18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

106. mál, söluskattur

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein atriði, sem mig langaði til að hafa orð á í sambandi við þetta mál. Ég þykist hafa hlerað það síðustu daga, að stjórnarliðið muni ekki vera meira en svo ánægt með sig í þessu máli, það muni ekki beinlínis vera hreykið af flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir. Mig undrar það í rauninni ekki. Og þá er það enn síður undrunarefni, að stjórnarandstaðan skuli vera lítt hrifin af þessu afkvæmi hæstv. ríkisstj. Í forustugrein Alþýðublaðsins í gær er vikið að þessu frv., og sú grein ber það sýnilega með sér, áð blaðið er síður en svo hreykið af þessari lausn vandans. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Allar eru þessar ráðstafanir, ásamt afgreiðslu fjárlaga með miklum hækkunum, því markinu brenndar, að þær auka frekar en minnka hættu á nýrri verðbólgu. Verður óhjákvæmilegt fyrir ríkisstj. að taka fljótlega upp víðtækar viðræður við launþegasamtökin og leita að nýju samkomulagi, sem forði þjóðinni frá nýrri verðbólguöldu.“

Hér er sem sagt stungið upp á því, að leitað verði á ný til verkalýðshreyfingarinnar og hún beðin um að bjarga málunum fyrir hæstv. ríkisstj. Í þessu sambandi langar mig sérstaklega til að beina þeim orðum, þeirri spurningu til hv. þdm. úr flokki Alþfl., hvers vegna var ekki leitað til verkalýðshreyfingarinnar, áður en þetta frv. var borið fram. Því var ekki leitað samráðs við alla þá aðila, sem að júnísamkomulaginu stóðu? Það er vitað mál, að þetta frv. kemur eins og þjófur á nóttu, verkalýðshreyfingunni a.m.k. og öðrum launþegasamtökum algerlega að óvörum. Eins og í pottinn er búið, eftir að samkomulagið var gert í júní s.l., hefði það óneitanlega verið sanngjarnt, að hæstv. ríkisstj. hefði borið þetta mál undir viðkomandi launþegasamtök, áður en frv. var lagt fram á þinginu. En þetta var ekki gert. Hæstv. ríkisstj. tók til sinna ráða, valdi þá leið, sem hún kaus helzt af einhverjum ástæðum, án þess að ráðfæra sig við launþegasamtök. Svo er talað um á eftir, að nauðsynlegt sé að leita á ný til verkalýðshreyfingarinnar um samning til þess að reyna að firra þeirri verðbólguöldu, sem hæstv. ríkisstj. er nú vitandi vits að magna.

Ég er meðal þeirra, sem líta svo á, að með þessu frv. orðnu að lögum hafi ríkisstj. brugðizt siðferðilegri skyldu sinni og skuldbindingum, sem hún tók sér á herðar 5. júní s.l. með samkomulaginu við atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna. Hún tekur það upp á sitt eindæmi að flytja mál, sem leiðir til verðbólgu. En aðalmarkmið viðræðnanna í júní s.l. var einmitt að stöðva verðbólguna. Hvað sem líður orðalagi samkomulagsins, lít ég svo á, að hún sé siðferðilega að bregðast skyldu sinni í sambandi við þetta samkomulag. En það er ekkí í fyrsta sinn, sem þessi hæstv. ríkisstj. fer sínu fram. Hún hefur áður borið ýmislegt á borð hér á Alþ. og haft það fram allajafna, með þeirri einu undantekningu, sem gerðist á síðasta þingi, í nóv. 1963, þegar hún guggnaði á lagasetningu um kaupbindingu og bann við verkföllum.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn. hér í dag. Ég gerði ráð fyrir því fyrir fram, að ég mundi nokkuð geta af ræðu þessa hv. þm. markað afstöðu hans til málsins, og ég verð að segja, að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Hann markaði afstöðu sína í ræðunni, en þó miklu frekar með þeim orðum, sem hann sagði ekki, heldur en þeim, sem hann lét sér um munn fara. Ræða hans var á mjög breiðum grundvelli, en lítt tekið á einstökum málum, sem hér hafa verið rædd, sérstaklega af stjórnarandstöðunni. Hann tók þó fram í byrjun ræðu sinnar, að stjórnarandstaðan væri búin að hafa mörg og stór orð um þetta frv. og að hún hefði fullyrt mikið í þá átt að fordæma frv. og efni þess. Þess vegna hefði mátt búast við, að frsm. hv. meiri hl. hefði snúizt til varnar, tekið það, sem stjórnarandstaðan gagnrýndi, lið fyrir lið og hrakið það. En þetta láðist hv. frsm. meiri hl. að gera. Hann talaði vítt og breitt um dýrtíðarmál og efnahagsmál, en kom lítið inn á þá gagnrýni, sem fram hefur komið í sambandi við þetta frv. sérstaklega.

