25.03.1965
Sameinað þing: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2687)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ummæli hv. 10. landsk. hér áðan varðandi veginn gegnum Kópavog, en hv. þm. vitnaði þar til ummæla sinna og tillöguflutnings í sambandi við þetta mál við afgreiðslu vegalaganna í fyrra og taldi, að ef þá hefði verið orðið við þeim till., sem hann flutti um þetta mál, mundi vandinn vera auðleystur í dag. Ég skal ekki leggja dóm á hvaða þýðingu það hefði haft fyrir lausn þessa máls, ef hans till. hefðu verið samþ. Að vísu hlaut það að verða nokkurt matsatriði, hve stór hlutur af heildarkostnaði vegar í gegnum kaupstað átti að lenda á bæjarfélaginu, ef það átti að verða viðráðanlegt. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. hefur í fyrra gert sér grein fyrir því, hve mikið þessi framkvæmd muni kosta og þar af leiðandi verið tilbúinn til þess að setja upp ákveðna prósentuskiptingu á milli ríkisins annars vegar og bæjarfélagsins hins vegar, sem hefði falið það í sér, að það hefði verið viðráðanlegt af hálfu Kópavogskaupstaðar. En það, sem við fengum fram í fyrra við samþykkt vegalaganna, var það, sem bæjarráð Kópavogs einróma óskaði eftir, eins og hv. 10. landsk. tók fram, sem sagt að sú breyting yrði gerð, að í stað þess, að 10% framlag, sem rynni til ákveðinna framkvæmda á vegi gegnum kaupstaðinn, yrði síðan dregið frá hluta kaupstaðarins í benzínskatti síðar, þá yrði þetta óafturkræft framlag. Þetta var það, sem bæjarráð Kópavogs einróma óskaði eftir varðandi afgreiðslu vegalaganna í fyrra og við fengum það samþ.

Það voru, eins og fram kom hjá hv. þm., uppi hugmyndir, að vísu mjög óljósar, byggðar á mjög ófullkomnum áætlunargerðum varðandi kostnað við það verk að koma hraðbraut gegnum Kópavogsbæ. Það voru, eins og hann sagði, hugmyndir um, að kostnaðurinn væri einhvers staðar á milli 20 og 40 millj., 20–30 millj. Og miðað við það, að Kópavogsbær fengi verulegan hluta af 10% framlaginu, sem haldið er eftir af því, sem greitt er til kaupstaða, en það nemur um 3 millj. á ári, þá mundi það vissulega ásamt þeim hluta benzínskattsins, sem rennur til Kópavogs, miðað við þær hugmyndir, sem þá voru uppi um það verk, sem þarna var fram undan, leysa þetta mál á viðunandi hátt að okkar dómi. Við mundum vissulega taka því fegins hendi, ef við þyrftum ekki að greiða neitt í sambandi við lagningu vegarins í gegnum Kópavog. Ég skal taka undir það. En við höfum ekki farið fram á það og um leið og við bendum á, að þarna er um algera sérstöðu að ræða, þá viðurkennum við, að þessi vegur er einnig okkar vegur eins og hinna, sem aka þarna í gegn. Það er rétt, að um helmingur umferðarinnar fer í gegnum Kópavog án þess að koma þar við og er okkur þar af leiðandi algerlega óviðkomandi og að því leyti til er þetta algert einsdæmi og mun hvergi eiga hliðstæðu, því að þar sem fjölfarnir þjóðvegir liggja í gegnum kauptún, munu þau vissulega hafa mikinn hagnað af þeirri umferð, og stundum er þessi vegur, sem þar liggur í gegn, þeirra lífæð, en sú umferð, sem fer í gegn hjá okkur, er óviðkomandi Kópavogsbæ.

Við fögnum öllum þeim röddum, sem koma fram um nauðsyn þess, að þetta mál verði leyst, ekki aðeins okkar vegna, heldur og þeirra mörgu, sem þarna eiga hlut að máli. En alvarlegasta atriðið í þessu er það, sem snýr að okkur, eykur hina miklu slysahættu og veldur umferðarvandræðum í okkar bæ, þar sem þessi gata liggur í gegnum miðjan kaupstaðinn og sker okkar kaupstað svo gott sem í tvennt. En það er mér vitanlega fyrst í fyrra við afgreiðslu vegalaganna. sem fram koma raddir annarra, en flokksmanna Sjálfstfl. hér á hv. Alþingi, um að leysa þetta mál. Það hefur komið fram till. þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi um bráðabirgðalausn og hefur það komizt í framkvæmd varðandi mesta umferðarvandamálið á Kópavogshálsinum og einnig till. um undirbúning að varanlegri lausn þessa máls.

