11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (2872)

25. mál, akvegasamband um Suðurland til Austfjarða

Flm. (Óskar Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt nokkrum þm. Framsfl. í Suðurlands- og Austfjarðakjördæmi að flytja, hér í Sþ. till. til þál., sem er á þskj. 26, um akvegasamband um Suðurland milli Austfjarða og Reykjavíkur, er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta svo fljótt sem auðið er athuga til hlítar aðstöðu til þess að gera samfelldan akveg um Skaftafellssýslur og hraða þar framkvæmdum við vega- og brúagerðir með það fyrir augum að tengja akvegasamband um Suðurland milli Austfjarða og Reykjavíkur.“

Í grg., sem fylgir þáltill. þessari, er að nokkru bent á helztu rök fyrir nauðsyn þess, að hraðað verði, svo sem tök eru á, að fullgera samfelldan akveg um Skaftafellssýslur, er opna mundi vegasambandið milli Austfjarða og Reykjavíkur um Suðurland. Þetta er engan veginn nýtt mál hér á hv. Alþingi. Á nokkrum undanförnum þingum hafa þm. úr Austfjarðakjördæmi og einnig úr Suðurlandskjördæmi flutt þáltill., er hníga í sömu átt í einni eða annarri mynd, er sannar áhuga og þörf fólksins á þeim landssvæðum, er þessir hv. þm. voru og eru umbjóðendur fyrir, um það, að umræddum vega- og brúagerðum verði komið í framkvæmd í Skaftafellssýslu. Því ber að fagna og þakka, að málflutningur þessi hefur vissulega þokað allvel áfram með lagningu Suðurlandsvegar um Skaftafellssýslu, einkum þegar á það er lítið, að á þessu landssvæði er við margar og miklar torfærur að glíma, sér í lagi hin rammefldu jökulfljót og miklar vegalengdir. Þó er bót í máli, að aðstaða til vegagerðar er víða allgóð, yfir slétta og langa sanda að fara, þar sem ekki þarf að óttast holklaka, er víða spillir vegum og gerir viðhald þeirra kostnaðarsamt.

Í Austur-Skaftafellssýslu hafa á síðari árum verið byggðar allmargar og kostnaðarsamar brýr. Er nú svo komið, að ekki er eftir þar í sýslu nema ein stórá óbrúuð. Það er Jökulsá á Breiðamerkursandi. Samkv. upplýsingum vegamálastjóra er nú áætlun fyrir hendi um byggingu brúar yfir það fljót, sem mun verða hið mesta stórvirki. Auk þess eru nokkrar minni ár og lækir í austursýslunni, er brúa verður og eru helztar þeirra Fellsá í Suðursveit og í Öræfum Hrútá og Kotá og Svínafellsá. Að vísu er verið að vinna að undirbúningi brúar á Kotá. Er þess að vænta, að ár þessar verði brúaðar samhliða Jökulsá, svo að full not verði þess mikla mannvirkis, er því er lokið.

Það er von þeirra, sem um þessi mál fjalla, að þessum framkvæmdum verði lokið innan 3–4 ára. Má þá segja, að Suðurlandsvegur frá Almannaskarði að austan að Skeiðarársandi að vestan sé lagður og í nothæfu ástandi og þar með rofin einangrun Öræfasveitar hvað vegasamband snertir að austan.

En þá er eftir að leysa þann vanda, sem þáltill. er sérstaklega beint að, en það er vega- og brúargerð yfir Skeiðarársand. Samkv. samþykkt Alþingis frá 20. des. 1962 var ríkisstj. heimilað að festa kaup á skriðbíl sem hentað gæti til ferðar um torleiði á landi og sem ferja yfir vötn og reyna slíkt tæki á jökulvötnum og aurum Skaftafellssýslu til þess að fá úr því skorið, hvort á þann hátt yrði opnuð samgönguleið fyrir Skaftfellinga og ökufært yrði á léttum bílum umhverfis landið. Ríkisstj. framkvæmdi þessa heimild. Vatnadrekinn, eins og þetta tæki hefur verið kallað, kom til landsins hinn 24. maí 1963. Nokkrar breytingar þurfti á honum að gera og eftir það var hann reyndur á Skeiðarársandi seint í ágúst og aftur í sept. það ár.