Þessi hv. þm. gat þess, að stjórnarandstaðan hefði ekki gert hér neina tilraun til að styðja gagnrýni sína með tölum að þessu sinni. Þar átti hann við, að stjórnarandstaðan hefði ekki látið uppi tölur um, hve mikil kjaraskerðingin yrði af völdum þessarar hækkunar á söluskattinum. Þetta er alveg rétt. En það er ekki þetta fyrst og fremst, sem gagnrýnt hefur verið í sambandi við frv., heldur er það fyrst og fremst það, að með þessari hækkun á söluskattinum eru allar líkur á, að verðbólguhjólið verði sett í gang á ný. Það er þetta, sem við í stjórnarandstöðunni leggjum megináherzlu á í gagnrýni okkar og vörum við. Við óttumst, að hækkun söluskattsins verði til þess á næstu mánuðum eða missirum að opna á ný flóðgáttir nýrrar verðbólgu. Þetta hafa hv. stjórnarsinnar ekki reynt að hrekja, enda er þeim ljóst, að hér er hætta á ferðum, og þeir viðurkenna það.

Þá varpaði hv. frsm, meiri hl. fram þessum spurningum í sambandi við hækkun söluskattsins, hann spurði: Er þessa þörf, koma ekki aðrar leiðir til greina? — Og hann svaraði sjálfum sér, að ef einhver héldi, að ekki væri þörf neinna aðgerða, eins og virtist koma fram hjá stjórnarandstæðingum, þá stangaðist það á við staðreyndir. Ég vil hafa orð á þessu, af því að hv. frsm. er skýr maður og glöggur og sanngjarn í sínum dómum. Hann veit það eins vel og ég, að til lausnar á þessum vanda voru til og eru til ýmsar leiðir, svo að ég segi ekki margar leiðir, og við stjórnarandstæðingar teljum, að þetta, hækkun söluskattsins um 300 millj. eða meira, sé ein af þeim leiðum, sem sízt hefði átt að velja.

Þá fór hv. frsm. nokkuð inn á almennar bollaleggingar um það að fella niður alla tolla og skatta og taka í þess stað bara lán í Seðlabankanum. Ég veit ekki með vissu, hvaða tilefni hann taldi sér gefast með þessum bollaleggingum, en ég er viss um það, að enginn hv. alþm. hefur látið sér detta það í hug í sambandi við þetta mál, að fella ætti niður alla tolla og skatta. Það er síður en svo, að við í stjórnarandstöðunni ætlumst til þess eða leggjum það til. Við teljum tolla og skatta nauðsynlega, og við teljum, að þá verði að hafa háa, til þess að unnt sé að veita almenningi sem mesta þjónustu. En það er annað, sem við látum orð falla um í sambandi við hækkun á söluskattinum. Það er, að það er ekki sama, hvernig tollar og skattar eru á lagðir, og það er ekki heldur sama um skattformið. Og við erum margir á því hér á hinu háa Alþ., að söluskatturinn sé eitt það ranglátasta og varhugaverðasta form á sköttum, sem til er. Ég er þeirrar skoðunar, og ég hygg, að hv. frsm. meiri hl. sé líka þeirrar skoðunar.

