24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

65. mál, vigtun bræðslusíldar

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. benti á það að til væru lög, — ég las meira að segja upp meginkafla laganna í minni framsöguræðu fyrir till., — og hann taldi, að það væri ekki líklegt til árangurs, að skipa nefnd sem þessa, því að það væru bein lagafyrirmæli um, að það ætti að vigta alla síld. Þessi lagafyrirmæli hafa verið eins og ég benti á í minni framsögu, frá 9. maí 1930. Það er núna í mörg ár búið að krefjast þess af þeim aðilum, sem selja bræðslusíld í verksmiðjur norðan og austanlands, að síldin sé vigtuð, en ekki mæld. Svarið hefur verið, að það væri svo kostnaðarsamt og þegar komið er fram á síldveiðar. Þá er auðvitað engin aðstaða til þessa að vigta, þar sem málið hefur ekki verið undirbúið. Þessa samkomulagsleið hefur verið reynt að fara núna í ein 6 eða 8 ár frá heildarsamtökum útvegsins við verksmiðjurnar og heildarsamtök útvegsmanna eru orðin alveg uppgefin á að fá verksmiðjurnar inn á þessar brautir. Og það, sem hefur gerzt, er enn verra, að þær verksmiðjur, sem hafa hafið sína starfrækslu, eins og ég benti á í minni framsöguræðu og keyptu fyrst síld eftir vigt, hafa lagt það niður og komið sér upp mælitækjum þrátt fyrir þessi lög frá 9. maí 1930. Og það er skoðun okkar flm. þessarar till., að þetta langa tímabil, þar sem reynt hefur verið að leita samkomulags í þessum málum, sé á enda liðið og því sé ekki um annað að ræða, en að bera málið hér fram á Alþingi í trausti þess, að það verði, ef þessi till. nær samþykki þingsins, skipuð nefnd, sem tekur þetta mál föstum tökum og við höfum eitt ár til stefnu, að þessum málum verði breytt fyrir sumarsíldveiðarnar 1966. Og það er mín skoðun og ég hygg, að ég megi segja, að það sé skoðun annarra stjórnarmanna í L.Í.Ú., að þetta sé sú leið, sem við almennt álitum að sé líklegust til þess að ná árangri. Þetta er sömuleiðis skoðun fjölda margra sjómanna og óánægja þeirra er alls ekki minni, en útvegsmanna, enda hafa þeir nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta. Hitt getur svo verið álitamál, sem hv. 5. þm. Austf, benti á áðan, í sinni ræðu, hvort það ætti að vera tilnefndur maður frá Sjómannasambandi Íslands eða Alþýðusambandi Íslands og það er sjálfsagt að taka það mál til athugunar í þeirri n., sem fær till, til afgreiðslu að lokinni þessari umr.