01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2708)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en það er aðeins út af ræðu hv. 3. þm. Vestf. (SE), sem ég vildi segja hér nokkur orð. Hv. þm. virtist vera mjög hissa á því, að ég skyldi í minni ræðu í dag hafa verið með aðfinnslur í hans garð út af þeirri ræðu, sem hann flutti hér s.l. mánudagskvöld og bætti því við, að hann hefði hælt mér það mikið, að hann hefði ekki búizt við þessu. Víst er nú alltaf lofið gott. En ég held, að ég gæti undir öðrum kringumstæðum hælt Sigurvin fyrir eitthvað annað, þó að ég vilji ekki, að hann skuldbindi sig til þess að mega aldrei gagnrýna mig, ef ég færi svolítið úrskeiðis og hann teldi sig hafa ástæðu til þess. Mín gagnrýni við hann beindist eingöngu að þætti þessa vegamáls hér, sérstaklega meðal okkar þm. í Vestfjarðakjördæmi og síðan í sambandi við brtt., sem hann er fyrsti flm. að og hafði framsögu fyrir. Hann sagði einnig, að ég hefði talið, að hann hefði dregið upp of dökka mynd af ástandi vega á Vestfjörðum og spurði mig að því, hvort mér fyndust vegirnir góðir á Vestfjörðum. Nei, síður en svo. Það eru margir vegir mjög slæmir á Vestfjörðum. En það er líka eitt, sem við verðum alltaf að muna eftir. Það hefur líka verið gert mikið og við erum hrifnir af nýjustu vegum, sem hafa verið lagðir á Vestfjörðum og við megum ekki alltaf gleyma því, sem vel er gert og alltaf tala um það, sem er ógert eða hefur verið illa gert. En það, sem ég nefndi í þessu sambandi, var það, að ég taldi hann hafa dregið upp of dökka mynd af því, hvað ætti eftir að leggja mikið af vegum í Vestfjarðakjördæmi og sagði það í minni ræðu, að ég teldi, að hann ætti um leið að taka tillit til þess, hvað mikið af vegum væri enn í þjóðvegatölu um svæði, þar sem engin byggð er og nefndi í því sambandi ytri hluta Snæfjallahrepps, Jökulfirði og Aðalvíkurveg, þar sem byggð hefur ekki verið nú í fjöldamörg ár. Og sömuleiðis gerði ég nokkrar athugasemdir í sambandi við tölu um ár, sem væru óbrúaðar og færði þar fram þessa sömu athugasemd og ég geri nú um vegina.

Hann minntist á það, að Sjálfstfl. hefði verið óslitið í stjórn frá 1944–56, eða í 22 ár. Ég fæ ekki nema 12 ár út úr þessu tímabili. Það getur vel verið, að hv. þm. hafi leiðzt svo á þessum árum, vegna þess að Sjálfstfl. var í stjórn, að þetta gildi hann sama og 22 ár og það skiptir þá engu máli. (Gripið fram í.) Já það er það. Þá er ég alveg með á hlutunum. En hins vegar hefði það nú átt að vera honum nokkur huggun harmi gegn, að Framsfl. sat í stjórn þetta sama tímabíl að verulegu leyti, eða frá 1946–56, að nokkrum mánuðum undanskildum árið 1950 og það hefðu kannske ekki átt að þurfa að verða þess vegna 22 ár út úr þessu.

Hv. þm. spurði að því, hvort við vildum svara því, hvort það væri rétt eftir haft, að við þm. stjórnarliðsins og þá alveg sérstaklega ég, að mér skildist, hafi ljóstrað upp óskaplegu leyndarmáli og ég hafi átt að fá bágt fyrir hjá ríkisstj., að við hefðum sagt það á þessum sameiginlega fundi Vestfjarðaþm., að það ætti ekki að taka framkvæmdaféð inn í vegáætlunina. Ég hygg, að hér sé um algeran misskilning að ræða og vil alls ekki væna hv. þm. um það að fara vísvitandi með rangt mál. En hér er um algeran misskilning að ræða, því að það kom einmitt fram, að mig minnir einmitt sérstaklega frá þessum hv. þm., hvort það ætti ekki að taka þetta framkvæmdaáætlunarfé inn í vegáætlunina og við svöruðum því, að það væri í athugun, hvort vegafé á framkvæmdaáætlun verði tekið inn í vegáætlun, og ef það væri nauðsynlegt, yrði það vafalaust gert. En um það gátum við ekki fullyrt á því stigi málsins, því að það var auðvitað algjörlega í höndum ríkisstj., hvort það yrði gert eða ekki og ég vænti þess, að aðrir þm., sem voru á þessum fundi, geti staðfest, að hér sé rétt frá skýrt.

