07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2769)

111. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þáltill. um eftirlit með fyrirtækjasamtökum á þskj. 228 var flutt af Unnari Stefánssyni og fleiri Alþfl.-mönnum, er hann átti hér sæti fyrr á þessu þingi. Till. hljóðar — með leyfi hæstv. forseta — svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga, með hverjum hætti hið opinbera geti haft eftirlit með viðleitni fyrirtækja til að hafa með sameiginlegri afstöðu á markaði óæskileg áhrif á verðmyndun í landinu og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í mera vöruúrvali og hagstæðara verðlagi.“

Till. þessi hefur verið flutt áður, gekk þá til n. og var vísað til umsagnar ýmissa aðila. Vil ég benda á, að flestir þeir aðilar, sem um voru spurðir, tóku vel í till. og mæltu með því, að slík athugun færi fram. Meðal þeirra, sem veitt hafa meðmæli, eru t.d. Reykjavíkurborg, Verzlunarráð Íslands og ýmsir fleiri. Og ekki þarf að efast um, að bæði samvinnuhreyfingin og verkalýðshreyfingin séu fylgjandi slíku máli, því að þetta er eitt af baráttumálum þeirra um allan heim.

Ísland er nú eina ríkið meðal þjóða Vestur-Evrópu, sem hefur ekki lög um heimild hins opinbera til að hamla á móti einokun fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja til að halda uppi í skjóli einokunaraðstöðu óeðlilega háu verði til að afla sér óréttmæts ágóða. Verðdagseftirlit í núverandi mynd gegnir ekki þessu hlutverki. Í Noregi er t.d. verðlagseftirlit, en þar fyrir utan hafa verið bannaðir um 400 verðsamningar einkaaðila, sem taldir eru brjóta í bága við þessar meginreglur.

Ýmislegt bendir til þess, að fyrirtækjasamtök séu orðin útbreidd hér á landi, en þó vantar að verulegu leyti formlega vitneskju um ástand þeirra mála og er þess vegna rík ástæða til þess að gera þá athugun, sem tillagan fer fram á. Lengra gengur hún ekki.

Einmitt þessa daga eru miklar deilur um stórkostlega verðhækkun á tryggingum bifreiða, sem tilkynnt hefur verið og það hefur ekki farið fram hjá mönnum, að öll félög, sem starfa að slíkum tryggingum, hvar í hópi sem þau eru, hlutafélög eða samvinnufélög, hafa tekið saman höndum og tilkynnt verðhækkunina sem einn aðili. Þetta hefur ýtt undir þá spurningu, sem gengur manna á meðal, hvort slík verðmyndun sé ekki óeðlileg og hvar verndun neytandans sé, hvar hin frjálsa samkeppni sé, þegar allt að 100% verðhækkanir detta yfir menn með tilkynningum frá slíkum samsteypum, sem þarna virðist vera um að ræða. Og hygg ég þó, að þetta sé ekkert einsdæmi, þó að þetta mál hafi vakið sérstaka athygli.

Hér á Íslandi er þetta vissulega viðkvæmt og erfitt mál vegna þess, að þjóðfélag okkar er lítið, efnahagskerfið er lítið og það er á mörgum sviðum svo, að okkur hlýtur að reynast hagkvæmast í framleiðslu og þjónustu, að ekki séu of margir aðilar um störfin. Þess vegna verðum við öðrum fremur að reyna að finna leið til þess að nota hagkvæman stórrekstur, eins og nútímatækni krefst, en forðast jafnframt þá ágalla, sem eru á hvers konar einokun og einokunaraðstöðu, bæði í framleiðslu og alveg sérstaklega til að ákveða verð á vörum. Hættur á þessu sviði hafa vissulega aukizt við það, að viðskipti hafa verið gefin mun frjálsari, en þau áður voru. Enn stefnir í þá átt, svo að ástæða er ríkari, en nokkru sinni, til þess að samþykkja þessa till. og láta fram fara athugun á þessu máli, ekki sízt vegna þess, sem ég gat um áðan, að aðilar eins og Verzlunarráð Íslands annars vegar, en verkalýðs- og samvinnuhreyfingin hins vegar, virðast vera sammála um nauðsyn þess, að athugað sé, hvernig ástand þessara mála er og hvort ekki er rétt fyrir Íslendinga, eins og svo til allar þjóðir í okkar hluta heims, að setja einhverja löggjöf um þessi mál.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði í dag frestað og málinu, þegar það verður gert, vísað til allshn.