05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (2786)

65. mál, vigtun bræðslusíldar

Frsm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er þess efnis, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að skipa 5 manna n. til þess að athuga möguleika á því, að síld, sem lögð er í síldarverksmiðju til bræðslu, verði keypt eftir vigt.

Allshn. hv. Sþ. hefur haft þessa till. til meðferðar og sent hana til umsagnar og rætt hana á fundum sínum. Það má segja, að það sé einróma álit þeirra aðila, sem fengið hafa málið til umsagnar, að þeir mæli með samþykkt till. Málið hefur m.a. verið sent til Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og þeir mæla með samþykkt. Þeir geta þess, að þetta sé mál, sem valdið hafi miklum ágreiningi á undanförnum árum og meðfram vegna þess mæla þeir með því, að þessi stefna sé tekin. Síldarverksmiðjusamtök Norður- og Austurlands sendu allýtarlega umsögn, þar sem þau ræddu vandamálið í heild. Þau mæla jafnframt með þessu. Síldarverksmiðjur ríkisins gátu þess í umsögn sinni, að þær hefðu ekki getað kallað til fundar, en í gegnum viðtöl við viðkomandi aðila í stjórn verksmiðjanna er stjórn síldarverksmiðjanna sammála um að mæla með samþykkt till. og sömuleiðis má segja um stjórn Landsambands ísl. útvegsmanna og aðra þá, sem hafa að gera með sölu síldar. Síldarútvegsnefnd hins vegar getur þess, að hún hafi aldrei haft nein afskipti af vigtun bræðslusíldar og taki þess vegna ekki afstöðu til málsins. Alþýðusamband Íslands getur þess, sem kom fram í fyrri hl. umr. um þetta mál, að það séu ótvírætt skýr ákvæði um það í íslenzkum l., að ef seljandi óski þess, þá sé hægt að fá síld vigtaða, sem seld er til bræðsluverksmiðja. Það er hins vegar staðreynd, að af þessu hefur ekki orðið, þrátt fyrir ítrekaðar óskir bæði sjómannasamtaka og samtaka þeirra útvegsmanna, sem hafa með þessi mál að gera og því eru allir aðilar ásamt allshn. sammála um að mæla með samþykkt þessarar till., með þeirri breyt. þó, að í stað orðanna „1. okt. 1965“ í þáltill. komi: 1. jan. 1966. Þetta verður að teljast eðlilegt, meðfram af því að till. kemur seint fram til afgreiðslu hér á hv. Alþ., og hv. Alþ. verður að ætla þeim mönnum, sem koma til með að vinna að þessu máli, þann tíma, sem nauðsynlegur er.

Persónulega er ég sannfærður um það, að með þessari till. er farið inn á rétta braut. Með þeirri tækni, sem ryður sér nú til rúms, verður það fram undan a.m.k. í sambandi við bræðslusíld, að það verður dælt frá skipunum með sjálfvirkum tækjum og inn á sjálfvirka rás, sem hefur á sinni rás vigtun. Og eins og tekið hefur verið fram bæði af flm. og af öðrum, sem sent hafa inn umsagnir, þá er hér um mikið áhugamál bæði útvegsmanna og sjómanna að ræða og undir það áhugamál hefur allshn. tekið ásamt öðrum, sem sent hafa inn umsagnir og því mæla þeir eindregið með því, að till. þessi verði samþ.