19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

106. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur nú fyrir til umr., er í raun og veru einn liður í afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. Þegar komið var að lokastiginu við afgreiðslu fjárl., kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. leit svo á, að ekki væri hægt að afgreiða fjárl. að þessu sinni án þess að afla allverulegra nýrra tekna til viðbótar við þær tekjur, sem fyrir voru. Eins og frv. ber með sér, leit ríkisstj. svo á, að hún þyrfti að fá nýjar tekjur, sem nema samtals 335 millj. kr., á árinu 1965. En eins og fram hefur komið í þessum umr., hafði ríkisstj. áður ákveðið, og það kemur skýrt fram í fjárlagafrv. sjálfu, — ákveðið að taka til sín tekjustofn, sem öðrum stofni var ætlaður, þ.e.a.s. nokkrum greinum sjávarútvegsins, en sá tekjustofn nam 95.5 millj. kr. Ríkisstj. leit því svo á, að hún þyrfti að fá nýja tekjustofna til viðbótar þeim, sem fyrir voru, upp á rúmlega 430 millj. Nú hefur ríkisstj. lækkað þessa upphæð um 68 millj. kr., en telur sig enn þurfa raunverulega að fá nýja tekjustofna, svo að hægt sé að koma saman fjárl. að þessu sinni, upp á 362 millj. kr. Og þessa fjár ætlar ríkisstj. að afla aðallega með því að hækka söluskattinn allverulega frá því, sem hann hefur verið.

Mér sýnist eðlilegt, þegar þessar till. ríkisstj. eru hér til umr., að þá sé vikið með nokkrum orðum að aðdraganda þessa máls. Allir kannast við það, að á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um það, að verðlagið í landinu hækkaði allt of mikið, að dýrtíðarvandamálið væri alltaf að verða meira og meira. Ríkisstj. hefur mjög haldið því á loft, að ástæðan til þess, að verðlagið hefur hækkað svo mjög sem raun hefur orðið á, væri sú, að kaupgjaldskröfur hafi verið gerðar of miklar, að kaupið hafi verið spennt of mikið upp. Staðreyndir liggja nú fyrir um það, að verðlagið hefur hækkað svo gífurlega á undanförnum árum, að nú um þetta leyti segja útreikningar hagstofunnar, að matvörur hafi t.d. í tíð núv. ríkisstj. hækkað um nákvæmlega 100%, hiti, rafmagn og vefnaðarvörur og þjónusta hafi hækkað að meðaltali um 86% og að hækkunin á líðnum vörur og þjónusta í vísitölunni án húsaleigunnar hafi á þessum árum numið 86%, en framfærsluvísitalan hefur hins vegar hækkað um 64%. Um það verður hins vegar ekki deilt, að hið almenna dagkaup verkamanna hefur á þessum tíma aðeins hækkað um 55% eða um miklum mun minni upphæð en sem nemur dýrtíðaraukningunni á þessu tímabili. Það ætti því í rauninni að vera óþarfi að þræta lengi um það, að of mikil hækkun á hinu almenna kaupgjaldi er ekki ástæðan til þessarar miklu hækkunar á verðlagi á undanförnum árum, enda liggur það líka alveg greinilega fyrir, að á alllöngum tímabilum á undanförnum árum, t.d. á einu tímabilinu í samfellt 2 1/2 ár, varð ekki um neina kauphækkun að ræða, en á því tímabili hækkaði þó hið almenna verðlag í landinu samkv. útreikningum hagstofunnar um 18%, þó að á sama tíma væri kaup fært niður með lögum um 5.4%. Kaupmáttur hins almenna tímakaups á þessu tímabili lækkaði því um 23%.

Á síðari hluta ársins 1963 varð um mjög öra hækkun á dýrtíðinni í landinu að ræða og sömuleiðis á fyrra hluta ársins 1964. Það var einmitt upp úr þessum miklu deilum, sem höfðu staðið um langan tíma og í framhaldi af þessum miklu verðlagshækkunum, sem yfir höfðu gengið, sem stjórn Alþýðusambandsins sneri sér til ríkisstj. í aprílmánuði á þessu ári og óskaði eftir því, að ríkisstj. tæki upp samninga við verkalýðshreyfinguna í landinu, fyrst og fremst um það að gera ráðstafanir til að stöðva þessa verðbólguþróun og til þess að reyna að finna ráð fyrir réttlátum kjarabótum til handa hinum lægst launuðu í landinu. Fyrsta atriðið í tilmælum verkalýðshreyfingarinnar til ríkisstj. var sem sagt um það, að samningar yrðu teknir upp um þetta atriði, um að stöðva verðbólguþróunina. Þessum tilmælum svaraði ríkisstj. mjög fljótlega og samþykkti að taka upp þessar viðræður og alveg sérstaklega um það að reyna að finna sameiginlegar ráðstafanir til að stöðva verðbólguþróunina. Þegar þessum samningum var lokið, var gefin út yfirlýsing, en í henni kom fram einmitt, og að yfirlýsingunni stóð að sjálfsögðu hæstv. ríkisstj., að alveg sérstaklega hafi verið rætt í þessum viðræðum um ráðstafanir til að stöðva dýrtíðarvöxtinn í landinu. Það kom líka alveg skýrt og greinilega fram í þeim fáu orðum, sem hæstv. fjmrh. hafði fyrir þessu frv. nú á þessum fundi, að hann taldi, að eitt meginatriðið í viðræðunum, sem fram fóru á s.l. vori á milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar í landinu, hafi einmitt verið það að reyna að finna ráð til þess að stöðva hið síhækkandi verðlag í landinu. Það getur því ekki farið neitt á milli mála, hvað það var, sem var verið að reyna að semja um í þessum viðræðum. Og samningarnir tókust, og því var mjög fagnað af í rauninni öllum aðilum í landinu, að samningar skyldu takast, sem einmitt miðuðu að því að stöðva áframhaldandi vöxt dýrtíðarinnar. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í þessum samningum voru að vísu mjög óánægðir með það, að út úr samningunum skyldi ekki fást viðurkenning á réttmæti þess að hækka hið almenna kaup verkafólks í landinu. En ríkisstj. lagði einmitt á það megináherzlu í þessum viðræðum, að hún gæti ekki orðið við þeirri kröfu, ef takast ætti á næstunni að stöðva verðlagið, þar sem það var komið. Og þá var það, sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar féllust á það, til þess að samkomulagið mætti takast, að leggja þessa kröfu til hliðar og geyma hana í eitt ár, í fullu trausti þess, að þá yrði staðið við þetta meginatriði, sem um hafði verið rætt í samningunum, að gera ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguþróunina.

