28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (2846)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja um þetta mál á þessu stigi málsins.

Hv. 1. flm. er duglegur við að flytja till. og ekki aðeins þær, sem hann sjálfur býr til og á frumkvæði að, heldur einnig till. annarra, sem Alþingi hefur samþ. og er það heldur óvenjulegt. En ekkert hef ég við því að segja, þótt hann flytji till., sem sjálfstæðismenn hafa áður flutt á þinginu og fái þær endursamþykktar.

Ríkisstj. mun hafa haft þetta mál til athugunar í samráði við Seðlabankann, og áður en sú breyting varð á ríkisstj., að ég tók við embætti iðnmrh. Hvað ætla má, að geti orðið úr framkvæmd á endurkaupum Seðlabankans á víxlum iðnaðarins, skal ég ekki segja neitt á þessu stigi málsins. Það verður haldið áfram að athuga það og kannske liggja fyrir nánari upplýsingar undir meðferð þessa máls um það, meðan það er fyrir þinginu. Hitt er alveg ljóst, að það er gerólíku saman að jafna, endurkaupum á afurðavíxlum landbúnaðar og sjávarútvegs eða iðnaðar. Það er í raun og veru svo ólíkt, að það mun vera aðalorsökin fyrir því, að ekki hefur verið hægt að framkvæma einmitt þann vilja, sem fram kom hjá Alþingi í þessu sambandi og af því tilefni hefur einmitt verið leitað annarra leiða og hugsuð önnur úrræði. Það er ekki aðeins, að í heild sé aðstaðan allt öðruvísi og ósambærileg varðandi iðnaðinn og sjávarútveginn og landbúnaðinn hins vegar, heldur er svo mikill mismunur innbyrðis í iðnrekstrinum og iðnaðarframleiðslunni, að það er naumast fljótt á litið líklegt, að með góðu móti verði þetta framkvæmt, enda þótt að því yrði hnigið, öðruvísi en þannig, að iðnaðinum sjálfum eða iðnfyrirtækjunum og einstökum greinum iðnaðarins mundi sýnast mjög misgert innbyrðis sín á milli, sem þó mundi ekki verða gert til þess að mismuna þeim, heldur ef til vill aðeins að það yrði ekki hægt að komast hjá því vegna eðlis málsins. Þetta skal ég ekki hafa fleiri orð um að sinni.

Hitt finnst mér ástæðulaust, sem hér hefur verið til umr. og er nú gert töluvert úr og líka vitnað til í málgögnum iðnaðarmanna, að það sé eitthvað sérstaklega farið verr með iðnaðinn í sambandi við lánastarfsemi, en aðrar iðngreinar og að iðnaðurinn eigi við vaxandi lánsfjárskort að búa. Þetta fær alls ekki staðizt, hvorki hjá hv. flm. né heldur í málgögnum iðnrekenda, ef það er rétt haft eftir. Ég veit ekki, hvernig það mætti einnig heimfærast, að þessi atvinnugrein ætti við versnandi eða vaxandi lánsfjárskort að búa eftir það, að á skömmu tímabili hefur verið komið upp með löggjöf hér frá Alþingi, sérstökum banka fyrir iðnaðinn, Iðnaðarbankanum, eftir að iðnlánasjóður hefur verið efldur svo stórkostlega sem raun ber vitni um núna á 2 síðustu árum, eftir að Framkvæmdabankinn hefur stóraukið lánveitingar til iðnaðarins á einmitt 2 síðustu árum frá því, sem áður hefur verið og eftir að Alþingi á síðasta þingi afgreiddi lög um að breyta lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, en að því máli er nú unnið af hálfu ríkisstj. í samvinnu við Seðlabankann og í samvinnu við aðra viðskiptabanka, að það mál geti orðið verulega til framdráttar iðnaðinum, en getur þó ekki orðið svo vegna þess, hvernig löggjöfin er, fyrr en búið er að setja ýtarlega og mótaða reglugerð um það mál, sem ég hef ekki getað gert sem iðnmrh. fram til þessa og mun ekki gera, fyrr en tekizt hefur ákveðin samvinna um það við aðra banka, fyrst og fremst undir forustu Seðlabankans og annarra viðskiptabanka, Iðnlánasjóð og Iðnaðarbankann, svo að, að virkilegu haldi komi.

Það hefur verulega verið gert til eflingar lánamálum iðnaðarins á undanförnum árum, og hef ég þó enn gleymt því, að ríkisstj. hefur á undanförnum síðustu árum hlutazt til um, að iðnaðurinn hefur fengið lán af hinum erlendu amerísku lánum, PL-480 lánum, samtals 50 millj. og 500 þús. kr. nú á síðustu árum í þrennu dagi. Ég veit ósköp vel, að iðnaðurinn á í vök að verjast um lánsfé eins og allir aðrir og aðrar atvinnugreinar, en það er ástæðulaust að segja hvítt svart og svart hvítt og tala um vaxandi lánsfjárskort, þegar þó er sí og æ verið að bæta úr þessum erfiðleikum. Iðnlánasjóður lánaði frá 1935, þegar hann var stofnaður og til 1960, ef ég man rétt, samtals á þessum árum eitthvað 14 millj. kr. Fyrst í stað voru þetta 25 þús. kr. á ári, hækkaði um nokkra tugi þús. upp í nokkur hundruð þús., smám saman upp í hæst, sem hann komst fyrir 1960, 2 millj. kr. Síðan iðnlánasjóðslögin voru endurskoðuð og um það leyti, hefur verið fast framlag til Iðnlánasjóðs, 2 millj. kr. á fjárl., eins og hv. þm. er kunnugt um, en síðan var tekið upp iðnlánasjóðsgjaldið, sem rennur til iðnlánasjóðs og iðnaðurinn borgar sjálfur og ekki hefur orðið vart við annað en iðnaðarmenn og iðnrekendur greiði af fúsum vilja. Þetta gjald mun nema nú kannske eitthvað um 10–12 millj. kr. árlega og það er auðvitað gífurlega mikill styrkur fyrir Iðnlánasjóð. En samtímis þessu hefur svo Iðnlánasjóður fengið af PL-480 lánunum, eins og ég sagði, samtals rúmar 50 millj. kr., eða 50 millj. og 500 þús. og fyrst í stað var það fyrir 3 árum, 21 millj., ef ég man rétt, síðan 14.5 millj. á s.l. ári og á þessu yfirstandandi ári 15 millj. kr., eða sem sagt samtals 50.5 millj., og þetta hefur allt saman orðið til þess, að Iðnlánasjóður hafði til ráðstöfunar og lánaði ráðstöfunarfé á s.l. ári tæpar 40 millj. kr. og það standa vonir til þess, að hann hafi til ráðstöfunar á þessu yfirstandandi ári nærri 60 millj. kr., eða að meðaltali 1963 og 1984 50 millj. kr. Auðvitað veit ég. að það er þörf fyrir miklu meira fé þarna, en þetta er þó mikill munur frá því, sem áður var, fyrir nokkrum árum, fyrir örfáum árum, 4–5 árum, þegar iðnlánasjóður hafði 2 millj. kr. og þaðan af minna til ráðstöfunar á ári.

