29.03.1965
Sameinað þing: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2691)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég á mjög örðugt með að taka þátt í kvöldfundi, sem mér skilst vera fyrirhugaður og vildi því ljúka núna af að tala fyrir brtt., sem við eigum hér á þskj. 364, ég og þrír aðrir þm. af Austurlandi. En áður en ég kem að þeim, vil ég segja aðeins örfá orð almennt um þessi efni, en vísa um það þó langsamlega mest til þess, sem hv. frsm. minni hl. sagði í sinni ræðu um vegamálin almennt.

Ég vil mótmæla því, að farið er að klípa af vegafénu, sem veitt er á fjárl., — alveg mótmæla því. Það er þó ætlunin að gera það með því að klípa 20% af því, sem ákveðið var í fyrra, þegar samningarnir voru gerðir, að leggja til vegamálanna. Ég veit, að okkur, sem stóðum að því samkomulagi, dreymdi aldrei um, að það yrði nú þegar byrjað að klípa af þessu litla framlagi, sem ríkissjóði sjálfum var ætlað að leggja. Þessu vil ég mótmæla.

Þá vil ég benda á það öngþveiti, sem þessi mál stefna í, því að nú er þannig komið, að viðhaldsféð er allt of lágt sett í þessa vegáætlun og hlýtur að verða stórum meira en gert er ráð fyrir í henni, ef það á að vera hugsanlegt að halda vegunum við næstu árin. Enn fremur, að greiðslur af lánum, sem tekin eru til vegamála, munu hækka óðfluga á næstu árum og gleypa sívaxandi hluta af hinu venjulega vegafé. Auk þess, ef að vanda lætur, fer dýrtíðin stórvaxandi, þannig að á næstu missirum verður meginhlutinn af því fé, sem enn er á þessari áætlun á pappírnum ætlað til nýrra vega, að fara í viðhald, í greiðslur af lánum og í dýrtíðarhítina. Það er því augljóst, að hér stefnir í fullkomið óefni, eins og hér hefur verið greint frá, og nú er svo komið, að eina leiðin til þess að fá nokkurt verulegt vegafé virðist vera sú að fá lántökur samþykktar til einstakra vega. Þeir landshlutar, sem ekki fá sinn hlut af lánsfénu, verða sýnilega algerlega út undan á næstunni, því að greiðslurnar af lánunum éta vaxandi hluta af vegafénu.

Þessum vanda stöndum við t.d. frammi fyrir, þm. Austurlands og við höfum því tekið það ráð að fara fram á, að bætt verði úr þessu frá því, sem fyrirhugað er á vegáætluninni núna. Ég vil benda mönnum með fáeinum orðum á, í hve miklum vanda við erum staddir þarna austur frá varðandi vegamálin. Það er gert ráð fyrir, að í Austurlandskjördæmi verði teknar 15 millj. að láni til veganna. En það er búið að taka að láni til vega annars staðar um 154 millj. og hér er heimilað að taka 320 millj. að láni í viðbót. Þetta verða alls vegalántökur upp á 474 millj. eða nálega 500 millj., og af þessari fúlgu eru Austurlandi ætlaðar 15 millj. eða um 3%. Þó er ástandið, eins og eðlilegt er, líklega lakara hjá okkur, en nokkurs staðar annars staðar, vegna þess að við búum við svo stórkostlegar vegalengdir og erfið skilyrði til vegaframkvæmda miðað við fólksfjölda. En okkur er ætlað að fá 3% af því fjármagni, sem ríkið tekur að láni til vegaframkvæmda.

Þetta leyfi ég mér að kalla fullkomið hneyksli. Ég trúi því sannast að segja ekki, að úr þessum ráðagerðum verði og vil enn trúa því, að sanngjarnar till. okkar í þessu tilliti verði teknar til greina. Ég vil í þessu sambandi benda mönnum einnig á, að af 648 km, sem enn eru ruddir og ólagðir af þjóðbrautum, eru 278 km í Austurlandskjördæmi. En við eigum að fá 3% af vegalánafénu. Enn fremur vil ég benda mönnum á, að af landsbrautum eru taldar 2.432 km óbílfærar eða ruddar og af þessum 2.432 km eru 656 km í Austurlandskjördæmi. M. ö. o.: af ruddum og óbílfærum þjóðbrautum eru um 40% á Austurlandi og af óbílfærum og ruddum landsbrautum um 25%.