En nú liggur sem sagt þetta fyrir, sem glögglega kemur fram í þessu frv., að á miðju þessu tímabili, sem samningarnir áttu að standa, kemur hæstv. ríkisstj. fram með frv. um það, að hún verði að hlaupa frá grundvelli þessa samkomulags og leggja nú á allverulega nýja skatta, sem munu leiða af sér verulega verðlagshækkun á nýjan leik. Og þetta gerir hæstv. ríkistj., að leggja fram þessar till., án þess að bera sig saman, áður en hún leggur þær fram, við þá aðila, sem hún hafði gert við þetta samkomulag, sem hér hafði verið rætt um. Ríkisstj. lýsir því sem sagt yfir nú, að hún telji ekki lengur vera aðstöðu til þess að standa við þá stöðvunarleið, sem mörkuð hafði verið í samningunum í júní s.l. sumar.

Nú er vert að athuga það nokkru nánar, hvernig stendur á því, að um 6 mánuðum síðar verður ríkisstj. að gefast upp í þessu verkefni á þennan hátt, sem hún gerir. Hvernig stendur á því? Hafa aðstæður verið óhagstæðar fyrir ríkisstj. til þess að standa við samkomulagið að sínu leyti? Nei, ég tel alveg hiklaust, að allar aðstæður hafi verið mjög góðar fyrir ríkisstj. að geta staðið við samkomulagið, að geta staðið við stöðvunarstefnuna, a.m.k. það eina ár, sem samkomulagið átti að standa. Það liggur fyrir, að afkoman hjá þjóðarbúinu hefur verið mjög góð undanfarandi ár. Framleiðslan hefur orðið mjög mikil, bæði á árinu 1962 og 1963, og þó allra mest á því ári, sem enn er ekki að fullu liðið. Og verðlag hefur verið mjög hagstætt á útflutningsvörum þjóðarinnar á þessu tímabili, farið jafnt og þétt hækkandi. En hins vegar hefur verðlag á innfluttum vörum einnig verið mjög hagstætt. Viðskiptakjörin á þessu tímabili hafa farið jafnt og þétt batnandi. Ríkissjóður hefur búið við mjög rúman fjárhag á þessum árum, hafði mikinn greiðsluafgang árið 1962 og einnig árið 1963, og því verður ekki trúað, að afkoman hjá ríkissjóði sé ekki einnig hagstæð árið 1964, svo hagstætt sem árið hefur verið í hvívetna. Maður verður því að telja, að allar kringumstæður fyrir ríkið hafi verið mjög góðar til þess að geta staðið við það samkomulag, sem gert var í júnímánuði s.l.. En eigi að síður hefur þetta nú farið svo, að ríkisstj. lýsir því yfir, að hún geti ekki lengur haldið við stöðvunarstefnuna, það sé óhjákvæmilegt vegna afkomu ríkissjóðs að efna til nýrrar verðhækkunar með því að leggja á eða hækka söluskattinn.

