03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2741)

90. mál, síldarflutningar og síldarlöndun

Flm. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég flyt hér ásamt hv. 5. landsk. þm., fjallar um síldarflutninga og síldarlöndun. Efnislega er till. á þá lund, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun samtaka með síldarverksmiðjum og söltunarstöðvum um rekstur flutningaskipa, sem annazt gætu síldarflutninga til vinnslustöðva, þegar slíkir flutningar henta betur, en flutningar veiðiskipanna sjálfra á eigin afla. Annað efnisatriði till. er svo það, að rannsakað sé, hvort ekki sé tímabært orðið og nauðsynlegt, að komið verði upp með samstarfi réttra aðila miðstöð, sem stjórni allri löndun síldveiðiskipa, með tilliti til þess, að sem fyllst nýting verði á afkastagetu vinnslustöðvanna og jafnframt á veiðimöguleikum síldveiðiflotans.

Í grg., sem þáltill. fylgir, er í megindráttum rakið, hvernig við höfum á undanförnum áratugum reynt að aðlaga verksmiðjukost okkar í síldarbræðslu þeim mikla breytileik, sem verið hefur á veiðisvæðum síldarinnar. Sú þróun, sem þar er greint frá, hefur að flestu verið næsta eðlileg. Fram á síðustu ár voru síldveiðar að langmestu leyti stundaðar á tiltölulega litlum bátum, allt niður í 30–40 tonna og jafnvel enn minni og sjaldnast yfir 100 tonna. Möguleikar slíks flota til þess að sigla langleiðir með afla og það jafn hættulega farma og síldin er voru litlir. Umskipun í stærri skip til flutninga var útilokuð af tæknilegum ástæðum og geymsluþol aflans lítið. Afleiðingin varð því sú, að árangur í veiðum og vinnslu byggðist á því, að nægur kostur síldarverksmiðja og söltunarstöðva væri nærri veiðisvæðunum og þá var sá kostur einn fyrir hendi að byggja nýjar verksmiðjur, eftir því sem unnt var, í námunda við hin breytilegu mið. Þannig höfum við í dag eignazt mikinn fjölda síldarverksmiðja í öllum landshlutum og söltunarstöðvar hið sama.

Í engri atvinnugrein hefur verið meiri fjárfesting nú um langt skeið en í síldariðnaðinum, en hún telst jafnvel í 100 millj. kr. allra síðustu árin og allt bendir til þess, að hún muni fara vaxandi á næstu tímum. Það er augljóst, að árangur af þessari miklu fjárfestingu í verksmiðjum, söltunarstöðvum, skipum og síðast, en ekki sízt, margs konar tæknibúnaði hefur orðið mikill og hlutur síldariðnaðarins í þjóðarframleiðslunni er nú orðinn stærri og væntanlega árvissari, en nokkru sinni áður. Þannig nam t.d. verðmæti síldarafurða 28.4% af heildarútflutningi 1962 og um 32% af heildarútflutningi árið 1963. Hlutur síldariðnaðarins gæti þó vafalaust vaxið enn, ef meiri áherzla væri lögð á meiri fullvinnslu til manneldis, en gert hefur verið, en á því sviði virðast möguleikarnir vera stórkotlegir.

En þó að segja megi, að árangur hafi vissulega orðið mikill og möguleikar í heild vaxið á því að taka við þeim síldarafla, sem flotinn er fær um að skila að landi, stöndum við þó í rauninni enn í miðjum þeim vanda, sem ávallt hefur verið til staðar í þessari atvinnugrein, þ.e.a.s. þeim að aðlaga vinnslumöguleikana í landi þeim veiðimöguleikum, sem miðin bjóða. Undanfarin sumur hefur síldveiði fyrir Norðurlandi, þar sem langsamlega mestur verksmiðju- og vinnslustöðvakostur er fyrir hendi, tregazt mjög og þó mest á s.l. sumri, þegar nær engin síld veiddist fyrir vestan Melrakkasléttu. En jafnhliða hefur veiði út af Austfjörðum orðið óhemjumikil og staðið yfir lengri tíma, en nokkru sinni áður. Og nú hefur það svo enn skeð, að síldveiði við Suður- og Suðvesturland, sem virtist vera næsta örugg að hausti og fyrri hluta vetrar síðustu 4–5 árin, hefur svo til alveg brugðizt á nýliðnu ári, en jafnframt hefur farið fram vetrarsíldveiði fyrir Austfjörðum og mjög mikill afli borizt þar á land langt fram á vetur. Á s.l. sumri voru verksmiðjurnar á Norðurlandi, sem eru nú 11 að tölu, flestar aðgerðarlitlar þrátt fyrir afkastagetu, sem mun nema um 60 þús. málum á sólarhring og nægan mannafla og 40 söltunarstöðvar voru einnig vel mannaðar, en því nær algerlega verkefnalausar og því reknar flestar með geigvænlegu tapi. Á s.l. hausti og vetri hafa svo verksmiðjurnar og söltunarstöðvarnar á Suðvesturlandi hlotið ekki ósvipað hlutskipti.

