03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (2742)

90. mál, síldarflutningar og síldarlöndun

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Þar sem ég tel þáltill. þá á þskj. 129 um síldarflutninga og síldarlöndun, sem hér er til umr., hina markverðustu, vil ég með fáum orðum lýsa yfir stuðningi við hana og jafnframt hvetja hv. alþm, til að samþykkja ályktunina, þar sem hún er tvímælalaust hið þarfasta mál. Efnislega er tillagan, eins og kom fram í umr. í dag, tvíþætt. Annars vegar er skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun samtaka með eigendum síldarverksmiðja og söltunarstöðva um rekstur flutningaskipa, er annazt gætu flutninga síldar til verksmiðja og söltunarstöðva, þegar þeir henta betur, en flutningar veiðiskipanna á eigin afla. Í öðru lagi er ríkisstj. falið að athuga um samstarf sömu aðila og áðan voru nefndir svo og útvegsmanna í þeim tilgangi að koma á fót miðstöð, er stjórni allri löndun síldveiðiskipa, með tilliti til sem fyllstrar nýtingar afkastagetu vinnslustöðvanna og á veiðimöguleikum síldveiðiflotans.

Höfuðástæðan fyrir flutningi þessarar till. er að sjálfsögðu sú staðreynd, að á síðasta sumri skeði það, að hvergi nærri var hægt að salta alla þá síld, sem hægt var að selja. Myndin, sem við blasir frá síðasta sumri og hausti, er í stórum dráttum þannig: Síldaraflinn, sem veiddist norðanlands og austan, var hagnýttur þannig, að 360 þús. tunnur voru saltaðar, 51 þús. tunnur fóru í frystingu og í bræðslu fóru 2 millj. 713 þús. mál. Aldrei fyrr í síldveiðisögunni hefur jafnmikið magn síldar borizt á land á sumar- og haustvertíð, og er það að sjálfsögðu öllum mikið fagnaðarefni. En þrátt fyrir þessa góðu veiði, þrátt fyrir það, að á land árust á nokkrum mánuðum 3 millj. 200 þús. mál og tunnur síldar, reyndist ekki unnt að salta upp í gerða samninga og vantaði 74 þús. tunnur á, að svo væri. Þegar tillit er tekið til, hversu mjög síldin er verðmætari til útflutnings, þegar hún er flutt út söltuð, en ekki sem mjöl og lýsi, má gera ráð fyrir, að gjaldeyristap það, sem þjóðin hefur orðið fyrir sökum þess, að ekki var hægt að standa við gerða samninga, nemi um 60 millj. kr. Og nú er það vitað, eins og ég gat um áðan, að unnt hefði verið að semja fyrir fram um sölu á mun meira síldarmagni, en gert var og skiptir það magn, sem hægt var að selja, en ekki tókst að salta, sennilega hundruðum þús. tunna, og þá geta allir séð, hversu geysilega mikið gjaldeyristap það er fyrir þjóðarheildina, sem hér hefur á orðið.

Ástæðan fyrir því, að saltað var aðeins um 10% af öllum síldaraflanum á sumar- og haustvertíðinni, er sú, að skipin fengu veiðina fyrst og fremst fyrir austan Langanes. Og á því svæði voru saltaðar s.l. sumar og haust 262 þús. tunnur, en aðeins 92.205½ tunna vestan Langaness. Á svæðinu Húsavík–Siglufjörður, ef báðir staðirnir eru meðtaldir, var saltað aðeins 23,650 tunnur á þeim mörgu stöðum, þar af aðeins á Siglufirði, sem lengst af var höfuðborg síldveiðanna og síldarinnar, 12.634 tunnur, en á þessum stað eru 22 söltunarstöðvar.

Það er vægast sagt hörmungarsaga og hörmungarástand hjá þjóð eins og Íslendingum, sem byggir lífsafkomu sína á sjávarútvegi, svo sem raun ber vitni, að aðeins 10% af síldarafla gjöfulasta síldveiðasumarsins skuli nýtt til söltunar. Og þegar maður ræðir þessa staðreynd við útlendinga, hafa þeir sumir hverjir látið í ljós, að þetta sé nærri því eins mikið undrunarefni og tilkoma Surtseyjar.

