01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2697)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í sambandi við umr. um vegáætlunina, sem fram fóru hér s.l. mánudagskvöld, flutti hv. 3. þm. Vestf. hér langa ræðu um vegamálin á Vestfjörðum og dró upp dökka mynd af ástandi vegamála í þessu kjördæmi. Hann sagði, að óbílfærar þjóðbrautir og landsbrautir væru 486 km á landinu og af því væru 221 km í Vestfjarðakjördæmi. Það er fjarri mér að vilja halda því fram, að ástand vega á Vestfjörðum sé gott og fús er ég að viðurkenna, að margt er ógert í vegamálum í þessu kjördæmi og mikið átak þarf að gera í þessum málum, sem ég mun síðar koma að. En þegar við tölum um, hve margir km eru ólagðir í vegum, verðum við í leiðinni að geta þess, að þá eru meðtaldar leiðir, sem voru fyrir í vegal. og eru enn í núgildandi vegal., þar sem engin byggð er lengur og engum dettur í hug að leggja fé til, eins og stendur og vil ég í því sambandi nefna veg frá yzta bæ í Snæfjallahreppi að Sandeyri, Jökulfjarðaveg og Aðalvíkurveg. Hv. þm. nefndi enn fremur, að óbrúaðar ár á landinu, sem þarf 4–10 m brú á eru 174. Af þeim eru 58 í Vestfjarðakjördæmi. En hann gat þess ekki, að um 40% af þessum ám eru á óveguðum köflum og nokkrar þeirra á þeim leiðum, sem enginn maður býr við og ég áðan nefndi. Á þjóðvegum Vestfjarða eru óbrúaðar auk þessa 13 ár, sem þurfa brýr 10 m eða lengri, og eru 5 þeirra á leiðum, sem eru óvegaðar og á leiðum, sem engin byggð er við. 4 brýr af þessum 13 er ákveðið að byggja samkv. till. fjvn. í þeirri vegáætlun, sem hér liggur fyrir til síðari umr.

Mér finnst, að sú dökka og ömurlega mynd, sem hv. þm. dró upp, sé um leið þung ádrepa á þá menn, sem lengst hafa verið þm. í þessu kjördæmi eða í hluta af því, áður en kjördæmin 5 voru sameinuð í eitt kjördæmi. Sá maður, sem lengst hefur verið þm. Vestf., er núv. hv. 1. þm. Vestf., sem hefur setið á Alþ. í 31 ár og hefur lengur farið með vegamál, en nokkur annar maður og mér finnst að hv. 3. þm. Vestf. höggvi allnærri þessum hv. þm. og fyrrv. ráðh., þegar hann telur, að sama sem ekkert hafi í raun og veru verið gert í vegamálum Vestfjarða öll þessi ár. Ég vil segja það um hv. 1. þm. Vestf., að hann hefur mörgu góðu komið til leiðar í þessum málum. Vestfirðir eru stórt kjördæmi yfirferðar og ég vil í því sambandi einnig minna á tvo aðra þm., sem unnið hafa af sérstökum dugnaði að vegaframkvæmdum á Vestfjörðum, sem eru Gísli Jónsson, fyrrv. 1. þm. Vestf., og hv. 2. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason. Þegar þessir menn urðu þm., annar í N-Ísafjarðarsýslu og hinn í Barðastrandarsýslu, má segja, að þessar sýslur hafi verið vegalausar með öllu. Þeir hafa lyft miklu átaki og unnið vel og dyggilega að vegamálum þessara sýslna og síðar kjördæmisins í heild.

