29.03.1965
Sameinað þing: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2689)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir vegáætlun fyrir árin 1965–1968 ásamt brtt. fjvn. Við athugun málsins kemur fram, að allt of lítið fé er ætlað til vega- og brúargerða á þessu tímabili. Ég vil einkum nefna framlögin til þjóðbrauta og landsbrauta, en þau eru svo lítil samkv. þeim till., sem hér liggja fyrir, að við það er ekki hægt að búa.

Ég vil nefna dæmi um mjög aðkallandi vegaframkvæmdir í því héraði, þar sem ég er kunnugastur, en ekkert fé er veitt til á öllu þessu tímabili.

Fyrir allmörgum árum eða fyrir daga núv. hæstv. ríkisstj., var byrjað á endurbyggingu Norðurlandsvegar í Hrútafirði, sem er í flokki þjóðbrauta. Lokið var við að leggja nýjan. ágætan veg á stuttum kafla innan við Stað í Hrútafirði, en síðustu árin hefur ekki verið haldið áfram með vegagerð á þessum slóðum og er enn að mestu notazt við gömlu reiðgöturnar á strönd Hrútafjarðar, sem eru hlykkjóttar og liggja víða þannig, að umferð um þær er mjög örðug á vetrum, ef nokkuð snjóar að ráði. Engin fjárveiting er ætluð til að halda áfram endurbyggingu þessa vegarkafla á árunum 1965–1968. Þetta er þó ein af aðalþjóðbrautum landsins. Ég vil nefna annað dæmi. Það er Norðurlandsvegur um Langadal í Húnavatnssýslu. Eins og öllum er kunnugt, er mjög mikið óunnið við endurbyggingu vegarins þar. Gamli vegurinn um dalinn er mjög ófullkominn og liggur víða þannig, að umferð um hann stöðvast að vetrinum, þó að greiðfært sé um nálægar sveitir. Þar er einnig veruleg slysahætta, einkum sunnan við Æsustaði,og hafa oft orðið bifreiðaárekstrar á þeim vegarkafla. En samkv. vegáætluninni er enginn eyrir ætlaður til endurbyggingar þjóðbrautarinnar um Langadal á tímabilinu 1965–1968. Svipaða sögu er að segja af væntanlegum framlögum til landsbrauta í Húnavatnssýslum. Þau eru allt of lítil miðað við þörfina.

Ég hef hér aðeins nefnt dæmi úr því héraði, þar sem ég er kunnugastur, en svona mun það vera um allar jarðir. Ég fæ ekki betur séð en framlögin frá ríkissjóði til þjóðbrauta, landsbrauta og brúargerða séu minni nú en þau voru áður, miðað við notagildi fjárveitinga þá og nú.

Mér reiknast svo til, að um 40% af vegafénu nú sé vegna nýju skattanna, sem á voru lagðir með vegal. 1963. Tekjur vegasjóðs eru alls áætlaðar samkv. till. fjvn. árið 1965 263.7 millj. og þar af mundi þá vera vegna nýju skattanna um það bil 105.5 millj.

Á vegáætluninni er samkv. till. fjvn. gert ráð fyrir, að árið 1965 verði lagt til þjóðbrauta, landsbrauta og sýsluvega samtals 60.3 millj. Ef við drögum 40% frá þessu samkv. framansögðu, sem má telja að sé hlutur nýju skattanna í vegafénu, eru eftir 36.2 millj., sem segja má að komi frá ríkinu til þessara framkvæmda, 36.2 millj. En árið 1957 voru veittar til nýrra akvega og sýsluvega 19.3 millj. Kostnaðarvísitala vegagerðar, sem reiknuð er út á vegamálaskrifstofunni, var árið 1957 224, en nú í marz 1965 466. Þannig hefur kostnaðurinn við vegagerð á þessu tímabili meira, en tvöfaldazt. En það vantar nokkuð á það samkv. því, sem ég áðan greindi frá að framlögin 1965 til þjóðbrauta, landsbrauta og sýsluvega séu helmingi meiri en þau voru 1957.

Og þá vil ég nefna brýrnar. Til þeirra eru áætlaðar 1965 samkv. till. fjvn. alls 31 millj. 250 þús. Séu dregin 40% frá þessu, sem ég te að sé hlutur nýju skattanna, eru eftir frá ríkinu 18 millj. 750 þús. 1957 voru veittar til brúargerða 11 millj. 340 þús. Þá var vísitala brúargerðarkostnaðar 248, en er nú 544. Þarna hefur kostnaðurinn gert töluvert meira en tvöfaldast, en aftur vantar allmikið á, að framlög ríkisins til brúargerða í ár séu tvöföld við það, sem var 1957.

Þegar nýju vegal. voru sett síðast á árinu 1963 og nýir skattar lagðir á þjóðina til fjáröflunar fyrir vegasjóð, mun ekki hafa verið gert ráð fyrir því og ekki til þess ætlazt, að dregið yrði úr ríkisframlögum til þessara framkvæmda. Þetta tel ég, að komi fram í nál. meiri hl. fjvn., sem hér liggur fyrir á þskj. 350. Í því nál. segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Með nýju vegal. var lagður grundvöllur að stórauknu fjármagni til samgöngubóta á landi.“ Því aðeins getur meiri hl. sagt þetta, að hann hafi gert ráð fyrir því, að ríkisframlögin til vega- og brúargerða yrðu óskert frá því, sem áður var og vegaskatturinn nýi, sem á var lagður, kæmi þeim til viðbótar. Það skal að vísu viðurkennt, að meira fé en áður er nú ætlað til vegagerða í kaupstöðum og kauptúnum og skal ég ekki lasta það, því að þess er brýn þörf. En aðra sögu er að segja af framlögum til þjóðbrauta, landsbrauta og brúargerða. Eins og ég hef þegar nefnt, fæ ég ekki betur séð en ríkisframlögin til þeirra framkvæmda verði raunverulega minni á þessu ári og þeim næstu, heldur en þau voru áður. Notagildi fjárins verður minna. Þetta á ekki svo að vera og því vil ég mæla eindregið með því, að brtt. á þskj. 357 frá fjórum hv.fjvn.- mönnum verði samþykktar. Samkv. brtt. fjvn. er gert ráð fyrir, að unnið verði fyrir lánsfé við hraðbrautir og þjóðbrautir á því tímabili, sem áætlunin nær yfir. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. flytji frv. á þessu þingi um lántökuheimildir í þessu skyni, en vil þó beina fsp. um það til hæstv. samgmrh.