Það leynir sér auðvitað ekki, þegar málið er athugað nokkru nánar, hvaða orsakir það eru, sem til þess liggja, að ríkisstj. gefst upp við stöðvunarstefnuna. Ástæðurnar eru þær, að útgjöld ríkissjóðs hafa farið jafnt og þétt vaxandi, útþenslan í ríkiskerfinu sem heild hefur verið gífurlega mikil og engar sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ríkisstj. til þess að geta stöðvað sig. Sú afsökun, að nú verði að grípa til nýrra álaga, eins og hér er lagt til, vegna þess að niðurgreiðslur á vöruverði hafi hækkað á þessu ári um 68 millj. kr., sú afsökun fær ekki staðizt. Ef ekki hefði verið um annað að ræða en það, hefði ábyggilega verið auðvelt fyrir ríkissjóð að komast af án nýrra tekjustofna. Það liggur fyrir, að einn af tekjustofnunum á þessu ári hefur reynzt mun drýgri en ríkisstj. hafði reiknað með. Álagður tekju- og eignarskattur á þessu ári reyndist vera 46 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir tekjum af þessum lið á fjárlagafrv. Þetta kom til af því, að tekjur reyndust yfirleitt vera hærri en reiknað hafði verið með. Þarna er alveg tvímælalaust um að ræða verulegan tekjuauka hjá ríkissjóði, því að ríkisstj. hefur neitað því gersamlega að fallast á till. um það að slaka nokkuð til á þessari skattlagningu. Þegar svo þess er einnig gætt, að ríkisstj. gerir ráð fyrir því í till. sínum fyrir komandi ár, að 1965 muni tekju- og eignarskatturinn hækka enn um 125 millj. kr., og þegar þess er einnig gætt, að ríkisstj. gerir ráð fyrir því að taka til sín tekjustofn á næsta ári, sem aðrir aðilar höfðu, upp á 95 millj. kr., er greinilegt, að margt bendir til þess, að næsta ár ætli að verða allmiklu tekjudrýgra fyrir ríkissjóð heldur en yfirstandandi ár hefur verið. Það er ekki kunnugt um það, að einn einasti af tekjustofnum ríkisins hafi brugðizt á þessu ári. Þvert á móti benda þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið, til þess, að svo að segja allir tekjustofnar ríkisins muni á þessu ári skila fremur meiri tekjum en minni en áætlað hafi verið. Það er aðeins söluskatturinn einn, sem nú í nóvemberlok virðist hafa skilað minni tekjum en ráð var fyrir gert eða var á sama tíma árið á undan, og kemur það satt að segja spánskt fyrir, að söluskatturinn skuli hafa skilað minni tekjum nú í nóvemberlok en hann hafði gert í nóvemberlok árið á undan, þó að enginn efist um það, að umsetningin í landinu hafi verið mun meiri á yfirstandandi ári en hún var á árinu 1963. Hér getur ekki verið um annað að ræða en það, að annaðhvort hefur eitthvað verið slakað á innheimtunni, sem þó er fremur ótrúlegt, eða þá að hér eiga sér stað í stærri stíl en áður undanskot á þessum skatti.

Það er því ekki af þessu, sem ég hef sagt, hægt að sjá, að það séu neinar beinar ástæður, sem hafi gert það óumflýjanlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að hverfa frá því samkomulagi, sem hún gerði á s.l. sumri um að reyna að stöðva hið síhækkandi verðlag í landinu. Þvert á móti bendir í rauninni allt til þess, að aðstæður hafi verið hagstæðar og það hafi átt að vera auðvelt fyrir hana að standa við samkomulagið. En hverjar verða svo afleiðingarnar af því, að ríkisstj. velur þennan kost? Jú, hún gerir ráð fyrir þeim afleiðingum sjálf, að hið almenna verðlag í landinu muni nú á næstu mánuðum hækka um 3% og af því verði að taka við 3% almennri launahækkun í landinu.

Nú er alveg augljóst, að bæjar- og sveitarfélög í landinu hljóta einnig að feta í fótspor ríkisins í þessum efnum. Þau verða að taka við hækkandi útgjöldum sem afleiðingu af þessari ákvörðun, og þau munu að sjálfsögðu einnig hækka sínar álögur. Hér verður því ekki aðeins um þessa beinu hækkun að ræða á álögunum, sem felst alveg beint í þessu frv. Það er alveg gefið mál, að aðrir aðilar munu hér á eftir koma, enda er alveg augljóst, hvert stefnir t.d. hjá bæjaryfirvöldunum í Reykjavík. Þau hugsa sér að hækka álögurnar, og ef að líkum lætur, hugsa ég, að það sé ekki allt komið fram enn, það megi jafnvel búast við aukahækkun vegna þessa frv., sem hér er á ferðinni.

Það er einnig alveg gefið mál, að bein afleiðing af samþykkt þessa frv. verður það, að landbúnaðarvörur hljóta að hækka. Almenn kauphækkun gengur yfir upp á 3%. Það þýðir, að bændur landsins eiga rétt á því samkv. gildandi l. að laun bóndans í verðlagsgrundvellinum hækki líka. Afleiðingin verður sú. að landbúnaðarvörurnar munu hækka í verði. Og þegar sú hækkun kemur út í verðlagið, segir hún að sjálfsögðu einnig til sín á vísitöluna.

Allar þessar hækkanir, sem munu ganga yfir í beinu framhaldi af samþykkt þessa frv., verða auðvitað til þess, að það koma fram áframhaldandi verðlagshækkanir í efnahagskerfinu. Ýmis fyrirtæki brjótast í gegn, eins og þau hafa jafnan gert áður, og knýja fram viðbótarhækkun sér til handa, þegar þau verða að taka á sig 3% almenna rekstrarkostnaðarhækkun. Hér er því ríkisstj. að ýta af stað verðhækkunaröldu, og hún verður að sjálfsögðu, eins og alltaf hefur verið, miklum mun meiri en þær tölur benda til, sem greindar eru í þessu frv., því að þar er aðeins um upphafið að ræða. Síðan mun þetta vefja upp á sig, þegar aðrir komast með inn í leikinn.

