01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2698)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt, að nokkrar umr. verði um vegáætlun, sem lögð er fram til fjögurra ára, enda hefur það orðið og menn eru ekki alveg á einu máli. Sumir þm. koma hér upp í ræðustólinn og láta undrun sína í ljós yfir því, hversu litlu fé eigi að verja til vegamálanna samkv. vegáætluninni. Ég hélt satt að segja, að öllum þm. væri nokkurn veginn ljóst, um hve mikið fjármagn væri að ræða samkv. vegal. Allir hv. þm. stóðu saman um það að samþykkja vegal. í ársbyrjun 1963. Allir hv. þm. vita um þá tekjustofna, sem vegal. gera ráð fyrir og nokkurn veginn um það, hversu háa upphæð getur verið um að ræða innan þess ramma, sem vegal. eru. Það er þess vegna dálítið skrýtið, þegar menn koma hér upp í ræðustólinn og láta undrun sína í ljós yfir því, að það sé ekki um meira fjármagn að ræða samkv. vegáætluninni. Hitt er svo annað mál, að það er öllum ljóst, að það vantar vegi víða um landið. Vegirnir eru ekki nægilega góðir og það er vitanlega mikið verk fyrir höndum, sem leysa þarf. En ég hafði búizt við, að allir hv. þm. hefðu gert sér þetta ljóst fyrr en nú. Þetta hlýtur að hafa verið ljóst fyrir okkur öllum mörg undanfarin ár. Sú staðreynd blasti við einnig, þegar núv. stjórnarandstaða var í stjórnaraðstöðu. Hv. framsóknarmenn og Alþb.-menn vissu 1958, að það vantaði vegabætur í öllum kjördæmum. Og það var ekki viljaleysi þeirra, að það var ekki varið meira fé til þessara mála þá, heldur en raun ber vitni. Það var vegna þess, að fjárráðin voru takmörkuð og þeir, sem báru ábyrgð á ríkissjóðnum, töldu ekki fært að láta meira til vegamálanna á þeim tíma heldur en gert var. Á árinu 1958 var varið til vegamála samkv. fjárl. 83 millj. kr. Á árinu 1965 er gert ráð fyrir að verja til vegamála 340 millj. kr. Vegagerðarvísitala hefur hækkað síðan 1958 um 76%. Vegafé til framkvæmda á árinu 1965 miðað við 1958 hefur hækkað um 300%. Samt sem áður koma hér hv. stjórnarandstöðuþm. upp í ræðustólinn og segja: Það er skömm að því að leggja fram vegáætlun eins og hún er. Það er til skammar, hversu litlu fjármagni er varið til vegamála samkv. áætluninni. Og það eru sömu mennirnir, sem þannig tala nú, sem hafa verið í ríkisstj. og gerðu ekki kröfur um nema 83 millj. 1958, þegar þeir voru í ríkisstj. Það er þess vegna, sem ég undrast orðalagið hjá sumum hv. þm., um leið og ég get vel tekið undir með þeim, að æskilegt væri nú eins og áður að hafa meiri fjárráð til vegaframkvæmdanna, heldur en við höfum.

Það hefur verið að því fundið af nokkrum hv. þm., að það væri ætlunin að verja miklu fjármagni til hraðbrauta hér í nágrenni Reykjavíkur. Það er vitanlega matsatriði, hversu rétt er að ganga langt í því. Hinu verður ekki neitað, að meiri hlutinn af umferðinni og fjölförnustu vegirnir eru á þessu svæði og það hefur löngum verið staðhæft, að þegar umferðin er komin að vissu marki, t.d. 1000 bílar á dag eða meira, sé nær ógerningur að halda við malarbornum vegum. Og allir hv. þm. hafa farið um veginn hér út frá Reykjavík upp að Álafossi, Reykjanesbrautina og veginn hér austur, þegar umferðin er mest og fundið, að þessi vegur með mölinni og þeim ofaníburði, sem um er að ræða, er eins og bárujárn að aka á og oft og tíðum alveg ófær. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þótt að því verði stefnt að reyna sem fyrst að gera þessa fjölförnustu vegi akfæra, um leið og skilningur hlýtur að vera á því að gera það, sem fært þykir, til að lagfæra og bæta vegina víðs vegar um landið, þar sem strjálbýlið er og umferðin er minni.