Á liðnu sumri voru enn gerðar tilraunir á Skeiðarársandi með vatnadrekann. Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur, er sýnt, að dreki þessi mun koma að mjög takmörkuðum notum sem ferja yfir allan Skeiðarársand, bæði vegna kostnaðar við rekstur og ýmissa tæknilegra örðugleika, einkum í þungum vatnsstraumi. Þó mætti hugsa sér hann sem bráðabirgðaferju yfir Skeiðará um stundarsakir, þegar vegasamband er komið að henni beggja vegna frá, a.m.k. fyrir smábíla.

Tilraun þessi með vatnadrekann var vissulega virðingarverð og sannar áhuga og vilja til að opna vegasamband yfir Skeiðarársand og getur ef til vill komið til ómetanlegra nota í neyðartilfellum, en hún bendir ótvírætt í þá átt, að huga verður í alvöru að vega- og brúagerð yfir Skeiðarársand. Um Skeiðarársand renna nú þrjár höfuðár: Núpsvötn með Súlu, Sandgígjukvísl með Sigurðarfitjarál og Blautukvísl og Skeiðará. Samkv. áliti verkfræðinga vegagerðar ríkisins mun, eins og nú er, engum alvarlegum vandkvæðum bundið að brúa Núpsvötn og Sandgígjukvísl. Hins vegar mun ekki hafa farið fram veruleg athugun um brúargerð á Skeiðará.

Það, sem fyrst og fremst hefur dregið úr og stöðvað aðgerðir og framkvæmdir á Skeiðarársandi, eru jökulhlaup þau, er venjulega á um 10 ára millibili geysast fram sandinn og upptök sín eiga í Vatnajökli. Hin miklu jökulhlaup, sem fyrirfarandi hafa ruðzt yfir meginhluta Skeiðarársands, eiga tvö meginupptök: Grænalón, sem liggur bak við Eystrafjall í Núpsstaðalandi. Lón þetta hefur myndazt þannig, að stór jökultunga hefur gengið austan og norðan úr Skeiðarárskriðjökli og stíflað vatnsrennsli úr jöklinum norðan Eystrafjalls. Er vatnið hefur vaxið mjög, hefur það sprengt jökultunguna og hlaupið fram og þá mest í Súlu og Núpsvötn. Voru þetta oft hin mestu hlaup og að mörgu lík hinum miklu jakahlaupum, sem komu í Jökulsá á Sólheimasandi fyrir nokkrum árum, en nú eru að mestu horfin, því að jökultangi sá, er þau myndaði, er nú horfinn. Og nú er sem betur fer sama sagan að gerast við Eystrafjall. Jökulruðningurinn þar hefur gengið mjög saman og líkindi eru til, að Grænalón hverfi fljótlega úr sögunni, ef svo horfir með eyðingu jökla sem hefur verið undanfarin ár. Það virðist því þverrandi hætta á, að hlaupin á vestanverðum Skeiðarársandi komi að verulegri sök, að því er kunnugir segja. Þessi þróun ýtir mjög á, að gerlegt sé að brúa þessi vötn, sem oftast láta fremur lítið yfir sér. Upptök Skeiðarárhlaupa eiga sér hins vegar upptök í Grímsvatnagíg. Úr þeim mikla geymi koma oft stórhlaup, er fara vítt um Skeiðarársand. Við þessar náttúruhamfarir verður vitanlega vandi að glíma.

