 20% jafnhliða öðrum niðurskurði verklegra framkvæmda ríkissjóðs, sem nú hefur verið boðaður. Með því móti er þessi upphæð lækkuð í tæpan milljónatug.

Í fjvn. var gerð tilraun til að fá samþykki n. fyrir því að óska eftir því við hæstv. ríkisstj., að þessi liður, framlag ríkissjóðs til vegaframkvæmda, yrði undanþeginn niðurskurðinum. Þá till. felldu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna. Í tilefni af þessu rifja ég aftur upp orð hæstv. vegamálaráðh., sem hann viðhafði, þegar hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá það tryggt með sérstöku ákvæði í vegal., að úr þessu framlagi ríkissjóðs yrði ekki dregið, þegar lögð væru stóraukin gjöld á ökutæki í landinu, en þá sagði hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hygg, að úr því að þessu sinni er ákveðið, að framlag ríkissjóðs skuli vera 47 millj. kr., þurfi varla að óttast, að sú upphæð verði lækkuð. Ef miðað er við reynslu undanfarinna ára, er miklu líklegra, að sú upphæð verði hækkuð.“

Það er ekki liðið nema rúmt ár síðan vegal. voru sett og nú þegar hefur þessi upphæð verið lækkuð í krónutölu um tæpan milljónatug og mun samkv. vegáætlun næstu 4 ára lækka að raungildi með hverju árinu. Með þessum aðgerðum ríkisstjórnarflokkanna er ekki lengur um það að ræða, að þau nýju gjöld, sem lögð voru á ökutæki við setningu vegal. um næstsíðustu áramót, komi sem algert viðbótarframlag til vegaframkvæmda í landinu, þar sem ríkissjóður dregur nú jafnhliða úr sínu framlagi og notar það fé til annarra hluta. Er með þessum hætti algerlega brotið gegn einum meginþættinum í því samkomulagi, sem varð um setningu vegal. fyrir rúmu ári og gert var af hálfu Alþb. að skilyrði fyrir samþykkt þess á þeim gjöldum, sem þá voru lögð á ökutæki í landinu. Afleiðingar þeirra ákvarðana, sem brigðunum valda, bitna svo á þeim, sem mest hafa treyst á mjög auknar vegaframkvæmdir næstu árin í hlutfalli við stóraukna skatta á ökutæki. Í hv. fjvn., sem fjallað hefur um vegáætlunina fyrir árin 1965–1968, hefur fyrst og fremst orðið ágreiningur um það, hve miklu fjármagni skuli ráðstafað til vegaframkvæmda þessi ár. Samkomulag varð aftur á móti um skiptingu þess fjár, sem til úthlutunar kemur.

Sjónarmið Alþb. og Framsfl. féllu saman um auknar fjárveitingar til vegaframkvæmda vegna þeirrar brýnu þarfar, sem fyrir hendi er, jafnt í dreifbýli, sem býr við ófullnægjandi vegi og beinan skort á samgönguleiðum, og eins í þéttbýlinu, þar sem stóraukinn bifreiðafjöldi hefur yfirhlaðið vegakerfið, svo að sums staðar blasir öngþveiti við. Alþb. og Framsfl. standa því að sameiginlegu nál. sem minni hl. hv. fjvn., og hefur frsm. minni hl., hv. 3. þm. Vesturl., gert grein fyrir brtt. okkar og þeim sjónarmiðum, sem þær eru byggðar á. Ég held, að þeim viðhorfum, sem við blasa í vegamálum og þeirri nauðsyn, sem á því er, að farið verði að till. okkar um auknar fjárveitingar til vegaframkvæmda, sé vel lýst í því bréfi, sem Félag ísl. bifreiðaeigenda sendi hv. fjvn. og ég gat um áðan, en þar segir enn fremur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við viljum vekja athygli hv. alþm. á því, að fjárhagsáætlun sú, sem hér liggur fyrir, mun hvergi nærri hrökkva til þess að anna þeim verkefnum, sem þjóðin þarfnast í vegamálum næstu fjögur árin. Á þessu sviði höfum við dregizt aftur úr miðað við almenna þróun í þjóðfélaginu og framfarir á öðrum sviðum samgöngumála í lofti og á sjó.“

Enn fremur segir svo í bréfi félagsins: „Fjárframlög til vegamála hafa um áratugabil verið of lág, en þó aukizt að krónutölu ár frá ári. Í þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir teljandi aukningu næstu 4 árin og verður vart annað séð, en að slíkt sé afturför frá ástandi, sem verið hefur óhæft um áratugaskeið.“

En annars staðar í bréfi félagsins er getið um það, að gert sé ráð fyrir 30% aukningu á umferðarþunga á því tímabili, sem vegáætlunin tekur til.

