01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2704)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Lúðvík Jósefsson [frh.]:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. forseti er klókur maður. Hann notar tækifærið, meðan nógu margir þm. eru hér enn í sölunum, til þess að ná afbrigðum um þá till., sem ríkisstj. hefur flutt. Hann sýnilega treystir ekki á það, að stjórnarliðið haldi hér lengi út í þessum umr., því að annars hefði vitanlega verið hægt að fá afbrigði fyrir þessum till. síðar. En afbrigðin eru veitt og ég skal nú halda áfram minni ræðu í fullri von um það, að a.m.k. hæstv. ráðh. sem ég vil sérstaklega beina máli mínu til, þrauki hér með okkur áfram, á meðan málið er á dagskrá.

Ég hafði gert grein fyrir því í minni ræðu. þeirri sem hæstv. ráðh. kvartaði sérstaklega undan, að í þessari áætlun væri gert ráð fyrir því, að nýbyggingarfé á næstu 4 árum, bæði til þjóðbrauta og landsbrauta og eins til brúabygginga, ætti að fara lækkandi í krónum talið frá því, sem var á árinu 1964. Ég sagði, að mér þætti þetta óglæsilegt, þegar það hlyti að liggja fyrir öllum hv. þm. sem ljós staðreynd í málinu og þá væntanlega ekki síður hæstv. ráðh., að þörfin fer sífellt vaxandi á auknu fé til vegaframkvæmda og allar líkur benda auðvitað til þess, að við þurfum miklum mun fleiri krónur á næstu árum eða t.d. eftir 4 ár til þess að ná álíka miklum árangri og við höfum þó haft nú á því ári, sem var að líða. Ég benti einnig á, að það væri vitanlega alveg augljóst, hvernig á þessu stæði. Ástæðurnar eru þær, að ríkissjóður leggur alltaf fram sömu fjárhæðina í krónum talið af sinni hálfu til viðbótar því fé, sem vegasjóður á yfir að ráða, til vegagerðarmála og meira að segja gerir ríkissjóður ráð fyrir því að skera niður þetta framlag sitt í krónum talið nú á yfirstandandi ári, 1965. En hins vegar hækka af eðlilegum ástæðum í sífellu framlögin til vegaviðhalds í landinu og til vegamálastjórnarinnar, sem á að undirbúa allar framkvæmdir í þessum efnum. En um leið og fjárhæðirnar hækka til vegaviðhaldsins í landinu, verður af sjálfu sér alltaf minna og minna eftir til þess að leggja í nýframkvæmdir, í nýlagningu vega. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. hafi ekki geðjazt vel að því, að ég lagði á þetta mikla áherzlu, að á þetta litist mér illa og ég undraðist, að það skyldi í rauninni vera til sá ráðh. vegamála á Íslandi, sem vildi leggja fram slíka till, sem þessa um fjögurra, ára áætlun í þessum málum, sem svona væri uppbyggð. Ég dreg það ekkert undan, að ég hafi kannske verið nokkuð byrstur, þegar ég sagði þetta. Það var fyllilega mín meining og er mín meining, að slíkar till. sem þessar í slíku vandamáli eins og vegagerðarmálin eru og eins og þau liggja fyrir, slíkar till. séu hneyksli og ég notaði einmitt það orð. Svo kemur nú eftir nokkra daga hæstv. ráðh. og svarar þessu m.a. Og hvernig svarar hann þessu? Jú fyrst hefur hann mörg og skringileg orð um það, að ég hefði átt að láta renna af mér, að vísu drykki ég aldrei og svo fór hann mörgum orðum um það, hvað á bak við þessa meiningu ætti að vera. En sleppum nú öllu því. Svo komu skýringarnar, þessar sem hann vildi nota sem fullnægjandi skýringar við þessari aths. minni og þær voru þessar: Hvað var nú veitt mikið til vegamála í tíð vinstri stjórnarinnar? Hvað var veitt mikið til vegamála 1958? Er nú ekki þetta, þegar á allt er litið, heldur meira?

