05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2773)

111. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Frsm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Þessi till. um eftirlit með fyrirtækjasamtökum er þess efnis, að Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga, með hverjum hætti hið opinbera geti haft eftirlit með viðleitni fyrirtækja til að hafa með sameiginlegri afstöðu á markaði óæskileg áhrif á verðmyndun í landinu og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í meira vöruúrvali og hagstæðara verðlagi. Þessi þáltill. hefur oft verið flutt hér á Alþ. áður, þó að hún hafi aldrei áður komizt svo langt áleiðis að verða afgr. úr n. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að hv. þm. sé þetta mál allvel kunnugt og get leyft mér að vísa sérstaklega til þess, sem segir í grg. með till., og þá alveg sérstaklega tilvitnunar til umsagnar Hagstofu Íslands um málið, en hagstofan segir, að ýmislegt bendi til þess, að fyrirtækjasamtök séu nú orðin talsvert útbreidd hér á landi. En hins vegar vantar alla vitneskju um ástand þessara mála í einstökum atriðum, vegna þess að aldrei hefur farið fram nein athugun á þeim. Hníga ýmis rök að því, að slík athugun verði látin fara fram. Þegar þessi till. kom fyrst fram á Alþ., var hún einnig send til umsagnar Verzlunarráði Íslands, sem gaf jákvæða umsögn um till.

Þessu máli var vísað til allshn. og allshn. leit svo á, að nauðsynlegt væri að láta þá athugun fara fram, sem till. gerir ráð fyrir, og því mælir allshn. með því, að till. verði samþ.