En hver verða svo áhrifin af þessum ráðstöfunum, t.d. fyrir útflutningsatvinnuvegi landsins? Það hefur verið á það bent í þessum umr., að snemma á þessu ári eða í janúarmánuði knúði ríkisstj. fram lagasetningu hér á Alþingi um allverulega hækkun á söluskattinum, og sú hækkun var réttlætt með því, að hún ætti að verða til stuðnings sjávarútveginum í landinu sérstaklega, til þess að hann gæti risið undir þeirri 15% kauphækkun, sem hafði verið samþykkt í desembermánuði árið á undan. Í sambandi við afgreiðslu þess máls voru lagðir fram hér á Alþingi útreikningar af Efnahagsstofnuninni, útreikningar frá Jónasi Haralz, sem sýndu, að 15% kauphækkun þýddi aðeins fyrir frystihúsin í landinu upphæð, sem næmi 62 millj. kr. Þessir útreikningar voru líka staðfestir af Fiskifélagi Íslands, og við þetta var miðað, þegar frv. þetta var samþykkt. Nú liggur hins vegar fyrir í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv., að ríkisstj. gerir ráð fyrir því að draga til sín ákveðna upphæð, sem veitt hafði verið til frystihúsanna í landinu til þess að standa undir þessum kostnaði, og þessi upphæð nemur, eins og segir í grg. fjárlagafrv., 43 millj. kr. Einnig gerir nú ríkisstj. ráð fyrir því að draga til sín hluta af þessum álögum, sem áttu að ganga til almennrar hækkunar á fiskverði. En sú hækkun un nam 52.5 millj. kr. Nú má áætla það í beinum hlutföllum, að af þessari fiskverðshækkun, 52.5 millj. kr., hafi gengið til frystihúsanna í landinu a.m.k. 30 millj. kr. eða rúmur helmingur, en það er það hlutfall af fiskmagni, sem frystihúsin taka. Samkv. þessum ráðstöfunum var því málið þannig, að frystihúsinu í landinu fengu samkv. þessum ráðstöfunum um 73—75 millj. kr. Miðað við útreikning Efnahagsstofnunarinnar og Fiskifélagsins jafngildir þessi upphæð, þessar 73—75 millj. kr., 19% kauphækkun hjá frystihúsunum. Ég vil sérstaklega undirstrika það, að þessir útreikningar eru nákvæmlega byggðir á þeim tölum, sem fram hafa komið hjá Efnahagsstofnuninni og Fiskifélaginu. Það, sem er því verið að gera með afgreiðslu fjárl. að þessu sinni, er það, að ríkisstj. ákveður að taka ákveðnar fjárgreiðslur, sem gengu á þessu ári til frystihúsanna í landinu, upp á 73—75 millj. kr., og leggja þessa fjárhæð í ríkissjóð, en það jafngildir því, að frystihúsin eigi að skila í ríkissjóð á næsta ári um 19% kauphækkun. Um 19% viðbót á kaupgreiðslur á að leggja á frystihúsin og leggja til ríkissjóðs. Til viðbótar við þessi 19% eiga svo frystihúsin í landinu samkv. grg. þessa frv að taka við 3% almennri launahækkun.

Eins og kunnugt er, var samið um það á s.l. vori að leggja á sérstakan launaskatt upp á 1%, og hann var vitanlega lagður á frystihúsin í landinu eins og aðra atvinnurekendur. Þá var einnig samþykkt að hækka orlofsgreiðslu um 1%. Það var vitanlega lagt á frystihúsin í landinu eins og aðra aðila. Séu þessar hækkanir lagðar saman, kemur fram, að frystihúsunum í landinu er nú ætlað að risa undir til viðbótar við það, sem verið hefur, sem nemur 24% beinni kauphækkun, –rísa undir 24% beinni kauphækkun. Og þessi 24% ganga ekki til fólksins, sem vinnur í frystihúsunum. Nei, meginhlutinn af þessu gengur beint í ríkissjóð eða verður vegna áhrifa frá hálfu ríkisstj.

Nú spyr ég: Álítur t.d. hæstv. fjmrh., að ein þýðingarmesta greinin í útflutningsiðnaði landsmanna, frystihúsin, geti tekið á sig sem nemur 24% kauphækkun alveg bótalaust?

Alítur hann það? Þegar hann ákvað að taka beint í ríkissjóð frá þessum aðilum sem nemur 19% kauphækkun, verður maður að álykta, að hann hafi litið svo á, að þau gætu þetta.

Svipaðar álögur og þarna er um að ræða í dæminu um frystihúsin eru einnig gagnvart öðrum fiskiðnaði í landinu. Það hefði heyrzt hljóð úr horni, ætla ég rétt að segja, hefðu launasamtökin í landinu komið fram með kröfur um það og knúið þær í gegn, að frystihúsin í landinu ættu t.d. að hækka kaupið við fólkið, sem þar vinnur, í einu vetfangi um 24%. Þá hefði ekki staðið á aðilum innan ríkisstj. að segja: Auðvitað getur engin framleiðsla staðið undir slíkri gífurlegri kauphækkun. Auðvitað þolir engin framleiðsla slíkt. — Ætli það hafi ekki heyrzt stundum áður? En þegar ríkisstj. sjálf á í hlut, þegar fjmrh. vantar peninga, þá getur hann gengið til þessara sömu aðila, frystihúsanna, og sagt: Veskú, látið mig hafa 19% í kassann hjá mér til viðbótar við þá launagreiðslu, sem þið innið af hendi til fólksins, sem vinnur í húsunum.

