05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (2789)

65. mál, vigtun bræðslusíldar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka allshn. fyrir afgreiðslu á þessu máli og vona, að hæstv. sjútvmrh. taki til athugunar þær ábendingar, sem hv. 7. landsk. benti hér á áðan í sambandi við það, að tilraun verði gerð með vigtun bræðslusíldar þegar á komandi sumri.

En út af því, sem hv. 5. þm. Austf, sagði, vildi ég segja hér nokkur orð. Hann tók það fram, að hann hefði bent á það, þegar málið var hér til fyrri umr., að til væru lög í landinu, þar sem væru ákvæði um, að öll bræðslusíld skyldi vigtuð, en ekki mæld. Ég vil taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þegar ég fylgdi þessari till. úr hlaði, benti ég einmitt á þessi lög og vissi mjög gerla um þau og það jafnframt, að eftir þeim hefur ekki verið farið, hvorki á einn né annan veg, frá því að þau voru sett á árinu 1930. Nú verð ég að segja það, að þeir menn, sem farið hafa með sjávarútvegsmál á þessum tíma, hefðu auðvitað fyrst og fremst átt að sjá um, að þessum l. væri framfylgt, og m.a. fór hv. 5. þm. Austf. með sjávarútvegsmál á árunum 1956–1958, og það hefði því verið eðlilegt, að hann hefði gefið a.m.k. Síldarverksmiðjum ríkisins ákveðin fyrirmæli um það, að hér eftir skuli verksmiðjur ríkisins fara að lögum og jafnframt hnippa þá í aðra. En hann gerði það ekki frekar, en aðrir þeir ráðh., sem farið hafa með sjávarútvegsmál í öll þessi ár. Ég get ekki séð varðandi 35 ára gömul lög, þar sem er um ákveðin sektarákvæði að ræða í krónutölu, að það hafi mikið að segja að beita þeim núna. Þau eru líka sniðin með allt aðra vigtunarmöguleika fyrir dyrum en núna eru, svo að þau eru á alla lund orðin úrelt núna á þessari öld tækninnar.

Ég vil einnig benda á það í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði um þær reglur, sem væru um verðlagningu á síld, að það undarlega hefur skeð á undanförnum árum, að reglurnar eru þær sömu, hvort sem síldin er keypt eftir máli eða vigt og þessar verksmiðjur greiða nákvæmlega það sama, enda hefur þetta ákvæði orðið til þess, að verksmiðjur, fátækar og litlar verksmiðjur, sem voru að hefja sinn rekstur, keyptu fyrst síld eftir vigt, en síðan komu þær sér upp þessum forláta mælitækjum til þess að drýgja fyrir sig, og hafa keypt eftir máli og þegar þessi þróun hefur verið á þennan veg, er ekki að búast við því, að útvegsmenn eða sjómenn almennt sætti sig við þessa afgreiðslu. Hitt er hægt að segja, þegar komið er fram á síldveiðar, að ákveðnir bátar segi Við leggjum ekki síld til bræðslu, nema hún verði vigtuð. — Þá eru ekki nein slík tæki til. Og þetta hefur verið látið danka á þennan hátt árum saman. Þessi till. er því flutt af fullkominni ástæðu til að kippa þessum málum í lag og sætta þá, sem frumhráefnisins afla, sjómenn og útvegsmenn, við þessi mál, því að lengur geta þeir ekki unað þessu fyrirkomulagi, sem verið hefur.