Samkv. vegáætluninni er gert ráð fyrir að verja úr vegasjóði aðeins 10 millj. kr. til tveggja hraðbrauta. Það út af fyrir sig er ekki nokkur hlutur og þess vegna hefur verið horfið að því ráði að gera ráð fyrir fjáröflun með öðrum hætti til nokkurra vega, þar sem umferðin er mest.

Það hefur verið gert ráð fyrir því, ef fjár verði aflað til Vesturlandsvegar, að verja til endurbyggingar þess vegar um 63 millj. kr. á árunum 1966, 1967 og 1968, en það þykir bráðnauðsynlegt vegna hinnar miklu umferðar frá Reykjavík og upp að Álafossi og jafnvel upp í Kollafjörð að gera þennan veg með varanlegu slitlagi. Stundum hefur verið talað um steinsteypt lag, en nú í seinni tíð, eftir að malbikið er orðið betra, tæknin aukin að gera malbiksslitlag, þykir sjálfsagt að fara frekar út í það, heldur en að steinsteypa og með því er hægt á skemmri tíma að komast yfir miklu lengri leiðir og gera fleiri vegi góða, en ef haldið væri sig við steinsteypuna.

Þá er gert ráð fyrir því að verja til Austurvegar á árunum 1965, 1967 og 1968 65 millj. kr. Er gert ráð fyrir því, að með því sé hægt að ljúka undirbyggingu á Austurvegi, austur á fjallsbrún um Þrengslin og malbika eitthvað út frá Reykjavík, eftir því sem fjárhagur leyfir, áleiðis austur.

Þá er gert ráð fyrir að verja á árunum 1967 og 1968 til Hafnarfjarðarvegar 25 millj. kr. og gera þann veg einnig með slitlagi, malbiki, eftir því sem fé er fyrir hendi.

Þetta, sem hér hefur verið nefnt, er ekki samkv. áætluninni af fjármagni í vegasjóði, heldur verður því aðeins unnt að vinna að þessum framkvæmdum, að fjár verði aflað með lántökum eða á annan hátt.

Og þá er það Reykjanesbrautin, sem hefur sérstöðu að vissu leyti, þannig að nú hefur verið lokið að steypa talsverðan hluta af þeim vegi. Það var byrjað á því, eins og kunnugt er, fyrir 2 árum að gera steinsteypt slitlag á þennan veg. Og hann hefur sérstöðu að því leyti, þessi vegur, að það hefur verið gert ráð fyrir að innheimta umferðargjald af veginum og umferðartollur geti að verulegu leyti staðið undir vöxtum og afborgunum af þessari vegargerð. Það hafði verið gert ráð fyrir því að malbika það, sem eftir er af þessum vegi. Nú hefur komið í ljós, að menn eru ekki á eitt sáttir um það, þar sem þegar er búið að steinsteypa verulegan hluta vegarins. Og það hefur jafnvel komið í ljós, að menn efist um, að það sé eins mikill munur á steinsteypta laginu og malbikunarlaginu í kostnaði og talið er, eða 48 millj. kr. og sé ástæða til að athuga það nánar. Ég get vel fallizt á, að þetta verði athugað nánar, áður en ákvörðun er tekin um það, hvor leiðin er farin, að steypa slitlagið eða malbika. En sú athugun má vitanlega ekki taka langan tíma, vegna þess að það getur tafið fyrir framkvæmdum í sumar. Og ef dýrari leiðin yrði valin, steinsteypan, hlyti það að leiða til þess, að umferðargjaldið yrði nokkru hærra en annars hefði þurft að vera.

