05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

90. mál, síldarflutningar og síldarlöndun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að segja örfá orð í sambandi við þetta mál. Þetta er stórmál og hefur mikið verið rætt undanfarið, hvað skynsamlegt sé að gera í þessum efnum, að flytja síldina æðilanga vegu frá síldarmiðunum í síldarverksmiðjur og jafnvel til söltunar.

Ég vil fyrst segja, að ég tel engan vafa á því, að það sé lang hagkvæmast þjóðhagslega séð og eins mun það skila hæstu hráefnisverði til sjómanna og útvegsmanna, að sem mest af síldinni sé hagnýtt í landi sem næst fiskimiðunum. Það er enginn vafi á því, að þessa staðreynd verður að hafa í hug, og því hefur það verið laukrétt stefna að vinna að því að efla síldarverksmiðjukostinn á Austurlandi og Norðausturlandi sem næst miðunum og búa út þar söltunanstöðvar, eftir því sem hægt hefur verið. Hefur verið unnið í þessa stefnu og má ekki láta neitt trufla sig í því að koma upp í öllum byggðarlögum á þessu svæði síldarverksmiðjum, hæfilega stórum, a.m.k. til stuðnings söltun. Allvel er komið áleiðis í þessu, en þó ekki til enda.

Þó að ég segi þetta, vil ég bæta því við, að ég tel skynsamlegt og hef verið stuðningsmaður þess í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, að ráðstafanir séu gerðar til að flytja síld í fjarlægari byggðarlög til bræðslu og ef það reyndist unnt, þá til söltunar. En ég vil leggja áherzlu á, að það á að beina flutningunum að þeirri síld einni, sem ekki er hægt að fullnýta í þeim verksmiðjukosti, sem næst liggur veiðistöðvunum og svo náttúrlega halda sömu stefnu varðandi síld til söltunar.

Ég vil alveg sérstaklega í sambandi við þetta benda á eina mgr. í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta mál til Alþingis, sem mér líkar vel og það er líka frá mínu sjónarmiði kjarni þessa máls. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Auðvitað á að fullnýta þann verksmiðjukost, sem næst liggur veiðistöðvunum, en þegar vinnslugeta þeirra þrýtur, eiga flutningarnir að koma til.“

Þetta er vitanlega kjarni málsins, hvort sem átt er við söltun eða vinnslu í verksmiðjum. Þó geta menn sagt, að þetta geri málinu ekki skil til enda, því að þá sé eftir að gera það upp við sig, hversu mikla áherzlu beri að leggja á að byggja nýjar síldarverksmiðjur næst síldarmiðunum. Þar vil ég, að stefnan sé sú eins og ég gat um áðan, að koma upp síldarverksmiðjum í öllum byggðarlögum og þá sem lágmark til stuðnings söltun. En síðan álít ég, að reynslan eigi að skera úr um það, hve langt á að ganga í því að byggja verksmiðjur á þessum svæðum eða hvort halla eigi sér meira að flutningunum,og þá eigi að fara eftir því, hvað reynslan sýnir um kostnaðinn við að flytja, samanborið við kostnaðinn við að stækka verksmiðjurnar. Þá finnst mér mega taka tillit til þess, að viss byggðarlög, t.d. á Norðurlandi, hafa byggt alla sína afkomu á síldveiðum langa hríð og því eðlilegt, að þessi pláss fái síld áfram, eftir því sem hægt er að koma við, miðað við eðlilegar starfsreglur og starfsaðferðir.

Það ber því að athuga gaumgæfilega með samanburði á kostnaðarliðum og öðrum ástæðum og athugun reynslunnar, hversu langt á að fara í því að stækka verksmiðjur, eftir því sem síldin flytur sig til. En það er mín skoðun, að eins og nú er orðið ástatt með síldargöngur og möguleikana á að taka síldina, þá eigi að vera síldarverksmiðjukerfi allt umhverfis landið, þær eigi að vera mismunandi stórar eftir því, hvernig ástatt er, en það eigi að vera síldarverksmiðjukerfi allt umhverfis landið. Og það vantar ekkert ákaflega mikið á, að því marki verði náð. Síðan sé það meira almennt reikningsdæmi á grundvelli tilrauna og reynslu, hversu stórar þessar verksmiðjur skuli vera á hverjum stað og þá verður að taka inn í það dæmi þennan nýja lið, sem er að koma til, þ.e.a.s. síldarflutningana. En ég legg áherzlu á, að enn þá veit enginn, hvernig sá liður kemur inn í dæmið, því að enn veit enginn í raun og veru neitt fullnægjandi um flutningskostnað á síld.