Afleiðingar þessara sviptibylja í atvinnulífinu og á vinnumarkaðinum eru auðvitað margvíslegar og leiða af sér margvísleg vandamál, m.a. mikla lægð í atvinnu og atvinnurekstri í síldarbæjunum á Norðurlandi, sem að verulegu leyti hefur byggzt á síldveiðum og síldarvinnslu. Fleiri slík ár í röð munu vafalaust leika þá svo, að þeir bera sumir hverjir varla sitt barr og almennur fólksflótti frá ónýttum atvinnutækjum, eignum og húsum brestur á, ef ekki koma til aðrar, stórfelldari aðgerðir til viðreisnar atvinnulífinu þar. Sömu sögu er e.t.v. ekki hægt að segja af sjávarplássunum á Suðvesturlandi, þótt í móti blási þar í þessum atvinnurekstri, þar sem að fleira er þar að hverfa, en varla lætur slíkt sig þó án nokkurs vitnisburðar, svo mikið fé sem lagt hefur verið þar í síldariðnaðinn og margir hafa haft af honum lífsframfæri síðustu árin. Það vandamál sem hér ræðir um, yrði því ekki leyst nema að hálfu leyti, þótt farin væri sú leið, sem ein hefði verið fær fyrir áratug eða svo, þ.e.a.s. sú að setja allt inn á byggingar nýrra og stærri vinnslustöðva í námunda við veiðisvæðin, þ.e.a.s. veiðisvæðin, sem nú hafa um sinn opnað nægtabrunn sinn fyrir Austfjörðum. Þó að slík leið yrði farin alfarið, stæði hinn mikli vandi vannýttrar og algerlega ónýttrar fjárfestingar og ónotaðs vinnuafls eftir og svo að hinu leytinu vinnuaflsskortur og vöntun á aðstöðu til þess að taka við þeim mannafla, sem til þyrfti, og búa honum varanleg og mannsæmandi lífsskilyrði, að ógleymdum þeim stórfelldu fjárframlögum, sem til hinna nýju atvinnutækja og aðstöðu allrar þyrfti. Örðugleikarnir á því að fara þessa leið til lausnar á vandamálunum eina, virðast vera lítt yfirstíganlegir, jafnvel þó að gengið væri út frá því, að miðin yrðu um langt skeið staðbundin þar eystra. En varla mun nú nokkur sá vísindamaður, sem mundi vilja fullyrða slíkt og varla bera það fram sem tilgátu. Breytileiki veiðisvæðanna vofir sífellt yfir og með honum ber alveg vafalaust að reikna og miða aðgerðir við það.

Við flm. þessarar till. álítum, að í þessum efnum beri jöfnum höndum að leysa vandann eða minnka hann að þeim tveim leiðum, sem til greina koma, þ.e. annars vegar með nokkurri afkastaaukningu á þeim slóðum, þar sem líkur fyrir hentugastri staðsetningu vinnslustöðva eru nú mestar, þ.e. á Norðaustur- og Austurlandi og hins vegar með því að beina verulegri fjárfestingu að flutningatækni og flutningaskipaflota, sem gæti orkað því, að árviss nýting yrði á þeirri miklu fjárfestingu, sem þegar hefur verið framkvæmd í síldarverksmiðjum og söltunarstöðvum, þó að veiði bregðist tímabundið í næsta námunda við þær stöðvar.

