10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2727)

118. mál, ræktun lerkis á Fljótsdalshéraði

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég vil mæla hér fyrir, er á þskj. 240, um ræktun lerkis á Fljótsdalshéraði, og er á þessa leið:

Alþ. ályktar að fela landbrh. að hlutast til um, að Skógrækt ríkisins hefji nú þegar ræktun lerkis á Hallormsstað eða grennd með það fyrir augum að leitast við að fullnægja þörf Íslendinga fyrir girðingarstaura.“

Þessari till. fylgir stutt greinargerð, þar sem dregin eru fram helztu rökin fyrir því, að hún er hér fram borin, en þau eru í stuttu máli þessi: að Fljótsdalshérað virðist vera bezta skógræktarhérað landsins; að lerki er fljótvaxnasta viðartegundin og sú, sem bezt hentar til þess að framleiða girðingarstaura; að eins og Fljótsdalshérað er yfirleitt einna bezt fallið til skógræktar af héruðum hér, þá er það sérstaklega að því er snertir einmitt þessa tegund viðar.

Ég vil aðeins, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp stuttan kafla úr ritgerð í Ársriti Skógræktarfélags Íslands frá 1964, sem fjallar um ræktun lerkis hér á landi. Hún er eftir skógarvörðinn á Hallormsstað, Sigurð Blöndal, og þar er dregið saman á glöggan hátt allt hið helzta, sem vitað er um ræktun þessa viðar hér og niðurstöður dregnar af þeirri reynslu, sem fengin er hér á landi. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hallormsstaður: Þetta er sá staður á landinu, sem mestu lerki hefur verið plantað. Þar hefur það unnið sér fullkominn þegnrétt, því að þar hefur það borið þroskað fræ og þegar er önnur kynslóð i uppvexti. Skal nú stuttlega rakin saga lerkisins á Hallormsstað. Plöntuninni má skipta í 3 kafla: fyrsta árið 1922, annan árið 1937 og 1938 og þriðja frá árinu 1951. Búið er að planta alls 189.400 lerkiplöntum í 33 ha. Árið 1922 var plantað sex aðskildum þyrpingum af lerki, alls á þriðja hundrað trjám. Uppruni fræsins er óþekktur. Árin 1937–38 var plantað lerki á tveimur stöðum í skóginum, alls 5.850 plöntum í 0.8 ha. Annar teigurinn er Guttormslundur. Árið 1951 hófst svo aftur plöntun lerkis eftir langt hlé. Síðan hefur lerki verið plantað flest árin að Hallormsstað. Af þessu sést, að það er komin allgóð reynsla. Aðeins þar og í Eyjafirði er nokkuð til að ráði af lerki frá því fyrir 1851. Ef lögð er saman reynsla af eldri árgöngunum og hinum yngri, getum við slegið því föstu, að lerkiræktin er örugg á þessum tveimur svæðum.