Mér kom ekki til hugar og kemur ekki til hugar út af fyrir sig að ræða þessi mál þannig, eins og stundum hefur viljað henda hér, að vera að togast fram og til baka um það, hvað hafi verið lagt mikið til vegamála eða annarra mála fyrir mörgum árum. Ég gæti vitanlega á sama hátt tekið einhverjar fjárveitingar, sem voru bæði til vegamála og annarra mála í fyrri stjórnartíð núv. hæstv. samgmrh., og þá færi ekki ýkjamikið fyrir þeim fjárveitingum. Það, sem máli skiptir vitanlega í þessum efnum, er það, að alþm. í öllum stjórnmálaflokkum höfðu komið sér saman um það í lok ársins 1963 að leggja á umferðina í landinu 100 millj. kr. í nýjum sköttum til þess að þoka þessum málum dálítið betur áfram en áður var, því að allir viðurkenndu það, að fjárveitingar til vega- og brúamála væru orðnar allsendis ónógar. Og þannig skapaðist ákveðinn grundvöllur árið 1964. Því er það, sem ég held mér eingöngu við það. Hver var þessi grundvöllur 1964, sem við fengum þó út úr þessu samkomulagi? Hann var einmitt þessi fjárhæð sem ég hef nefnt. Og þá er bara spurningin: Eigum við að sætta okkur við það, að þannig sé á málunum haldið, að það verði eytt minna fé 1965 til vegagerðarmála heldur en var 1964 og síðan minna fé 1966 heldur en var 1965 og þannig niður eftir? Mér þykir það ekki merkileg frammistaða hjá einum eða neinum að vilja, eins og nú er háttað okkar málefnum í þessum greinum, gera þannig áætlun fram í tímann, sem reiknar með því, að stefnt skuli niður á við allan tímann í þessum efnum og framlögin til nýbyggingar vega skuli fara minnkandi. Það er mín skoðun, að þessi mál séu þannig, að einmitt hafi sú breyting orðið á síðustu árum í starfsemi þjóðarinnar í heild, að það kalli á stórkostlega aukin framlög til samgöngumála yfirleitt. Það er vitanlega ekkert vit í því að ætla að fara að búa sér til einhverja vísitölu í þessum efnum miðað við árið 1958 og sætta sig alltaf við hana. Ég skal taka eitt lítið dæmi, sem ég veit, að hæstv. samgmrh. hlýtur að skilja, því að hann er líka landbrh., jafnvel þó að hann hafi gert sig sekan um það hér í þessum umr. að sýna það, að hann viti ákaflega lítið um vegagerðarmál t.d. á Austurlandi. Árið 1958 var það með öllu óþekkt fyrirbæri á Austurlandi, að það þyrfti að vera að keyra mjólk úr fjarlægum sveitahreppum allt árið um kring til mjólkurbús. Það þurfti því ekkert að brölta þar yfir tiltölulega lélega vegi á viðkvæmasta tíma ársins, þegar verst var um að fara á vegunum. En nú er hins vegar svo komið, að þarna hefur vaxið upp sú atvinnugrein, að hún kallar á þetta og gerir það óhjákvæmilegt. Það verður að umbyggja vegina, það verður að laga vegina, það verður að gera það fært, að hægt sé að koma framleiðsluvörunni á markaðsstað. Það er ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur mörgum öðrum, sem eins stendur á um. Það eru þessar breytingar, sem kalla á það, að það verður að auka fjárframlög til vegagerðarmála og það er ekki fært neinum flokki eða neinni stjórn að koma nú fram með fjögurra ára áætlun, sem miðar bara niður á við. Og það vitanlega dugir ekki fyrir neinn samgmrh. að ætla að vinda sig út úr þessum vanda með því að segja: Framlögin voru ekki meira en 83 millj. til vegagerðarmála 1958. — Og svo vill hann halda því fram, að framlögin nú séu í kringum 340 millj. kr., og ber þá vitanlega saman allsendis ósambærilega hluti. Árið 1958 og fyrr á árum voru allir stjórnmálaflokkar á Íslandi sammála um, að það væru ekki aðstæður til þess eða þætti ekki rétt að fara í erlendar lántökur til að þoka áfram vegamálum í landinu. Og ég man nú ekki annað betur en núv. samgmrh. hæstv. hafi fundið eitthvað að því, að erlendar skuldir landsins væru orðnar of háar í árslok 1958. Nú hafa menn hins vegar breytt hér um stefnu í mjög veigamiklum atriðum og heimilað margvíslegar erlendar lántökur, jafnt til verzlunar sem annarra hluta, sem allir voru á fyrir nokkrum árum, að ekki væru tök á að fara út í. Og nú hefur verið tekið nokkuð af erlendum lánum til þess að ráðast í meiri háttar vegaframkvæmdir, eins og t.d. til Reykjanesbrautar. En þessi fjárhæð, sem veitt hefur verið til Reykjanesbrautar, breytir vitanlega engu um það, hvernig t.d. er ástatt í hinum einstöku kjördæmum, þar sem kallar á þessa auknu fjárveitingu til vegagerðarmála, sem ég hef m.a. verið að minnast á.

