01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2707)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeim deilum, sem hér hafa farið fram um það, hvort það hafi verið ætlun ríkisstj. eða ekki að taka inn á vegáætlunina lánsheimild til vegaframkvæmda á Vestfjörðum, man ég nú ekki betur, en sjálfur hæstv. vegamálaráðh. hafi lýst því yfir á fundi í fjvn., að það þyrfti ekki að huga að sérstökum lánsheimildum vegna Vestfjarða, vegna þess að þeim væri ætlað fé annars staðar frá. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram í tilefni af því, sem hérna hefur verið rætt áður.

En í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Reykn. (AJ) í upphafi síðari umr. um vegáætlunina vil ég taka undir það, sem hv. þm. sagði, að það er ánægjulegt, þegar málstaður Kópavogsbæjar hlýtur stuðning við umr. á Alþ. og að því leyti sem ræða hans snerist beint um þarfir Kópavogsbæjar og var stuðningur við þær þarfir, fagna ég þeirri rödd. Hv. þm. vildi halda því fram, að fulltrúar Sjálfstfl. hefðu unnið mjög að því að fá viðurkennda sérstöðu Kópavogs í sambandi við þann þjóðvegakafla, sem um kaupstaðinn liggur og það skal ég alls ekki draga í efa, að þeir hafi gert. En hann hélt því jafnframt fram, að þeir hefðu í því starfi náð góðum árangri, hefðu tryggt bæjarfélaginu einhverjar sérstakar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins. Sjálfstfl. hefur nú farið með ríkisvaldið í undanfarin 6 ár, en ég get ekki komið auga á þær gjafir, sem Kópavogsbúum hafa verið gefnar eða að tekið hafi verið tillit til þess réttar, sem Kópavogsbær hlýtur að eiga í sambandi við vegaframkvæmdir á Kópavogshálsi og fram á annað og meira hafa bæjarbúar þar ekki farið. Og ég býst við, að Kópavogsbúar hafi ekki orðið mikið við það varir fremur en ég. Ástandið hefur versnað með hverju árinu, og ef hv. þm. er eitthvað sérstaklega ánægður með þann árangur, sem um er að ræða í þessu máli, á þeim tíma, sem á undan er genginn, er það heldur vafasamt og óhollt veganesti í þeirri baráttu, sem fram undan er fyrir hagsmunum Kópavogsbæjar, — baráttu, sem ég veit á hinn bóginn, að hann mun heils hugar taka þátt í. Nei, þáttur Sjálfstfl.manna er til þessa helztur sá að hafa fram að þessu talið Kópavogsbæ duga ákvæði vegal., eins og þau eru í dag. Nefndarskipunin nýja bendir hins vegar til þess, að þeim sé nú að verða ljóst, að það er rétt, sem ég hélt fram, þegar vegal. voru samþykkt, að ákvæði þeirra duga ekki og vonandi verður árangur af störfum n. í samræmi við þann nýja skilning.

Ég minnist þess, að þegar hv. 3. þm. Reykn. var að telja upp, hve mikið hafi verið gert fyrir Kópavogsbúa umfram aðra landsmenn, gerði hann mikið úr því, að þeir hefðu fengið aukinn fjölda lögreglumanna til gæzlu á Kópavogshálsi og rétt er það, að lögreglumönnum hefur verið fjölgað þar. En ég kem ekki auga á það, að í því felist aðhlynning að Kópavogsbúum umfram það, sem sjálfsagt er. Ástæðan til fjölgunar lögreglumannanna á þessum slóðum er einfaldlega sú, að þegar Kópavogskaupstaður hlaut veg og vanda af þjóðveginum yfir Kópavogsháls, samtímis því sem umferðaröngþveitið var orðið svo mikið, að bæjarbúar voru í stökustu vandræðum að komast út á eða yfir Hafnarfjarðarveginn, sem er aðalbraut, sáu bæjaryfirvöldin ekki annað ráð vænna, en að setja upp götuvita til þess að hleypa umferðinni á aðalbrautina. Þetta getur hvert bæjarfélag að sjálfsögðu gert á sínum götum. En niðurstaðan varð sú, að vegamálastjórnin sá, að þá mundi sá hnútur, sem umferðin er í á Hafnarfjarðarveginum, herðast fyrir alvöru, þegar umferðin væri stöðvuð um hann, þótt ekki væri nema öðru hverju. Þess vegna var þess óskað, að ekki yrði af uppsetningu þeirra umferðarljósa, sem bærinn var búinn að panta, en í stað þess var því heitið, að á kostnað ríkisins yrði reynt að hafa stjórn á umferðinni á þann hátt að fjölga lögregluþjónum á veginum. Sú ráðstöfun er að sjálfsögðu góð og blessuð. En ég held, að hún gefi naumast mikið tilefni til þess, að Kópavogsbúar, sem eru þó ekki vanþakklátari, en gengur og gerist, hafi uppi mikið þakklætiskvak um svo sjálfsagt mál.