Aðrir staðir á Héraði: Laust eftir 1920 voru gerðir trjágarðar víða við bæi á Héraði. M.a. var lerki plantað í þá flesta. Eru þannig til smáþyrpingar eða einstök tré frá þessum tíma, allt utan frá Héraðsflóa og inn í Fljótsdal. Þessir litlu lundir gefa ofur litla vísbendingu um vaxtarskilyrði lerkisins og svo vel vill til, að þetta lerki er allt af árganginum, sem plantað var á Hallormsstað 1922, svo að viss samanburður fæst við skilyrðin þar. Fljótsdalahérað hefur sérstöðu af dölum Íslands í því, hversu lágt það liggur yfir sjávarmál langt inni í landi. Þegar komið er 85 km inn frá Héraðsflóa að Valþjófsstað, er hæðin yfir sjávarmál ekki nema um 40 metrar. Á Héraði eru því betri aðstæður til þess en annars staðar á landinu að gera sér grein fyrir því, hver áhrif nálægð hafsins hefur á trjágróður, án þess að áhrifa gæti af hækkun landsins. Kemur greinilega í ljós, að vöxtur lerkisins fer jafnt og þétt batnandi, eftir því sem lengra kemur inn í dalinn. Nær þetta bæði til trjáhæðar og lögunar. Árið 1938 var 800 lerkitrjám plantað á Eiðum, en sá staður er nokkuð utan við mitt Hérað. Þessi plöntun fór vel af stað, en stórskemmdist 1952 í norðanveðri, sem kom seint í maí eftir undanfarandi hlýindi. Munu trén seint losna við þau örkuml, er af kalinu leiddi. En lerkitré af sama kvæmi, sem voru fyrir ofan mitt Hérað, skemmdust ekkert né heldur elzta lerkið í Hjaltastaðaþinghá, sem áðan var getið. Árið 1951 hófst svo plöntun lerkis á nokkrum stöðum á Upphéraði, eins og víða á landinu. Af því er svipaða sögu að segja og því, sem hér hefur verið rakið frá Eyjafirði. Það hefur vaxið vel, enda þótt því sé alls staðar plantað í rýran móajarðveg nema í Ranaskógi í Fljótsdal. Þar er vöxturinn betri,en á Hallormsstað, ef nokkuð er.“

Og enn segir, með leyfi hæstv. forseta: „Suður- og Suðvesturland: Í þessum landshlutum hefur litlu verið plantað, sem vonlegt er. Í Múlakoti og í Haukadal í Biskupstungum eru til örlítil sýnishorn frá 1938. Í Haukadal hafa trén lengi borið merki vanþrifa og í Múlakoti skemmdust þau allmikið í páskahretinu 1963. Í Reykjavík eru lerkitré til allvíða í görðum. Þessi tré eru víða snotur, en vöxtur þeirra fremur hægur, en þau stóðu sig furðanlega í páskahretinu 1963. Frá árinu 1951 hefur ofur litlu af lerki verið plantað við og við, bæði í Heiðmörk og Haukadal. Í Haukadal hafa trén skemmzt dálítið og vöxturinn verið hægur. Í Heiðmörk hefur það stundum skemmzt allmikið í vorhretum, einkum 1963.“

Ég hef leyft mér að lesa upp þennan kafla, til þess að menn sjái, við hvað ég sérstaklega styðst, þegar ég flyt þessa þáltill., en það eru, eins og ég hef reynt að koma að í grg., þau rök. að einmitt á Fljótsdalshéraði mun vera auðveldast og öruggast að framleiða lerki. Það má segja, að það ætti ekki að skipta, máli, hvort hér væri um allsherjarræktun að ræða, hvort sem væri til stauraframleiðslu eða annars. En ég vil benda á það, að samkvæmt reynslu í því efni, og er þá um reynslu á Hallormsstað að ræða, þá kemur í ljós, að til þess að fá góða girðingarstaura þarf að planta með sérstökum hætti. Það þarf að rækta samfelld svæði, planta miklu þéttara en ef fyrirhuguð er ræktun á stærri viði til lengri tíma. Þess vegna þarf að gera sér grein fyrir því þegar í upphafi, í hvaða skyni þessi ræktun er gerð. Það er oft minnzt á fábreytni framleiðslu okkar og atvinnuvega. Þetta er að vísu ekki stór liður, þegar um framleiðslu- eða atvinnumál er að ræða. En það gildir þó alltaf hinn gamli málsháttur, að það er kornið, sem fyllir mælinn. Þess vegna eigum við aldrei að vanmeta þá þætti, sem hægt er að snúa sér að í framleiðslumálum okkar, ekki heldur þá þeirra, sem kannske virðast vera litlir í fyrstu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég vænti, að menn hafi áttað sig á að það liggja sérstök rök að baki þessari till., einmitt að benda á ákveðna ræktun á þessu ákveðna svæði. Þess vegna vænti ég, að hún fái góðar undirtektir hér á hv. Alþ. Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessari umr. verði nú frestað og till. verði vísað til hv. fjvn.