Það eru hér fleiri vegir, það eru þjóðbrautir, sem fyrirhugað er að leggja miðað við fjármagnið, sem kemur annars staðar frá, en úr vegasjóði. Ber þar að nefna Siglufjarðarveg eða Strákaveg, sem oft hefur verið rætt um hér í sölum Alþ. Nú þegar hefur verið gert útboð í þessar framkvæmdir og er gert ráð fyrir, að þessum vegi verði lokið á árinu 1966. Þá er Múlavegur, það er vegurinn frá Ólafsfirði til Dalvíkur, og sá vegur hefur verið mörg ár í lagning og vissulega tími til þess kominn, að honum verði lokið. En það er mikið hagræði fyrir Ólafsfirðinga að fá þennan veg og sú einangrun, sem þeir hafa búið við í ómunatíð, verður rofin, þegar þessi vegur er kominn saman. Þá er gert ráð fyrir nokkrum vegum öðrum, þ.e. á Austurlandi, Jökuldalsvegi og Suðurfjarðavegi um Vattarnes í Austurlandskjördæmi. Það hefur þegar verið ákveðið að útvega fjármagn í Siglufjarðarveg og Múlaveg. En vegirnir á Austurlandi, sem ég taldi upp áðan, eru hér inni í með sama fyrirvara og ég áðan nefndi um hraðbrautirnar, að það verður því aðeins unnið að þessum framkvæmdum, að fjár verði aflað með lántökum eða öðrum hætti. Hér er aðeins um heimild að ræða til þess að útvega féð. Og þá er Heydalsvegur, sem er landsbraut. Það er einnig lagt til, að heimild verði til fjárútvegunar í hann að upphæð 3½ millj. kr.

Eins og ég áðan sagði, er gert ráð fyrir að vinna fyrir nærri 340 millj. kr. á árinu 1965 í vegaframkvæmdum. Og á fjögurra ára tímabilinu, ef lánsheimildirnar verða notaðar, verður um hátt á 14. hundrað millj. að ræða í þessum framkvæmdum. Nú er það vitað, að vegal. gera ráð fyrir því, að Alþ. og ríkisstj. geti ákveðið endurskoðun vegáætlunarinnar á miðju tímabili. Og er ríkisstj. og Alþ. telur hyggilegt að tveimur árum liðnum að láta slíka endurskoðun fara fram með það fyrir augum að útvega meira fé til framkvæmdanna, liggur það vitanlega beint fyrir. Og ég verð að segja, að mér þykir það ekki ótrúlegt, að sú heimild, sem vegal. gefa í þessu efni, verði notuð, miðað við þær þarfir, sem alls staðar eru fyrir aukið fjármagn til vega- og brúarmála.

Hér hefur verið gerð að umtalsefni till., sem ríkisstj. flytur um framlag til nokkurra vega á Vestfjörðum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Þetta er liður í svokallaðri Vestfjarðaáætlun, sem er byggð á þáltill., sem samþ. var hér í hv. Alþ. eins og allir muna, en Framkvæmdabankanum var falið að gera athugun á því, hvernig hægt væri að framkvæma það, sem till. felur í sér. Ég held, að þegar þessi till. var samþ., hafi allir alþm. verið sammála um, að það væri að skapast hættuástand á Vestfjörðum vegna þess, hversu fólksstraumurinn væri mikill þaðan. Og ég man eftir því, hversu Gísli Jónsson færði sterk rök fyrir sínu máli, bæði hér í hv. Alþ. og eins utan þings. Nú er þessi Vestfjarðaáætlun og sú lántaka, sem lýst hefur verið, úr viðreisnarsjóði Evrópu liður í því að hindra fólksflutningana að vestan og reyna að stuðla að því, að Vestfjörðum blæði ekki út að þessu leyti. Þess vegna er það, að ríkisstj. flytur þessa till. og tekur hana vitanlega inn í vegáætlunina, eins og alltaf hefur staðið til. Það var einn eða tveir hv. þm., sem töldu það alveg öruggt á mánudagskvöldið, að það stæði til að brjóta vegal. og sennilega hafa þessir tveir hv. þm. verið í eitthvað sérstaklega slæmu skapi, þegar þeir voru með þessar getsakir. Nú er engan veginn víst, að það hefði verið hægt að færa það undir brot á vegal., þótt þetta fé hefði ekki verið í vegáætlun, vegna þess að eins og ég áðan sagði, er hér um sérstaka áætlun að ræða, svokallaða Vestfjarðaáætlun. En það er ástæðulaust að vera með nokkrar hugleiðingar um það, vegna þess að það er algerlega útlátalaust og sjálfsagt að taka þetta með inn í vegáætlunina, ekki sízt fyrir það, að það er ekki lengur neitt vafaatriði um það, hvort fé fæst. Lánið er fengið og samþ., eins og lýst hefur verið hér áðan og þess vegna öruggt, að fyrir það verði unnið.

