05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (2790)

65. mál, vigtun bræðslusíldar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við ummæli, sem hér féllu hjá hv. 11. landsk. þm. Hann sagði, að sér fyndist, að ég hefði þann tíma, sem ég var sjútvmrh., átt að sjá um það, að SR færu að lögum og keyptu þá síld samkv. vigtun. En hér er um misskilning hjá hv. þm. að ræða. Virðist vera, að hann hafi ekki kynnt sér þau lög, sem hann hefur sjálfur vitnað hér í áður. Lögin eru ekki þess eðlis, að þau fyrirskipi það, að síld skuli keypt eftir vigtun, heldur eru l. þannig, að ef seljandi krefst þess, þá er kaupandi skyldur að gera það. Það er vitanlega ekki ráðh. að vita um það eða segja til um það, hvernig þeir haga sínum skiptum í tilfelli eins og þessu, seljandi og kaupandi. En hafi sem sagt seljandi verið ákveðinn í því að vilja láta gildandi l. vera sér í hag í þessum efnum, þá gat hann gengið eftir því. Og ég hef bent á það, að til mín var ekki leitað sem ráðh. í þessum tilfellum, hvorki af samtökum útvegsmanna né annarra, til þess að sjá um framkvæmd á þessu, svo að það stóð ekki á mér á nokkurn hátt. En hitt er svo annað mál, eins og ég hef sagt hér áður, að mér virðist, að seljendur hafi tekið nokkuð misjafnlega á þessu í sambandi við framkvæmd málsins. Það er því rangt, sem hér hefur verið sagt, að það hafi staðið eitthvað á mér að sjá um það, að l. væru haldin í þessum efnum. Hitt er annað mál, að það hefur verið ljóst, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og ýmsar aðrar stjórnir síldarverksmiðja hafa verið að skjóta sér undan þessu og komizt upp með það, vegna þess að lögum hefur ekki verið haldið að þeim í þessu tilfelli af þeim, sem hefðu vissulega getað gert það.

Það var aðeins þetta atriði, sem ég vildi leiðrétta, en að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að þreyta hér kapp um þessar athugasemdir, sem hér hafa verið gerðar í sambandi við þetta mál.