01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við upphaf þessarar umr., sem fram fór 29. marz, sýndi ég fram á að framlögin til þjóðbrauta. landsbrauta og brúargerða samkv. vegáætluninni væru allt of lítil og að óhjákvæmilegt væri að auka við þau. Ég gerði samanburð á framlögum ríkissjóðs til þjóðbrauta, landsbrauta, sýsluvega og brúargerða 1965 samkv. áætluninni og fjárveitingum til þessara framkvæmda samkv. fjárl. fyrir árið 1957. Sá samanburður sýndi, að fjárveitingar frá ríkinu til nefndra framkvæmda eru raunverulega minni nú, en 1957.

Ég hef nú gert nýjan samanburð og að þessu sinni á framlögum ríkisins til þjóðbrauta, landsbrauta, sýsluvega og brúargerða á árunum 1965 og 1958. Framlögin 1965 tek ég eftir vegáætluninni og brtt. fjvn. við hana, en framlögin 1958 eftir ríkisreikningi það ár. Ég hef áður bent á það, að heildartekjur vegasjóðs 1965 eru þannig áætlaðar: Nettótekjur samkv. upphaflegu till. 261.8 millj. og hækkun samkv. till. fjvn. 1.8 millj. Alls eru þetta 263.7 millj. Af þessu er vegna skattanna, sem á voru lagðir 1963, hluti af benzíngjaldi, 1.30 á lítra, 71.8 millj., gúmmígjald og þungaskattur eða hluti af því ca. 15.6 millj. og eftirstöðvar tekna frá 1964 16.7 millj. Þetta eru alls 104.1 millj. Frá ríkissjóði og af eldri tekjustofnum hans koma þá 159.6 millj. Af þessu eru 47 millj, beint framlag úr ríkissjóði, en 112.6 millj. eru sá hluti af sköttunum í vegasjóð, sem áður rann í ríkissjóð. Má því segja, að þessar 159.6 millj. séu framlag frá, ríkinu, þegar samanburður er gerður við fjárveitingar á árunum fyrir gildistöku nýju vegal. Af tekjum vegasjóðs eru þá um 39.5% vegna nýju skattanna, sem á voru lagðir 1963, en 60.5% frá ríkissjóði og af eldri tekjustofnum hans. Ég nefndi hluta nýju skattanna 40% í fyrri ræðu minni, en nákvæmar reiknað er hann um 39.5%.

Verði ákveðinn 20% niðurskurður á framkvæmdafé 1965 og hann látinn ná til vegafjárins, minnkar framlag ríkisins á því ári til vegasjóðs um 9.4 millj., þ.e. um 6% af áðurnefndum 159.6 millj.

Fjárveitingar 1965 samkv. vegáætlun og brtt. fjvn. við hana til þjóðbrauta, landsbrauta og sýsluvegasjóða eru samtals 60.3 millj., þar af vegna skattanna, sem á voru lagðir 1963, og eftirstöðvar frá fyrra ári 39.5%, sem eru 23.8 millj. og þá frá ríkinu 36.5 millj. Ef dreginn er frá þessu væntanlegur niðurskurður, 6%, eru það 2.2 millj. og þá eru eftir 34.3 millj., sem má segja að sé frá ríkissjóði og af eldri tekjustofnum hans. En árið 1958 var varið til nýrra akvega, endurbyggingar þjóðvega og sýsluvega úr ríkissjóði samkv. ríkisreikningi ca. 20.7 millj. kr. Hækkun ríkisframlags 1965 frá árinu 1958 nemur þannig ca. 66%, en vegagerðarkostnaður á því tímabili hefur hækkað um 76.5%.

Hæstv. samgmrh. sagði í ræðu sinni í kvöld, að allir þm. hefðu staðið saman um að samþykkja vegal. 1963. Þetta er rétt hjá honum. En þm. ætluðust áreiðanlega ekki til þess, að ríkisframlög til vegagerða yrðu lækkuð á næstu árum, um leið og þessir nýju skattar voru lagðir á þjóðina, til þess að auka framkvæmdirnar.