Það ber ekki að ganga alveg fram hjá þessu eða líta fram hjá staðreyndum, eins og hér er um að ræða. Ég vil nefna Framkvæmdabankann, ég vék að honum áðan. Hann mun hafa lánað á s.l. ári til iðnfyrirtækja milli 40 og 50 millj. kr. og er það langhæst, sem er veitt til iðnaðar og miklu fleiri lán til iðnaðar en nokkru sinni áður. Ég held, að hann í heild hafi lánað 130–140 lán til iðnaðar, frá því að hann hóf göngu sína eða starfsemi á, árinu 1953, en á s.l. ári voru veitt 54 lán af þessum 133 einmitt til iðafyrirtækja. Og vegna lánsfjárskortsins hjá iðnaðinum, sem að mörgu leyti hv. síðasti ræðumaður vék réttilega að, hefur verið hneigzt að því að auka öðru fremur lánveitingar til iðnaðarins af fjárfestingarlánum Iðnaðarbankans til þess að létta þarna undir. Og í þeim fjárskorti, sem Iðnlánasjóður býr við núna í bili, er nú til athugunar, að Framkvæmdabankinn hlaupi eitthvað undir bagga með honum fram að áramótum,og geri ég mér vonir um, að það geti orðið til þess, eins og ég sagði áðan, að í heild muni Iðnlánasjóður hafa til ráðstöfunar á þessu ári um 80 millj. kr.

Hv. 5. þm. Reykv. vék réttilega að því, að vélaiðnaðurinn ætti hér í vök að verjast og íslenzki vélaiðnaðurinn á það ekki skilið að vera útundan eða hornreka í þjóðfélaginu, því að hann hefur byggt sig upp með framúrskarandi dugnaði á undanförnum árum og er þeim kostum búinn, að hann hefur algerlega verið samkeppnisfær við erlendan vélaiðnað. Það á sérataklega við frystivélaframleiðsluna hér á landi og ýmsar tegundir af vélum í síldarverksmiðjurnar. En það er rétt, að menn hafa á undanförnum 2 árum a.m.k. getað fengið og þó lengur, en það hefur borið aðallega á því á þessum síðustu árum, þá hafa menn getað fengið keyptar slíkar vélar erlendis frá með gjaldfresti, með lánum, sem hafa verið frá 3–5 ára og þetta hefur í okkar litla þjóðfélagi orðið til þess, að menn hafa í æ ríkara mæli fest kaup á þessum vélum erlendis frá, enda þótt þeir vildu í sjálfu sér alveg eins kaupa hinar íslenzku vélar vegna gæða og vegna verðs og alveg sérstaklega vegna þess, að þeir eiga í langflestum tilfellum miklu öruggari þjónustustarfsemi í sambandi við íslenzku vélarnar. En íslenzku fyrirtækin hafa ekki getað veitt þessa gjaldfresti og framleiðslufyrirtækin hafa ekki haft aðgang að lánastofnunum. Nú er að leysast úr þessum málum líka og ég tel, að það sé í raun og veru hægt að reikna með því, að þetta mál verði þannig leyst, alveg á sama hátt og Norðmenn leystu tilsvarandi vandræði hjá sér, að íslenzka vélaiðnaðinum verði búin sú aðstaða, að hann standi alveg jafnfætis í samkeppni sinni við erlendan vélaiðnað, að því er snertir lánsmöguleika til vélaframleiðslunnar. En það er rétt, að þetta hefur háð vélaiðnaðinum að undanförnu og orðið til þess að draga mjög mikið niður afköst hans. En sem betur fer, er nú úr þessu máli að rætast. Þetta hefur stjórnin haft til meðferðar frá því á s.l. sumri. Það hefði náttúrlega verið æskilegra að vera búinn að leysa úr því fyrr, nokkrum mánuðum fyrr. Það var fyrst og fremst kvartað um þetta við mig sem iðnmrh. á miðju sumri, að þessir erfiðleikar, held ég, að ég megi segja, að séu nú um það bil að verða yfirstignir. Ég vil ekki gera nánar grein fyrir því hér, vegna þess að formlega er ekki búið að ganga frá þessum málum, en það ætti að verða alveg þessa dagana.

Fleira hef ég ekki um þetta mál að segja, en vildi láta þessar aths. fram koma á þessa stigi málsins.