Fullyrða má, að ef flutningarnir á fersksíld til söltunar hefðu verið skipulagðir á síðasta sumri, hefði útkoman orðið önnur. Það kom fram í umr. á ráðstefnu, sem haldin var í Siglufirði um atvinnumál í sept. s.l., að fulltrúi einn úr síldarútvegsnefnd hélt því þar fram, að síldarútvegsnefnd ætti ekki að sjá um síldarflutninga, enda vantaði alveg ákvæði í lög þar að lútandi. Og þetta er að nokkru leyti rétt. Það kom líka þar fram, sem menn vissu, að saltendur Norðurlands hófust ekki heldur handa s.l. sumar. Þeir voru fjárhagslega lamaðir og höfðu ekki þá samstöðu, sem þurfti að hafa í því stórmáli. Ég vil segja, að þessi afstaða síldarútvegsnefndar og saltenda kallar á samþykkt álíka og þá, sem hér er á dagskrá. Síldveiðisaga s.l. árs bendir ótvírætt á, að hæstv. ríkisstj. verður að beita sér fyrir því á komandi sumri, að ef síldin verður á miðum, fjarri stærstu og afkastamestu síldarvinnslustöðvunum, verður að flytja hana þangað. Annað er óhjákvæmilegt, ekki fyrst og fremst vegna fólksins, sem þar býr, sem er að sjálfsögðu veiga mikið atriði, heldur einnig vegna útgerðarmanna, vegna sjómanna og vegna ríkissjóðs sjálfs og þá eru hafðar í huga bæði gjaldeyristekjur og annað. Það er ekkert lítið í húfi, ef staðir eins og Skagaströnd, Siglufjörður og Húsavík og aðrir sambærilegir staðir lamast alvarlega. Það er búið að leggja milljónir á milljónatugi í kostnað til, að byggja upp þessa staði til að taka á móti síldinni. Það skiptir hundruðum millj. kr., andvirði síldarverksmiðja, sem eru þarna. Það er búið á þessum stöðum að byggja götur, skóla, sjúkrahús og fleiri mannvirki fyrir einnig hundruð millj. kr., svo að það er ekkert lítið hér í húfi.

Í opinberum umr. hefur komið fram, að það voru menn framarlega í sjávarútvegsmálunum, sem hvöttu á síðasta vori til skipulagðra síldarflutninga sumarið 1964. En þeir fengu enga áheyrn. Ég vil leyfa mér að segja, að það er ekki hugsanlegt að ætla sér að salta 500–800 þús. tnr. á svæðinu austan Langaness á einu sumri. Ég hef ekki alveg tölur hér hjá mér, hvað hægt hefði verið að selja mikið af síld s.l. sumar, en ætli þetta séu tölur, sem eru mikið út í loftið? Ég held ekki. Og þetta verða menn að gera sér ljóst. Það er útilokað, eins og ástandið er núna og uppbygging fyrir austan, að ætla sér að salta kannske allt að 800 þús. tunnur á Raufarhöfn og á stöðvunum fyrir austan Langanes. Og það er einmitt gott, að hv. alþm. geri sér þetta alveg ljóst núna við þessar umr., að þetta er útilokað. En ef við getum selt þetta magn, sem ég nefndi nú og e.t.v. meira á þessu ári, þarf vissulega að grípa til síldarflutningaskipanna næsta sumar. Og ég hef enga trú á, þó að saltendur hafi fullan hug á því að skipuleggja sjálfir flutningana, að þeir geri það, eins og fjárhag þeirra er núna komið.