Að mínum dómi hefði verið miklu nær fyrir hæstv. samgmrh. í þessum efnum að benda á það, að hann ætti í erfiðleikum með að útvega fjármagn til meiri framkvæmda í þessum efnum og leita m.a. þá eftir samkomulagi við stjórnmálaflokkana um það, eins og gert var í árslok 1983, hvort fyndust einhver sameiginleg ráð til að fá meira fjármagn, vegna þess að hann átti beinlínis að segja sem forustumaður þessara mála: Það er með öllu útilokað að búast við því, að hægt verði að láta þetta fjármagn til vegagerðarmála fara minnkandi á næstu 4 árum. Það verður að finna einhverjar leiðir til þess að auka féð. — Og ef hann hefði svo viljað líta á það, að tekjur ríkissjóðs hafa sannarlega farið vaxandi og tekjur þjóðarinnar hafa farið vaxandi og þetta hvort tveggja gefur tilefni til þess, að það mætti kannske láta nokkru fleiri krónur, en áður var til nauðsynlegustu málefna, — ef hann hefði komið auga á það og rekið sín tryppi dálítið myndarlega í ríkisstj., trúi ég því ekki, að hann hefði ekki getað komið því fram, að hann gæti þó a.m.k. lagt hér fram áætlun, sem hefði farið aðeins upp á við, en ekki niður á við.

Hæstv. ráðh. lét líka þau orð falla hér í ræðu sinni í kvöld, að honum sýndist, að við Austfirðingar þyrftum m.a. ekki að kvarta, því að hann reiknaði það út, að á öllu þessu tímabili mundum við fá í kringum 70 millj. kr. til nýbyggingar vega og til brúargerða. Við þyrftum ekki að kvarta. Annað mál væri það hins vegar, sagði ráðh., að þessir aðalvegir hér út frá Reykjavík, sem ég hafði sagt að væru tvímælalaust þrátt fyrir allt beztu vegirnir á Íslandi og ég viðurkenni fyllilega, að það þarf að gera samt sem áður umbætur á þeim í framtíðinni, en þeir eru eigi að síður langbeztu vegirnir, sem maður fer um í landinu, — hæstv. ráðh. sagði, að á þeim væru oft þvottabretti og önnur ónot fyrir umferðina og af því þyrfti að leggja í það á þessari áætlun að gera ráð fyrir lántökuheimild í þessa vegi upp á 274 millj. kr., á sama tíma sem beinum lánsframboðum til vegagerðarmála á Austurlandi, þar sem ríkisstj. er ekki einu sinni beðin um að útvega lánið, þeim er neitað. Það má ekki einu sinni gera það heimilt samkv. vegagerðaráætluninni að taka við lánum, sem fram hafa verið boðin þar um slóðir til ákveðinna framkvæmda. Því var neitað. Það skal vera óheimilt samkv. vegagerðaráætluninni, að það megi þoka þeim vegum áfram.

