18.12.1964
Efri deild: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

106. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls óskaði hv. G. þm. Sunnl. eftir upplýsingum frá mér um fyrirkomulag við innheimtu söluskatts. Því miður vissi ég ekki áður um þessa beiðni, en hefði ég vitað það, hefði ég að sjálfsögðu getað haft við höndina greinargerðir frá hlutaðeigandi skattstjóra eða skattstjórum um málið. Þær eru ekki við höndina nú, en það er sjálfsagt að gefa slíkar upplýsingar við meðferð málsins í Nd.

Varðandi brtt. tveggja hv. þm., sem hér var lýst, fjallar sú fyrri um það, að í hlut jöfnunarsjóðs sveitarfélaga komi 12% af söluskatti í stað 8%. Það er vissulega sjálfsagt að fagna hinum vaxandi áhuga Framsfl. á tekjustofnum sveitarfélaganna, og er það að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Hins vegar er það svo um þennan söluskattsviðauka nú. að hann er þess eðlis, að hann á fyrst og fremst að standa undir niðurgreiðslum til að koma í veg fyrir hækkun vísitölu og kauphækkun umfram visst mark. Þess vegna eru ekki þær sömu ástæður til þess eins og var 1960 að láta sveitarfélögin fá hlut af söluskattinum. Þeirra útgjöld munu að vísu hækka vegna söluskattsins nokkuð og vegna þeirrar 3% kauphækkunar og hækkunar á almannatryggingum, sem gert er ráð fyrir, en hins vegar er einmitt með þessari ráðstöfun verið að koma í veg fyrir miklu meiri hækkun vísitölu og kaupgjalds, sem mundi bitna á sveitarfélögunum, því að ef söluskatturinn væri ekki á lagður, hlytu niðurgreiðslur að stórminnka og vísitala og kaupgjald að hækka meira en verður, ef þetta frv. verður samþykkt. Ég sé því ekki, að það séu rök fyrir því að þessu sinni að taka til sveitarfélaganna hluta af þessari fjáröflun til niðurgreiðslna.

Öðru máli væri að gegna, ef hv. þm. flyttu till. um að hafa söluskattinn hærri en hann er í frv. og sá hluti rynni til sveitarfélaganna. En ég veit ekki, hvort hv. þm. eru tilbúnir að flytja slíka tillögu.

Þá er önnur tillaga hv. þm. um að lögbjóða sérstaka aðferð við rannsókn á skattaframtölum. Svipuð tillaga kom fram á síðasta þingi, að öðru leyti en því, að því var ákveðið, að viss prósentutala af framtölum skyldi tekin eftir útdrætti, að mig minnir, og rannsökuð. Sá megingalli var á þeirri tillögu, að þá átti ekki að taka til rannsóknar þau framtöl, sem þóttu tortryggileg eða grunsamleg, heldur aðeins af handahófi. Hér er bætt úr þessu, þar sem hér er tekið fram, að rannsókn á framtölum 5% af söluskattsskyldum aðilum skuli vera umfram þau framtöl, sem skattayfirvöldunum þykir ástæða til að rannsaka.

Nú er það þannig, að rannsóknardeild hjá ríkisskattstjóra er alveg nýlega tekin til starfa, tók til starfa í sumar, skv. lögum frá síðasta þingi, og þegar hún er að byggja upp sitt starf og skapa sér starfsreglur, þá tel ég ekki heppilegt, að Alþ. grípi þar fram fyrir hendur og lögskipi vissa aðferð, a.m.k. ekki án þess að fá umsögn eða tillögur forstöðumanns rannsóknardeildarinnar áður.

Ég veit ekki heldur, hvort þessi tillaga, ef samþ. yrði, mundi þýða það, að það þyrfti stóraukið starfslið við þessa stofnun. Um það skal ég ekki fullyrða. En a.m.k. á þessu stigi, þangað til fengin hefur verið umsögn ríkisskattstjóra og forstöðumanns rannsóknardeildar um till., treysti ég mér ekki til að mæla með henni.

Ég vil aðeins bæta því við, að að sjálfsögðu fjallar þessi rannsóknardeild ekki aðeins um framtöl vegna tekju- og eignarskatts og útsvara, heldur einnig og ekki siður um söluskattinn.