Það hafa heyrzt raddir, sem telja ófært að flytja síld til söltunar frá Austfjörðum og t.d. vestur á Skagaströnd, Sauðárkrók eða til Siglufjarðar vegna fjarlægðanna, vegna ótta við það, að síldin skemmist. En sérfræðingar í þessum málum telja nú annað. Í fróðlegri grein eftir Hjalta Einarsson verkfræðing í 10. og 12. tölublaði 1964 blaðsins „Frost“, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna gefur út, ræðir verkfræðingurinn þessi mál. þ.e.a.s. sérstaklega einn þátt geymsluaðferðar, þ.e. sjókælingu. Verkfræðingurinn segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Langsamlega víðtækust mun sjókæling vera í laxabátum á Kyrrahafsströndinni. Þar er aðferðin útbreidd og viðurkennd. Standsby fullyrðir t.d., að sjókæling eigi drjúgan þátt í því, hversu stór og vel rekinn laxaiðnaðurinn er á þessum slóðum.“

Og svo koma hér fréttir, sem eru nokkuð fyrir okkur að hlusta á:

,„Laxinn færir sig til, eins og síldin okkar, og flotinn fylgir göngunum eftir. Fjöldi vinnslustöðva er langt frá veiðisvæðunum og allar stöðvarnar hafa komið sér upp flota af flutningaskipum til að flytja laxinn til sín. Það er fullyrt, að sjókæling hafi gert þessum bátum kleift að flytja lax í góðu ástandi lengra en áður þekktist. Vinnslustöðvunum hefur jafnframt tekizt að jafna vinnsluna frá degi til dags, fjölga vinnudögum og bæta hag sinn. Stærsta skipið,“ segir Hjalti áfram, „sem ég hef heimildir fyrir, er flutningaskipið Dumbo með 225 smál. af laxi í tönkum. Rækjubátar í Washington nota sjókælingu og heimildir eru fyrir því, að rækjubátar í Mexíkóflóa geri það einnig að einhverju leyti. Auk þess munu hollenzkir rækjubátar vera með sjókælingu og gefizt vel. Íslenzkir humarbátar hafa margir notað einfalda sjókælingaraðferð. Humarinn er þá settur í tunnur með sjó og ís, sem engin tilraun er gerð til að hringrása eða kæla mekanískt, aðferð sem telja verður, að sé of gróf til að skila öruggum árangri. Sjókæling á humar er einnig notuð í sumum frystihúsum.“

Svo segir Hjalti hér síðar, þar sem hann kallar hugleiðingar um hagnýtt gildi sjókælingar á Íslandi:

„Telja verður, að sjókæling sem geymsluaðferð sé komin yfir tilraunastig í laxaiðnaði á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna og Kanada. Í Evrópu hafa í nokkur ár verið framkvæmdar tilraunir, aðallega á rannsóknarstofunum, en um allmenna útbreiðslu sjókælingar er ekki að ræða, enn sem komið er a.m.k.“ Svo segir verkfræðingurinn þó hér: „Ég tel þó, að sjókæling eigi að geta komið íslenzkum sjávarútvegi að gagni og tel, að tímabært sé að setja upp kerfi í tilraunaskyni, bæði í fiskvinnslustöð og í fiskibát. Æskilegt er, að kerfin séu nokkuð stór, t.d. 10–20 smál. tankar. Ég nefni hér þrjú tilfelli, þar sem líklegt er, að sjókæling eigi erindi til sjávarútvegs Íslendinga. Sjókæling virðist eiga að geta komið að góðum notum við síldveiðar, sömuleiðis við þorsk- og ýsuveiðar með nót. En það er einmitt við þessar veiðar, sem erfiðast er að koma við ísum. Ég hef þegar rætt um það, hversu mikill vinnusparnaður er að sjókælingu fram yfir ísinn.“ Verkfræðingurinn kemur að því hér, sem ég sá ekki ástæðu til að lesa upp úr grein hans: „Notkun flutningaskipa í sambandi við síldveiðar er nú mjög á dagskrá, einkum tankskipa. Þá kemur vissulega til greina, hvort ekki sé hentugt að flytja síld til söltunar og frystingar í þessum tankskipum sjókælda.“

Hér lýkur tilvitnuninni í grein Hjalta verkfræðings Einarssonar. Ég vil í sambandi við þetta mál upplýsa, sem hv. þm. e.t.v. vita, að á vegum síldarútvegsnefndar og Fiskifélagsins hafa verið gerðar tilraunir með geymslu síldar, m.a. með skelís og með skelís og salti og einnig nokkuð með sjókælingu. Ég tel líka rétt að geta þess hér, að nokkur ótti í sambandi við sjókælingu hefur komið fram varðandi útlit síldarinnar, þ.e.a.s. að hún missi e.t.v. eitthvað af hreistri. En allt er þetta svo merkilegt, að fyllsta þörf er á því, að á vegum atvinnudeildar háskólans og þessara aðila, sem hafa verið hér nefndir, verði gerðar mjög alvarlegar tilraunir næsta sumar með flutning á síld með þessari aðferð, þ.e. sjókælingu.