Ég held, að þessi ummæli hæstv. ráðh., bæði varðandi vegina hér út frá Reykjavík og aðstöðu okkar t.d. á Austurlandi, beri hreinlega vott um lítinn kunnugleika hans á þessum málum. Hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir þeirri gífurlegu breytingu, sem orðið hefur t.d. núna á síðustu árunum á Austurlandi og kallar á stórkostlegar framkvæmdir, m.a. í samgöngumálum. Og þegar við fáum slíkar viðtökur eins og þær, sem koma fram frá hæstv. ráðh. m.a. í þessari áætlun, sem hér liggur fyrir, er ósköp eðlilegt, að við látum til okkar heyra. Og þegar það ber svo allt upp á sama tíma, eins og ég minntist hér á í ræðu minni á mánudagskvöldið, að við fáum einnig tilkynningu um, að ríkisstj. hafi verið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að skera niður allar áætlaðar framkvæmdir í flugmálum á Austurlandi á þessu ári, þá er ekki nema eðlilegt, að á það sé minnzt. Hæstv. ráðh. reyndi að halda því fram, að þetta væri út í bláinn sagt af mér. Ég tilgreindi heimild mína. En nú hef ég eina nýja til viðbótar í þessum efnum. Það var enginn annar en skrifstofustjórinn sjálfur á flugmálaskrifstofunni, sem gaf mér þessar upplýsingar alveg nákvæmlega, m.a. það um lofaða fjárveitingu eða fjárupphæð til gerðar á flugskýli í Neskaupstað, það yrði ekki hægt að standa við það loforð og það yrði að hætta framkvæmdum þar. Og hann sagði mér einnig, að það yrði ekki um annað að ræða með flugskýlið á Egilsstöðum, en að borga þarf þá skuld, sem á yrði fallin, en um frekari framkvæmdir yrði þar engar að ræða á þessu ári. Og um engar framkvæmdir af þeim, sem ráðgerðar höfðu verið á Vopnafirði, yrði heldur að ræða á þessu ári. Síðan hefur sjálfur flugmálastjóri endurtekið þetta við mig og lýst þessu yfir. En ég vil svo aðeins segja, að það er gott að eiga hauk í horni, ef hæstv. ráðh. vildi nú hafa áhrif á það að breyta þessu. Ég veit, að það er enn í hans valdi. Það væri ágætt. Ég vona, að hann geri það. Þau orð, sem ég lét hér falla á mánudagskvöldið og sýnilega komu nokkuð við hæstv. ráðh., hafa þá kannske haft eitthvað að segja.

Varðandi önnur mál, sem hæstv. ráðh. vék hér að og sérstaklega komu við okkar málefnum á Austurlandi, voru afsakanir hans ósköp svipaðar og í þessu. Hann taldi, að sú ástæða hefði legið til þess, að ekki hefði verið gert ráð fyrir jarðgöngunum á Oddsskarðsvegi, sem undirbúin hafa verið nú um skeið, að þar væri ekki undirbúningi lokið og það væri rétt að sjá, hvernig gengi með jarðgöngin á Strákavegi við Siglufjörð og að þetta væri ekki mjög gamalt mál, að rætt hefði verið um að gera þessa vegarbót þarna fyrir austan. Hæstv. ráðh. veit þó áreiðanlega vel, að jarðfræðilegar athuganir hafa verið gerðar meiri og betri í sambandi við væntanleg jarðgöng á Oddsskarðsvegi, en á nokkrum öðrum stað enn þá hér í landinu. Kunnur brezkur jarðfræðingur hafði kortlagt allt þetta svæði, sem þarna er um að ræða og gert á því mjög nákvæma úttekt og glögga lýsingu, eftir því sem okkar íslenzku jarðfræðingar segja og þær athuganir, sem okkar íslenzku jarðfræðingar hafa síðan framkvæmt þarna og umsagnir, sem þeir hafa látið frá sér fara um málið, eru í þá átt, að þarna hagi alveg sérstaklega vel til, eftir því sem þeir geti bezt fengið séð. Eftir því sem hæstv. ráðh. hefur áður upplýst, voru ekki slíkar upplýsingar fyrir hendi, þegar hann og ríkisstj. voru að gefa sín miklu loforð í sambandi við Strákaveginn á sínum tíma. Þá lá líka dálítið á, það voru kosningar á næsta leiti. Og nú leggur ríkisstj. sjálf fram hér till. um að gerð verði jarðgöng árið 1966 á Breiðadalsheiði fyrir vestan, þar sem alveg liggur fyrir, að hliðstæðar athuganir og farið hafa fram í Oddsskarði hafa þar engar verið gerðar. Það veit hæstv. ráðh. mæta vel. En sem sagt, það þurfti af sérstökum ástæðum