29.03.1965
Sameinað þing: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2693)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Árið 1963. þegar vegal. voru lögð fram nýendurskoðuð og í nýju formi, var hátt risið á þeim, er þau fluttu. Nú átti að gera myndarlegt átak í vegamálum. Stjórnarandstaðan trúði því, að það vekti fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsliði hennar að gera átak um vegabætur og lagði sitt lið til að greiða fyrir framgangi málsins. Gera átti áætlun til 5 ára, en horfið frá því og sérstök áætlun fyrst gerð fyrir eitt ár, árið 1964, en ákveðið að setja 4 ára áætlun á því þingi, er nú situr. Vegagerðaráætlunin fyrir 1964 var strax vonbrigða niðurstaða. En menn sættu sig þó við hana í trú á það, að fyrir því yrði séð af þeim, sem ráða, að þegar til þess kæmi að setja vegáætlun fyrir 4 árin, árin 1965–1968, yrði meira fé til að skipta til veganna. Ráðrúmstími átti að vera til þess.

Nú er verið að ganga frá þeirri áætlun, og þá er, eins og ýmsir ræðumenn hafa glögglega sýnt fram á um afturför, en ekki framför að ræða. Og það, sem verst er „dýrðin fer dalandi“ frá ári til árs þessi 4 ár, sem áætlunin nær yfir. Í stað þess að menn gátu áður gert sér vonir um einhverjar úrbætur eftir eitt ár, eru nú margir þannig settir, að af þeim er tekin vonin um vegabætur um 4 ár samfleytt. Menn búast við dýrtíðar hækkun og þar með lífskostnaðar hækkun frá ári til árs og eiga hana nokkuð vísa. En um umbætur á vegum er ekki að tala hjá mörgum þessi 4 ár. Það er einnig vissa, fjallgrimm vissa, sem þeim verður gefin með þessari áætlun.

Þetta er einn af hinum mörgu dapurlegu köflum í viðreisnarsögu núv. hæstv. ríkisstj. Ég hygg, að stjórnin hafi ekki viljandi blekkt sig og aðra í þessu máli 1963, þegar hún með sigurbros á vör lagði fram hin endurskoðuðu vegalög og till. sínar. En svona er samt reyndin.

Stjórnarandstaðan getur af þessu lært, að hún þarf alltaf að vera á verði og hún var ekki nógu tortryggin 1963.

Ég þykist vita, að allir hv. þm. séu óánægðir með þessa vegáætlun, þótt sumir hafi ekki orð um hér á þingfundum og mæti ekki heldur við umr. málsins, af því að þeir eiga við sjálfa sig og sína fyrirliða að sakast. Ég býst líka við, að ekki sé til neins að tala um meiri fjárveitingar úr ríkissjóði, eins og komið er, þótt hart sé til þess að vita, eins og sýnt hefur verið fram á af ýmsum ræðumönnum, að vegirnir skulu ekki njóta allra þeirra tekna, er frá umferðinni renna í ríkiskassann.

Það er augljóst mál, að miklu minni umbætur verða gerðar fyrir það fé, sem áætlunin gerir ráð fyrir, en brýn þörf krefur og að ekki er, eins og sakir standa, annað fyrir hendi, en þá helzt að bæta þetta upp með lántökum til ýmissa vega á umræddu tímabili og ætla framtíðinni, sem nýtur þeirra vegabóta, að standa straum af láninu. Telja má hart, ef hæstv. ríkisstj., sem hefur misst niður af málinu, eins og reynslan sýnir, getur ekki gengið inn á till. um lántökur. Og til þess hefur líka verið gripið, eins og við blasir á þskj. 348 í till. fjvn., að heimila lántökur. Það gildir ekki aðeins um svonefndar hraðbrautir, heldur líka þjóðbrautir og landsbrautir. En þetta er alls ekki fullnægjandi. Það eru fleiri staðir, sem úrlausnir þurfa að fá á þennan hátt, ef nokkurt réttlæti eða jöfnuður á að ríkja. Þess vegna teljum við fjórir þm. Norðurl. e. okkur skylt að flytja brtt. um heimild til að taka lán til Þingeyjarsýslubrautar. Aðrir vegir í okkar kjördæmi eru illa settir. Það er ekki af því, sem við flytjum ekki till. um heimildir til lántöku vegna þeirra, en við sjáum, að því verða takmörk sett, inn á hve mikið verður gengið í þessu efni og grípum því niður þar, sem við teljum að þörfin sé allra mest. Till. okkar er á þskj. 382. Flm. hennar auk mín eru Gísli Guðmundsson, Björn Jónsson og Ingvar Gíslason. Þingeyjarsýslubraut er þjóðbraut, sem nær frá Breiðumýri í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu til Þórshafnar á Langanesi. Hún er um 131 km. Vegamálaskrifstofan hefur gert um það lauslega áætlun fyrir okkur, að það muni kosta um 33.5 millj. að gera 104.3 km af þessari leið eins og vegalög gera ráð fyrir, að þjóðbraut eigi að vera, og sami aðili hefur gizkað á að það kosti um 10 millj. kr. að gera um 27 km vegalengd á Þingeyjarsýslubraut að sæmilegri þjóðbraut, en það muni kosta um 43.5 millj. að gera Þingeyjarsýslubraut alla eins og vegal. ætlast til að þjóðbrautir séu.

