01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er í raun og veru afar erfitt að koma hér upp í ræðustól í kvöld, eftir að hafa hlustað á hina ánægjulegu ræðu hæstv. samgmrh., ekki sízt þegar tveir af flokksmönnum hans hafa síðar gengið í ræðustól til þess að þakka hæstv. ráðh. hans ágæti. Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, þó að flokksmenn hæstv. ráðh. þakki honum, þótt fyrir lítið sé, það er þeirra mál.

Hæstv. ráðh. vék að því, að menn ættu að gæta þess í ræðum sínum að vera háttprúðir, tala með hógværð og stillingu, halda sig við málið, hafa samræmi í málflutningi sínum og stefnufestu. Og hæstv. ráðh. hélt sér sjálfsagt við þetta, því að auðvitað hefur hann kunnað að hagnýta sér heilræðin, en ekki bara gefa þau öðrum.

En þrátt fyrir það þó að hæstv. ráðh. sé búinn að vera hér lengi á þingi og við ýmsir búnir að heyra hann halda ræður, bæði sem stjórnarandstæðing og stjórnarstuðningsmann og ráðh., hefur ýmsum hv. þm. ekki tekizt að tileinka sér þá hógværð og háttprýði og stillingu, sem hæstv. ráðh, er lagin og var að tala um, því að hann hafði orð á því, þrátt fyrir það þó að ráðh. vildi ekki fara að nota hér leiðinleg orð, að menn væru hér með dylgjur, geðvonzku, meira að segja jafnvel skæting. Og þetta voru framsóknarmennirnir, sem þannig töluðu. En svo skildi hæstv. ráðh. ekkert í því, að það væri svo komið með formann þingflokks Alþb., að hann væri farinn að skamma ríkisstj., svo að maðurinn hlyti að vera andlega ölvaður, fyrst hann hefði ekki verið það á venjulegan máta. Og hæstv. ráðh. hafði miklar áhyggjur af þessu, að þm. skyldi ekki hafa tekizt að tileinka sér þá háttprýði og hógværð og stillingu, sem honum er lagin. Og hæstv. ráðh. var afskaplega ánægður, þegar hann var hér í ræðustólnum. Það skein út úr honum ánægjan, hvar sem á hann var litið. Og það var ekki einungis, þegar hann var með kennslustundina, heldur einnig þegar hann fór að tala þar fyrir utan. Og nú skal ég segja ykkur, af hverju hæstv. ráðh. var ánægður. Mér finnst af þeim ræðum, sem ég hef hlýtt á hjá hæstv. ráðh., sem eru margar, að hann hafi átt eitt takmark æðst í lífinu og það væri að ná svipuðum árangri og Framsfl. Hann hafði aldrei hugsað sér neitt veglegra en það að geta náð svipuðum árangri og framsóknarmenn hefðu náð og ef hann hefði gert einhvers staðar betur, ljómaði hann allur, því að þá væri hann kominn upp á hæsta tindinn. Og nú hafði svo til tekizt, að það væru fleiri krónur til vegamála, en hefðu verið 1958. Hugsið ykkur, það eru fleiri krónur til vegamála, þegar búið var að skrapsa saman með lánum eftir alls konar leiðum, heldur en hefðu verið hjá Framsókn. Og hæstv. samgmrh. er svo sem ekki eini ráðh. um þetta, því að það er ævinlega takmarkið hjá hæstv. ríkisstj. að lýsa því yfir, að þetta sé ekkert verra hjá þeim, en hefði verið 1958. Og fyrir nokkrum dögum, þegar umr. var um niðurskurð þann, sem boðaður er á fjárveitingum til framkvæmda, lýsti hæstv. forsrh. þessu sama yfir, hann næði svipuðum árangri og náðst hafði 1958. Og þessir hæstv. ráðh. eru ekkert að setja það fyrir sig, þó að margt hafi breytzt síðan, þjóðinni hafi fjölgað á þessu tímabili, veltiár hafi verið síðustu árin meiri, en nokkru sinni fyrr, bifreiðar í landinu hafi meir en tvöfaldazt á þessu tímabili og umferðin þar af leiðandi og fleiri og stærri bifreiðar fari um vegina en áður. Þetta er ekkert frá sjónarmiði hæstv. ráðh., aðeins eitt, að ná nú svipuðu takmarki og Framsókn hafði náð 1958. En svo gleyma hæstv. ráðh. því, þegar þeir vitna í 1958, að forsrh. þeirrar ríkisstj. var ekki ánægðari, en það með framkvæmd í þjóðmálunum, að forsrh. sagði af sér, af því að honum fannst ekki, að það tækist nógu vel um stjórn landsins. En nú, eftir að yfir landið hafa gengið hin mestu góðæri hvert á fætur öðru, eru hæstv. ráðh. mjög ánægðir, ef þeir ná svipuðu takmarki og náð var 1958, en að því ætla ég að koma betur síðar.