Í sambandi við þetta vakna auðvitað þær spurningar, hvað meiningin sé að gera. Er e.t.v. meiningin að koma á eftir fyrir hönd frystihúsanna og annarra þátta framleiðslunnar og segja í janúarlok, þegar þingið kemur saman á ný: Það er útilokað, að þeir geti rekið sína þjóðarnauðsynlegu starfsemi, nema þeir fái hjálp. — Á þá kannske að koma með nýjar álögur? Þessari spurningu verður að svara. Það er alveg útilokað að afgreiða þetta mál án þess, að spurningunni um þetta sé svarað.

En það bætist í rauninni meira við, því að málið er ekki einu sinni svona einfalt, að hér sé aðeins um þessi 24% að ræða. Við vitum, að í ársbyrjun þessa árs var samþykkt gegnum þær ráðstafanir, sem gerðar voru hér á Alþingi, að hækka fiskverð til báta í landinu um 6% með sérstökum ráðstöfunum. Sjómennirnir á þorskveiðunum gátu þá samkv. þessu fengið 6% kauphækkun, þegar aðrir fengu þó 15% og töldu sig greinilega fá of lítið, af því að þeir fengu ekki til jafnaðar við það, sem verðlagið hafði hækkað, — en sjómennirnir, sem stunda hér á vetrarvertíðinni, gátu fengið 6% fiskhækkun með sérstökum ráðstöfunum. Nú er gert ráð fyrir því, að samkv. þessu frv. verði um almenna 3% verðhækkun í landinu að ræða og sem afleiðing af því 3% launahækkun. Nú spyr ég: Dettur nokkrum manni það í hug núna, að sjómennirnir, sem eiga að vinna á næstu vetrarvertið, eigi engar launabætur að fá? Eiga þeir ekki að fá 3% eins og aðrir? Jú, mér dettur ekki í hug að búast við því, að það geti nokkur sanngjarn maður neitað því, að þeir hljóta að verða að fá 3% hækkun ekki síður en aðrir, því að þeir fengu minna síðast. Og ég efast ekkert um það, að þeir, sem reka fiskibátana, koma til með að segja: Þessi 3% hækkun skellur á alla rekstrarliði bátsins. Það hækkar allt um 3%, eins og við vitum. Hér verður því um mun óhagstæðari rekstur hjá útgerðinni að ræða heldur en verið hefur, og þeir, sem bátana eiga, koma auðvitað til með að gera kröfur um það, af því að það hallar verulega á þá núna, alla þá, sem stunda þorskveiðar, þeir koma til með að gera kröfur um það að fá bætur á móti þessum útgjöldum. Nú standa málin þannig í dag, að sjómennirnir eru búnir að segja upp sínum kjarasamningum og þeir eru búnir að gefa sínum samningamönnum umboð til þess að boða til vinnustöðvunar um áramótin. Ég spyr nú: Dettur nokkrum manni í hug undir þessum kringumstæðum, að það sé hægt að halda sig t.d. við óbreytt fiskverð til sjómannanna í samningunum, sem gerðir verða nú um áramótin? Nei, auðvitað verður fiskverðið að hækka, og það er viðurkennt einnig af sjálfum fiskkaupendunum. Þeir hafa gert um það samþykktir. Þeir vita, að það er alveg útilokað að reikna með því, að það geti orðið eðlileg útgerð á komandi vertíð hjá þeim bátum, sem eiga að stunda veiðar með línu og eiga að stunda veiðar með net, án þess að um verulega fiskverðshækkun verði að ræða. Þessir aðilar geta því ekki tekið á sig verri aðstöðu en þeir hafa haft. Þeir geta ekki tekið á sig þessar álögur, og þeir, sem þar vinna, verða vitanlega að fá sambærilega hækkun og aðrir. Þessa liði vantar alla inn í dæmið. Það er því enginn vafi á því, að frystihúsin og aðrar greinar útflutningsiðnaðarins verða að taka á sig meira. en sem nemur þessum 24%, sem ég var að benda á, að engin leið er þó að þræta um. Mér er líka kunnugt um það, að þeir frystihúsamenn vilja auðvitað ekki viðurkenna það, að hér sé aðeins um þessi 24% að ræða, sem ég nefndi. Þeir álita, að það hafi verið um allverulegar kauphækkanir að ræða í sambandi við alls konar tilfærslur 8 ýmsum launaliðum, sem gerðir voru líka í síðustu samningum, og þeir álíta, að hér sé ekki um 24% að ræða, heldur nokkuð yfir 30%. En það skiptir ekki máli. Hitt er höfuðatriðið: álítur hæstv. ríkisstj. það, því að hún hlýtur vitanlega að hafa kynnt sér svona þýðingarmikinn þátt í efnahagslífi þjóðarinnar eins og rekstur útgerðarinnar í landinu, — álítur hún, að það sé hægt að leggja slíkar byrðar sem þessar án nokkurra sérstakra bóta t.d. á frystihúsareksturinn í landinu og rekstur þeirra báta, sem eiga að stunda veiðar með línu og net á þorskvertíð, — álítur hún það, að þetta sé hægt? Ég hefði gaman að þessu sinni að fá að sjá útreikninga Efnahagsstofnunarinnar, frá Jónasi Haralz og öðrum, um það. Ef þeim tekst að reikna það einnig út að það sé hægt fyrir þessa aðila, miðað við fyrri útreikninga sína, — ef þeim tekst að reikna það út núna, að þeir geti þetta allt bótalaust, þá eru þeir miklir sérfræðingar í útreikningum. En ég held, að það sé ekki hægt, nema þá að hrinda öllum sínum fyrri útreikningum.

