10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (2801)

48. mál, efling Akureyrar sem skólabæjar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir það, sem frsm. þessa máls hér sagði og þá stefnu, sem þeir leggja til, að mörkuð verði í sambandi við þessi mál. Að sjálfsögðu hljótum við öll að viðurkenna, að eðlilegt sé, að höfuðborg landsins vax og þar verði staðsettar megin menntastofnanir. En hitt er einnig rétt, að hætta getur verið á í þessu sambandi, að um ofvöxt sé að ræða og tel ég, að hina öra fólksfjölgun hér í Reykjavík á undanförnum árum megi nokkuð rekja, til þess, að hér hafa verið allar aðalmenntastofnanir landsins staðsettar. Ég tel, að líta verði á þetta mál út frá því sjónarmiði, að eðlileg þróun höfuðborgarinnar geti átt sér stað, en ekki um of á kostnað dreifbýlisins.

Hvað Akureyri viðvíkur, er það viðurkenndur skólabær utan Reykjavíkur og ekki nema eðlilegt, að þm. þess héraðs sæki á það, að hann verði einnig efldur. En að sjálfsögðu ber að hafa það í huga í sambandi við Akureyri eins og Reykjavík, að það má ekki einblína um of á þann eina stað, heldur dreifa menntastofnunum og sérskólum um landið, eins og heppilegast verður að teljast á hverjum tíma. Þegar ég tala um sérskóla, kemur upp í huga mínum till., sem hér var samþykkt á síðasta þingi um athugun á möguleika fyrir að setja á stofn fiskiðnskóla, hér á landi. Ég mundi t.d. telja mjög eðlilegt, að hann væri staðsettur utan Reykjavíkur og er ég þá fyrst og fremst með í huga stærstu verstöð landsins, Vestmannaeyjar. Ég tel að þar séu fyrir hendi öll skilyrði til þess, að slíkur skóli verði þar staðsettur. Ég mundi telja eðlilegt, að svo yrði og vona, að niðurstöður þeirrar n., sem um þetta mál mun fjalla, verði í þá átt, að frekar verði að því stefnt, að slíkur skóli yrði staðsettur í þessari stærstu verstöð landsins heldur, en hér í höfuðborginni.

Að öðru leyti skal ég ekki á þessu stigi málsins fjölyrða frekar um þetta mál, en tel að sú stefna sem með frv. er mörkuð og kom fram í framsöguræðu 1. flm., sé mjög þess virði, að þetta mál fái hér framgang.