Hæstv. ráðh. var að tala um þetta, sem hann var óánægður með, að þm. væru ekki nógu varfærnir, hógværir og háttprúðir, að þeir hefðu sumir verið að halda því fram, að ríkisstj. hefði ætlað sér að brjóta vegal. og það var út af því, að lánsfé til vegagerðar á Vestfjörðum væri ekki eins og hefði komið hér fram í ræðum hv. 3. þm. Vestf. En hvað hefur skeð? Hvenær kom till. um, að vegaféð á Vestfjörðum ætti að vera inni á vegáætluninni? Enginn hlutur var eðlilegri en sá, að mál þetta gengi till fjvn. Alþ. og fengi sömu meðferð frá hendi n. og málið í heild. Það skyldi þó aldrei hafa skeð það, að umr. hér í þinginu hefðu haft þau áhrif á hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj., að það hefði verið breytt um stefnu? Það er nú svo, að þetta mál er meðhöndlað á annan veg, en gert hefur verið með vegáætlunina og þær till., sem þar hafa komið fram.

Hæstv. ríkisstj. sendi þangað brtt. um aðrar lánveitingar til vega, sem hún ætlaði að taka upp og gera að sínum, en þetta varð eftir. Hvers vegna? Eitthvað hefur breytzt.

Þá mun ég snúa mér aftur að því að ræða um samanburðinn frá 1958, sem hæstv. ráðh. hélt sér mjög fast við, eins og þeim hæstv. ráðh. er lagið, það er að líta aftur á bak, en ekki fram á veg, því að það er takmark hæstv. ríkisstj., að þaðan eigi að leita samanburðar og það sé vel, ef þar sé náð hliðstæðu, en betur megi ekki gera. Og hæstv. ráðh. sagði frá því, að nú mundu framlögin til vegamálanna, vegaframkvæmdanna, hækka um 300% frá 1958. Það væri nú ekki lítið að gerast, svo að menn yrðu að taka eftir því, að hæstv. ríkisstj. hefði staðið sig vel. Það var ekki verið að geta þess, að á árinu 1958 var ekki tekið lán af hálfu ríkisins til vegaframkvæmda, eins og nú er gert upp á tugi millj., og þau eru eitt af blómunum úr hnappagatinu hjá hæstv. ríkisstj., lánin til vegaframkvæmda. En svo er annað, sem hæstv. ráðh. vék að og sagði að ég hefði talað um í minni ræðu fyrr við þessa umr. og það voru tekjurnar, sem við hefðum af umferðinni þá og nú. Ég verð að segja hæstv. ráðh. það, að ef við gerum samanburð á þeim tekjustofnum, sem ég nefndi hér, það eru sérskattarnir, benzínskatturinn, þungaskatturinn og leyfisgjöldin, hafa þessar tekjur vegamálanna til ríkissjóðs ekki hækkað um 300%, eins og hæstv. ráðh. talaði um að framkvæmdaféð í vegunum hefði hækkað, eftir að lánsféð var tekið með, heldur hefðu þau hækkað um 700%. Og því er svo við að bæta, að hér eru ekki teknar hinar almennu tolltekjur, sem ríkissjóður hefur af umferðinni í landinu, sem hafa hækkað verulega eða sennilega um álíka upphæð. Hæstv. ráðh. verður að muna það, að hæstv. ríkisstj. hækkaði benzínskattinn 1960 og hann var hækkaður aftur í fyrra og þungaskatturinn einnig og gúmmígjaldið og leyfisgjöldin hækkuðu 1960 og eru hækkuð núna. Það er ekki sama, hvort það er reiknað með því, að ríkissjóður leggi fé umfram tekjur sínar, eins og hann gerði 1958, sem voru 34½ millj, þá, eða hafi fé af þessum tekjustofnum um 100 millj. kr., eins og hann hefur nú. Hér skýtur skökku við og ef dæmið er hreinlega gert upp, er það þannig, að 100 millj. kr. álögurnar, sem við lögðum á þjóðina í fyrra, voru ekki lagðar á vegna umferðarinnar eða vegakerfisins í landinu, heldur sem tekjustofn fyrir ríkissjóð. Og ég held því fram enn og einu sinni enn þá og mun gera það áfram, að það er ekki hægt í okkar lítt vegaða landi að taka svo mikla skatta af umferðinni í landinu, án þess að hún njóti þeirra. Það er ekki hægt að taka sérskattana af umferðinni í ríkissjóð auk tollteknanna. Ef ríkissjóður hefur tolltekjurnar, má hann ekki hafa meiri tekjur af umferðinni, sérskattarnir verða allir og þeir munu, fyrr en seinna ganga allir til umferðarinnar í landinu og ekki verða ríkissjóði tekjustofn. Þessu gleymdi hæstv. ráðh. áðan, þegar hann var að tala um samanburðinn. En það munar nokkru, hvort tekjur ríkissjóðs hafa hækkað um 700% eða ekki.