Þá er og vitað, að síld hefur verið og er flutt langa vegu ísuð og við vitum, að það þarf ekki stórátak til að koma skelísframleiðslu í betra horf, en hún nú er. Í því sambandi vil ég minna alveg sérstaklega á það, að ríkið á stórt hraðfrystihús á Seyðisfirði, sem það leigir fyrir lítinn pening. Möguleiki væri á að breyta þannig framleiðslu þess, að þar væri hægt að fá skelís fyrir skip í sambandi við þessa flutninga og sömuleiðis ættu stöðvar á Norðurlandi að geta komið upp skelísframleiðslu. Ég minnist þess líka í sambandi við síldarflutninga, að í miðjan september eða seinni hl. september kom skipið Siglfirðingur frá fjarlægum miðum til Siglufjarðar. Þetta skip er 274 smál. Það kom með síld, sem var yfir 30 klukkustunda gömul, þegar hún var söltuð og hún var kæld. Skipið hefur kæliútbúnað. Nú er búið að yfirtaka þessa síld, þennan farm og það var engin einasta tunna tekin burt, vegna þess að varan væri ekki nógu góð. Þetta segir líka sína sögu og gefur auga leið, að það eru ekki ótal ljón á veginum í sambandi við þessa síldarflutninga, eins og sumir vilja vera láta.

Enn hefur verið tæpt á einni leið í sambandi við síldarflutninga. Það er að nota hina svokölluðu Trelleborgdráttarbelgi. Það hefur ekki verið mikið um þá talað hér á landi og ég vissi sáralítið um það fyrr, en fyrir nokkrum mánuðum. En um þessa helgi ritaði Haraldur Böðvarsson útgerðarmaður, sem mikið hugsar um þessi mál, grein í Morgunblaðið, sem mig langar til þess að lesa örstuttan útdrátt úr, með leyfi forseta. Haraldur Böðvarsson segir m.a. svo um þessa belgi, sem ég veit ekkert um, hvort geta hentað okkur eða ekki, en í umr. eins og þessum er sjálfsagt að minnast á alla möguleika í sambandi við síldarflutninga, — Haraldur Böðvarsson segir svo:

„Við erum komin talsvert áleiðis í fiskveiðatækni og fiskiðnaður er líka á uppleið. En betur má, ef duga skal. Eitt af þeim verkefnum, sem nú eru mest aðkallandi, er flutningur á síld frá fiskimiðunum, þegar mest aflast, til staða í öðrum landsfjórðungum, sem hafa aðstæður til að geta unnið mikið magn með heimafólki sínu. Flutningur á bræðslusíld er venjulega framkvæmdur með algengum flutningaskipum eða tankskipum. Einnig mætti sennilega taka upp nýmæli hér og flytja síld í gúmmíbelgjum, eins og sums staðar hefur tíðkazt að flytja í olíu. Þessir belgir, sem eru slöngulagaðir, eru dregnir aftan í skipum langar leiðir. Enn fremur gætu togarar komið að liði, bæði sem flutningaskip og dráttarskip belgjanna. Þá komum við að mesta vandamálinu, þ.a flutningum á síld til frystingar og söltunar af fjarlægum miðum. Það er, þegar komin nokkur reynsla á geymslu fisks og síldar í kældum sjó, 0–3° C og er talað um, að fiskur geti geymzt þannig óskemmdur, jafnvel 2–3 vikur eða lengur og fiskur eða síld á að geta geymzt nokkra daga óskemmd, þótt hitastigið fari 2–3° yfir frostmarkið í kældum sjó.