Þá er auðvitað komin þessi spurning: Er virkilega meiningin, þegar menn standa frammi fyrir afleiðingum þess, sem hér er verið að gera með því að hverfa frá stöðvunarstefnunni og ryðja á stað nýrri verðhækkunaröldu, sem vitanlega vefur upp á sig, — er þá meiningin, þegar afleiðingarnar eru komnar fram, að halda bara áfram, leggja á nýjan skatt til stuðnings sjávarútveginum, svo að hann geti haldið áfram, og síðan koll af kolli? Ég held, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi í þessu tilfelli staldrað við það, að útreikningar, að mínum dámi reyndar mjög vafasamir útreikningar, sýndu, að ríkissjóður þyrfti að fá nokkurn tekjuauka, og þó að hún hafi strax gripið til þess ráðs að reyna að afla teknanna á þennan hátt, virðist það vera svo, að hún hafi ekki hugsað þetta dæmi til enda, hún hafi ekki gert sér fulla grein fyrir afleiðingunum, sem hlytu að verða af því að fara þessa leið. Á það hefur réttilega verið bent, að meira að segja miðað við þær tölur, sem fram koma frá hæstv. ríkisstj. um tekjuþörf ríkissjóðs, er raunverulega, eins og hún hefur stillt upp dæminu nú, eftir að hún hefur gefið eftir hluta af þeim skatti, sem hún ætlaði að innheimta, þá er raunverulega um nettókröfu að ræða fyrir ríkissjóð upp á 197 millj. kr. Ríkisstj. hafði gert ráð fyrir því að þurfa að leggja á söluskatt upp á 307 millj., fellst nú á að lækka hann um 68 millj. Þá er söluskatturinn kominn niður í kringum 239 millj. Og hún viðurkennir, að 42 millj. kr. af þörfinni stafi beinlínis af skattinum sjálfum. Sé það dregið frá, má segja, að nettóþörf ríkisins sé í kringum 197 millj. kr., miðað við þessar tölur stjórnarinnar. Þá er aðeins spurningin: Sjá menn enga aðra leið til þess að komast yfir þennan vanda heldur en grípa til þess óyndisúrræðis, sem þessi skattur er? Sjá menn enga aðra leið? Er það virkilega svo, að það hafi verið athugað gaumgæfilega hjá hæstv. ríkisstj., að ekki sé t.d. hægt að hækka nokkuð þær áætlanir, sem fyrir liggja um tekjuliði fjárl.? Hefur það ekki verið viðurkennt nú af hæstv. ríkisstj., að það standi a.m.k. til að gera allróttækar ráðstafanir til þess að sjá um betri innheimtu á álögðum beinum sköttum en verið hefur? Og reiknar hún ekki með því, að hún mundi fá talsvert meiri tekjur, ef þessar nýju leiðir verða viðhafðar, og reiknar hún ekki með því, að söluskatturinn mundi gefa nokkru meira, ef hún beitti þessum nýju aðferðum? Eða á hreinlega ekkert út úr því að koma nema fanga 1—2 menn og sekta þá um nokkrar krónur? Nei, auðvitað er verið að efna til þessa nýja eftirlits í sambandi við innheimtu skattanna, vegna þess að menn vita og viðurkenna í rauninni allir, að skattarnir koma ekki allir í ríkissjóð. Skattarnir, sem á eru lagðir eða á ættu að leggjast, sumir hverjir, eru ekki lagðir á, og aðrir, sem eru lagðir á, eins og söluskatturinn, koma ekki allir til skila. Og nýjar ráðstafanir, sem eiga að herða á þessu, eiga vitanlega að skila sér í hækkuðum fjárhæðum í ríkissjóð.

Ég teldi því ekki óeðlilegt, að við nánari athugun gæti ríkisstj. fallizt á að hækka nokkuð tekjuáætlun fjárlagafrv. og þannig mætti mæta þessum mismun að einhverju leyti. Og ekki vil ég heldur trúa því, að ef ríkisstj. virti fyrir sér þennan gífurlega vanda, sem hlýtur að fylgja því að samþ. þetta frv., fyndi hún ekki með góðum vilja einhverja liði, sem mætti lækka á fjárl. Það er enginn vafi á því, að þar má lækka allverulega ýmsa rekstrargjaldaliði, en einnig væri ástæða til þess að taka eitthvað af beinum framkvæmdakostnaði ríkisins, þar sem um stórframkvæmdir er að ræða eða mjög dýrar framkvæmdir, og leggja ekki útgjöldin eins mikið á tekjurnar á þessu ári, jafnvel þó að ríkið hugsaði sér álíka hraðar framkvæmdir, því að það má vel hugsa sér það, að ríkið taki eitthvað að láni, þegar um stórframkvæmdir er að ræða, og dreifi framlögum sínum til þessara stórframkvæmda og fjárfestingar á lengra tímabil. Þetta er viðurkennt hjá öðrum þjóðum, og þetta er gert. Það er vitanlega engin ástæða til þess í því tilfelli, að ríkið efnir til byggingar á stórhýsi upp á 40 millj. kr. á einu ári, að leggja alla þá tölu inn á tekjur viðkomandi árs og afskrifa allt á einu ári. Full ástæða væri til þess að miðla þessum kostnaði á nokkur ár og gera þá hreinlega ráð fyrir lántöku þar á móti, á meðan er verið að dreifa þessu á lengra tímabil.

