11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (2876)

25. mál, akvegasamband um Suðurland til Austfjarða

Ragnar Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja hér nokkur orð vegna þeirrar þáltill., sem hér er til umr. Eins og menn kannske vita, eru rannsóknir á vegastæði og brúargerð á Skeiðarársandi þegar hafnar. Verkfræðingar frá vegagerðinni voru þarna s.l. sumar að byrjunarathugunum og mælingum. Það hefur til skamms tíma verið talið ómögulegt að brúa árnar á Skeiðarársandi og þáltill., sem kom fram hér á Alþingi 1961 og flutt var af öllum þm. Austf., bendir einmitt til þess, orðalag hennar bendir til þess, að jafnvel þá hafi verið talið illmögulegt að brúa árnar á Skeiðarársandi, því að till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj.: 1) Að láta rannsaka til hlítar brúarstæði á Jökulsá á Breiðamerkursandi og gera kostnaðaráætlun um brú þar. 2) Að láta athuga — með sérstöku tilliti til samgangna á Skeiðarársandi — nýjar tegundir samgöngutækja til samgangna um torfærur á landi með hliðsjón af reynslu á slíkum tækjum erlendis. Síðan skal gera tilraunir með slík samgöngutæki á Skeiðarársandi, ef ætla má að athugun lokinni, að þau muni reynast hæf til samgöngubóta þar. 3) Að láta fylgjast sem bezt með tæknilegum nýjungum við brúargerðir, er kynnu að gera kleift að brúa jökulvötnin á Skeiðarársandi.“

En þetta er nú breytt, jafnvel á svo stuttum tíma sem frá árinu 1961. Það er álit fróðra manna, að Núpsvötnin og Súla muni jafnvel vera hætt að hlaupa, en í þessum vötnum hafa verið mikil og stór hlaup oft undanfarið. Sandgígjukvísl, sem er stórt vatnsfall á miðjum Skeiðarársandi, er nú orðið í föstum farvegi og ekki hætta á því, að hún brjótist út á sandinn. Hlaupin í Skeiðará hafa ekki verið stór síðan 1934, að mig minnir. Þau hafa verið miklu smærri, þau hlaup, sem komið hafa síðan, heldur en þau gerðust áður.

Eftir því sem kunnugir menn telja, eru því orðnir miklir möguleikar til þess, að takast megi að brúa þessar ár á sandinum og virðist vera aðeins um fjárhagsspursmál að ræða.

Ég átti kost á því s.l. haust að fara yfir Skeiðarársand með vatnadrekanum, sem hér hefur verið minnzt á. Og ég tel eftir þá reynslu, sem fékkst í þeirri ferð, að það sé vel mögulegt að nota hann við Skeiðará, — ef búið væri að brúa vötnin vestar á sandinum, Núpsvötn, Súlu og Sandgígjukvísl, þá væri vel mögulegt að nota þennan vatnadreka til þess að ferja bíla á yfir Skeiðará til bráðabirgða. Annar möguleiki væri líka fyrir hendi, og það væri að hafa drekana tvo, annan vestar á sandinum, sem ferjaði yfir Sandgígjukvísl sem er austust af vatnsföllunum, vestur á sandi og svo hinn við Skeiðará. En það er satt bezt að segja, að drekinn er seinfær og hann er ekki vel fallinn til flutninga á landi, ef um langan veg er að ræða, en aftur á móti virðist hann komast yfir hvaða vatnsfall sem vera skal. Ég held, að brýr á sandinum séu það, sem koma skal. Og eins og einn hv. ræðumaður tók hér fram áðan, þá finnst mér það ekkert ógurlegt, þó að brú á Skeiðará yrði að endurnýjast á 10–20 ára fresti, vegna þess að þessi samgönguleið er það mikilvæg, að brú mundi borga sig á örstuttum tíma. Við vitum það, að nú eru vörubílar í flutningum milli Reykjavíkur og Austfjarðanna allra og alla leið suður á Hornafjörð alla tíma ársins, þegar fært er en leiðin fyrir sunnan jökla styttir þennan veg um nálega 500 km. Auk þess er þetta snjólaus leið meiri hluta ársins, eins og við þekkjum hér á Suðurlandi. Ég er því sannfærður um, að það verður fast sótt á um að fá þessu mikla hagsmunamáli þokað áleiðis, ekki aðeins fyrir Austur-Skaftfellinga og Austfirðinga, heldur fyrir landsmenn alla. Ég vil lýsa stuðningi mínum við hverja þá tilraun, sem miðar að því að greiða fyrir því, að þessi vegur komi sem allra fyrst.