Eins og nú horfir, virðist ekki mikil ástæða til að hafa uppi sterkar eggjanir um að festa fé í nýjum síldarbræðslum eða stækkun þeirra, sem fyrir eru, enda munu nú vera á umræðu- eða undirbúningsstigi framkvæmdir í þeim efnum, sem kosta sennilega varla undir 200 millj. kr. Um þessar fyrirhuguðu framkvæmdir vil ég aðeins segja það, að ég tel, að sérstaklega beri að leggja áherzlu á að koma upp nýjum bræðslum á þeim stöðum, þar sem veruleg söltun hefur átt sér stað eða möguleikar voru fyrir hendi að ættu sér stað undanfarin ár, en þar sem engar síldarbræðslur hafa verið fyrir hendi. Vil ég þar einkanlega nefna til Þórshöfn, Stöðvarfjörð og Djúpavog. Á slíkum stöðum er bygging síldarverksmiðja nauðsynleg framkvæmd til meiri vinnslu til manneldis og þar með í þá átt að stórauka afrakstur þessarar atvinnugreinar, en miklu fremur mætti láta stækkanir verksmiðja og nýbyggingar, þar sem verksmiðjur eru fyrir hendi, dragast eitthvað.

En þá er það hin leiðin, sú sem þessi till. fjallar aðallega um, flutningaleiðin. Það er rétt, að það komi þegar í upphafi fram, að enn búum við ekki yfir fullkomlega nægjanlegri reynslu til að geta fullyrt um það, hvernig síldarflutningar yrðu bezt tryggðir a miðum eða frá umhleðslustöðvum í landi. En slíkrar reynslu er alveg nauðsynlegt að afla með tilraunum og skynsamlegum framkvæmdum og í raun og veru hefðu slíkar tilraunir ekki mátt dragast til næstu vertíðar, því að brýn nauðsyn er á því, að þá komi til verulegra framkvæmda. En á hinn bóginn er ekki heldur unnt að segja, að við höfum enga reynslu í þessum efnum. Við vitum t.d., að Norðmenn hafa um mörg ár flutt síld til vinnslu í verksmiðjur, jafnvel allt frá Íslandsmiðum. Slíkt hefur þótt svara kostnaði, a.m.k. betur en að láta verksmiðjurnar þar í landi standa ónotaðar. Hérlendis hafa síldarflutningar frá umhleðslustöðvum á Austfjörðum farið fram í nokkur ár á tiltölulega litlum flutningaskipum og nú á s.l. sumri var gerð tilraun með flutning síldar af miðum í litlu tankskipi. Nú í vetur hafa svo lítils háttar tilraunir verið gerðar með flutning ísvarinnar síldar til söltunar og frystingar hér fyrir Suðvesturlandi. Sú reynsla, sem af þessu hefur fengizt, er að sjálfsögðu mikils virði og hefur yfirleitt aukið mönnum bjartsýni um það, að þessi leið geti reynzt hagkvæm og jafnvel valdið straumhvörfum í þá átt að ná meiri árangri, en áður, í því að stórauka framleiðsluna á þessu sviði og gera hana arðsamari. Hér er líka vafalaust til svo mikils að vinna, að einskis má láta ófreistað til þess að fá úr því skorið, að hve miklu leyti flutningaleiðin er hagkvæm. Ef reynslan, sem ég vil álíta að allt bendi til, af beitingu fullkominnar tækni og hagkvæmum flutningaskipaflota reyndist góð, þá virðist auðsætt, að vinnast mundi eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: að dregið yrði úr nýrri fjárfestingu í verksmiðjum og vinnslustöðvum, en slík hundruð milljóna fjárfesting árlega gæti m.a. leitt til lækkandi hráefnisverðs til útvegsmanna og sjómanna og þá um leið til minnkandi afraksturs þessara aðila, þ.e.a.s. ef veiðimöguleikar aukast ekki að sama skapi, sem örðugt er að sjá fyrir um. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að hluti stofnkostnaðar, þ.e.a.s. vaxta af stofnkostnaði og fyrningar verksmiðjanna á Norður- og Austurlandi mun nú vera reiknaður um 70–80 kr. af hverju máli bræðslusíldar. Aukning stofnkostnaðar án tilsvarandi aukningar á veiði mundi þýða skert kjör fyrir bæði útgerðina og sjómennina.

Í öðru lagi: Meira atvinnuöryggi mundi skapast í síldarbæjunum, sérstaklega á Norðurlandi, en einnig á Austfjörðum og á Suðvesturlandi, ef breytingar verða á veiðisvæðum. Rekstur verksmiðja og vinnslustöðva yrði jafnari og hagstæðari. Vinnuafl mundi nýtast betur, ekki sízt ef unnt reynist að flytja söltunarhæfa síld langleiðir, en á því virðast vera talsverðar líkur.