Þetta eru sjónarmið samtaka íslenzkra bifreiðaeigenda og ég býst við, að þau séu ráðandi meðal flestra þeirra, sem láta sig þessi mál varða og þeir eru margir.

Þegar frv. til vegal. þeirra, sem þátill. sú, sem hér liggur fyrir, er byggð á var til 1. umr. fyrir rúmu ári, gerði ég sérstaklega að umræðuefni þá umferðarleið, þar sem ég taldi brýnustu þörf vera á úrbótum og algert öngþveiti blasti við, ef ekki yrði að gert, þ.e.a.s. Hafnarfjarðarveginn, þar sem hann liggur um Kópavog og lagði mat á þau áhrif, sem setning hinna nýju vegal. mundi hafa á lausn þess máls, sem þegar þoldi enga bið. Fram að því, að hin nýju vegalög voru sett, hafði Vegagerð ríkisins annazt og kostað viðhald og endurbætur á veginum yfir Kópavogsháls. En með nýju l. var því slegið föstu, að hér eftir skyldi það koma í hlut Kópavogskaupstaðar að sjá um framkvæmdir á þessum vegarkafla. Og jafnframt var í frv. gert ráð fyrir, að kaupstaðir og kauptún fengju 12½% af tekjum vegasjóðs til framkvæmda við þann hluta þjóðveganna, sem lægi um viðkomandi sveitarfélag. Þó skyldi 10% af þeirri upphæð haldið eftir til úthlutunar til ákveðinna, brýnna verkefna við þessa þjóðvegaspotta í einstökum sveitarfélögum. En sama sveitarfélag átti ekki að geta fengið af aukaframlaginu nema á 5 ára fresti. Ég hélt því þá fram, að með þessum nýju ákvæðum væri það að gerast, að vegagerðin, sem hefði um margra ára skeið látið undir höfuð leggjast að gera veginn um Kópavogsháls hæfan fyrir ört vaxandi umferð, losaði sig nú á þennan hátt við vandamálið og arfleiddi bæjarfélagið að öngþveitinu, sem umferðin var komin í á þessum stað. En helmingur allrar umferðarinnar, sem nemur um 15 þús. bifreiðum á dag, er af ökutækjum, sem eiga ekki erindi um Kópavog sérstaklega, heldur verða einungis að aka þar í gegn á leið sinni milli Reykjavíkur, Garðahrepps, Hafnarfjarðar og Suðurnesja. Ég sagði þá m.a.:

„Ég held, að í slíkum tilfellum (þ.e. þar sem gera þarf hraðbraut gegnum kaupstaði) sé hluti sveitarfélaganna engan veginn nógur. Í þessum tilfellum getur verið og er um að ræða stórframkvæmdir og afleiðingin af því, að skyldurnar eru færðar á bæjarfélögin án nægra fjárveitinga, gæti orðið sú, að þessi hluti þjóðveganna fengi of seint þær úrbætur, sem bráð þörf er á og það yrði öllum þeim fjölda, sem þá ekur, til stórtjóns og hins vegar gætu afleiðingarnar orðið þær, að viðkomandi sveitarfélög gætu miklu seinna notað sinn hluta af vegafénu til almennrar gatnagerðar, en önnur sveitarfélög, sem gætu tiltölulega fljótt notað sitt fé til þessara verka.“

Þetta voru mín orð við 1. umr. um vegal. nýju og um þessi mál var allmikið rætt. Sú eina leiðrétting, sem fékkst í þessu efni í því máli, sem varðar fyrst og fremst það samgöngumál, sem í mestu öngþveiti er í öllu landinu, var sú, að ákvæðið um, að sama sveitarfélag gæti einungis fengið aukastyrk á 5 ára fresti, var fellt niður. Og verður að ætla, að þeir, sem ekki vildu ganga lengra til þess að fá lausn á þessu vandamáli, hafi talið, að sú breyting ein væri fullnægjandi, enda lýstu þeir því ótvírætt yfir. Ég lagði á það áherzlu, að alls ekki mætti samþ. á Alþ. nein þau lög, sem hefðu að geyma ákvæði, sem gætu dregið á langinn framkvæmdir í þessu mikilsverða samgöngumáli á fjölförnustu umferðarleiðum á landinu og um leið aukið mikið á fjárhagsskyldur Kópavogskaupstaðar. Ég sagði m.a. orðrétt af þessu tilefni: „Ég tel brtt. þær, sem fram hafa komið frá hv. samvn. samgmn., engan veginn fullnægjandi í þá átt að gera ráð fyrir þeirri algeru sérstöðu Kópavogskaupstaðar og e.t.v. nokkurra örfárra sveitarfélaga, sem um er að ræða í þessu máli.“ Þess vegna flutti ég svo hljóðandi brtt.: „Vegagerð ríkisins skal kosta og annast viðhald og nauðsynlegar endurbætur á þeim þjóðvegum í kaupstöðum og kauptúnum, sem teljast helzta umferðarleið í viðkomandi byggðarlagi, hafi hún gert það fyrir gildistöku laga þessara.“ Þessi till. var felld.

