28.10.1964
Sameinað þing: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (2848)

14. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. að koma hér á eftir mér upp í ræðustólinn og segja, að ég hafi gert lítið úr lánsfjárskorti iðnaðarins. Ég held, að það sé alls ekkert í minni ræðu, sem túlka megi þannig, að ég hafi gert lítið úr lánsfjárskorti iðnaðarins. En ég vakti athygli á því, að það er ekki rétt að horfa fram hjá því, þegar menn eru að tala um lánamál einnar atvinnugreinar hér, að á fjölmörgum sviðum hefur á undanförnum árum verið stórlega bætt úr lánsfjáraðstöðu iðnaðarins og það er ekki vaxandi lánsfjárskortur hjá atvinnugrein, sem hefur þó fengið það miklar úrbætur í sambandi við þessi mál eins og raun ber vitni. Það var náttúrlega oft og tíðum þröngt fyrir dyrum hjá iðnaðinum um lánsfjármál og það var á þeim tímum, sem flokkur hv. þm. hafði mest ráð í þessu landi. Það var bara látið talað um, að það þyrfti að efla iðnaðinn þá eða veita honum meiri lán og þetta er eitthvað ný tilkomið, þessi mikli áhugi hér hjá þessum hv. þm. fyrir iðnaðinum.

Sannast að segja er mér alveg ljóst, að iðnaðurinn hefur átt og á í vök að verjast. Ég held, að ég hafi bæði innan þings og utan stuðlað að einhverju leyti, eftir því sem mér hefur verið fært, að öllum þeim málum, sem hafa miðað að eflingu eða betri lánsfjáraðstöðu þessarar atvinnugreinar, bæði í sambandi við setningu Iðnaðarbankans hér á þingi, þegar löggjöf var um það sett, með eflingu Iðnlánasjóðs með löggjöf hér á þingi, með lánveitingum í Framkvæmdabankanum sem einn aðili, sem þar á hlut að máli, og í sambandi við lausaskuldir iðnaðarins bæði með stuðningi við frv. og breyt. á því á s.l. þingi og einnig hef ég verið að vinna að því máli nokkuð sleitulaust síðan að reyna að koma því í framkvæmd. Hitt er svo alveg rétt, að ég hef talað miklu minna um þessi mál hér á þingi og hvað ég bæri iðnaðinn mikið fyrir brjósti, heldur en hv. 5. þm. Reykv. núna upp á síðkastið. Það var hins vegar dauðaþögn hjá þessum hv. þm. áður fyrr um hagsmuni iðnaðarins.