Einn hv. þm., — ég held, að það hafi verið hv. 3. þm. Vestf., — talaði um, að um margra ára skeið hefðu sumir vegir á Vestfjörðum ekki fengið neina fjárveitingu og ég veit nú satt að segja ekki, hvers vegna hann er að tala sérstaklega um það hér, vegna þess að hann sem þm. þessa kjördæmis hefði vitanlega getað haft áhrif á það, að þessir vegir, sem hann talaði um, hefðu fengið fé. Ef þeir hafa ekki fengið neitt fé, er það vegna þess, hvernig vegafénu á Vestfjörðum hefur verið skipt milli hinna einstöku vega. En þessi hv. þm. hlýtur að verða ánægður með það að sjá, hversu mikið fjármagn er ætlað til Vestfjarða, og enginn vafi er á því, að ástandið í samgöngumálum í þessum landsfjórðungi gerbreytist nú til batnaðar. Hitt er svo annað mál, að eins og hér var talað um áðan, hljóta þeir vegir, sem ekki liggja að byggð eða um byggð, að bíða, t.d. vegir í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi, sem fyrir mörgum árum eru farnir í eyði og þar sem líkt stendur á.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði um, að það væri ekki hátt risið á vegáætluninni og þetta væri dapurlegur kafli í sögu viðreisnarinnar, eins og hann komst að orði. Menn geta nú til gamans haft ýmsar orðræður og meiningar. En til hvers er að hafa svona orðalag uppi hér í hv. Alþ. og halda slíku fram um vegafé, sem hefur hækkað um 300% frá því 1958, þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. hafði ráð til þess að hafa áhrif á aukið fjármagn? Ég hefði nú haldið, að þessi hv. þm. væri of rökvís í hugsun og málfari til þess að bera á borð annað eins og þetta. Og sannarlega hefði hann getað komið á framfæri óskum sínum um enn meira fjármagn til vegaframkvæmda en hér er um að ræða, þótt hann hefði ekki verið með þessar líkingar, sem hann viðhafði, því að það er alveg útilokað, að hv. þm. eða þeir, sem fylgjast með samgöngumálum og þjóðmálum yfirleitt, geti ekki gert sér grein fyrir því, að samanburður á fjárframlögum til vegamála nú og 1958 er núv. ríkisstj. stórkostlega í hag. Og þegar að því er fundið, að það skuli ekki vera látið miklu meira til vegamála nú, en gert er, hlýtur að verða spurt að því, hvers vegna ekki var varið nema 83 millj. kr. til vegamálanna 1958. Hvers vegna var það ekki? Ég hélt, að hv. 1. þm. Norðurl. e. þyrfti ekki að spyrja að því. Hann veit það, að þá voru fjárráðin ekki ótakmörkuð frekar en nú.