Ráðstafanir eins og þessar væru vitanlega færar, ef menn vildu stefna að því að lækka útgjaldaliðina. Og ef hæstv. ríkisstj. metur þennan vanda eitthvað í líkingu við það, sem ég met hann og ég hef verið að draga hér upp mynd af, finnst mér ekki heldur goðgá að hugsa til þess, að eitthvað af þeim beina greiðsluafgangi, sem ríkisstj. hefur enn í sínum höndum frá góðu árunum, 1962 og 1963, en upplýst hefur verið í þessum umr.ríkisstj. geymi enn óráðstafað af greiðsluafgangi áranna 1962 og 1963 um 220 millj. kr., — það hefði ekki heldur verið nein goðgá að taka nokkurn hluta af þessu til þess að reyna að komast fyrir þennan vanda, ef menn vildu eitthvað til vinna að velta ekki hjólinu af stað á nýjan leik. Og enn mætti benda á það, að ef þarf að grípa til þess að afla meiri tekna, þá koma líka til greina aðrir skattar, sem ekki verka eins og söluskatturinn. Það kæmi auðvitað til greina, að við gerðum meira að því en nú er gert að reyna að skattleggja eyðsluna, þar sem hún færi fram. Ég man eftir því, að fyrir ekki löngu hlustaði ég á ágæta ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti einmitt um það atriði, það væri einmitt leiðin, sem ætti að fara, að skattleggja eyðsluna. Þar sem eyðslan færi fram, þyrfti að hafa þannig gjaldstiga á, að þeir, sem eyddu í meiri og minni óþarfa eða umfram brýnustu þarfir, væru á þann hátt látnir greiða. Þessi leið er vitanlega fær og miklu betri en að leggja á söluskatt. Það kæmi líka alveg fyllilega til greina hjá okkur eins og hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum að leggja t.d. á verðhækkunarskatt. Það ei vitað mál, að ýmsir aðilar í landinu hafa grætt mikið fé bara á verðbólgunni, bara á verðhækkunum á fasteignum. Það kæmi vissulega til greina að innheimta nokkurt gjald af slíkum gróða, og það er vitanlega allt annað að leggja hann til grundvallar í sambandi við tekjuöflun til ríkisins heldur en ákveða að innheimta tekjurnar í ríkissjóð á þann hátt að hækka brýnustu daglegar lífsnauðsynjar. Og það skulu menn vita, að það er ekkert uppfundið af þeim, sem nú eru í stjórnarandstöðu, að benda á það, að söluskatturinn er einhver óréttlátasti og ósanngjarnasti skatturinn, sem á landsmenn er lagður. Hér hefur verið á það minnzt, að sumir af núverandi ráðh. hafa kveðið allmyndarlega að orði í þessum efnum, af því að Alþfl. hefur oftlega á það bent á undanförnum árum, að söluskatturinn er einhver allra ósanngjarnasti skattur, sem þekkist hér hjá okkur.

Ég minnist þess t.d., að hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, viðhafði þessi orð í umr. um söluskattinn á Alþingi í lok ársins 1954, –hæstv. ráðh. sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þeim sköttum, sem íslenzka ríkið innheimtir nú af borgurunum, má telja söluskattinn óvinsælastan allra og að flestu leyti líka óréttlátastan. Það, sem fyrst og fremst er ranglátt við söluskattinn, er, að hann leggst hlutfallslega jafnt á allar vörur, sem hann er innheimtur af, hvort sem þær eru nauðsynjavörur eða algerar óhófsvörur.“

Svipaðar yfirlýsingar þessum hafa verið gefnar æðioft áður. Nú hlýtur maður auðvitað að spyrja: Hvernig í ósköpunum stendur á því, að hæstv. viðskmrh. skuli standa sérstaklega að því að velja ósanngjarnasta skattinn, óeðlilegasta skattinn, sem á er lagður, og reyna að hækka hann? Hvernig stendur á því, að ríkisstj. skuli einmitt velja þennan skatt, sem veldur meiri almennri verðhækkun en aðrir skattar gera? Hvernig stendur á því, einmitt þegar átti að stöðva verðlagið? Og hvernig stendur á því, að ríkisstj. skuli einmitt velja þennan skatt, sem meira að segja aðalefnahagssérfræðingar hennar eru að vara hana við. Jóhannes Nordal skrifar nýlega forustugrein í Fjármálatíðindi, sem er að meginmáli til aðvörun til ríkisstj. um það, að nú megi ekki fara lengra á söluskattsbrautinni, því að það hafi orðið reynslan hér eins og annars staðar, þar sem hann háfi verið hækkaður verulega, að hann innheimtist illa og hann sé því mjög varhugaverður skattur. Hér hefur verið upplýst í þessum umr., að Jónas Haralz, aðalsérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, hafi beinlínis lýst því yfir á fjvn.-fundi hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum, að hann teldi þetta óheppilegan skatt og aðrar leiðir hefði átt að fara. Nú spyr maður: Hver er það, sem hefur ýtt ríkisstj. út í það að velja einmitt þennan skatt? Hvernig stendur á því?