Það verður á engan hátt séð, að Kópavogsbúar hafi orðið þarna fyrir einhverri sérstakri rausn umfram aðra landsmenn. Ef þeir ættu kost á því, hygg ég, að þeir kysu helzt að afþakka umferðarstrauminn, sem beinist þvert í gegnum kaupstað þeirra frá byggðunum á báðar hliðar, jafnvel þótt það kostaði það, að þeir nytu ekki nærveru eins margra lögregluþjóna. Þarna er, eins og hv. 3. þm. Reykn. tók réttilega fram í ræðu sinni fyrir viku, um að ræða umferð, sem Kópavogsbúar hafa ekki minnstu not af, síður en svo. Hún veldur þeim stórfelldum vandræðum og sífelldum lífsháska.

Annars sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um ræðu hv. þm. Þótt ég hafi verið nýbúinn að halda ræðu mína, þegar hann tók til máls, hafði hann rangt eftir það, sem ég sagði og var því mestur hluti ræðu hans vangaveltur um orð, sem ég hafði ekki viðhaft. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að sú ákvörðun hæstv. vegamálaráðh. að skipa nefnd til þess að reyna að komast að niðurstöðu um þátttöku ríkisins í vegaframkvæmdum á Kópavogshálsi væri fyrsta viðurkenningin á því, að um væri að ræða nokkra sérstöðu Kópavogsbæjar umfram aðra kaupstaði, sem þurfa að endurbyggja þjóðvegakafla. Þetta sagði ég aldrei, þótt það mætti að sjálfsögðu til sanns vegar færa, að það hefur ekki mikið borið á henni í vetur. Hitt sagði ég orðrétt um þessa nefndarskipun, eins og hv. þm. getur kynnt sér: „Það er vel farið og ég fagna því, að það spor skuli hafa verið stigið. Það er fyrsta viðurkenningin á því, að sú lausn, sem ráðandi aðilar hafa til þessa talið fullnægjandi, dugir ekki.“ Það er að sjálfsögðu rétt. Fram til þessa hafa ráðandi aðilar talið, þvert gegn því, sem ég hef frá upphafi haldið fram, að sú aðstoð ein, sem vegalögin gera ráð fyrir, gæti dugað til að leysa þetta mál. Nefndarskipunin er því fyrsta viðurkenningin á því, að meira þurfi til, það verður ekki hrakið. Og nú má vænta þess, að málið komist á réttan grundvöll, sem ekki hefur verið fyrir hendi, meðan einungis átti að byggja á ákvæðum vegalaganna, meðan aðeins átti að miða við það, að fjárframlag til vegaframkvæmdanna kæmi af þeim hlut, sem Kópavogsbær fær úr vegasjóði í hlutfalli við íbúatölu og því aukaframlagi, sem hann gæti hlotið skv. lögunum. Ég fagna þessari nefndarskipan og vænti þess, að störf nefndarinnar leiði sem fyrst til jákvæðrar lausnar og veit, að til þess stendur hugur allra. En nú er, eins og ég áður sagði, fyrst grundvöllur til þess, að jákvæð lausn fáist, vegna þess að nú er fengin viðurkenning á því, að sú lausn, sem áður hefur verið talin fullnægjandi, dugir ekki.