Það kann að vera, að hv. 10. landsk. hafi áður flutt hér skelegga till. um lausn þessa máls. Mér er ókunnugt um það. Og ég hygg, að það hafi verið fáar raddir frá hans flokksbræðrum um að leysa þetta mál og er það þó ekkert nýtt, þótt viðurkennt sé, að það fer versnandi með ári hverju.

Eins og ég gat um, óskaði bæjarráð Kópavogs eindregið eftir því að fá ákveðna breytingu á vegalögunum í fyrra og náði samþykki fyrir því og þar með var sérstaða Kópavogs viðurkennd. Það var fyrsta viðurkenning ríkisvaldsins og hv. Alþingis á þessu mikla vandamáli, sem hér er um að ræða. Síðan við nánari áætlunargerð benda allar líkur til þess, að þetta verk verði miklu, miklu kostnaðarsamara en hugmyndir voru uppi um í fyrra. Að vísu liggur fyrir áætlun nú, fullkomnari þó, en ekki til fulls unnin, eins og hv. 10. landsk. þm. gat um, upp á milli 80 og 90 millj. En vissulega mun vera hægt að leysa þessi mál miklu fyrr, en búið er að koma því verki, eins og þar er gert ráð fyrir, fyllilega í framkvæmd.

Á s.l. sumri leituðu bæjaryfirvöld í Kópavogi aðstoðar dómsmrh. um það, að til bráðabirgða fengi kaupstaðurinn aukna aðstoð frá ríkinu varðandi löggæzlu á þessu hættulega svæði og það fékkst fram. Það var fjölgað í lögreglu Kópavogs um 5 menn til þess einvörðungu að sinna þessu vandamáli. Og eins og hv. þm. muna, var við afgreiðslu fjárlaga tekin inn sérstök fjárveiting í þessu skyni. Þetta er önnur viðurkenning ríkisvaldsins á þessu sérstæða vandamáli og fyrir þetta eru Kópavogsbúar þakklátir. Nú, þegar ljóst liggur fyrir, að þarna er um kostnaðarsamara verk að ræða allavega, en gert var ráð fyrir í fyrra, er augljóst, að sá fjárhagsgrundvöllur, sem hugsaður var til þessara framkvæmda á s.l. ári, er ekki fyrir hendi, þegar verkið verður miklu, miklu kostnaðarsamara. Þess vegna hafa bæjaryfirvöld Kópavogs snúið sér til samgmrh. með beiðni um aukna hlutdeild ríkisins í því að leysa þetta vandamál. Og við höfðum ekki á takteinum ákveðna till. í því efni, enda þarf þetta mál nokkurrar íhugunar við og tekur kannske nokkurn tíma að finna sanngjarna og viðunandi lausn. Ég tel það hafa verið góðar undirtektir og mjög jákvæðar, að þessum óskum okkar var mætt með því, að skipuð var n. frá bæjarstjórn Kópavogs og frá samgmrn. til þess að finna lausn á þessum vanda.

En þetta er ekki fyrsta viðurkenningin, eins og hv. 10. landsk. þm. vildi halda fram, — þetta er ekki fyrsta viðurkenning ríkisvaldsins á þessu sérstæða vandamáli okkar. Þetta er í þriðja sinn á ári, sem ríkisstj. tekur jákvætt undir okkar málaleitan varðandi það að fá framtíðarlausn og lausn til bráðabirgða varðandi þetta vandamál okkar. Ég tel, að nú einmitt á síðustu tímum hafi verið tekin upp skynsamleg vinnubrögð til að leysa þetta vandamál. Við væntum þess, að nokkur hraði geti orðið í framkvæmdum, en þarna er um stórt og mikið verk að ræða, eins og öllum má vera ljóst og það kann að taka nokkurn tíma, að hin endanlega niðurstaða fáist. En þó vænti ég þess, að það þurfi ekki að tefja það, að framkvæmdir hefjist nú í vor og sumar.

Ég fagna, eins og ég áður sagði, öllum röddum, sem koma fram meðmæltar því, að við fáum aðstoð til þess að leysa þetta mál. Það er, eins og öllum hefur verið ljóst og hlýtur að vera ljóst, ofviða okkur Kópavogsbúum að leysa það. Og ég vil segja, að þær undirtektir, sem við höfum fengið varðandi þær málaleitanir, að ríkisvaldið komi þarna til liðs við okkur, hafa verið jákvæðar og fyrir það höfum við verið þakklátir. Og ég held, að heppilegast sé að halda áfram að leysa þetta mál á þeirri braut, sem mörkuð hefur verið. Þetta er ekki pólitískt deilumál fyrir Kópavog. Þar stöndum við allir bæjarfulltrúar allra flokka einhuga að því, sem samþ. hefur verið um þessi mál til þessa og ég vonast til þess, að svo verði og framgangi þessa máls er enginn greiði gerður með því að fara að reyna að vekja upp um það nokkrar pólitískar deilur.