Hv. þm. spurði að því, hvort búið væri að draga niðurskurðinn frá þessari framkvæmdaáætlun. Ég verð nú að segja hv. þm. það, að mér finnst þetta að vísu nokkuð furðuleg spurning, því að hann veit, að það verður ekki um neinn niðurskurð að ræða á þessari framkvæmdaáætlun. Það eina, sem hægt er að kalla niðurskurð, er framlag ríkisins á fjárl., sem er 47 millj. kr. á árinu 1965 og það gildir 9.4 millj. um allt vegafé landsins á þessu ári og það yrði tiltölulega mjög lítil upphæð af því fé, sem veitt er til vegagerða á Vestfjörðum á vegáætlun.

Fjmrh. gat þess hér í dag, þegar hann flutti skýrslu ríkisstj. um þetta mál, að þessi framkvæmdaáætlun væri upp á 171.6 millj., þar af væri ætlað til flugvalla 32.1 millj., til hafnargerða 71.8 millj. og til vegamála 67.7 millj. kr. Hv. þm. gerði töluvert úr því, að það skiptist ekki alveg jafnt vegaféð á framkvæmdaáætluninni og það hlypi mjög upp árið 1967 og meðflm. hans, hv. 5. þm. Vestf., var fljótur að finna ástæðuna og sagði, að það væri vegna þess, að þá væri hlaupár. Samtals er framkvæmdaáætlunin eða lántakan 86 millj. kr. og ég get huggað báða þessa hv. þm. með því, að framkvæmdaláninu verður skipt alveg nákvæmlega jafnt á árin í heild til þessara þriggja þátta samgangna, til vega, hafna og flugvalla, eða 21.5 millj. kr. á ári, enda kom það í raun og veru skýrt fram í ræðu hæstv. fjmrh. í dag. Hins vegar er þetta ekki alveg jafnt á milli ára innan sama þáttar, þannig að vegamálin eru meiri árið 1967, en mismunandi svo aftur á móti í hafnarmálum og flugmálum, en í heild kemur þetta alveg jafnt út, og ég hygg, að það komi alveg út á eitt fyrir okkur Vestfirðinga og enginn þurfi að hafa áhyggjur af þessu.

Hv. þm. kom inn á það, að ég hefði furðað mig á því í dag í minni ræðu, að hann og meðflm. hans að brtt. hafi flutt till. um að leggja niður fjárveitingar til einstakra vega, en aftur tekið upp miklu hærri till. um fjárveitingar til annarra vega í Vestfjarðakjördæmi. Ég lýsti því hér yfir í dag, að þessu væri ekki þannig varið hjá hv. flm. þessarar brtt. og skal ég því til sönnunar sýna þeim fram á, ef þeir hafa ekki skilið þessa hluti enn þá, að þeir leggja til, að niður falli framlag til Vestfjarðavegar, 800 þús. kr. sunnan Þingmannaheiðar, Breiðadalsheiðarvegar 620 þús.og til landsbrauta: Bolungarvíkurvegar 500 þús., Djúpvegar 1.700 þús. og Strandavegar 965 þús., eða samtals 4 millj. 585 þús. árið 1965 og til sömu vega samtals 4 millj. 770 þús. kr. árið 1966. Þetta gerir sama sem 9 millj. 355 þús. kr., sem þeir leggja til að falli úr till. fjvn. Síðan koma þeir aftur með till. um ýmsa nýja vegi og hækkun á ýmsum liðum til vega í kjördæminu og þær till. nema brúttó 10.350 þús., en í þeirri tölu eru inni í vegáætluninni 1.257 þús. kr., svo að raunverulegar hækkanir á till. þeirra nema 9 millj. 93 þús. kr. M. ö. o.: þeir leggja til, að niður falli framlög úr brtt. fjvn. að upphæð 9 millj. 355 þús., en leggja aftur til, að ýmsir liðir hækki og nýir liðir verði teknir inn að upphæð 9 millj. 93 þús. kr. Hér er um að ræða lækkun á framlagi til vegagerða á Vestf jörðum á vegáætlun upp á 262 þús. kr. (Gripið fram í: En lánið?) Lánið, þetta er það, sem við eigum að fá af því fé, sem núna er verið að sundurliða og ráðstafa til fjögurra ára. Auðvitað viljum við fá sem mest, og það skildist mér á ræðu hv. þm. hér s.l. mánudag, að honum fannst þessi upphæð of lág. En svo kemur hann til og lækkar þessa upphæð, en þeir flytja aftur miklu hærri till. um lántökur til þessara vega. Ég hefði viljað fá enn meira af sjálfri vegáætluninni og tiltölulega minna af lánsfé og það höfum við allir viljað. Hins vegar er hér um að ræða, að öll kjördæmi telja sig afskipt í sambandi við skiptingu á vegafé. En það finnst mér koma úr hörðustu átt, þegar þeir, sem segjast vera óánægðastir allra, leggja svo til, að þetta framlag af vegáætlun lækki frá því, sem fjvn. er búin að skipta.

