07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2723)

77. mál, kvikmyndasýningar í sveitum

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Till. til þál. um kvikmyndasýningar í sveitum, sem prentuð er á þskj. 102, hefur verið til meðferðar í allshn. Nefndin hefur fengið umsögn um þetta mál frá búnaðarþingi, Ungmennafélagi Íslands og Fræðslumyndasafni ríkisins. Allar þessar umsagnir eru jákvæðar varðandi efni till., en fræðslumyndasafn ríkisins hefur sent nefndinni allýtarlega greinargerð um málið, sem prentuð er sem fskj. með nál., og leyfi ég mér að vísa til þess. N. hafði einnig leitað umsagnar hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga og barst svar frá stjórn sambandsins, sem kvaðst ekki treysta sér til þess að taka afstöðu til málsins, vegna þess að hún hefði ekki haft aðstöðu til þess að kanna vilja sveitarfélaga um þetta mál.

Að athuguðu máli og eftir að hafa athugað sérstaklega þær umsagnir, sem ég nú hef nefnt, ákvað n. að leggja til, að till. um kvikmyndasýningar í sveitum verði samþykkt, eins og hún liggur fyrir á þskj. 102.