Hv. 3. þm. Vestf. rakti í ræðu sinni till. sínar og hv. 1. þm. Vestf. og 5. þm. Vestf. um lántökur til vegagerðar í kjördæminu og gat þess, að þessi tillöguflutningur hefði fyrst hafizt árið 1959 og þá stóðu þeir tveir, 1. og 3. þm. Vestf., að þeim till., og síðan hefði hann ásamt þessum tveimur hv. þm. árlega flutt till. um lántökur til vegagerða á Vestfjörðum. Af lýsingu hv. þm. var þessi tillöguflutningur mikil raunasaga og að mér skildist og sýndist á svip hans, voru sorgir hans þungar sem blý í sambandi við afgreiðslu þessara mála. Þessi hv. þm. kom fyrst á þing árið 1956, ef ég man rétt og ég verð að segja eins og er, að mér finnst hafa, tekið hann alllangan tíma að átta sig á því, að það þyrfti að gera stórátak í vegamálum í kjördæminu, að hann skuli ekki hafa áttað sig á því fyrr en árið 1959, að það þyrfti að auka framkvæmdir í vegamálum í Vestfarðakjördæmi. Og sérstaklega hefði þess hv. þm. þurft að átta sig á þessu fyrr og sömuleiðis núv. meðflm. hans að þessum till., hv. 1. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf., því að þá höfðu þeir sannarlega aðstöðu til að sýna mátt sinn og vilja í verki. Þá sátu tveir af þessum mönnum í ríkisstj., vinstri stjórninni og sá þriðji var einn af beztu og sterkustu stuðningsmönnum þeirrar stjórnar. En þá sátu þeir bara með hendur í skauti sér og lögðu ekki til, að væri tekið eyrislán til framkvæmda á Vestfjörðum á þessum árum. En þegar Framsfl. og Alþb. lenda utan stjórnar, sjá þeir fyrst möguleika á því að fá fé til framkvæmda á Vestfjörðum, þegar Sjálfstfl. og Alþfl. eru komnir til áhrifa, þá fara þeir að flytja slíkar till. Það hefði verið ólíkt skemmtilegra að vita til þess, að það hefði komið fram á þessum árum, að þessi hv. þm. hefði barizt fyrir auknu framlagi til vega á Vestfjörðum, á meðan hann var stjórnarsinni og hafði meiri áhrif, en hann hefur nú eða hefur haft á undanförnum árum.

Þá lýsti þessi hv. þm. mjög nákvæmlega samtölum, sem hefðu átt sér stað á þingmannafundum á Vestfjörðum. Ég hefði talið, að margt af þeim samtölum hefði mátt vera ósagt hér á Alþ., því að við stjórnarsinnar frá. Vestfjörðum skýrðum þessum hv. kollegum okkar frá því, hvers væri að vænta í sambandi við lántökur til vegagerða. Hv. þm. sagði í öðru orðinu, að hann fagnaði þessu, en í hinu orðinu var hann hálfdrýldinn og setti upp hálfgerðan ólundarsvip hérna í pontunni. Og nú skulum við ætla, að þessi hv. þm. og sömuleiðis þeir aðrir, sem standa að brtt., hv. 1. þm. Vestf. og 5. þm. Vestf., hefðu eftir að hafa fengið allar þær upplýsingar, ekki þurft að koma þannig fram að flytja, brtt. við vegáætlunina um að taka út öll framlög til allra stærstu og fjárfrekustu vega á Vestfjörðum og vilja fella þau niður. M.ö.o.: þeir leggja til á þskj. 377, að niður verði felld framlög í brtt. fjvn. að upphæð 9 millj. 355 þús. kr. En þeir flytja jafnframt till. um ýmsa nýja vegi, sem ekki eru í okkar till. og sömuleiðis um hækkun framlaga til ákveðinna vega. Samtals nema þessar upphæðir samkv. þessu þskj. 10 millj. 350 þús. kr. Frá því dragast 1.257 þús. kr., sem eru fyrir í till. fjvn., svo að hækkunartill. þeirra félaga nema 9 millj. 93 þús. kr. eða eru 262 þús. kr. lægri, en er nú í till. fjvn. Svo koma þessir hv. þm. og kvarta og kveina yfir því, hve litlu sé varið til vegamála í Vestfjarðakjördæmi og segjast vilja fá miklu meira og flytja svo brtt. um lækkun upp á 262 þús. kr. Hér hefur ábyggilega orðið einhver kontorfeill hjá þessum hv. þm. En ég veit, að þeir afsaka sig með því, að þeir flytja till. um eina brú að upphæð 300 þús. kr., brú, sem kostar vafalaust tvöfalt hærri upphæð og er auðvitað ekkert gagn í því að flytja þá till. til tveggja ára, því að brúin verður ekki byggð fyrir þessa upphæð.