Í þriðja lagi: Veiðimöguleikar síldarflotans sem heildar gætu stóraukizt, með því að biðin eftir löndun og flutningar veiðiskipanna sjálfra með eigin afla langleiðir yrðu mikið til úr sögunni.

Í fjórða lagi: Rekstrarmöguleikar báta 80–100 tonna, sem nú eiga í hvað mestum örðugleikum, mundu batna verulega, sérstaklega ef reynsla yrði góð af flutningum beint af miðunum með dælingu á milli skipa.

Í fimmta lagi yrði sú fjárfesting, sem framkvæmd yrði í flutningum og flutningatækni, þannig, að hún kæmi að sama gagni, þótt stórbreytingar yrðu á veiðisvæðunum, gagnstætt þeirri fjárfestingu, sem er algerlega staðbundin.

Þegar þessi fimm atriði eru höfð í huga, má vissulega segja, að til nokkurs er að vinna. Í þeirri till., sem hér er rædd, er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi forgöngu um stofnun samtaka um síldarflutninga, samtaka sem síldarverksmiðjur og söltunarstöðvar stæðu að. Það er skoðun okkar flm., að það mundi ekki heppilegt eða vænlegt til góðs árangurs, að hver verksmiðja eða hver vinnslustöð kæmi sér upp aðstöðu til síldarflutninga ein fyrir sig, þar sem með slíkum hætti hlyti nýting tækja og skipa að vera tiltölulega léleg og flutningar því of kostnaðarsamir. Það verður ekki heldur séð fyrir, hvar eða hvenær þörfin er brýnust á flutningum og því hagkvæmast, að áhættu og kostnaði sé dreift á sem flestar vinnslustöðvar. Og það er ástæða til í þessu sambandi að hafa í huga sérstaklega þá þróun, sem virðist vera hér á Suðvesturlandi, að einstakar verksmiðjur kaupi stór tankskip hver af annarri í algeru skipulagsleysi — og ég vil segja með aðstoð ríkisvalds, án þess að hliðstæð aðstoð komi þá til fyrir aðra landshluta.

Ríkið sjálft er stærsti aðilinn í síldarverksmiðjurekstrinum og þjóðfélagið í heild á ríkra hagsmuna að gæta um þróun þess iðnaðar. Stjórnarvöldunum ber því að hafa eðlilega forgöngu í þessu máli. Er þá ekki þar með sagt, að kostnaður eigi að berast uppi af ríkinu, nema að eðlilegum hluta. Þvert á móti verður að telja líklegt, að eigendur flestra verksmiðja og vinnslustöðva séu fúsir til að leggja fram hver að eðlilegum hluta fjármagn til nauðsynlegra tilrauna og framkvæmda á þessu sviði.

Um síðari hluta till., sem fjallar um athugun á því, hvort ekki sé orðið nauðsynlegt að koma upp sameiginlegri miðstöð vinnslustöðva og útgerðarmanna til þess að stjórna allri síldarsöltun, get ég verið stuttorður. Hér er í rauninni um að ræða mál, sem er náskylt fyrra málinu, þ.e.a.s. að leitast við að nota sem bezt veiðimöguleikana, eins og þeir eru hverju sinni og jafnframt afkastagetu vinnslustöðva í landi. Ég vil ekki fullyrða á þessu stigi máls, hver niðurstaða yrði af slíkri athugun, en bendi aðeins á, að Norðmenn t.d., sem eru sú þjóð, sem við getum helzt lært af í þessum efnum, hafa haft slíkt fyrirkomulag hjá, sér um alllangt skeið. Með tilliti til þess og einnig hins, að mikill glundroði og oft dýr keyptur, hefur ríkt hjá okkur á þessu sviði, virðist nauðsynlegt, að þetta atriði sé krufið til mergjar af réttum aðilum.

Ég vil svo aðeins að lokum lýsa þeirri von minni, sem m.a. styðst við augljósan og almennan áhuga fyrir þessu máli nú síðustu mánuðina, að það megi hljóta skjóta afgreiðslu hér á hv. Alþingi og þá helzt svo, að hafizt verði handa um skipulegar framkvæmdir án verulegra tafa og þá ekki sízt með tilliti til hagsmuna Norðlendinga og þess alvarlega atvinnuástands, sem þar er ríkjandi. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að afgreiðslu till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.