Við umr. um vegáætlunina s.l. fimmtudag var það till. mín, að afgreiðslu vegáætlunarinnar yrði frestað, þar til fyrir lægi niðurstaða af viðræðum þeirrar nefndar, sem skipuð hefur verið til þess að fjalla um fjárhagsgrundvöll fyrir vegaframkvæmdum um Kópavogsháls. Af frestun á afgreiðslu áætlunarinnar af þessum sökum verður sýnilega ekki. En ég lagði enn fremur til, að ef svo færi, að vegáætlunin yrði afgreidd nú og ekkert lægi frekar fyrir um lausn á þessu mesta umferðarvandamáli, sem við er að stríða í öllu landinu, yrði gert ráð fyrir heimild til lántöku til þess að fullnægja þeim kvöðum, sem samkomulag yrði um í þeirri nefnd, sem fjallar um málið, að ríkið tæki á sig vegna vegaframkvæmda á Kópavogshálsi. Ég vil því leggja fram svofellda brtt., sem ég flyt ásamt hv. 5. og hv. 4. þm. Reykn. við brtt. fjvn. við vegáætlunina um heimild til lántöku til þjóðbrauta. Till. er svo hljóðandi, hún er við 13. lið:

Brtt. við brtt. á þskj. 348. Frá Geir Gunnarssyni, Gils Guðmundssyni og Jóni Skaftasyni. Við 13. lið I. Hraðbrautir. 3. liður orðist svo: Hafnarfjarðarvegur: a) Kópavogur- Engidalur (sem er óbreytt) 1967 17.5 millj., 1968 7.5 millj. b) Kópavogsháls 1965 35 millj., 1966 35 millj.“

Þessi till, felur í sér, að í stað þess að heimila aðeins lántöku til framkvæmda við Hafnarfjarðarveg frá Kópavogi að Engidal, þá verði einnig gert ráð fyrir lántöku til framkvæmda á Kópavogshálsi á árunum 1965–1968. Ef þessi upphæð, sem fram er tekin, dugir ekki, kemur það til athugunar við endurskoðun vegáætlunarinnar eftir 2 ár og ef hún er of há þarf auðvitað ekki að nota þessa heimild að fullu. Þessi brtt. er skrifleg og of seint fram komin og vil ég því biðja hæstv. forseta að leita afbrigða, til þess að hún megi koma fyrir.

En ég vil að síðustu, fyrst ég er kominn hérna í ræðustólinn á annað borð, nota tækifærið og beina þeim tilmælum til hæstv. vegamálaráðh., að hann beiti áhrifum sínum til þess, að vegagerðin hefji nú þegar viðgerð á Hafnarfjarðarvegi. Ég hef ekki séð þess nein merki, að á þessi mál væri litið, en vegurinn er í svo hörmulegu ástandi eftir veturinn, að hann er nánast ókeyrandi. Hann er að verða eins slæmur og stórskemmdur malbikaður vegur getur verstur orði, og er þá mikið sagst. Bílar verða að aka eftir veginum eins og þeir væru í svigkeppni til þess að forðast holur, sem gætu stórskemmt farartæki. Ég held, að allir, sem fara um þennan veg, séu orðnir æði undrandi á því, hve lengi hefur dregizt, að hafizt væri handa um óhjákvæmilegar viðgerðir á veginum. Það verður að aka þennan veg um allnokkurt skeið, án þess að hann verði endurbyggður og það er óþolandi til lengdar, að hann sé í svo slæmu ástandi sem nú, án þess að nokkuð sé að gert. Það hefur verið kvartað um þetta við vegamálaskrifstofuna, án þess að nokkur árangur sé sýnilegur, og ég vil sem sagt beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. vegamálaráðh., að hann láti þetta mál til sín taka og beiti áhrifum sínum til þess, að hafizt verði handa nú þegar um viðgerðir á Hafnarfjarðarveginum.