Þá ræddi hv. frsm. meiri hl. nokkuð um það, og það ekki alveg án fyrirlitningar, að taka upp aftur haftakerfið gamla. Auðvitað mætti gera það, ef þess væri óskað af meiri hl. Hv. stjórnarsinnar hafa hrósað sér af því, að þeir hafi afnumið haftakerfið. Ég efast um, að það sé heilagur sannleikur. En hvað gera þeir í staðinn? Í staðinn fyrir að innleiða höft á innfluttum vörum leitast þeir við að taka peningana af almenningi, svo að hann geti ekki keypt nema takmarkað magn af innfluttum vörum. Þetta eru þeirra höft. Það eru líka höft.

Hv. frsm. talaði. lítillega um aðrar tekjuöflunarleiðir, sem kæmu til greina. Hann nefndi hækkun tolla á lúxusvörum, og hann nefndi eitthvað fleira. En ósköp var sú upptalning fátækleg hjá honum, jafnfróðum manni um þessi efni og hér er um að ræða. Vitanlega eru leiðirnar til þess að koma í veg fyrir hækkun söluskattsins að þessu sinni fjöldamargar. En ég er ekki viss um, að það þurfi að grípa til þeirra úrræða svo mjög í sambandi við þetta mál að hækka tolla eða skatta. Ég er þeirrar skoðunar, eins og fram hefur komið hjá fleirum hér, að þetta megi gera að miklu leyti, það megi ná þessu fá að miklu leyti með nokkrum lagfæringum án nýrrar skattaálagningar.

Hæstv. forsrh. innleiddi þessa umr. hér í hv. deild í dag. Hann skýrði frá því, að hæstv. ríkisstj. ætlaði eð bera fram brtt. við frv., tillögu, sem felur í sér lækkun úr 8% í 7 1/2%. Hér er um að ræða 68 millj. kr. Hvar á að taka þessar 68 millj. kr.? Hæstv. forsrh. eyddi ekki einu orði að því í ræðu sinni, hvernig ætti að afla þessara 68 millj. kr., svo lítið var það atriði í hans augum. Ég hafði, áður en þessi till. hans eða hæstv. ríkisstj. kom fram, látið mér detta í hug: Þessar 68 millj. kr. þurfum við ekki að ná í með hækkun á söluskatti, við skulum bara láta tekjuafgang ársins 1964 sjá fyrir þessum lið. — Og það mætti segja mér, að þetta væri ætlun hæstv. ríkisstj. Ef svo er ekki, þá kemur það væntanlega fram, hver leið hennar er í þessu atriði. Það mætti nefna fleiri upphæðir, sem hér koma við sögu, upphæðir, sem hæstv. ríkisstj. endilega hyggst þurfa að fá með hækkun á þessum söluskatti og ekki með neinu öðru móti.

Þeirra 207 millj. kr., sem ætlaðar eru til aukinna niðurgreiðslna á árinu 1965, tel ég, að vafalaust megi afla án nýrrar skattlagningar. Hér er um að ræða 207 millj. kr. Ég held, að með góðum vilja yfirvaldanna mætti afla þessa fjár á árinu 1965 með hertu eftirliti með skattframtölum og þar af leiðandi betri innheimtu tekjuskatta og umfram allt betri innheimtu á 5 1/2% söluskattinum. Það er enginn vafi á því, að þetta mundi gefa ríkissjóði réttmætar tekjur, sem næmu tugum millj. kr., ef ekki á annað hundrað millj. Til viðbótar mætti svo áreiðanlega áætla aðflutningsgjöldin árið 1965 hærra en hæstv. ríkisstj. er nú fáanleg til að gera. Og þar er við að styðjast reynslu tveggja síðustu ára, áranna 1963 og 1962, og það var hæstv. fjmrh., sem upplýsti það í tölum, hve mikið innflutningurinn að verðmæti fór fram úr því, sem áætlað hafði verið þau árin. Og þó að þær tölur yrðu ekki nándar nærri eins háar á árinu 1964, þá er vafalaust um verulega aukningu fram úr áætlun að ræða. 68 millj., sem áttu að fara til niðurgreiðslna á árinu 1964, þarf ég ekki að fjölyrða um. Hæstv. forsrh. hefur sjálfur strikað þær út í dag með einu pennastriki. Og þá eru loks eftir 42 millj., sem ætlaðar eru vegna hækkunar á kaupi, — hækkunar, sem leiðir af hækkun söluskattsins. Ef söluskatturinn verður ekki hækkaður, falla þessar 42 millj. niður sjálfkrafa. Ég bendi hér á eina leið. Ég efast ekki um, að þær eru margar fleiri til, ef vilji væri nokkur fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj. til að ræða málin og athuga málin frá hinum ýmsu hliðum.