Nú vil ég beina geiri mínum,“ segir greinarhöfundur, „til tæknifræðinga og vísindamanna og skora á þá að hjálpa til við að finna heppilega og hagnýta lausn á þessu máli. Það duga ekki orðin tóm, heldur verða að fylgja í kjölfarið tilraunaskip, sem flytja aflann óskemmdan að landi. Komið getur til mála að nota togara eða venjuleg flutningaskip, sem gætu m.a. geymt aflann í gerviefna- eða gúmmítönkum í lest og jafnvel á dekki. Slíkar tilraunir sem þessar geta hvorki fjárvana útgerðarmenn né eigendur vinnslustöðva gert á sinn kostnað í byrjun, en ég geri ráð fyrir, að þeir muni fljótlega geta gert þetta á eigin spýtur, ef þessar tilraunir lánast, sem ég er ekki í vafa um. Íslendingar hafa sýnt, að þeir eru ekki neinir eftirbátar í fiskveiðitækni, og þeir geta líka verið fremstir á þessu sviði, ef rétt er að farið.“

Haraldur Böðvarsson lýkur þessari grein sinni með því að segja: „Atvinnudeild háskólans og rannsóknastofnanir sjávarútvegsins ættu að hafa forgöngu í þessu mikilvæga máli. Það er til mikils að vinna og þessar tilraunir mega ekki mistakast.“

Ég kaus að lesa þetta hér upp. Bæði er hér um nýmæli að ræða, eins og ég gat um, og einnig sýnir það, að það erum ekki bara við Norðlendingar, sem berum sérstaklega hag Norðlendinga fyrir brjósti og teljum nauðsynlegt, að skipulagi verði komið á síldarflutninga á komandi sumrum.

Á því, sem ég hef nú sagt sést, að það eru til fleiri en ein leið til síldarflutninga og að þeir verða að hefjast á komandi sumri, ef síldin hagar sér eitthvað svipað og hún gerði s.l. sumar og haust. Á takmörkuðu svæði, eins og t.d. Austfjörðum, er engan veginn hægt að salta, eins og ég sagði í upphafi máls míns, á einu sumri allt það síldarmagn, sem Íslendingar geta selt. Sagan frá síðasta sumri sýnir það og það eru ekki á döfinni þær stórframkvæmdir fyrir austan í sambandi við stöðvarbyggingar, að það breyti nokkru.

Afskipun á þeim 262 þúsund tunnum, sem saltaðar voru austan Langaness 1964, hefur ekki gengið eins vel og skyldi, vegna þess, að síldarsaltendur á þessu svæði hafa ekki haft nægilegt vinnuafl nú í haust og vetur. Og síldarútvegsnefnd hefur af þessum sökum þurft að fresta umsömdum afskipunum og síldarútvegsnefnd hefur þurft að greiða upphæðir til flutningaskipa vegna biðtíma, þar sem söltunarstöðvar höfðu af ástæðum, sem ég hef greint frá, ekki tilbúið umsamið síldarmagn, sem átti að afskipa. T.d. er síld, sem átti að vera farin í febrúar, ekki farin enn. Og þetta er mjög hættulegt, vegna þess að erlendir kaupendur þurfa að fá sína síld ekki síðar, en í febrúar, til að koma henni allri á vetrarmarkaðinn í sínum heimalöndum. Og ef síldarútskipun af hálfu okkar Íslendinga dregst fram í marz, ég tala nú ekki um apríl, þá eru okkar erlendu markaðir jafnvel í voða. Við getum ekki selt eins mikla síld og skyldi, ef við getum ekki skipað henni út á tilsömdum tíma. Það er nóg að vanefna á einu sviði, þótt það sé ekki á fleirum. Þetta er líka atriði, sem ber að hafa í huga, þegar verið er að ræða þessa þáltill. um síldarflutninga og síldarlöndun.