Nú segir e.t.v. hv. 1. þm. Norðurl. e., eins og hv. 3. þm. Vesturl.: Það á að taka allt, sem inn kemur af umferðinni og láta það til veganna. — Þetta væri mjög æskilegt. En er nokkuð undarlegt, þó að ríkissjóður taki eitthvað til sín af umferðinni nú, eins og hann gerði áður og hefur alltaf gert? Er ekki eðlilegt, að það sé eitthvert samræmi í málflutningnum og að það sé einhver rökvísi, rökhyggja, á bak við það, sem sagt er, sérstaklega þegar um er að ræða reynda þm., sem öll skilyrði hafa til að koma fram af háttvísi og rökvísi og gera það oft? Ég hefði haldið, að það færi miklu betur á því og það er alveg öruggt mál, að það vinnst ekkert til gagns með málflutningi eins og hér er um að ræða. Við erum sammála um það, að vegamálin eru ekki í því lagi, sem þau þurfa að vera. Við erum sammála um það, að það er æskilegt að fá meira fjármagn. Og við erum vitanlega sammála um það, að það ber að stefna að því að fá aukið fjármagn í þessu skyni. En með því að vera með skæting og ónot hver í annars garð, með því að vera með dylgjur um, að það eigi að fara að brjóta lög, eða annað þess konar, það vinnst ekkert á því. Það þarf miklu frekar að reyna að athuga þessi mál með rökum og finna leiðir út úr því, sem við viljum bæta.

Hv. 5. þm. Austf. (LJós), sem oft er prúður í máli, var eitthvað sérstaklega ónotalegur á mánudagskvöldið. Það er nú þannig, að það getur legið misjafnlega vel á mönnum, en ég teldi, að það hefði verið hyggilegt fyrir þennan hv. þm. að láta renna af sér, áður en upp í pontuna var farið, jafna sig, láta renna af sér og koma ekki upp, fyrr en hann hafði kólnað. Þá hefði þessi hv. þm. ekki talað um, að það væri búið að ákveða það, að Austfjarðakjördæmi fengi ekkert út úr flugmálafénu. Þessi hv. þm. fullyrti, að það væri búið að ákveða, að það kæmi ekki eyrir til flugvallar á Austurlandi. Nú er það svo, að flugráð hefur ekki enn gert till. um úthlutun á fénu og því síður, að rn. hafi haft þessi mál til meðferðar. En hvers vegna þá að vera að koma með svona fullyrðingar út í bláinn hér í hv. Alþ.? Og hvers vegna að vera að fullyrða, að það sé ákveðið að brjóta vegalögin, hvers vegna að vera að fullyrða, að það hafi verið ákveðið að pukrast eitthvað með Vestfjarðaáætlunina og þess vegna verði ekki flutt till., sem fellur inn í vegáætlunina? Hvers konar getsakir eru þetta? Ég held satt að segja, að allir hv. þm. hljóti að vera mér sammála um, að það hefði verið betra, hefði runnið af þessum manni, áður en hann talað, runnið af honum, mun einhver segja. Þessi maður drekkur aldrei, og hann finnur aldrei á sér, en samt sem áður hefur hann farið á eitthvert andlegt kenderí og skapið var þannig, að við, sem þekkjum þennan hv. þm. venjulega að góðu dagfari, töldum, að hér væri um umskipting að ræða á þeim mínútum, sem hann var hér í ræðustólnum.