Þær þjóðbrautir eða þjóðbrautarkaflar, sem á samkv. till. fjvn. að vera heimilt að taka lán til að fullgera á þessu fjögurra áratímabili, sem um er að ræða, eru Siglufjarðarvegur, Múlavegur, Austurlandsvegur, Suðurfjarðavegur (um Vattarnes). Allt eru þetta mikilsverðir vegir. Þetta eru millibyggðavegir. En á Þingeyjarsýslubraut eru líka kaflar, sem eru viðurkenndir millibyggðavegir: Tjörnesvegur milli S.-Þingeyjarsýslu og N.-Þingeyjarsýslu og Hálsar milli Sléttubyggðarinnar og Þistilfjarðar, hvort tveggja miklar vegalengdir. Víða eru í N.-Þingeyjarsýslu malarlausir eða malarlitlir kaflar á Þingeyjarsýslubraut, sem bílar sökkva í og festast í vor og haust eða i votviðratíð á hvaða tíma árs sem er. Þetta fengu frambjóðendur við alþingiskosningar að reyna í framboðsferðum sínum síðast og reyna mjög rækilega. Í Aðaldalshrauni í Suður–Þingeyjarsýslu þarf að gera alveg nýjan veg á vegarkafla, sem er um 7 km að lengd og áætlað er, að sá kafli kosti um 3½ millj. Ég hygg, að þegar litið er á Þingeyjarsýslubraut í heild og tekið tillit til ýmissa kafla þar, sé hún á stórum vegalengdum ekki ólík vegum Austurlands, sem allir viðurkenna að mjög kalli eftir umbótum og lík sumum þeim vegaköflum, sem hv. síðasti ræðumaður lýsti mjög greinilega í sínu kjördæmi.

Eins og ég gat um áðan, er álitið, að kosta muni um 43.5 millj. að byggja Þingeyjarsýslubraut upp og gera hana viðunandi. Samkvæmt till. um vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er ætluð til Þingeyjarsýslubrautar alls á, næstu 4 árum fjárhæð, er nemur samtals 7 millj. 430 þús. Þetta er átakanlega lítill áfangi, sem með því næst í vegagerðinni, þeirri vegagerð, sem áætlað er, að kosta muni yfir 43 millj. kr. Má segja, að með þessari litlu fjárveitingu á næstu 4 árum sé stofnað til þess, að það taki nærri því aldarfjórðung að koma Þingeyjarsýslubraut í lag. Við áðurnefndir 4 þm. kjördæmisins getum ekki sætt okkur við slíka vegáætlun, slíkan biðtíma. Við leggjum því til, að taka megi nú á þrem fyrri árum, þeim sem áætlunin gildir um, 4 millj. kr. að láni hvert ár til að flýta fyrir vegagerðinni, eða samtals 12 millj. kr. Yrðu þá handa þessum langa vegi um 19 millj. 340 þús. kr. á þessu umrædda tímabili og þó ekki það, ef 20% skerðing á sér stað í ár á framlagi ríkissjóðs. Ef hv. Alþ. fellst á þessa till. okkar, mætti gera ráð fyrir, að fullgerð Þingeyjarsýslubrautar kæmist af á tæpum áratug með sama áframhaldi. Ekki getur það talizt sérstaklega hratt unnið á tækniöld og þeim tíma, sem kallaður hefur verið viðreisnartími. Ég leyfi mér að vænta þess, að þessari till. okkar fjórmenninganna verði vel tekið og hún samþ.