Hæstv. ráðh. spurði í sinni ræðu í kvöld: Hvers vegna var ekki varið meiru til vegamála 1958? Ég vil spyrja hæstv, ráðh. aftur á móti: Hvers vegna leggur hann til, að ríkissjóður leggi minna fé til þjóðbrauta, landsbrauta og sýsluvega og til brúargerða 1965, heldur en gert var 1958?

Ef hins vegar fyrirhuguð 20% lækkun á framkvæmdafé fyrir árið 1965 verður ekki látin ná til vegafjárins, reiknast mér svo til, að ríkisframlagið til þjóðbrauta, landsbrauta og sýsluvega verði á þessu ári nákvæmlega jafnmikið og það var árið 1958, miðað við kostnaðarvísitölu í marz þetta ár. En hækki kostnaðurinn enn á þessu ári, rýrnar framlagið að sama skapi. Þetta er því aðeins, að 20% lækkunin nái ekki til vegafjárins og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að láta niðurskurðinn ekki bitna á því. En vitanlega þyrfti framlagið að verða miklu meira nú, en 1958. Bifreiðum hefur fjölgað stórkostlega síðan og umferð um vegina aukizt að sama skapi, en af því leiðir, að þörfin fyrir endurbætur veganna er stórum meiri nú, en áður. Og þó að meira fé sé varið nú, en áður, til nauðsynlegra vega í kaupstöðum og kauptúnum, réttlætir það á engan hátt lækkun á framlögum til þjóðbrauta og landsbrauta í öðrum héruðum.

Fjárveitingar 1965 samkv. vegáætlun og brtt. fjvn. til brúargerða eru alls 31 millj. 250 þús., þar af vegna nýju skattanna og eftirstöðva frá fyrra ári 39.5%, sem gerir 12 millj. 340 þús. og þá frá ríkissjóði og af eldri tekjustofnum hans 18.9 millj. Sé nú dreginn frá þessu þessi væntanlegi niðurskurður, ca. 6%, verða eftir af ríkisframlagi 17 millj. 780 þús. En til brúargerða veitti ríkissjóður árið 1958 samkv. ríkisreikningi 13 millj. 257 þús. kr. Hækkun ríkisframlagsins 1965 frá árinu 1958 nemur þannig rúmlega 34%, en brúargerðakostnaður á þessu tímabili hefur hækkað samkv. vísitölu vegamálaskrifstofunnar um tæplega 94.5%. Þetta eru athyglisverðar tölur, ríkisframlagið hækkar um 34%, en brúargerðakostnaðurinn á sama tíma um 94.5%. Af þessu sést, hversu ríkisframlögin til brúargerða 1965 samkv. áætluninni eru nú stórkostlega miklu minni, en þau voru árið 1958.

Við þennan samanburðarútreikning hef ég að sjálfsögðu sleppt því lánsfé, sem fyrirhugað er að verja til þjóðbrauta og landsbrauta á þessu ári. Það geri ég vegna þess, að þar er alls ekki um ríkisframlag að ræða. Það er ætlun hæstv. ríkisstj. að taka vexti og afborganir af þeim lánum úr vegasjóði og er ráð fyrir því gert í áætluninni, sem hér liggur fyrir. Þær greiðslur verða þannig til þess, að nýjar framkvæmdir verða minni á þessu ári og þeim næstu, en þær mundu annars verða.

Við þá útreikninga, sem ég hef hér gert, miðaði ég við kostnaðarvísitölu vegamálaskrifstofunnar í marz 1965. Fari svo, að sú vísitala hækki enn á þessu ári, sem vel má búast við, veldur það enn meiri lækkun á ríkisframlögunum til vega- og brúargerða. Og samkv. vegáætluninni og brtt. fjvn. er gert ráð fyrir, að framlög til þjóðbrauta og landsbrauta og sýsluvega verði um 4.6 millj. kr. lægri í krónutölu 1966 heldur en 1965. Er það 7–8% lækkun. Þá er einnig gert ráð fyrir, að framlög til brúargerða verði um 3.8 millj. kr. lægri 1966 en 1965 og nemur sú lækkun um 12%. Og vel má búast við, að hækkun á framkvæmdakostnaði skerði þessar fjárveitingar enn meira. Af þessu tel ég það alveg augljóst, að vegáætlunin, sem hér mun áformað af stjórnarflokkunum að afgreiða, er fráleit og óviðunandi með öllu.