Hv. þm. talaði um Oddsskarð og hann var alveg undrandi yfir því, að það skyldi ekki hafa verið tekið inn í vegáætlunina. Hvað er langt síðan farið var að tala um jarðgöng um Oddsskarð? Það er ekki langt síðan. Og víst er það, að áætlun um jarðgöng í gegnum Oddsskarð er ekki lokið, — áætlun, sem hægt væri að vinna eftir, er ekki lokið og við höfum hér á landi enn sem komið er litla reynslu í því að gera jarðgöng. En vonandi eigum við eftir að gera mörg jarðgöng hér á landi og stytta leiðirnar og gera fjallvegina þannig greiðfærari og ég vil vona, að Austfirðingar og þá sérstaklega Norðfirðingar megi fá göng í gegnum þetta skarð. En ég teldi hyggilegt og það held ég, að verkfræðingar, sem um þessi mál fjalla, telji, að við fáum nokkra reynslu og ljúkum því t.d. að gera jarðgöngin um Stráka, áður en hafizt verður handa um Oddsskarð. Og enn kem ég að því: Hvernig stendur á því, að hv. 5. þm. Austf. hugsaði ekkert um þessi mál, meðan hann var í ríkisstj. og það er ekki nema eitt eða tvö ár síðan hann fór að ræða um jarðgöng í gegnum Oddsskarð hér í hv. Alþ.? Það er æskilegt að gera sem mest á stuttum tíma, en við verðum að játa, að við getum ekki framkvæmt allt í einu.

Hv. 3. þm. Vesturl. (H5) gerði samanburð á vegafé 1957 og nú og komst að raun um það, eins og hann sagði, að vegaféð hefði í rauninni stórminnkað miðað við þann tíma. Ég verð að biðja þennan hv. þm. að reikna betur og reikna rétt og taka aftur þessa fullyrðingu sína, því að það eru staðreyndirnar, sem tala. Tölurnar eru fyrir hendi og sýna það, að vegafé, sem notað verður á þessu ári, hefur hækkað um 300% frá því 1958.

Hv. landsk. þm. Geir Gunnarsson gerði Kópavogsbrautina að umtalsefni og talaði um samkomulag, sem gert hefði verið í sambandi við Kópavoginn, um leið og vegal. voru sett. Mér er ekki alveg ljóst, hvaða samkomulag hann á við. Ég hygg, að það sé þó það, að það hafi verið talað um, að það væru aðeins tveir staðir, sem fengju í fyrstu framlög af kaupstaðafénu, sem sérstaklega er ætlað að bæta úr þar, sem verst stendur á í kaupstöðum, þ. e. af þessu svokallaða 10% gjaldi. Og þegar verið var að afgreiða vegal., var verið með tölur um kostnaðinn við að gera hraðbraut yfir Kópavogshálsinn. Ég man, að það var talað um 25 millj. kr. og það var gert ráð fyrir, að ef Kópavogskaupstaður fengi meiri hl. af þessu fé, sem til fellur vegna kaupstaðanna, gæti það staðið undir láni, vöxtum og afborgunum, sem til þessara framkvæmda þyrfti. En nú hefur verið gerð önnur áætlun um þessa framkvæmd, sem að vísu er ekki endanleg, en hún sýnir allt aðrar upphæðir, milli 80 og 90 millj. kr. Og þá yrði ljóst, ef verkið á að kosta svona mikið, að það eru allt aðrar forsendur fyrir hendi, en áður var. Þess vegna er það, að það hefur verið skipuð n. til þess að athuga, hvaða leið er fram undan, sem væri fær til þess að leysa þessi umferðarvandamál og koma hraðbrautinni gegnum Kópavog, án þess að það taki allt of langan tíma og það verði þá um leið athugað, að hve miklu leyti sanngjarnt er, að Kópavogskaupstaður borgi þetta verk. Í þessari n. eru ráðuneytisstjórinn í samgmrn. og vegamálastjóri og fjórir bæjarfulltrúar úr Kópavogi. Þessi n. mun einnig athuga, hvort ekki er unnt að komast af með lægri upphæð, en sú áætlun bendir til, sem ég áðan nefndi, að hve miklu leyti er hægt að vinna þetta verk í áföngum, að hve miklu leyti er hægt að draga úr kostnaði með því að breyta áætluninni og hvort hugsanlegt er að leysa þetta mál að einhverju leyti með því að dreifa umferðinni, þannig að hún þurfi ekki öll að fara eftir þessari braut. Ég hygg, að það sé skilningur. fyrir því, að þetta er vandamál, sem ekki snertir Kópavogskaupstað einan.