Hitt finnst mér, eins og ég sagði í dag, undrum sæta, að eftir að við stjórnarsinnar á Vestfjörðum erum búnir að gefa hv. þm. stjórnarandstöðunnar úr þessu kjördæmi yfirlit yfir þessa framkvæmdaáætlun og sýna þar fram á, að framkvæmdaáætlunin sé miðuð við það, að 50% af henni komi í framlögum frá ríkinu, t.d. framlög vegamála á vegáætlun, þá skuli þó verið að spyrja að því hér í kvöld, hvort þetta eigi að koma með venjulegum hætti, eins og hv. þm. spurði um. Mér finnst hann vera orðinn lítið eftirtektarsamur, blessaður vinurinn, að spyrja að þessu, sem er búið að margsegja honum. Við vitum það líka og við sögðum frá því, að í framlagi til hafnargerða kemur auðvitað mótframlag með eðlilegum hætti og það veit þessi hv. þm., eins og auðvitað allir þm., að ríkið greiðir 40% til hafnargerða og það kemur auðvitað á móti og svo 10% aftur frá þeim, sem hafnirnar byggja, sem eru sveitarfélögin. Í framlagi til flugvalla kemur auðvitað á fjárl. ríkisins til flugvalla þetta framlag á móti framkvæmdaáætluninni.

Þess vegna er það, eins og ég sagði í dag, algerlega út í hött að taka það framlag, sem á að vera vegafé á þessi svæði, sem framkvæmdaáætlunin leggur til og leggja til, að það verði tekið út úr framkvæmdaáætlun og lán tekið 100%, þegar fyrir liggur, að lán er fengið fyrir 50% af heildarframkvæmdaáætlun og við það verður að sitja og hélt ég, að allir þm. Vestf. væru hæstánægðir með þá afgreiðslu. Þess vegna hélt ég því jafnvel fram í dag, að þessi till. væri að verulegu leyti byggð á fljótfærni hjá hv. flm.

Ég kom líka inn á nokkur atriði í þessum till., sem ég taldi vera alveg ástæðulaus, eins og að fara að leggja til framlag í 4 vegi núna á milli Strandasýslu og Barðastrandarsýslu. Hins vegar er ég því alveg sammála, og mér þykir það mjög miður, að það skuli ekki vera hægt að leggja fram fé til að gera einn veg á milli þessara sýslna. En hitt tel ég algerlega vera ofrausn, á sama tíma og jafnmikið er ógert í okkar vegamálum og finnst mér þó vitlausast af öllu vitlausu að leggja til, að 700 þús. kr. verði á næstu 2 árum varið í svokallaðan Kollabúðaheiðarveg, sem ég veit ekki til, að nokkur Vestfirðingur hafi áhuga á a.m.k. meðan ekki er lengra komið að leggja byggðavegi. Sömuleiðis gerði ég athugasemd við eina brtt., sem hv. þm. svaraði nú engu og spurði, hvernig á því stæði, að þeir tækju fram í sínum brtt. framlag til Strandavegar í Bæjahreppi af þjóðbrautafé, sem er auðvitað alveg rétt og svo kemur aftur Strandavegur í Bæjahreppi af landsbrautafé, að vísu ekki með sömu tölu. Þetta skil ég ekki enn þá og hef enga skýringu fengið á því hjá hv. 1. flm. þessarar till.

Annars hygg ég, að það sé lítið fengið með því að vera að pexa meira um þessi mál, því að við megum vera mjög ánægðir með úrslit þessara mála, við Vestfirðingarnir. Og ég veit, að hv. þm. stjórnarandstöðunnar eru í hjarta sínu ánægðir með þessa lausn mála, því að ég efast ekki um það, að þeir vilja alveg eins og við, að framkvæmdir verði sem mestar í okkar kjördæmi og þetta er í fyrsta skipti, sem við sjáum hilla undir, að hægt sé að gera stórátök í þessum málum, bæði hvað snertir vegagerðir, hafnargerðir og flugvelli. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel, að ríkisstj. hafi gert mjög vel í þessu máli og sýnt Vestfirðingum mikinn og góðan skilning og ég er ekkert hissa á því um framkvæmd þeirrar þáltill., sem flutt var af fyrrv. þm. Vestf., Gísla Jónssyni og Kjartani J. Jóhannssyni, seint á þingi 1963, þó að það hafi tekið nokkurn tíma að vinna úr henni. Og enn þá er eftir að vinna að öðrum hlutum þeirrar framkvæmdaáætlunar, sem Framkvæmdabankanum var falið og ýmsir embættismenn eru að vinna að og ef útkoman úr þeim þætti, sem enn er ólokið, verður á sama hátt og útkoman í samgöngumálum hefur orðið, þá verð ég mjög ánægður með þau málalok, og ég veit, að það verða allir þm. Vestf. og Vestfirðingar í heild.