að koma fram með þær till. En Oddsskarðsvegurinn og jarðgöngin þar voru bara ekki réttu megin hjá hæstv. ráðh., það ætti hann að viðurkenna, því að það er alltaf bezt í þessum efnum að viðurkenna sannleikann hreinlega. Hann vissi mætavel, að það var brýn þörf á þessu fyrir íbúana á Norðfirði. Hann vissi, að það var mjög mikill áhugi á málinu og hafði verið um langan tíma. Hann vissi einnig, að það voru til staðar peningar til þess að bjóða þar fram sem lán og hann vissi, að allur undirbúningur var þarna kominn lengra áleiðis en annars staðar. En meira að segja í fjögurra ára áætlun mátti ekki gera ráð fyrir því, að ráðizt yrði í þessa framkvæmd — ekki í fjögurra ára áætlun. Og þó að reynt sé að halda því fram, að fyrst sé rétt að ljúka jarðgöngunum á Strákavegi, hefur hæstv. ráðh. sjálfur lýst því yfir, að þeim göngum eigi að ljúka árið 1966. Af hverju mátti þá ekki taka upp Oddsskarðsjarðgöngin 1967 og 1968? Hvers vegna ekki? Ætli hæstv. ráðh. þurfi þá ekki nokkra daga enn þá til þess að hugsa sig um, til þess að finna einhverja útskýringu á því? Ég held, að þessar skýringar, sem hann hefur gefið, séu ekki fullnægjandi.

Í umr. á mánudagskvöldið benti ég á það, að í þeim umr. hefðu komið fram allmerkilegar upplýsingar, þar sem það hafði verið upplýst og í rauninni staðfest þar af allmörgum þm., að ríkisstj. væri búin að útvega ákveðið lán til vegagerðarmála á Vestfjörðum og það væri búið að úthluta þessu fé í tiltekna vegi þar. Og ríkisstj. hefði viðhaft þá aðferð að segja fyrst stjórnarstuðningsmönnum sínum frá þessu, þeir síðar sagt öðrum, en hins vegar hafi ríkisstj. farið þannig að málinu, að hún skágekk Alþ. með þetta allt saman og hún ætlaði að afgreiða vegáætlunina núna að þessu sinni án þess að gera ráð fyrir þessum framkvæmdum á vegáætlun, þó að það væri, eins og ég benti á, alveg tvímælalaus lagaskylda að taka inn á þá áætlun allar ráðgerðar framkvæmdir. Við þetta hafði hæstv. ráðh. þá aths. að gera, að það hefði verið alveg ástæðulaust að vera að dylgja um það, að ríkisstj. hugsaði sér að brjóta l. eða hún væri að leyna einhvern einhverju. Ekkert slíkt hefði staðið til. Hæstv. ráðh. var ekki tilbúinn að gefa sínar yfirlýsingar um þetta, þegar hann var spurður á mánudagskvöldið. Og heldur passar þetta nú allt illa hjá hæstv. ráðh., þegar þess er gætt, að samflokksmenn hans hér á þingi hafa gefið yfirlýsingu um það, að þeim hafi verið sagt frá þessu láni og það ætti ekki að taka þetta inn á vegáætlun. Vill hann ómerkja það, sem hans samflokksmenn segja um þetta? Eða hallar hæstv. ráðh. eitthvað máli á þessum efnum? Ég veitti því líka athygli í umr. í dag, að hæstv. fjmrh., sem hér kom fram og gaf skýrslu um lánin til Vestfjarða og áætlaðar framkvæmdir þar, komst þannig að orði og dró ekkert úr því, að það hefði ekki verið ætlunin að skýra frá þessu núna. Það hefði verið ætlunin að skýra frá þessu seinna, sagði hann. Þingið átti ekkert að fá að vita um það núna. Svo kemur hæstv. samgmrh. og segir: Það var alltaf meiningin að hafa þetta svona. Við ætluðum ekkert að pukra með neitt og smokra neinu fram hjá. — Svona skýringar frá hálfu hæstv. ráðh. duga vitanlega ekki neinum manni, sem lítur raunhæft á þessa hluti. Dæmið liggur alveg augljóst fyrir. Það var ætlunin hjá hæstv. ráðh. og stjórnarliðinu yfirleitt að afgreiða vegáætlunina þessu sinni og skjóta þar undan þeim fjármunum, sem áttu að ganga til vegaframkvæmda á Vestfjörðum á þessu fjögurra ára tímabili og áttu að fást með lánsfé. Það var ætlunin og af því hafa líka verið haldnir langir fundir í stjórnarflokkunum þessa dagana, til þess að komast að þessari niðurstöðu að flytja þá till., sem var verið að útvega afbrigði fyrir á þessum fundi og ákveða þar með að taka upp í vegáætlunina að þessu sinni þessar fjárhæðir.