Hv. 1. þm. Vesturl. gerði fsp. um það, hvort meiningin væri, að þau lán, sem tekin hafa verið af sveitarfélögum og enn hafa ekki verið greidd, ættu að greiðast upp, eins og hann orðaði það. Ég get sagt hv. þm., að það var gerð áætlun um það á síðasta ári, að þessi lán yrðu greidd á 2–3 árum. Reyndin varð sú á síðasta ári, að það var meira en þriðji parturinn greiddur, í sumum tilfellum helmingur og ég tel sjálfsagt, að þessi lán verði greidd upp á þessu og næsta ári, þessi eldri lán.

En þá spyr hv. þm. um það. hvort það verði heimilað að taka lán að nýju. Ég vil segja, að það er vitanlega ekkert, sem bannar það og það verður að athugast í hverju tilfelli fyrir sig, hvort það þykir eðlilegt og hagkvæmt að þiggja þannig lán, sem boðin eru fram. Það verður t.d. að athuga það, hvort verk, sem lán er boðið til, sé á vegáætlun og hvort það er öruggt, að það gæti greiðzt á næsta ári eða næstnæsta. Þetta þarf að athug, og það verður að metast og athugast af vegamálastjóra, hvort það er hagkvæmt að gera þetta. Ég tel, að það eigi að fara varlega í þetta. Það er alls ekki loku fyrir það skotið, að það geti átt sér stað og ég tel, að það eigi að meta það eftir því, hvort það er talið eðlilegt og hagkvæmt í hverju tilfelli.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. flutti hér stutta ræðu, en hún gekk út á það að lýsa því yfir, að það væri allt of lítið fé til vega og brúa í hans kjördæmi eins og öðrum og get ég vel fallizt á að það væri æskilegt fyrir hans kjördæmi að fá meira til framkvæmda. En það er með hann eins og aðra hv. þm., að hann verður að gera sér grein fyrir því, að það er ekki fyrst nú. Það hefur verið síðan við komum á hv. Alþ. til starfa og lengur, sem vegaféð hefur verið minna í hverju kjördæmi, en æskilegt hefði mátt telja.

Hv. 1. þm. Austf. kvartaði einnig og flutti ræðu í svipuðum dúr, kvartaði yfir því, að þau lán, sem fyrirhugað væri að taka, væru lítil í Austfjarðakjördæmi, ekki nema ca. 3%, ef allar lánsheimildir væru notaðar. En ég verð nú að minna hv. 1. þm. Austf. á það, að Austfjarðakjördæmi fær nú mikið vega- og brúafé miðað við önnur kjördæmi. Sé miðað við t.d. Austfjarðakjördæmi og Vestfjarðakjördæmi, eru það yfir 70 millj. kr., sem Austfjarðakjördæmi er ætlað samkv. áætluninni, meðan Vestfjarðakjördæmi voru ekki ætlaðar nema rúmar 30 millj., áður en sú till. kom, sem tilheyrir Vestfjarðaáætluninni sérstaklega. Og ég get vel skilið hv. þm. eins og aðra um það, að það væri æskilegt, að þetta væri meira. En miðað við þær fjárveitingar, sem kjördæmið fær miðað við önnur kjördæmi, sé ég ekki, að það sé sérstaklega ástæða fyrir þennan hv. þm. að kvarta.