Og ef við höldum áfram að gera þennan samanburð og förum ekki svo langt aftur að vitna til ársins 1958, heldur tökum þróunina, sem er að verða í vegamálunum síðan vegal. voru sett, þá skulum við gera okkur grein fyrir því, að miðað við árið 1964 sem 100 er fjárveiting til vegamála 1965 ekki nema 91%. 1966 verður hún 89% og hún verður ekki nema 80%, ef niðurskurður á fjárveitingu fjárl. verður sá sami og nú er. 1967 verður hún 91%, en 82% miðað við sama niðurskurð. Og 1968 verður hún 96% og 87% miðað við niðurskurðinn. Þetta er hin ánægjulega þróun í vegamálunum, sem verkaði þannig á hæstv. ráðh., að hann brosti til beggja hliða og fór meira að segja að tala um háttprýði og menn ættu að vera rólegir og halda sig við efnið, sem þessum hæstv. ráðh. er svona hæfilega lagið. En það var bara ánægjan yfir þessari áætlun, sem er svo ekkert annað, en áætlun hinna minnkandi framkvæmda. Þetta er samanburðurinn á framkvæmdunum í þjóðbrautum, landsbrautum og brúm miðað við fjárveitingar. Og hæstv. ráðh. er svona ánægður með, að þróunin skuli ganga í þessa átt.

En það er fleira, sem kemur hér til, því að vegagerðin lét fjvn. í té vísitölu um verðlagið, um notagildi framkvæmdafjárins á þessu áætlunartímabili, sem við ætlum nú að fara að samþykkja. Og ef við miðum þar við árið 1965, við óbreytt verðlag frá því, sem er nú, minnkar framkvæmdamáttur fjárins miðað við 1963, í árslok þá þegar við samþykktum vegal., um 13% til vegagerðar, um 17% rúm til vegaviðhalds og um 20% til brúargerðar. Á sama tíma, sem fjárveitingarnar minnka í heild, minnkar framkvæmdamáttur vegafjárins þannig, að það, sem var 100 í árslok 1963, þegar vegal. voru afgreidd, hefur lækkað um 13%, 17% og 20%. Þannig er þróunin og er ekki að undra, þó að hæstv. ráðh. brosi hér breitt og tali um, að menn eigi að vera hógværir, ekki að vera að finna að því, hvernig þróunin er í þessum málum, er fjárveitingarnar lækka, verðlagið hækkar.

Svo eru þm. nokkuð leiðir og skapvondir. Skelfing er það leiðinlegt, þegar menn kunna ekki að taka hlutunum rétt, eins og hæstv. ráðh. er samt búinn að gefa gott fordæmi um hér í ræðustólnum á áratugum sem þm. og ráðh. En svona eru nú ólukkans staðreyndirnar. Þær segja þetta og þær ganga ráðh. ekki nóg í vil. Og það er ekki undarlegt, þó að hæstv. ráðh. sýndist vera glaður yfir þróuninni, ekki sízt er hann vissi það, að hann hafði fleiri krónur en framsóknarmenn 1958, — hugsið ykkur annað eins, fleiri kr., það var ekki lítill myndarskapur.