Það fæst sennilega nokkur reynsla í sumar, hvernig gengur að flytja síldina og hvað það kostar. Það eru nokkrar öfgar oft hér hjá okkur í málunum og kannske öfgar í því, hversu miklir flutningar eru fyrirhugaðir á næsta sumri. Það mundu a.m.k. reynast miklar öfgar, ef þannig færi, að meginhlutinn eða nálega öll síldin yrði gripin úti á hafinu og flutt á fjarlæga staði til vinnslu, en síldarverksmiðjur, sem næst lægju miðunum, fengju nálega enga síld. Það mundi verða skrípamynd, sem þá kæmi fram.

En hér er við svo litla reynslu að styðjast, að ég treysti mér ekki til þess að fella þungan dóm um, hvort sá undirbúningur, sem nú á sér stað, er í raun og veru miklir öfgar, en hitt vitum við, að það er talsverður undirbúningur undir að flytja síld og í sumar fæst veruleg reynsla um flutningskostnað á síld.

Ég tel ekki, að það sé hægt að byggja á þeirri reynslu, sem um þetta hefur fengizt á vegum Síldarverksmiðja ríkisins, því að aðstaða hefur ekki verið svo góð við þær tilraunir, að hægt sé að draga fullnægjandi ályktanir af henni. En það eru meiri líkur til, að hægt verði að draga ályktanir af reynslu Síldarverksmiðja ríkisins eftir sumarið í sumar og einnig reynslu annarra.

Ég tel ekki heldur, að hægt sé að draga hinar minnstu ályktanir um hagkvæmni þess að flytja síld af þeirri tilraun, sem gerð var á Þyrli s.l. sumar, því að kostnaðardæmið í því sambandi hefur aldrei verið gefið upp og líklega aldrei gert upp. Þar var svo mikið lagt til gefins af ríkisins hendi, í sambandi við lán á skipi og annað slíkt, að það dæmi hefur aldrei verið gert upp og hefur ekki getað gefið neinar leiðbeiningar, sem að gagni geta komið til að draga ályktanir um kostnaðarhliðina. Þetta segi ég ekki til að telja eftir, að stutt var að því, að þessi tilraun var gerð. Ég álít, að það sé sjálfsagt að styðja allar skynsamlegar tilraunir í þá átt að finna sem heppilegastar og ódýrastar aðferðir til þess að flytja síldina á milli skipa og færa hana á milli eins og hagkvæmt er.

En ég legg áherzlu enn á ný á þessa setningu í ályktunargerð Alþýðusambandsins, sem mér líkar mjög vel og ég vil gera að minni stefnuyfirlýsingu, að það á auðvitað að fullnýta þann verksmiðjukost, sem næst liggur veiðistöðvunum. En þegar vinnslugeta þeirra þrýtur, eiga flutningarnir að koma til og þá eiga að mínu viti fyrst og fremst þau byggðarlög að sitja fyrir hráefninu, sem hafa haft um langan aldur aðalatvinnu sína af síldarvinnslu. Það er í þá staði, sem á að beina síldarflutningunum fyrst og fremst, að svo miklu leyti sem þeir eru eðlilegir, þ.e.a.s. á umframsíld, ef svo mætti segja.

Ég vildi, að þetta sjónarmið kæmi hér fram við þessar umr. Ég hef undrazt ýmsar ályktanir, sem komið hafa fram um þessi efni og nánast virðast benda til þess, að menn haldi, að hægt sé að flytja síldina kostnaðarlaust, að það verði enginn kostnaður við að flytja síldina langa vegu. Það verður auðvitað mjög kostnaðarsamt, en það dæmi er óuppgert. En það hef ég mest undrazt, að ýmsir hafa gengið svo langt að mæla á móti eðlilegum verksmiðjubyggingum á Austurlandi á þeim grundvelli, að það ætti heldur að snúa sér að því að flytja síldina í aðra landshluta. En ég legg áherzlu á hitt, að á Austurlandi og annars staðar sé komið upp samfelldu kerfi síldarverksmiðja til stuðnings síldarmóttöku um gervallt landið og til stuðnings söltuninni, svo að hún geti farið fram sem víðast.