Nú er talið, að von muni slíks hlaups mjög bráðlega, að kunnugra manna dómi. Mun þá sjálfsagt að láta athuga að því loknu og jafnvel meðan á því stendur, hvers konar brýr mundu henta bezt við slíkar aðstæður. E.t.v. álíta menn sem svo, að vonlaust sé að hugsa um að brúa slíkt torleiði. Þannig var líka hugsað, áður en síminn var lagður yfir Skeiðarársand. En reynslan hefur sýnt og sannað, að ótrúlega litlar skemmdir hafa í símanum orðið og mönnum lærzt að ganga þannig frá honum, að skemmdir hafi orðið mjög litlar, þó að hlaup hafi komið. Gera menn sér því vonir um, að sama mundi koma á daginn með vel og hentuglega gerðar brýr.

Nú er það áhugamál allra þeirra, er eygja þann möguleika, að opna megi vegasamband Suðurlandsvegar um Skaftafellssýslur, að allt verði gert, sem unnt er, til að hraða þeirri framkvæmd svo sem verða má og spara hvorki fé né fyrirhöfn til að finna þau úrræði, er hagkvæmust verða talin. Því er ekki að leyna að mjög þarf að endurbæta brúakerfið á Suðurlandsvegi, auk þess sem brúa þarf og leggja veg yfir Skeiðarársand. Má þar til nefna, að ýmsar brýr í Vestur-Skaftafellssýslu eru orðnar gamlar og úr sér gengnar og þurfa endurbóta við, svo sem á Hverfisfljóti og Brunná. Þær brýr eru síðan 1912 og sjá allir, að þær munu ekki fullnægja þeirri umferðarmenningu, sem nú er orðin. Það mætti einnig telja upp nokkrar fleiri brýr á Suðurlandsvegi, sem vissulega er þörf á að endurbyggja sem fyrst og er vonandi að, að því verði unnið vel og ötullega, svo sem raunar hefur verið gert á undanförnum árum.

Að sjálfsögðu kosta þessar framkvæmdir mikið fé og þörfin kallar víða að. En þegar litið er til þess, hversu stórkostlega þýðingu opnun Suðurlandsvegar til Austfjarða mundi hafa í margföldum skilningi, svo sem fyrir hina strjálu byggð í Skaftafellssýslu, sem með þessum aðgerðum kæmist í þjóðbraut, svo og fyrir hinn ört vaxandi útgerðarbæ í Hornafirði, að ég tali ekki um þá stórbrotnu leið, sem opnaðist öllu skemmtiferðafólki, bæði innlendu og erlendu, þá er hér um brýna nauðsyn að ræða. Einnig má á það minna, að í ráði mun vera að gera Skaftafell í Öræfum að þjóðgarði, þar með Bæjarstaðaskóg. Mun margan fýsa að koma þar í framtíðinni, því að efamál er, að á nokkrum öðrum stað á landinu eigi fólk þess kost að virða fyrir sér á einum stað, stórbrotnari andstæður er náttúra Íslands geymir í skauti sínu, en þar.

Hinn mikli og ört vaxandi síldarútvegur á Austfjörðum kallar á greiðari og styttri landleið við höfuðborgina. Það er því augljóst mál að opnun Suðurlandsvegar, þegar hana kemur til nota, mun verða stórkostleg lyftistöng fyrir byggðir Austfjarða svo og þau landssvæði, er hann liggur um. Þá má á það minna, að þessi þjóðvegur mun, ef að líkum lætur, örugglega skjóta stoðum undir nokkurn þéttbýliskjarna á syðsta og einum byggilegasta hluta landsins, sem ekki hefur enn verið sett fram af þeim, er till. hafa gert um þau mál.

Eftir athugun og umsögn þaulkunnugra manna um aðstöðu alla á Skeiðarársandi höfum við, sem að þessari þáltill. stöndum, trú á því, að framkvæmanlegt sé og réttmætt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að brúa vötnin á Skeiðarársandi og tengja þannig saman akvegakerfið um Suðurland til Austfjarða og þar með hringveg kringum landið. Ég vil mega treysta því, að allir hv. alþm. styðji þetta mál, svo og hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. samgmrh. geri allt, sem frekast er unnt, til að skila þessu máli í höfn sem allra fyrst.

Herra forseti. Að umr. þessari lokinni vil ég óska þess, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.