28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (2845)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Þessi till., sem hér er til umr., er raunar gamall kunningi á Alþingi. Þetta er í fimmta sinn, sem ég er flm. að henni ásamt öðrum, og þar áður eða fyrir 6 árum hafði hún verið samþykkt hér á þingi nokkurn veginn shlj. því og hún liggur fyrir á þskj. 14. En efni þessarar till. er það, að Seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnavíxla iðnfyrirtækja eftir ákveðnum reglum, er settar verði með svipuðu sniði og reglur þær, er gilda um endurkaup framleiðsluvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar.

Þó að þannig sé nú ástatt, eins og ég hef þegar sagt frá, að svipuð till. hafi verið samþ. hér á Alþingi fyrir 6 árum og síðan hafi verið minnt á hana, mörgum sinnum, hér á Alþingi, hefur hún enn ekki verið látin koma til framkvæmda. Mér finnst ekki úr vegi í sambandi við þessa umr. að athuga það nokkuð, hvað því geti valdið, að þessi till. hefur ekki verið látin koma til framkvæmda og til þess að gera það ekki í allt of löngu máli, finnst mér rétt að bera þetta fram í spurningaformi og svara þeim síðan lítils háttar á eftir.

Það fyrsta, sem mér finnst rétt, að komi til athugunar í þessu sambandi er það, hvort þessi dráttur geti stafað af því, að iðnaðurinn eigi ekki að njóta jafnréttis við landbúnað og sjávarútveg, hvort hann sé ekki atvinnuvegur, sem eigi að vera jafnrétthár hinum tveimur. Ég veit það, að allir þm. eru sammála um, að það á að efla landbúnað og sjávarútveg svo sem frekast er kostur. En ég hygg, að öllum sé það einnig ljóst, að þó að þessir atvinnuvegir séu auknir, nægir það ekki til þess að sjá þeirri fólksfjölgun, sem verður í landinu, fyrir meiri atvinnu. Og þess vegna þarf að byggja upp aðra atvinnuvegi og þar að sjálfsögðu kemur iðnaðurinn fyrst og fremst til greina. Þjóðin hefur þess vegna engu minni þörf fyrir það, að iðnaðurinn sé efldur, heldur en hinir tveir fornu atvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, enda er það staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að engin nútíma menningarþjóð getur verið án vaxandi og blómlegs iðnaðar. Þess vegna liggur það í augum uppi, að það er sjálfsagt, að iðnaðurinn njóti sama réttar og landbúnaður og sjávarútvegur í þessum efnum sem öðrum.