Það er ekkert nema gott um það að segja, að ríkisstj. hefur tekizt að útvega lán til vegagerðarmála á Vestfjörðum. Ef það lán er tekið með eðlilegum hætti, er ekkert nema gott um það að segja. Því ber að fagna út af fyrir sig. Vestfirðingar eru vel að því komnir að fá þarna nokkurn aukaskammt í sambandi við sín vegagerðarmál. En hitt var með öllu óeðlilegt, að vera að pukra með þetta og vinna að þessu máli á jafnóþingræðislegan hátt sem ríkisstj. hafði gert. Hún hafði ákveðið að taka lán, hafði fengið lánið, búið var að úthluta því í tiltekna vegi, en það átti ekki að upplýsa hér við afgreiðslu vegáætlunarinnar og það átti meira og minna að dylja einstaka þm., hvað þarna hafði verið að fara fram. Ég veit það mætavel, að vitanlega hlaut svo að verða, að þetta sérstaka lán til framkvæmdanna á Vestfjörðum kallaði á það, að einstakir þm. færu að líta enn þá betur eftir því, hvernig væri farið að í þeirra kjördæmum. Og það vekur auðvitað athygli manna að sjá hvernig till. er hagað viðvíkjandi t.d. Austurlandskjördæmi í þessum efnum, þar sem þörfin er álíka mikil og hvernig t.d. farið er með kjördæmi eins og Norðurl. v., þar sem við alþm. almennt höfum álitið, að hagurinn væri hvað lakastur, eins og nú standa sakir.

Nei, ég efast ekkert um það, að ef hæstv. samgmrh. vildi kynna sér af eigin raun viðhorfin í vegagerðarmálunum á Austurlandi og í samgöngumálunum þar almennt, trúi ég því varla, að hann hefði ekki gert aðrar till. en hann hefur gert í sambandi við framkvæmdir þar á næsta fjögurra ára tímabili. Ég held því, að það væri mikil nauðsyn á því að kynna hæstv. ráðh. ástandið þar eystra með einhverjum hætti. Það kann vel að vera, að mér takist ekki með öllu að sannfæra hann, en það væri kannske hægt að hjálpa hæstv. ráðh. um upplýsingar frá einhverjum öðrum, sem þar þekkja til og hann trúir betur. Þar að auki geta menn kynnzt þessu af eigin raun líka, ef þeir vilja leggja sig fram. En alveg sérstaklega með tilliti til lántökuheimilda sýnist mér, að það sé harkalega gengið á hlut okkar Austfirðinga með þessum till.

Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., ef hann vill flokka þær aðfinnslur, sem hér hafa komið fram hjá mér, bæði viðvíkjandi stefnunni í vegagerðarmálunum í landinu sem heild, sem ég hef lagt á aðaláherzlu og eins viðvíkjandi því, hvernig staðið er að málefnum okkar Austfirðinga, undir einhvern skæting og dylgjur og árásir á sig. Það er algerlega rangt að taka það þannig. En það getur enginn vafi leikið á því, að hæstv. ráðh. metur þessa hluti rangt, ef hann heldur, að það sé hægt í rauninni að standa að málunum á þennan hátt.