En svo er það fleira, sem kemur til. Vegagerðin hefur tekið sig til að reikna út viðhaldskostnað á hvern ekinn km og fer þá allt aftur til ársins 1949 og fram til þess tíma, sem áætlunin nær til. Og nú skulum við heyra, hvað þar stendur. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa þessa skýrslu upp um, hvað vegagerðin segir að kostnaðurinn eða fjárveitingar til viðhalds á hvern ekinn km hafi verið og verði á áætlunartímabilinu og árunum, sem liðin eru frá 1949 og eru árin í röð. Fyrsta árið voru þetta 12.7 aurar, annað árið 11 aurar, þriðja árið 12.9 aurar, fjórða árið 10.9, fimmta árið 13 aurar, sjötta árið 14.3 aurar, sjöunda árið 11.5, áttunda 9.5, á árinu 1958 8.3, 1959 er það 8.1, 1960 7.4, 1961 6.6, 1962 6.8, 1963 6.7, 1964 — takið þið nú eftir — 5.8, 1965 5.8, en mun þó heldur lækka, því að verðlagið hefur breytzt aðeins, 1966 5.7, 1967 5.5 og 1968, í lok áætlunartímabilsins 5.3.

Þetta er þróunin og miðað við árið 1963 lækka þessar fjárveitingar um 20%. Og haldið þið, að það verði ekki mikil ánægja yfir vegaviðhaldinu í landinu, þegar þróunin fer í þessa átt? Á sama tíma fjölgar bifreiðunum svo, að í spádómi vegamálastjórnarinnar er gert ráð fyrir 100% fjölgun þeirra frá 1960–1965. Og bílarnir þyngjast ár frá ári og vöruflutningar á landi fara hraðvaxandi líka ár frá ári. Og ef við gerum samanburð á þessu og við árið 1958, verður lækkunin um 35%. Ekki er nú að undra, þótt hæstv. ráðh. sé ánægður með útkomuna og lýsi því hér á hv. Alþ.

Eitt hefur komið fram í þessum umr. og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. fyrr við þessa umr. og það er sú þróun, sem hefur orðið á síðustu árum um hinar stóru vöruflutningabifreiðar og mikla vöruflutninga á landi. Og það kom fram í ræðu hans, hv. frsm. meiri hl. og hefur komið fram í blaðaskrifum stjórnarsinna, að hér þyrfti að sporna við fótum. Þessi tilvitnun þeirra er af þeim rótum runnin og aðrar þeirra umr. að stefna aftur á bak. Okkar stefna hefur verið sú, að með hverju ári hafa vöruflutningarnir færzt á landleiðirnar. Þeir, sem vörur flytja, vilja þessa þróun og stefna að henni, og hún mun halda áfram. Stærri bifreiðar hafa verið fluttar inn til þess að annast þessa vöruflutninga, til þess að gera þá ódýrari. Þegar við á síðasta ári hækkuðum verulega skatta á þessum bifreiðum, sem og öðrum, var það af því, að við viðurkenndum þessa þróun og þessa stefnu, sem mun verða áfram í framtíðinni. Þess vegna, ef nú ætti að fara að snúa inn á þá braut að herða á þungatakmörkunum, leyfa þessum bílum minni flutninga en áður, verður það sú þróun, sem ekki verður hægt að stöðva. Við verðum að horfa fram á við, en ekki til baka, og hugsun okkar, sem settum vegal., var að horfa fram á við, en ekki að snúa inn á það, sem áður hafði verið. Þegar við tökum svo af umferðinni í landinu, bifreiðunum, eins og við gerum, verðum við að láta fjármunina ganga til vegagerðarinnar, en ekki sem skatt til ríkissjóðs. Það er eðlilegt, að ríkissjóður hafi sínar tolltekjur, en sérskattana á hann ekki að hafa. Og ef við virðum fyrir okkur nánar það, sem er að gerast, er okkur öllum ljóst, að það verður ekki minni kostnaður við vegaframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir í landinu á næstu árum. Þess vegna heldur vegaféð áfram að rýrna, eins og það rýrnaði í höndunum á okkur frá því að vegáætlunin var sett og þangað til við nú erum að afgreiða hana. Eins heldur það áfram að rýrna, meðan hæstv. núv. ríkisstj. situr að völdum og verðbólgustefna hennar fær að leika lausum hala, eins og hún hefur gert.

Við þm. verðum að sameinast um það, eins og við gerðum í árslok 1963, í þeirri góðu von, að við værum þá á réttri leið — við verðum að halda sókninni áfram að því marki að gera samgöngukerfið í landinu betra, svo að vöruflutningar verði ódýrari og landsfólkið eigi léttara með að komast um landið. Þetta er sú stefna, sem við mörkuðum með vegal., þótt það hafi mistekizt að framkvæma hana eins og annað hjá hæstv. ríkisstj. En sókninni verður haldið áfram og umferðin í landinu mun sækja til hæstv. ríkisstj. eða annarra það, sem henni ber, til veganna, en ekki láta það verða eyðslueyri, eins og nú er.