10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

48. mál, efling Akureyrar sem skólabæjar

Frsm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Og ég vil líka taka undir það, sem hann sagði um fiskiðnskólann, að þegar hann kemur, sem vonandi verður innan tíðar, er vafalaust rétt, að hann verði staðsettur utan Reykjavíkur. Það er vafalaust rétt hjá honum. En ég vil aðeins árétta eitt í þessu sambandi. Hann nefndi hv. þm., að ekki væri rétt að einblína um of á einn stað sem skólabæ. Ég reikna með, að honum hafi fundizt, að ég hafi stefnt þar nokkuð fast á Akureyri sem slíkan. En ég útskýrði það í frumræðu minni, hver ástæðan var til þess, að ég geri svo. Það er í fyrsta lagi þannig, að Akureyri þarf að vaxa til nokkurs mótvægis á móti Reykjavík og þ. á m. í menningarefnum, ekki síður en atvinnumálum og framkvæmdum og svo hitt, að ég hygg, að það sé rétt, sem fram kemur í nál. norsku mþn., sem ég nefndi að æskilegt sé að efla skólabæi. Og það er með tilliti til þess ekki sízt, að ég stefndi á Akureyri. vegna þess að á Akureyri er þegar sennilega einna stærstur vísir til skólabæjar hér á landi utan Reykjavíkur.