Þetta sýnir, að það er brýnni þörf hjá okkur fyrir vegabætur, en nokkurs staðar annars staðar á landinu, að Vestfjörðum undanskildum. Þar mun vera svipað ástatt. Þetta stafar af því, að þau svæði hafa setið meira fyrir vegafénu, þar sem umferð er meiri. Þar hefur miðað betur áfram, en hjá okkur, þar sem vegalengdir eru miklu meiri en annars staðar að tiltölu við fólksfjölda.

Till. okkar eru, að það verði heimilað að taka að láni vegna Austurlandskjördæmis eftirfarandi fjárhæðir:

Fyrst til Austurlandsvegar, það er aðalleiðin austur á land og suður um Breiðdalsheiði og áleiðis suður til Reykjavíkur, þegar brúað verður á Skeiðarársandi. Það er eftir að byggja á þessum vegi fyrir 80–90 millj., en það er gert ráð fyrir að veita til hans nú um 800 þús. á ári í 4 ár í sjálfri vegáætluninni og taka 6 millj. að láni. Við sjáum því, að það miðar harla lítið, ef við þetta á að standa. Við leggjum til og þykir það í mesta máta sanngjarnt, að það verði teknar 8 millj. að láni hvert þessara fjögurra ára í þennan veg, eða 32 millj. alls og mundi samt, þótt það yrði gert, ærið langt þess að bíða, að öll leiðin yrði byggð upp. En mikið mundi það bæta, ef á okkar till yrði fallizt.

Þá er þannig ástatt, að búið er að gera allmikla vegagerð á Hellisheiði í Norður-Múlasýslu, en til þess að hún yrði sæmilega fær, mundi þurfa að fá 6 millj. í viðbót við það, sem þegar hefur verið veitt. Leggjum við til, að þessi fjárhæð verði tekin að láni og þessum lífsnauðsynlega vegi komið í samband á 4 árum.

Þá er gert ráð fyrir að gera jarðgöng í Oddsskarði til þess að lækka þar veginn. Það mundi lækka veginn um 70 m og gerbreyta öllum aðstæðum. Mundi þá verða nálega ævinlega fært og setja þetta stærsta byggðarlag Austurlands í samband við aðalvegakerfið. Þessi vegur mundi hafa stórkostlega þýðingu fyrir Austurland, líka vegna þess, að á Norðfirði er fjórðungssjúkrahús Austfirðinga og miðstöð á margan hátt. Það mundi verða þarna bylting, ef hægt væri að koma þessu í framkvæmd og þetta kostar eins og stór mótorbátur eða ca. 12 millj. Leggjum við til, að lán verði tekið í þessu skyni og jarðgöngin lögð 1966 og 1967. En næsta sumar ætlum við að verði notað til endanlegra rannsókna í þessu efni og til að ganga frá undirbúningi verksins.

Þá hefur Fáskrúðsfjörður mjög ófullkomið vegasamband, en það er hægt að bæta úr því og leggja út um Vattarnes með sjónum öruggan veg, sem ævinlega verður fær, hvað sem á gengur. Það kostar ca. 9 millj. kr. og leggjum við til, að teknar verði að láni 4½ millj. í þetta verk í sumar og 4½ millj. næsta sumar, 9 millj. alls.

Loks er það Fjarðarheiði, leiðin í hinn mikla framleiðslu- og síldarbæ, Seyðisfjörð. Vegurinn á heiðinni leggst mjög snemma undir snjó, því að hann er gamall og lélegur orðinn, en allgóður vegur báðum megin við heiðina. Væri hægt að byggja veginn upp og gera hann sæmilega öflugan fyrir 6 millj. Leggjum við til, að lán verði tekið til þess, 1½ millj. á ári næstu 4 árin.

Það er ekki meira en þetta, sem við förum fram á. Og þótt þetta yrði samþykkt, sem við leggjum til, mundi það vera, eins og dropi i hafið miðað við þörfina. Við mundum ekki einu sinni ná nándar nærri sanngjörnu hlutfalli í vegalántökunum, þótt þetta yrði samþykkt. En við viljum trúa því, að það sé skynsamlegt að vera hógvær og sanngjarn í uppástungum og þess vegna höfum við ekki haft till. okkar hærri en þetta. En við viljum skírskota til réttlætiskenndar hv. þm. og vonast eftir því, að við fáum þessar till. samþykktar, því að hvernig sem á þetta mál er litið, getur niðurstaðan aldrei orðið nema sú, að hér er um fullkomið nauðsynjamál og alveg sérstakt sanngirnismál að ræða.