Nú þykir mér til hlýða að rekja nokkuð, hvað fór á milli okkar þm. í Vestfjarðakjördæmi til viðbótar því, sem hv. 3. þm. Vestf. gat um í sinni ræðu hér s.l. mánudagskvöld. Það er rétt, að við þm. stjórnarliðsins á Vestfjörðum vorum búnir að fara yfir till. vegamálastjóra um skiptingu á því fé, sem okkur bar að skipta samkv. ákvörðun fjvn. Allar þessar till. bárum við undir þessa hv. þm. og þeir óskuðu eftir því að fá frest til að athuga þessi mál og það var aftur haldinn fundur, og þá komu fram fjórar aths. við þessa tillöguskiptingu okkar. Ein aths. var að færa til úr einum vegi í annan og á þá aths. féllumst við þegar, allir þm. stjórnarliðsins í Vestfjarðakjördæmi. Hinar þrjár aths. námu samtals 600 þús. kr., þrír vegir með 200 þús. kr. framlag hver. Við spurðum strax: Hvaða vegi viljið þið lækka frá till. okkar? Það kom ekkert svar við því. Það svar er ekki enn þá komið. En í stað þess að leggja fyrir þingmannafund till. um 600 þús. kr. breytingar er nú komið með brtt. upp á 9 millj. kr. og svo aftur að fella niður framlag til allra stærstu veganna upp á 9.3 millj. kr.

Ég verð að segja það, að mér finnst hörmulegt til þess að vita, að loksins, þegar rofar til og fram undan er að gera stórátak í vegamálum Vestfjarða, skuli þessir hv. 3 þm. leyfa sér að flytja brtt. um að fella niður framlag til allra helztu vega á Vestfjörðum, sem skipta mestu máli og eru á milli þéttbýlustu staðanna í kjördæminu og taka svo inn aftur í staðinn ýmsa vegi, sem ekki skipta verulegu máli og margir hverjir mega með a.m.k. góðri samvizku minni bíða enn um hríð, meðan við erum ekki búnir að bæta vegi á milli fjölmennustu byggðarlaga á Vestfjörðum. Ég verð að segja það, að mér finnst það ofrausn hjá þm. í kjördæmi, sem svo mikið á eftir að vinna í, að leggja til að það sé tekið framlag til vega á milli Strandasýslu og Barðastrandarsýslu, til 4 vega og þar af er einn vegur, sem heitir Kollabúðarheiðarvegur, þar leggja þeir til, að sé tekið mest inn eða 700 þús. kr. Auðvitað verðum við að fá einn veg á milli Strandasýslu og Barðastrandarsýslu, en að hugsa um að leggja samhliða í 4 vegi er ofrausn að mínum dómi og það hygg ég að sé ofrausn talin af öllum Vestfirðingum nema þá þessum 8 hv. þm. Annars býst ég við, að 1. þm. Vestf. hafi nú lítið gert í þessu annað, en að lána nafnið sitt á till. Annars væru þær kannske betur úr garði gerðar, ef hann hefði farið betur yfir þær með hinum tveimur.