Ég skal svo láta máli mínu lokið. En ég vil aðeins minna á það enn einu sinni, að viðræðurnar, sem áttu sér stað á s.l. vori milli hæstv. ríkisstj., Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins, snerust um leiðir til þess að stöðva verðbólguna og til þess að bæta kjör verkafólksins. Og samkomulagið, sem gert var að lokum 5. júní, var um atriði, sem ótvírætt hnigu í þessa átt, fyrst og fremst stöðvun verðbólgunnar og siðan um kjarabætur handa verkafólki. Þetta samkomulag var síðan staðfest og hátíðlega undirritað, og það átti að gilda í eitt ár a.m.k. , eða fram á næsta vor. Það er enginn efi á því, að allur þorri landsmanna fagnaði þessu samkomulagi. Og það er enginn efi á því, að hæstv. ríkisstj. óx töluvert í áliti hjá þjóðinni við að hafa gert þetta samkomulag við verkalýðssamtökin. Þetta samkomulag átti að gilda í heilt ár, eða til næsta vors a.m.k. Ýmis skilyrði voru sett af hendi hæstv. ríkisstj., m.a. það, að verkalýðshreyfingin skyldi beita sér fyrir því, að ekki yrði um kauphækkanir að ræða á þessu tímabili. En hverjar eru skyldur hæstv. ríkisstj. í þessu samkomulagi? Er það í samræmi við þær skyldur, sem hún tókst á herðar með þessu samkomulagi, að rjúka nú til á miðju tímabilinu og gera ráðstafanir, sem óhjákvæmilega hafa í för með sér, að verðbólguhjólið fer í gang á ný? Hvað sem bókstafnum líður í þessu atriði, er ég ekki í neinum vafa um það, að hér er hæstv. ríkisstj. að bregðast skyldu sinni í meginatriðum málsins. Ég lít svo á, að með þessu rifti hún samkomulaginu frá 5. júní í vor. Og það er enginn efi á því, að það eru fleiri en ég í þessu landi, sem líta þannig á. Óhugur hefur gripið landslýðinn í sambandi við þetta mál, og nú kvíðir almenningur því, að nú skelli dýrtíðaraldan yfir á ný, aukin dýrtíð, ný verðbólguskriða. Hvað gera verkalýðssamtökin? Eru þau ekki laus allra mála hér eftir? Það er minn persónulegi skilningur.

Það eru til menn í þessu landi, sem fagna því, sem nú er að gerast. Það eru verðbólgubraskararnir, þeirra á meðal fasteignasalar og bílasalar. Þeir kunna sér ekki læti þessa dagana. Allt er að komast í gang aftur, eins og þegar verðbólguhjólið snýst sem hraðast. En almenningur í landinu fagnar ekki, hefur enga ástæðu til að fagna.

Þegar hæstv. forsrh. steig hér í stólinn í dag, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu, hvaða boðskap hann hefði að flytja. Ég verð að segja, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum, því að sannast sagna bjóst ég við því, að hann ætlaði að lýsa því yfir hér í hv. d., að þetta frv. yrði fyrst um sinn dregið til baka af hæstv. ríkisstj. Það spor hefði vakið fögnuð með þjóðinni, og hefði verið ástæða til, að stjórnarandstaðan tæki því spori með viðurkennandi orðum í garð hæstv. ríkisstj. Ég vil aðeins að lokum segja það, að ég gerði mér þarna of háar vonir um ágæti þessarar hæstv. ríkisstj. og hafði raunar ekki neina átyllu til þess að búast við svo góðu af henni, enda kom það á daginn, að ætlunin er að halda málínu til streitu, þvert í stefnu samkomulagsins, sem náðist í vor.