Við athugun frv. í samvn. samgm. hafði komið fram, að samkv. lagafrv. væri heimilt að ákveða með reglugerð, að aðeins ákveðinn hluti þjóðvegar um kaupstað eða kauptún tilheyrði viðkomandi sveitarfélagi, en hinn hlutinn ríkinu. Ásamt hv. 5. landsk, þm. flutti ég því svo hljóðandi till.: „Aðeins lítill hluti þjóðvegar skal tilheyra sveitarfélagi, þegar svo stendur á að fjölfarinn þjóðvegur í kaupstað eða kauptúni er aðalumferðaræð í viðkomandi landshluta og liggur milli annarra byggðarlaga.“ Sú till. var líka felld.

Ég taldi sem sagt, að sú brtt., að aukaframlag mætti falla til sama sveitarfélags oftar, en einu sinni á 5 árum, væri engan veginn fullnægjandi og taldi, að l. með þeirri breytingu einni mundu, ef ekki kæmi fleira til, tefja framgang þess, að úr hinu stórhættulega og óviðunandi umferðaröngþveiti í Kópavogi yrði bætt. Sú var þó ekki skoðun allra hv. þm. Jafnvel þeir, sem hefðu átt að vera málinu kunnugastir, lýstu því yfir, að þeir gætu á þessa lausn fallizt og hæstv. vegamálaráðh. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held, að samvn. samgm. hafi hitt naglann á höfuðið og tryggt Kópavogskaupstað mjög vel með því, sem hún leggur til með þeim brtt., sem hér eru fluttar á þskj. 154.“ Og síðan sagði hæstv. ráðh.:

„Ég held, að það verði nú tæplega betur fyrir málum Kópavogskaupstaðar séð að sinni en með þessu.“

Afsökun þeirra, sem þannig töluðu á fyrra, er sú, að þeir munu hafa trúað því, að það verk, sem vinna þyrfti á vegaframkvæmdum á Kópavogshálsi, mundi kosta 25–30 millj. kr. og væri það þó ærinn baggi fyrir Kópavogsbæ og langt umfram það, sem sanngjarnt væri að hann tæki á sig vegna umferðarinnar milli Reykjavíkur og byggðanna fyrir sunnan Kópavog, þegar haft er í huga, hve sú umferð er að takmörkuðu leyti í þágu Kópavogsbúa og stofnar fyrst og fremst lífi þeirra og limum í hættu og hitt, hve mjög Kópavogsbæ væri með því mismunað miðað við önnur sveitarfélög, sem fljótlega geta notað sitt fé úr vegasjóði til almennrar gatnagerðar. En nú er komið í ljós, að þessi framkvæmd, eins og henni er ætlað að verða til þess að fullnægja umferð á þessu svæði, kostar ekki 25–30 millj., heldur 90 millj. kr. Ef Kópavogskaupstaður ætti að taka þá framkvæmd að sér, eins og þeir, sem málum réðu í fyrra, ætluðu honum að gera, fyrir sinn hlut úr vegasjóði og fyrir eitthvað af sérframlögunum úr þeim sjóði, dygði sú árlega upphæð ekki fyrir vöxtunum af því fé, hvað þá meiru og sú framkvæmd á vegum Kópavogskaupstaðar eins mundi svara til þess, að Reykjavíkurbær tæki t.d. að sér að kosta þá umdeildu Búrfellsvirkjun, sem ráðandi menn í þjóðfélaginu telja að sé allri þjóðinni um megn að leysa. Þetta ætti því ekki að þurfa að vefjast lengur fyrir neinum og ætti því ekki að þurfa að deila öllu lengur um það hér á hv. Alþ., að umferðaröngþveitið á Kópavogshálsi, sem er mesta umferðarvandamálið í dag og versnar með degi hverjum, verður ekki leyst á þann hátt, sem ætlað var, með setningu hinna nýju vegalaga.

Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir 1964 átaldi ég það, að 250 millj. kr. skyldi vera varið til vegamála, án þess að nokkuð væri ætlað af því fé til þess að leysa mesta umferðaröngþveitið, sem um væri að ræða á Íslandi, þar sem 15 þús. bílar fara á dag á alls ófullnægjandi vegi í gegnum fjölmennan kaupstað, þar sem bæjarbúum sjálfum er illgerlegt að komast inn á eða yfir aðalumferðaræðina að aðliggjandi götum. Þegar nú blasir enn betur við en fyrr, að það er fullkomlega rétt, sem ég hef jafnan haldið fram, að þetta umferðaröngþveiti, sem ógnar lífi Kópavogsbúa á hverjum degi og er að setja alla umferð í hnút á þessum slóðum, verður ekki leyst með því framlagi, sem Kópavogskaupstað er ætlað samkv. nýsettum vegal., þá er miklu síður stætt á því að afgreiða vegáætlun til fjögurra ára, þar sem þó er ætlað að verja um 960 millj. kr. af tekjum vegasjóðs á tímabilinu og um 300 millj. kr. af hugsanlegu lánsfé, án þess að á þetta mál verði svo mikið sem litið eða fyrir því séð á nokkurn hátt. Og ég tel mjög miður, að ekkert fé skuli vera áætlað til framkvæmda við hinn nýja veg, sem ætlaður er samkv. skipulagi frá Elliðaám ofan við byggð í Kópavogi og Garðahreppi og á Suðurnesjaveginn steypta fyrir ofan Hafnarfjörð. Þar er um veg að ræða, sem ríkið á óumdeilanlega að kosta, en gæti orðið Kópavogsbæ og Garðahreppi til mikilla hagsbóta með því að létta einhverju af umferðinni af þessum stöðum.

Bæjarstjórinn og bæjarverkfræðingurinn í Kópavogi mættu á fundi fjvn. til þess að leggja áherzlu á umferðarvandamálin á Hafnarfjarðarvegi og lausn þeirra og ég hygg, að nm. öllum sé ljóst, að þetta er mál, sem verður að fá lausn á. Og hversu trúaðir sem einhverjir kunna að hafa verið á yfirlýsingar sínar, þegar vegal. voru sett, um að það fjármagn, sem Kópavogskaupstaður mundi fá samkv. þeim, dygði til þess að leysa vandann og hversu sanngjarnt sem þeim kann að hafa þótt það, þá að Kópavogsbær tæki á sig þessar byrðar, held ég, að öllum hljóti nú að vera orðið það ljóst, að hér þarf meira til. Og ég fyrir mitt leyti geri mig ekki ánægðan með að standa að afgreiðslu vegáætlunar fyrir næstu 4 ár og taka þátt í úthlutun á 1.300 millj. kr. til vegaframkvæmda, ef ekkert frekar á að liggja fyrir um lausn þessa máls, sem er ekki aðeins eitt brýnasta hagsmunamál Kópavogsbúa, heldur varðar alla, sem um Kópavog fara.

Nú hefur hæstv. vegamálaráðh. í gær ákveðið að skipa n. til þess að leita eftir lausn á þessu vandamáli, sem við blasir, varðandi endurbyggingu Hafnarfjarðarvegar, þar sem hann liggur um Kópavog. Það er vel farið, og ég fagna því, að það spor skuli hafa verið stigið. Það er fyrsta viðurkenningin á því, að sú lausn, sem ráðandi aðilar í þessum málum hafa til þessa talið fullnægjandi, dugir ekki. Ég held, að það ætti ekki að þurfa að taka langan tíma að komast að samkomulagi um þátttöku ríkisins í vegaframkvæmdum á Kópavogshálsi eða hvernig skynsamlegast væri að haga þeim framkvæmdum og réttast væri að bíða með afgreiðslu vegáætlunarinnar, þar til sú niðurstaða lægi fyrir og ákveða í áætluninni nauðsynlega fjárveitingu til þeirra framkvæmda.

Ef ekki er talið unnt að fara að þessari till., tel ég, að bæta ætti nú þegar inn í vegáætlunina heimildargrein um lántöku til að fullnægja þeim kvöðum, sem samkomulag yrði um að ríkið tæki á sig vegna þessa máls. Þetta tel ég, að hv. fjvn. ætti að taka til athugunar og reyna að ná samstöðu um. Ef það fæst ekki fram, að þessu brýnasta verkefni í vegamálum á Íslandi, lausn á umferðaröngþveitinu á Kópavogshálsi, verði gerð fullnægjandi skil í vegáætluninni, vænti ég þess fastlega, að hæstv. vegamálaráðh. geri hv. Alþ. grein fyrir því, hvernig ætlunin er að standa undir því.