Þá furða ég mig á því, að í annarri til. þessara hv. þm. er lagt til, að framlög til Strandavegar í Bæjarhreppi verði 200 þús. 1966 og 400 þús. 1965. Aftur taka þeir upp þennan sama veg í landsbrautum, Strandaveg í Bæjarhreppi og þar eru þeir með 300 þús. 1965 og 250 þús. 1966. Þetta fæ ég ekki skilið hjá hv. þm., þegar þeir eru að leggja til fjárveitingu í veg, sem er þjóðbraut, að taka hann svo aftur upp með landsbrautum, þó að það séu aðrar tölur, því að það er töluverð fjölbreytni í till. hv. þm. Ég er hræddur um, að þegar fólkið á Vestfjörðum veit og fær upplýsingar um það, að við höfum sýnt þessum hv. þm. þá framkvæmdaáætlun, sem fyrir liggur og hæstv. fjmnh. hefur nú skýrt frá, finnist fólki undarlegt, þegar því er ljóst, að ætlað er, að 50% af því fé, sem fer til þessara vega, verði greitt af vegáætlun og fram undan sé að gera stórátök, skuli þrír af þm. Vestfirðinga leyfa sér að flytja till. um það að taka algerlega út úr vegáætlun allt framlag til þessara vega næstu 2 árin, árin 1965 og 1966. Og það er hvorki meira né minna, það er vegurinn sunnan Þingmannaheiðar, sem verður lífæð fólksins í allri Barðastrandarsýslu, í hinu gamla kjördæmi hv. 3. þm. Vestf., og sömuleiðis aðalleiðin norður á Ísafjörð og til kauptúnanna við Ísafjarðardjúp, vegurinn um Breiðadalsheiði, sem hefur verið mesti þrándur í götu Vestfirðinga um samgöngur að vetrinum á milli þéttbýlustu staða Vestfjarða, vegurinn um Bíldudal yfir fjallið Hálfdán, Bolungarvíkurvegur, sem þarfnast mikilla endurbóta og síðast, en ekki sízt leggja þeir til, að lán verði tekið í Djúpveg, en Djúpvegur innan við Súðavík er ekki í framkvæmdaáætluninni, og veitir sannarlega ekki af því fé, sem er á vegáætlun og kemur úr hörðustu átt, þegar þm. úr því kjördæmi leggja til, að það sé fellt niður. Sömuleiðis má segja um Strandaveg, veginn um Árneshrepp frá Veiðileysufirði og að Selvíkurhöfða, þeir leggja einnig til, að hann sé tekinn út úr vegáætluninni. Ég tel, að þessir hv. þm. hafi sýnt mjög mikið gáleysi, að ekki sé meira sagt og ég býst við því, að þeir komi til með að sjá eftir því að hafa flutt þessar vanhugsuðu brtt., og það er alveg óhætt að fullyrða, að það hefur verið gert í miklum fljótheitum og í kappi við tímann, því að það hefur ekki verið búizt við því, að þessar umr. drægjust svo á langinn sem raun ber vitni.

Skal ég svo ekki fjölyrða miklu lengur um þetta, en áður en ég lýk máli mínu, vil ég fagna mjög þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf hér áðan og eins og hann gat um, var fyrsta skrefið í þessa átt tillöguflutningur og samþykkt þáltill. Kjartans J. Jóhannssonar og Gísla Jónssonar seint á þinginu 1963 og síðan hefur verið unnið af þeirri stofnun, sem var falið þetta mál í hendur, Framkvæmdabanka Íslands, ásamt fleiri sérfræðingum að þessari Vestfjarðaáætlun og ég fagna því, þó að hún liggi ekki fyrir öll, að samgöngumálaliðurinn skuli hafa verið tekinn út úr, þannig að til framkvæmda komi nú þegar á árinu 1965. Það verður mikið gleðiefni fyrir alla Vestfirðinga og það er um leið viðurkenning á því, að Vestfirðir hafa að mörgu leyti orðið á eftir ýmsum öðrum landshlutum og það eru ótal verkefni, sem þar eru fram undan. Ég vil þakka hæstv. ríkisstj. fyrir hennar góða stuðning í þessu máli og þá ágætu meðferð, sem þetta mál hefur fengið í höndum hæstv. ríkisstj.