Það, sem vitanlega er kjarni þessa máls, sem hér hefur verið til umr., er það, að hér liggur nú fyrir áætlunargerð til fjögurra ára, sem alveg óumdeilanlega gerir ráð fyrir því, að fé til nýbyggingarframkvæmda á þjóðvegum fari minnkandi frá ári til árs miðað við það, sem var á s.l. ári. Þetta er höfuðatriði málsins. Annað höfuðatriði er það, að menn hljóta að vera sammála um, að málin horfa þannig við, að það er stórvaxandi þörf fjárframlaga í þessum efnum. Hitt álit ég svo einnig vera alveg ljóst, að það er gengið m.a. á hlut okkar Austfirðinga mjög freklega, einkum varðandi framkvæmdir fyrir lánsfé. Okkar hlutur er þarna stórkostlega fyrir borð borinn. Og þegar litið er síðan á aðstöðuna í öðrum samgöngumálum, er hér verulega illa á málunum haldið. Við vitum, að það er áætlað núna, að flugmálastjórnin hafi til umráða um 22 millj. kr. alls til allra framkvæmda, bæði í sambandi við öryggismál og annað, fyrir allt landið í flugmálum. Um beina fjárveitingu var að ræða upp á 15 millj. kr., og tilkynning hefur borizt um það, að hún á að skerast niður um 20%. Þar fóru 3 millj. Þá var gert ráð fyrir 15 millj. kr. lántökuheimild og það er búið að tilkynna flugmálastjóra, að sú lántökuheimild verði skorin niður um þriðjung eða um 5 millj. kr. og þá eru farnar 8 millj. af fjárveitingunni, sem var ráðgerð samkv. fjárl. Það er því raunverulega um 22 millj. kr. að ræða í sambandi við þessi mál yfir landið allt. Nú er okkur skýrt frá því hér af hæstv. fjmrh., að það sé búið að tryggja Vestfirðingum í sambandi við flugmálaframkvæmdir fé upp á rúml. 30 millj. kr. — ég held 36 millj. kr. — nú á næstu 4 árum. Ég efast ekkert um, að það verður nægilegt pláss fyrir það fé þar um slóðir, til þess að rétta nokkuð þeirra hag í flugsamgöngumálum. En geta menn þá ekki gert sér það í hugarlund, að hin upphæðin geti orðið nokkuð lítil fyrir alla aðra landsmenn, eins og þar er ástatt nú og eins og fjárveitingarnar hafa verið um langan tíma til flugmálanna.

Þegar þessi samgöngumál eru því rædd hér, er ofur eðlilegt, að á þessar staðreyndir sé minnt, að svona er viðhorfið í þessum þýðingarmiklu samgöngumálum. Og ég segi það enn og aftur, sem ég sagði hér á mánudagskvöldið, að okkur Austfirðingum t.d. þykir lítil huggun vera í því, þó að á það sé minnt hér í nál. á Alþ. og síðan sé skrifað um það í stjórnarblöðin, að það þurfi að fjölga lögreglumönnum á þjóðvegunum til þess að koma í veg fyrir það, að flutningabílarnir geti fengið að fara um hina veikbyggðu vegi með jafnmikil þyngsli og þeir fara um nú. Ég er alveg sannfærður um það, að flutningabílarnir, sem nú er farið að nota í stórum stíl, m.a. til vöruflutninga til Austurlandsins, sem var óþekkt fyrirbæri 1958, þeir eru þarna á ferðinni og með þennan varning vegna þess, að það er ekki hægt að koma honum á ákvörðunarstað með öðrum hætti. Það eru framkvæmdirnar, það eru þarfirnar, sem hafa sprengt þetta af sér. Um vöruflutninga t.d. til okkar yfir sumarið er ekki að ræða nema að sáralitlu leyti með skipum. Þá er aðeins eitt gamalt skip í strandferðunum, Esja, því að hitt skipið hefur verið tekið úr strandferðunum og sett í utanlandssiglingar. En hins vegar er athafnalífið á Austurlandi orðið þannig að það kallar á þessa flutninga alveg