Ég hef nú aðallega rætt um flutning milli landshluta á síld, sem ætluð er til söltunar. En að sjálfsögðu er þörf á flutningi á bræðslusíld milli hinna sömu svæða, til að greiða fyrir skjótum löndunum úr síldveiðiskipunum og tryggja verksmiðjunum fjarri miðunum hráefni. Merk tilraun var gerð í þessum efnum á s.l. sumri og um hana segir fiskimálastjóri í janúarhefti Ægis á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á s.l. sumri gerði síldarverksmiðja Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík, með stuðningi hins opinbera, tilraun til flutninga á bræðslusíld með tankskipi. Var tankskipið Þyrill notað til flutninganna. Var síldinni dælt úr veiðiskipunum, fyrst inni á höfnum og síðar úti á miðum. Tilraun þessi,“ segir fiskimálastjóri, „gaf þá raun, að mikill áhugi hefur vaknað hjá eigendum síldarverksmiðjanna á Suður- og Vesturlandi að taka upp slíka flutninga í allstórum stíl og er líklegt, að af því verði þegar á þessu ári. Mun þetta leiða til þess hvors tveggja, að betri nýting verður á þeim verksmiðjukosti, sem fyrir er í landinu og jafnframt munu veiðimöguleikar flotans aukast. En einnig er nauðsyn á, að teknir verði upp flutningar á síld til annarrar vinnslu (söltunar og frystingar), og hefur þetta ekki sízt komið í ljós eftir reynsluna í haust og vetur, er síldveiðarnar hafa brugðizt við Suðvesturland.“

Hér talar fiskimálastjóri um, að mikill áhugi hafi vaknað hjá eigendum síldarverksmiðjanna á Suður- og Vesturlandi fyrir því að taka upp slíka flutninga í allstórum stíl. En ég vil bara bæta því við, að þessi áhugi er ekki síður fyrir hendi hjá eigendum verksmiðjanna á Norðurlandi. Tankskipið Þyrill flutti aðeins 20 þús. mál s.l. sumar. Ég veit ekki alveg, hvers vegna Þyrill var ekki lengur við veiðarnar, e.t.v. hefur fjármagnið verið þrotið, sem það opinbera styrkti flutningana með eða skipið þá e.t.v. samningsbundið við aðra flutninga, mér er ekki alveg kunnugt um það. En það verður að harma, að skip eins og Þyrill skyldi ekki vera lengur við flutningana og betri reynsla eða frekari reynsla a.m.k. hefði þá fengizt á þetta dælufyrirkomulag, ef svo má kalla það.

Það er sameiginlegt, bæði hvað snertir flutninga á síld til söltunar og bræðslu, að það kostar auðvitað peninga. Það kostar peninga að koma þessu skipulagi á. Það kostar peninga að flytja e.t.v. mörg hundruð þús. mál á milli svæða austanlands og norðan. En það verður að finna kleifan veg í sambandi við fjármálin. Í þessu sambandi virðist eðlilegt, að stofnaður verði sjóður, sem standi undir flutningunum og í fljótu bragði virðist mér, að þessi sjóður ætti að byggjast upp af vissri prósenttölu af síldarverðinu. Mér finnst eðlilegt, að saltendur, sem fengju ekki síld, nema til flutninga kæmi, ættu auðvitað að borga og svo ríkissjóður einnig. Að sjálfsögðu þarf hann að leggja líka fram upphæð í þessu skyni, því að hann hefur stórkostlegra hagsmuna að gæta, eins og ég vék að í upphafi máls mína.

Að lokum vil ég segja þetta í sambandi við framleiðslu á saltsíld:

Ef enn minnkar bilið milli verðs á bræðslusíld og síld til söltunar, skulum við gera okkur alveg ljóst, að þá er það viss hætta, sem vofir yfir saltsíldarframleiðslunni almennt og það er fyllsta ástæða til þess að gefa slíkri hættu gaum.

Ég sé nú ekki ástæðu til að ræða hér á kvöldfundi síðari lið þáltill., þar sem er talað um að koma á einni löndunarstöð. Þetta er mál, sem sjálfsagt er að athuga og ég veit ekki betur, en Norðmenn hafi líka skipulagningu á sínum síldveiðimálum og lagt er til í síðari hluta þáltill. á þskj. 129.