18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

106. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 4. þm. Vesturl. Mér sýnist, að honum sjáist yfir mjög veigamikið atriði í þessu máli. Það, sem ég talaði alveg sérstaklega um, var sú ráðagerð hæstv. ríkisstj. að taka af fiskiðnaðinum og sjávarútveginum í landinu rösklega 100 millj. kr. En ég útlistaði það, held ég, alveg sæmilega greinilega, að það svarar til þess, að kaup yrði hækkað um 20—25%, og ég var að spyrja um það í því sambandi, hvort þessi hv. þm., sem sérstakur fulltrúi fiskiðnaðarins og sjávarútvegsins, teldi þetta mögulegt, án þess að til kæmu þá nýir skattar, sem lagðir yrðu á sjávarútveginum til aðstoðar. Og ég spurði þess vegna: Er þessi skattahækkun, sem hér er um að ræða, aðeins byrjunin, eða hefur kannske fiskiðnaðinum í landinu og sjávarútveginum verið lofað því, að honum verði bjargað upp úr áramótunum með nýjum sköttum til þess að jafna þessi 20% eða 25%. Þetta er kannske meginatriðið í þessu máli. Hitt er svo auðvitað alger misskilningur hjá þessum hv. ræðumanni, að fara að bera saman einhver 5%, sem sjávarútvegurinn þyrfti að bera, ef þetta frv. yrði ekki samþ. 3% kauphækkunin er einmitt bein afleiðing af samþykkt þessa frv. Ef fjár verður aflað með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir eða sparað á fjárlögum, þá er þetta frv. óþarft og þar með sú 3% kauphækkun, sem hér er um að ræða.

Mér þykir þess vegna sýnilegt af þessu, þótt furðulegt sé, að þessi eini þm. hér í hv. deild, sem hefði átt sérstaklega að kynna sér, hvaða áhrif þessar aðgerðir allar hafa á sjávarútveginn, er svo fávís að koma með aðra eins endemisræðu og þessa, sem hann hélt, því að það er greinilegt, að þessi hv. þm. veit alls ekki, hvað hér er um að ræða.