Það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv., að ég hafi sagt eða ætlað að segja, — kann þá að vera að einhverju leyti mín sök, — að aðstaða atvinnugreinanna varðandi lánsfjárþörf þeirra væri allt önnur og ekki sambærileg, landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. Hafi menn skilið mig þannig, þá er ástæða til þess að leiðrétta það. Það, sem ég vildi hafa sagt og taldi, að ég hefði sagt með minni fyrri ræðu, var þetta, að það væru ákaflega ósambærilegir möguleikarnir til þess að framkvæma þessi endurkaup á afurðavíxlum, sem hér er um að ræða, ekki fyrir það, að iðnaðurinn í heild ætti ekki að njóta jafnréttis við aðrar atvinnugreinar á þessu sviði eins og öðrum. Þetta sjá menn og skilja náttúrlega ósköp vel, þegar málið er hugleitt. Landbúnaðurinn framleiðir sína landbúnaðarvöru, allir bændur sömu tegundar, sjávarútvegurinn sína framleiðslu, að langmestu leyti vöru sömu tegundar. Þetta er í stórum birgðum frá vertíð til vertíðar hjá útveginum og afurðir landbúnaðarins falla til einnig á ákveðnum árstíðum. Hér er þess vegna í framkvæmdinni tiltölulega hægt um vik að koma við sambærilegri lánastarfsemi. Hins vegar er iðnaðurinn í fjölþættum framleiðslugreinum mjög mismunandi tegundar og að mjög mismunandi magni frá einni iðngrein til annarrar, frá einu iðnfyrirtæki til annars og það var þetta, sem ég vakti athygli á eða vildi hafa vakið athygli á og í því sambandi sagði ég, að hefði m.a. verið þrándur í götu þess, að fram til þessa hefði tekizt að koma þessari hugsun í framkvæmd, að iðnaðurinn hefði einhverja svipaða aðstöðu og landbúnaður og sjávarútvegur með því að fá, afurðavíxla sína endurkeypta í Seðlabankanum. En til þess að Seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnavíxla eða afurðavíxla, eins og kallað hefur verið, hjá iðnaðinum, þarf þessi iðngrein fyrst að hafa afurðavíxla og hráefnavíxla, eins og útvegurinn hefur haft og eins og landbúnaðurinn hefur haft, þegar viðskiptabankarnir lána fyrst út á afurðirnar og síðan endurkaupir Seðlabankinn af bönkunum þessa víxla. En viðskipti iðnaðarins við viðskiptabankana eru bara með allt öðrum hætti. Þau eru í umsömdum lánum, ýmist föstum lánum með veðum í fasteignum, hlaupareikningsviðskiptum eða stuttum og tímabundnum víxlum, án þess að þeir séu eða hafi verið fram til þessa bundnir nokkuð tiltekið við tiltekna framleiðslu iðnaðarins. Það kann að vera, að það sé hægt að ráða bót á þessu og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það mætti að verulegu leyti endurkaupa eitthvað af víxlum, sem lánað væri til iðnaðarins út á framleiðsluvöru, sem iðnaðurinn liggur með á lager. Það yrði þá langsamlega og í ríkustum mæli hjá nokkrum, örfáum langstærstu iðnfyrirtækjunum, sem þannig stendur á um. Þær framleiða — við skulum segja eins og í vélaiðnaðinum — svo og svo mikið af vélum og tækjum til síldarverksmiðja og frystiiðnaðarins o.s.frv. Við vitum líka t.d. um eitt fyrirtæki eins og Hampiðjuna, veiðarfæraframleiðslu hennar. Hún hefur oft legið með stóra lagera. Út af fyrir sig er þarna lítill vandi, ef viðskiptabankarnir hefðu beinlínis lánað út á þessa lagera og með veð í þessum lagerum, sem þeir hafa yfirleitt ekki gert og Seðlabankinn endurkeypti þessa víxla og viðkomandi aðilar fengju svo þar af leiðandi frekari lán hjá sínum viðskiptabönkum. En það er mikið af fyrirtækjum, sem liggur með þessa stóru lagera, sem nokkru um munaði eða lánað hefur verið út á í því formi, að til endurkaupa kæmi. Það þyrfti þá fyrst í stað að breyta fyrirkomulagi því, sem venjan hefur skapað um lánin hjá viðskiptabönkunum til iðnfyrirtækjanna, áður en til endurkaupa kæmi og þá mundu menn fljótt reka sig á það, að þarna er aðstaðan afskaplega ólík.

Við skulum þess vegna hafa út úr heiminum allan misskilning okkar á milli, hv. 5. þm. Reykv. og ég, að við séum ekki sama sinnis um það, að iðnaðurinn eigi að njóta jafnréttis á þessu sviði sem öðrum við aðrar atvinnugreinar, en aðeins hitt, að ég er að vekja hér athygli á því, að þegar til framkvæmdanna kemur, er allt önnur aðstaða og það hefur því miður dregið úr möguleikunum að létta iðnaðinum lánsfjárerfiðleikana í þessu formi. En einmitt vegna þess hefur m.a. í ýmsu öðru formi verið reynt að létta lánsmöguleika iðnaðarins og bæta úr lánsfjárþörfinni og því er að sjálfsögðu rétt að halda áfram, og að mínum dómi er einnig rétt að halda áfram að kanna, að hve miklu leyti, í hve ríkum mæli og með hverjum hætti t.d. væri hægt að styðja iðnaðinn af hálfu Seðlabankans, sem þá, ef hann að einhverju leyti tæki við lánum frá viðskiptabönkunum, mundi létta á þeim og bæta þeim aðstöðu sína til þess á annan hátt að veita iðnaðinum bæði meiri rekstrarlán og stofnlán, heldur en þeir hafa gert fram til þessa.