Þá kemur annað til athugunar, sem kynni að geta valdið því, að þessi till. hefur ekki verið látin koma til framkvæmda og það er sú spurning, hvort iðnaðurinn þurfi á þessari fyrirgreiðslu að halda, sem hér er rætt um. Ég hygg, að allir þeir, sem eitthvað þekkja til iðnaðar, geri sér það fullljóst, að iðnaðurinn hefur fyllstu þörf fyrir sömu aðstoð eða fyrirgreiðslu í þessum efnum og landbúnaður og sjávarútvegur. Það hefur verið og er mikill lánsfjárskortur hjá íslenzkum iðnaðarfyrirtækjum, enda staðreynd, að í þeim efnum býr iðnaðurinn íslenzki við miklu lakari aðstöðu, en iðnaður annarra landa. Ég vil aðeins geta þess í þessu sambandi að í því blaði, sem gefið er út af Félagi ísl. iðnrekenda, Íslenzkum iðnaði, hefur hvað eftir annað verið vikið að því á þessu ári, að iðnaðurinn búi við mikinn og vaxandi lánsfjárskort og það hái iðnaðinum alveg stórkostlega. Ég minni t.d. á það, þm. fá þetta blað. að í þessu blaði, sem kom út í maímánuði s.l., fjallar aðalgreinin á forsíðu blaðsins um þetta mál undir fyrirsögninni .„Mikill lánsfjárskortur iðnfyrirtækja“ og í því blaði af Íslenzkum iðnaði, sem seinast hefur komið út, septemberblaðinu, er það mjög skilmerkilega rakið, hvernig lánsfjárskorturinn þrengi nú að vélaiðnaðinum og geri honum eiginlega ómögulegt að keppa við erlenda aðila á þessu sviði. Samkeppnisaðstaða flestra íslenzkra iðnfyrirtækja byggist nú allt of mikið annaðhvort á tollvernd eða lágu eða ódýru vinnuafli. Tollvernd er hér miklu meiri, en í flestum öðrum löndum og vinnuafl er hér ódýrara, en í nágrannalöndum okkar og þetta tvennt er allt of mikið aðalstoðir margra íslenzkra iðnaðarfyrirtækja í dag. Þetta þarf að breytast. Við þurfum að vinna að því að koma málum okkar í það horf og þróunin í heiminum mun gera það einnig nauðsynlegt, að tollverndin sé heldur minnkuð og það er líka óhjákvæmilegt að stuðla að því, að íslenzkir iðnaðarmenn eða iðnverkamenn njóti nokkurn veginn svipaðra lífskjara og stéttarbræður þeirra í nálægum löndum, þ.e. að launakjörin verði ekki lakari hér en þar. Þess vegna má ekki treysta á það, að iðnaðurinn geti til frambúðar byggt eins mikið á þessum tveimur stoðum, mikilli tollvernd og ódýru vinnuafli. Og þetta verður að sjálfsögðu að gera með því að laga fyrir honum á annan hátt eða með öðru móti og þá ekki sízt með því að sjá svo um, að hann hafi aðgang að nægu lánsfé eins og erlend iðnaðarfyrirtæki og auk þess séu lánskjörin ekki lakari, en erlendur iðnaður á við að búa. Og eitt stærsta atriðið í þessu er að sjálfsögðu það, sem þessi till. fjallar um, að hann njóti svipaðrar fyrirgreiðslu og landbúnaður og sjávarútvegur hvað snertir kaup á framleiðsluvíxlum. Það atriði hefur svo að sjálfsögðu meginþýðingu í þessum efnum, að það sé unnið að því að efla framleiðni iðnaðarins á allan hátt, en á því sviði erum við áreiðanlega mjög á eftir og þar þurfa að verða stærstar umbætur, en eitt hið mikilvægasta til þess að gera iðnaðinum mögulegt að auka framleiðni sína er einmitt það að tryggja honum aðgang að nægilegu lánsfé, því að það er náttúrlega útilokað fyrir iðnfyrirtæki að ætla að bæta framleiðni sína, nema það fái lánsfé til þess að rísa undir þeim framkvæmdum, sem eru nauðsynlegar í því skyni, að framleiðnin verði aukin. Það er líka víst, að það, sem hefur staðið því hvað mest fyrir þrifum á undanförnum árum, að framleiðni íslenzkra iðnaðarfyrirtækja hafi aukizt til jafns við það, sem hefur átt sér stað víða erlendis, ein meginástæðan til þess er einmitt sá lánsfjárskortur, sem iðnfyrirtækin hafa þurft við að búa á undanförnum árum. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það frekar að sinni, hvort iðnaðurinn hafi þörf fyrir þá fyrirgreiðslu, sem hér um ræðir, því að það, sem ég hef aðeins nefnt hér stuttlega, sýnir alveg augljóslega, að hann hefur ekki minni þörf fyrir þá fyrirgreiðslu í þessum efnum, sem hér um ræðir, heldur en landbúnaður og sjávarútvegur.

Og þá kem ég að þriðju spurningunni, sem ég tel að sé ástæða að velta fyrir sér í þessu sambandi, þegar menn vilja gera sér grein fyrir því, vegna hvers hæstv. ríkisstj. hefur ekki framkvæmt þessa till. eða framfylgt þessari till. og sú spurning er á þá leið, hvort það hafi verið möguleikar af fjárhagslegum ástæðum til þess að láta þessa till. koma til framkvæmda eða með öðrum orðum sagt, hvort fjármagn hafi verið fyrir hendi til að fullnægja þessum þörfum iðnaðarins. En ég hygg, að þeirri spurningu megi svara í ákaflega stuttu máli og nægir alveg að benda á þá miklu frystingu sparifjár, sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum. Nú eru í Seðlabankanum, — ég má segja, að það séu um 1.000 millj. kr. af sparifé, sem eru frystar þar og það þyrfti ekki að sjálfsögðu nema nokkurn hluta þeirrar upphæðar til þess að fullnægja þeirri þörf iðnaðarins, sem hér er um að ræða. Hæstv. ríkisstj. hefur þess vegna haft fulla aðstöðu til þess að framkvæma þessa till., ef nægur vilji hefði verið fyrir hendi í þeim efnum, með því aðeins að draga nokkuð úr frystingu sparifjárins og nota það fjármagn til þess að veita iðnaðarfyrirtækjunum þá fyrirgreiðslu, sem hér um ræðir. Það sýnir svo ásamt öðru því, sem ég hef minnzt á, hver þörfin er í þessum efnum, að ég held, að það hafi naumast verið haldinn svo fundur iðnrekenda eða iðnaðarmanna á undanförnum missirum, að það hafi ekki verið lögð sérstök áherzla á það, að iðnaðurinn fengi þá fyrirgreiðslu til jafns við landbúnað og sjávarútveg, sem þessi till. fjallar um.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki upp aðra stefnu í þessum málum, en hún hefur fylgt að undanförnu, þannig að hún fallist á, að ályktun Alþingis frá 1958 komi loks til framkvæmda. En vegna þeirrar slæmu reynslu, sem á hefur orðið í þessum efnum, þá hygg ég, að það sé ekki vanþörf á því, að Alþingi láti í ljós vilja sinn í annað sinn.

Ég leyfi mér svo að leggja til við hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til fjvn.