óhjákvæmilega, og það er eins og ég segi, ég held, að þeir þyrftu að vera æði margir, lögreglumennirnir á vegunum, ef þeir ættu að geta stöðvað þetta. Ég held hins vegar, að rétta leiðin í þessum efnum sé ekki sú að fylkja þarna upp lögreglumönnum til þess að reyna að stöðva þessa umferð, heldur sé rétta leiðin sú að meta þörfina, játa staðreyndir og hækka fjárveitingar til slíkra framkvæmda sem þessara. Enn þá erum við þannig staddir á Austurlandi varðandi vegamálin, að aðalvegur okkar, sem á að tengja okkur við aðra landshluta, þ.e.a.s. aðalvegurinn til Austurlandsins, er enn að meira en hálfu leyti aðeins ruddur vegur og í rauninni ekki hægt að kalla neinn lagðan veg. Því var haldið fram á sínum tíma, að það þyrftu að koma alveg sérstaklega háar og miklar fjárveitingar til þess að gera aðalveginn héðan og norður til Akureyrar. Og það var fallizt á það af öllum, að þetta væri sjálfsagt og það yrði að láta aukafjárveitingu til þess að koma þessum vegi áfram, því að meginvegakerfið, sem öllum landsmönnum kemur við, yrði að takast eins og af óskiptu fé. En þegar kemur að málefnum okkar Austfirðinga og það þarf að tengja okkur á raunhæfan hátt við aðalakvegakerfið, stendur allt kyrrt. Og þá mætum við að mínum dómi fullkomnu skilningsleysi hjá núv. hæstv. samgmrh.

Það er gott, að þeir á Vestfjörðum hafa fengið nokkra úrgreiðslu úr sínum málum. Þeir fengu líka hér, stjórnarþm. af Vestfjörðum, hina hörðustu dembu á s.l. ári. Það var rekið skarpt á eftir þeim og það var greinilegt, að þegar þm. úr stjórnarandstöðunni frá Vestfjarðakjördæmi pískuðu á þá fyrir ári, hvernig ástatt væri með Vestfirði og hvernig farið væri með þá í vegamálunum, leið stjórnarþm. frá Vestfjörðum ekki vel. Það getur vel verið, að þessi vandarhögg, sem þeir fengu þá hafi orðið til þess, að eitthvað gerðist í málefnum þeirra Vestfirðinga. Þeir munu líka vera einir 4, stjórnarstuðningsmennirnir úr Vestfjarðakjördæmi. En það hefur stundum viljað við brenna, að við fáum að heyra það, annaðhvort á beinan eða óbeinan hátt, að við Austfirðingar séum ekki svo miklir stuðningsmenn ríkisstj., að það þurfi ýkjamikið fyrir okkur að gera. En vita mega nú samt sem áður, bæði hæstv. samgmrh. og ríkisstj. sem heild, að það eru þrátt fyrir allt nokkrir stjórnarstuðningsmenn enn til á Austurlandi og það er ekki alveg víst, að það megi bjóða þeim allt. Og þegar gerðar eru alveg sérstakar ráðstafanir til þess að ýta nokkuð myndarlega áfram vissum vegagerðum út frá Reykjavík, m.a. Reykjanesbraut og verja í það miklu fjármagni, og þegar málefnum þeirra Vestfirðinga hefur þokað líka nokkuð áfram, er eðlilegt, að við förum að minna alvarlega á okkur.

Að lokum vil ég segja það, að hæstv. samgmrh. verður að gera sér fulla grein fyrir því, að þær aðfinnslur, sem hér hafa komið fram af hálfu okkar Austfirðinga í þessum efnum, eru á rökum reistar. Hjá okkur er um brýna þörf að ræða og það verður vitanlega ekki látið við það sitja, að hann komi með einhverja almenna útúrsnúninga, þegar að þessum málum er fundið og tali í rauninni út í hött, eins og hann gerði hér fyrr í kvöld. Við verðum að halda áfram, sem hér eigum hlut að máli, þangað til þetta hefur verið barið inn í höfuðið á hæstv. ráðh. og hann hefur skilið málið.