24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2824)

49. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Flm. (Alfreð Gíslason) :

Herra forseti. Á þskj. 55 flyt ég till. til þál. um endurskoðun l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Efnið er um það, að l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla verði tekin til endurskoðunar hið fyrsta og að brtt. í frv.-formi verði síðan lagðar fyrir Alþingi. Þessi lög um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla voru sett árið 1936, sama árið og annar lagabálkur um sjúkrahjálp var settur, nefnilega l. um alþýðutryggingar.

Þessir tveir lagabálkar, sem fjalla um sama efni, sjúkrahjálpina, hafa öðlazt mjög misjafna þróun síðan árið 1938. L. um alþýðutryggingar og síðar l. um almannatryggingar hafa tekið tíðum breytingum á þessum 30 ára tíma og margvíslegar endurbætur á þeim gerðar öðru hverju. L. hafa sem sagt fengið að fylgjast með breyttum tímum og með breytingum á þeim hafa verið gerðar lagfæringar í samræmi við kröfur tímanna. Þetta gildir ekki um l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Þessi lög hafa staðið svo til óbreytt, síðan þau voru sett árið 1938.

Upprunalega var þess gætt við setningu þessara lagabálka, að fullt samræmi ríkti á milli þeirra, þannig að ekkert misrétti skapaðist við setningu þessara tveggja lagabálka. Smám saman og af þeim ástæðum, sem ég hef þegar greint, hefur skapazt mikið misræmi á milli l. um almannatryggingar annars vegar og l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla hins vegar. Það hefur skapazt misræmi og misrétti, sem bitnar á einstaklingum, þeim sjúku mönnum, sem falla undir ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.

Það er ekki fjarri lagi að segja, að þessi lög um ríkisframfærslu séu orðin að steingervingi í þjóðfélaginu og langt á eftir tímanum, ef borið er saman við aðra löggjöf um sjúkratryggingar. Það má segja, að nú sé ástandið þannig, að sjúku fólki sé skipað í tvær fylkingar eftir því, hvers eðlis vanheilsan er. Hvað hjálpina snertir, er annar hópurinn háður ákvæðum löngu úreltra laga, en hinn hópurinn nýtur góðs af því, sem bezt er veitt á hverjum tíma. Þetta mun enginn telja réttlátt og það því síður sem misréttið bitnar á þeim, sem um sárast eiga að binda í þessum efnum, þ.e.a.s. þeim, sem eiga við að stríða erfiðustu og langvinnustu sjúkdómana

Samkv. almannatryggingalögunum eiga allir sjúklingar rétt og kröfu á ókeypis sjúkrahúsvist án tillits til efnahags og svo lengi sem þörf krefur. Hér eru ákvæðin fortakalaus. Það er frumskylda sjúkrasamlaganna að veita þessa hjálp. En í l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla eru ákvæðin á allt annan veg og þannig orðuð, að sjúklingar, sem undir þau falla, skuli koma til greina við úrskurðun styrkveitinga, eins og það er orðað í l., að styrkur verði ekki veittur þeim, sem teljast færir um að standast sjálfir kostnaðinn af sjúkdómi sínum og að ráðh. úrskurði, hver sjúklingur sé styrkhæfur og hver ekki. Af þessum samanburði má nokkuð ráða, hversu mjög þessi lög eru aftur úr, hversu mjög þessi lög eru á eftir tímanum. Það er ekki talin ástæða til að líta á efnahaginn, þegar um smávægilega sjúkdóma er að ræða, þá. skal sjúklingurinn án tillits til efnahags njóta ókeypis sjúkrahúsvistar, en sé um langvinna, erfiða sjúkdóma að ræða, skal líta á efnahaginn.

Í þessu felst að mínum dómi mjög gróft misræmi. Það er sem sagt í þessum l. svo ákveðið, að ráðh. skuli ákveða það hverju sinni hvort sjúklingur fái ríkisframfærslustyrk eða ekki. Og þannig er þetta framkvæmt enn. Á sjúkradeildum og í hælum, sem ætluð eru fólki með langvinna sjúkdóma, njóta þannig sumir sjúklinganna ríkisframfærslu og aðrir ekki og það sem verra er, að oft virðist hrein hending hafa ráðið, hvort ofan á verður. Það er þannig alls ekki óalgengt, að séu tveir sjúklingar með sams konar sjúkdóm á svipuðu stigi og álíka efnahag, þá fái annar ríkisframfærslu, en hinn ekki. Og þetta misræmi hefur undir mörgum kringumstæðum skapazt af því, að úrskurðurinn var felldur á mismunandi tímabili í sjúkdómi sjúklingsins.

Allir, sem til þessara mála þekkja, munu fyrir löngu sammála um, að þessi lög séu óhæf í þeirri mynd, sem þau eru nú og telja, að annaðhvort verði að breyta þeim til samræmis við breytta tíma og til samræmis við aðra löggjöf skylda, eins og l. um almannatryggingar, eða að öðrum kosti að afnema þessi lög með öllu og láta mál ríkisframfærslunnar falla undir tryggingarnar og þá sérstaklega lífeyris- og sjúkratryggingarnar.

Ég skal aðeins benda á hér, að n., sem endurskoðaði l. um almannatryggingarnar, l. sem samþykkt voru 1963, hafði opin augun fyrir þessum ágöllum í l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla og athugaði það mál allgaumgæfilega, þótt það væri strangt tekið ekki í hennar verkahring. Þessi n. lét í ljós skoðun sína í grg., sem fylgdi frv. til l. um almannatryggingar 1963 og ég leyfði mér að taka þann kafla úr grg. upp sem fskj. með þessari till., sem ég flyt á þskj. 55. Og þar er ekki farið í launkofa með, að l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla séu orðin langt á eftir tímanum og brýn þörf úr að bæta. En síðan þetta var, eru liðin 2 ár og ekkert hefur gerzt í þessu máli. Að vísu mun sama n. eitthvað hafa athugað þetta mál síðan, en án nokkurrar niðurstöðu, og nú um langt skeið mun ekkert hafa verið gert í því að endurskoða þessi l. um ríkisframfærsluna.

Ég flyt þessa till. fyrst og fremst til þess að vekja athygli á þessu máli og ef verða mætti til þess að flýta fyrir því; að þessi brýna endurskoðun, sem allir aðilar, sem til þekkja, virðast sammála um, verði framkvæmd.

Herra forseti. Ég legg til, að þessari umr. verði síðan frestað og till. vísað til hv. allshn.