Ég hef leyft mér að flytja hér eina litla brtt. á þskj. 365. Þessi till. snertir Almannagjá á Þingvöllum. Hún felur það í sér að flytja fjárveitingu frá veginum, sem liggur um Almannagjá yfir á veginn, sem liggur um Leirurnar og inn á nýja veginn um gjárbarminn. Og það verður að líta svo á, að þessi till., ef hún verður samþykkt, sé ákvarðandi um það, að í framtíðinni verði ekki vegur um gjána, heldur aðeins gangstígur. Og ég ætla, að flestir hv. þm. telji það eðlilega ráðstöfun, að þegar nýi vegurinn er nú kominn uppi á gjárbarminum, verði bifreiðaumferð hætt um gjána og þar sem vegurinn er nú um gjána, geti orðið gras og þarna verði gangstígur. Ef till. verður samþ., verður að líta svo á, að hv. alþm. vilji hætta því að hafa bifreiðaumferð um gjána, og teldi ég það vel farið,

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að hafa þessi orð öllu fleiri nú í sambandi við vegáætlunina. Ég hef hér stiklað aðeins á stóru, og ég get verið sammála hv. þm. um það, að vegamálin, samgöngumálin, eru þýðingarmikil. Það er vitað mál, að það þykir ekki verandi á því býli, sem ekki hefur veg og svo er nú komið, sem betur fer, að flest býli á landinu teljast hafa akfæran veg, misjafnlega góða vegi að vísu og lítt færa suma tíma ársins. En þetta hefur nú farið mikið batnandi og vissulega er stefnt í rétta átt. Vegal. hafa markað heilladrjúg spor. Það var rétt gert að semja vegal. Vegal. stefna að bættum vinnubrögðum í vegagerð með því að gera áætlun til nokkurra ára, skapa sér yfirsýn yfir þau verkefni, sem bíða og fram undan eru, taka hvert verk fyrir sig í stærri áföngum en áður og gera það fé, sem til framkvæmdanna er veitt, þannig drýgra. Og það er vitanlega ekki vegal. að þakka, en það er þó í framkvæmdinni þannig, að nú hin síðari árin hefur verið varið mun meira fé til kaupa á vegavinnuvélum, en áður. Og með því að gera það, er stuðlað að því, að það fáist meira fyrir það fé, sem til veganna er veitt, heldur en áður. Vegagerðin hefur lengst af búið við það að hafa slitnar og gamlar vélar, sem hafa verið mjög dýrar í rekstri og endurbætur á þessu sviði eru ákaflega þýðingarmiklar og grundvallarskilyrði fyrir því, að það fé, sem til vegamála er veitt, notist sem bezt. Ég held þess vegna, að þótt hv. alþm. beri fram frómar óskir um aukin fjárframlög til vegamála, og það út af fyrir sig er eðlilegt, sé ekki ástæða til að gera lítið úr setningu vegal. Við hljótum að geta verið sammála um það, að vegal. skapa betri aðstöðu, en áður til bættra vinnubragða og með setningu vegal. hefur framlag til þessara mála verið stóraukið frá því, sem áður var. Því verður ekki á móti mælt. Hins vegar, þegar þörfin er mikil, geta menn verið sammála um, að það væri æskilegt, að meira væri úr að spila. En það er annað mál og sú staðreynd og það viðhorf á ekki að þurfa að vera til þess, að mann hætti að tala um þessi mál á raunhæfan og eðlilegan hátt, en það finnst mér, að sumir hv. alþm. hafi gert, þegar þeir snúa málunum við og reyna að gera það svart, sem er hvítt. Það er ekki leiðin til lausnar á málunum. Ég held, að eðlilegasta og happadrýgsta leiðin hljóti að vera sú að gera sér raunhæfa grein fyrir vandanum. En það hlýtur eðlilega að vera nokkur vandi fyrir okkur Íslendinga, sem búum í þessu stóra og strjálbýla landi, að gera vegina þannig úr garði, að þeir séu svo góðir sem við helzt óskum. Þjóðvegirnir eru á 10. þús. km að lengd og til þess að byggja þá upp og halda þeim vel við hlýtur að þurfa gífurlegt fjármagn. Þess vegna er eðlilegt, að við stefnum að því að auka það fjármagn. sem til vegaframkvæmda verður látið.