28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (2847)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að till. svipaðs efnis hefur áður verið samþ. á Alþingi, en samt er ég búinn að flytja hana nokkuð oft, en það stafar einfaldlega af því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki látið samþykkt Alþingis koma til framkvæmda og ég hef talið nauðsynlegt, meðan það var ekki gert, að minna hæstv. ríkisstj. á, að þetta þyrfti og ætti að framkvæmast.

Hæstv. ráðh. hélt því fram nú, að það væri alls ekki hægt að bera iðnaðinn saman við landbúnað og sjávarútveg, hvað þessi lán snerti, aðstaða þessara atvinnuvega væri alveg ósambærileg. Hæstv. ráðh. hefur ekki litið þannig á 1958, þegar hann samþykkti þessa till. og ég held, að hann hafi litið alveg rétt á málin þá, vegna þess að hér er um alveg sambærilega aðstöðu að ræða. Það stendur þannig á, bæði hjá sjávarútveginum og landbúnaðinum, að þessir atvinnuvegir þurfa að fá viss lán, meðan þeir eiga sínar framleiðsluvörur óseldar, svokölluð afurðalán og það gildir alveg hið sama um iðnaðinn, að hann þarf að fá viss lán, meðan hann á sínar framleiðsluvörur óseldar, svo að aðstaðan er nákvæmlega hin sama í þessum efnum hjá þessum atvinnuvegum, aðstaða þeirra er sú, að þeir þurfa á vissu fjármagni að halda, frá því að þeir hafa framleitt sínar vörur og þangað til þeir geta selt þær. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram með neinum rétti, að aðstaða iðnaðarins sé einhver önnur í þessum efnum, en landbúnaðar og sjávarútvegs. Hér eru vandamálin hin sömu hjá þessum atvinnuvegum og þeir eiga að vera jafnréttháir, á að leysa þau á sama eða svipaðan hátt. Um það atriði, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að það væri erfitt að framkvæma þetta, vegna þess að það væri mismunandi aðstaða hjá ýmsum iðngreinum, þá held ég, að þetta sé ekki rétt hjá honum, því að einmitt þeir menn, sem hér eiga bezt að þekkja til, sem eru iðnrekendur sjálfir og iðnaðarmenn, hafa hvað eftir annað lagt áherzlu á, að þetta mál næði fram að ganga og að sjálfsögðu hefði það ekki gert það, ef þeir hefðu ekki talið, að þetta væri framkvæmanlegt.

En þá vildi hæstv. ráðh. gera lítið úr lánsfjárskortinum hjá iðnaðinum. Ég held, að það sé óþarft fyrir okkur að vera að þræta um þetta hér á Alþingi. Þeir menn, sem eru miklu dómbærari um þetta, en bæði ég og hæstv. ráðh., hafa kveðið upp úr um þetta og sagt, að lánsfjárskorturinn væri mikill og það eru iðnaðarmennirnir sjálfir, þeir, sem bezt þekkja til, hvernig ástatt er í þessum efnum.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að lán til iðnaðarins hafa heldur aukizt tölulega á undanförnum árum, en þörfin fyrir lánsfé virðist þó hafa aukizt enn meira, sem er ekkert óeðlilegt, eins og fjármálaþróunin hefur verið hjá okkur að undanförnu. Hin mikla verðbólga, sem hefur verið í landinu á undanförnum árum, hefur gert það að verkum, að þörfin fyrir lánsfé hjá atvinnuvegunum, hefur stórkostlega aukizt og það ekki síður hjá iðnaðinum, en öðrum atvinnuvegum. Þannig að þótt það fjármagn, sem atvinnuvegirnir hafa fengið til umráða, hafi heldur aukizt, hefur það hvergi nærri nægt til þess að vega á móti hinni vaxandi þörf, sem skapazt hefur í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. skýrði frá því í ræðu sinni áðan, að það mundu verða gerðar ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu vélaiðnaðarins, þannig að hann gæti verið samkeppnisfær við erlenda keppinauta hvað snerti þau lán, sem hann veitir sínum viðskiptamönnum. Ég er ánægður yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur hér leyst úr nauðsyn þessarar iðngreinar. En það er að sjálfsögðu ekki nema um takmarkaða lausn að ræða, því að það eru fleiri iðngreinar, sem búa við svipaða erfiðleika í þessum efnum og vélaiðnaðurinn, t.d. skipasmíðastöðvarnar hafa átt við svipaða erfiðleika að stríða í þeesum efnum og vélaiðnaðurinn, þannig að erlendir keppinautar hafa getað boðið miklu betri lánskjör. Ég vildi þess vegna spyrja að því í þessu sambandi. Hvort það hefði þá ekki verið tryggt í leiðinni, að skipasmíðarnar nytu svipaðrar fyrirgreiðslu og vélaiðnaðurinn?

Ég sé svo ekki ástæðu til að þessu sinni að karpa öllu meira við hæstv. ráðh. um þessi mál. Það sem mestu máli skiptir er, að þráðurinn frá 1958 verði tekinn upp aftur og iðnaðurinn fái þá fyrirgreiðslu, sem þessi till. fjallar um og hann á fullkominn rétt á, ef hann á að njóta sama réttar og aðrir atvinnuvegir landsins.