Ekki efast ég um það, að ríkisstj. hlýtur að viðurkenna það, að enginn skattur verkar eins til almennrar verðhækkunar og söluskatturinn og enginn skattur kemur í rauninni verr við almenning í landinu en söluskatturinn. En samt hefur þessi skattur verið valinn. Það virðast öll rök mæla gegn því, miðað við yfirlýsingar ríkisstj., að velja þennan skatt, fara þessa leið. En hinu er auðvitað ekki að leyna, og það hefur líka glögglega komið fram í þessum umr., að það eru til ýmsir aðilar í landinu; sem ekki eru á móti því, að söluskatturinn sé hækkaður. Það er enginn vafi á því, að margir af hinum fjölmörgu innheimtumönnum skattsins, milliliðirnir í landinu, eru ekkert óánægðir með þetta. Sé það tilfellið, sem ég álít og flestir viðurkenna í umr. um þetta mál, að skatturinn komi ekki allur til ríkisins, er auðvitað sýnilegt, að innheimtumennirnir hafa ekkert lakar af því, það verður ekkert verra fyrir þá, þó að skatturinn sé hækkaður.

Ég held, eins og ég hef vikið að, að það sé enginn vafi á því, að ríkisstj. hefði getað, jafnvel þó að hún hefði haldið sér við það, sem ég álít að sé nú ekki þörf á, — jafnvel þótt hún hefði haldið sér við það, að afla þyrfti nettótekna til ríkissjóðs, sem nemur 197 millj. kr. til viðbótar við það, sem ríkissjóður er búinn að fá eftir öðrum leiðum, — jafnvel þótt hún hefði haldið sig við þá tölu, hefði hún auðveldlega getað komizt yfir slíka upphæð, bæði gegnum sparnað á útgjöldum ríkisins og einnig með því að nota nokkuð af greiðsluafganginum, sem fallið hefur til á undanförnum árum, og svo með því að fara aðrar skattaleiðir, hefði hún getað losað sig við mikinn hluta af þeim stóra vanda, sem hlýtur að ganga yfir hann, eins og alla þjóðina, með því að velja þessa leið.

Ég vildi nú að lokum alveg sérstaklega óska eftir því, að hæstv. ríkisstj. gefi hér einhverjar yfirlýsingar um það, hvernig hún lítur á það vandamál, sem hlýtur að skapast hjá sjávarútveginum í beinu framhaldi af samþykkt þessa frv. Ég vil alveg sérstaklega fara fram á það, að ríkisstj. geri einhverja grein fyrir því, hvernig hún lítur á þessi mál, vegna þess að það skiptir vitanlega höfuðmáli í þessum efnum, hvort afleiðing af samþykkt þessa frv. á að verða það, að annað af svipuðu tagi verði eftir nokkra mánuði að fylgja á eftir. Ég vil benda á, að þó að á margan hátt hafi verið hagstætt árferði hjá sjávarútveginum, fer því þó víðs fjarri, að þetta hagstæða árferði komi öllum greinum sjávarútvegsins jafnt til góða. Það fer ekkert á milli mála, að t.d. framleiðsla eins og skreiðarverkun á mjög erfitt nú og fær ekki risið undir neitt svipað því jafnmiklum tilkostnaði og aðrar verkunaraðferðir mundu þó gera. Það fer heldur ekkert á milli mála, að smærri bátar og miðlungsbátar búa margír við tiltölulega kröpp kjör nú, og það er heldur enginn vafi á því, að við línuútgerð í landinu yfirleitt og eins netaútgerð er um knappan rekstur að gera. En vitanlega nær engri átt, að hægt sé að reka þjóðarbúið stórskakkafallalaust, ef til þess ætti að draga, að þessir framleiðsluþættir ættu að dragast verulega saman. Þetta eru einhverjir þýðingarmestu þættirnir í okkar útflutningsframleiðslu. Þó að síldveiðarnar sem heild hafi gefið góða raun, einkum og sérstaklega hjá víssum aðilum, fer því mjög fjarri, að sá hagnaður, sem kann að koma fram hjá ýmsum, nái til allra. En þær ráðstafanir, sem hér er gripið til, mundu einmitt, og þar ræði ég um afgreiðslu fjárl. sem heild, mundu einmitt bitna með miklum þunga á þorskveiðunum og þeim aðilum, sem vinna þá vöru til útflutnings.

Það hefur verið á það minnzt hér í þessum umr., að það komi með nokkrum hætti fram, m.a. í skrifum Alþýðublaðsins, að innan ríkisstjórnarliðsins sé ekki fullkomin samstaða um að velja þessa leið, sem hér hefur verið valin. Og ég held, að það sé enginn vafi á því. Ég tók t.d. eftir því, að í leiðara Alþýðublaðsins í dag, en þar var aðallega verið að ræða um afgreiðslu á hliðstæðum málum þessum í borgarstjórn Reykjavíkur, var komizt að orði á þessa leið, orðrétt tekið upp úr blaðinu, með leyfi hæstv. forseta, — Alþýðublaðið sagði:

„Nú virðast þeir (þ.e.a.s. íhaldið í borgarráðinu í Reykjavík) ekkert hafa lært, því að borgarreksturinn er enn aukinn og lagðir tugir millj. á íbúa höfuðstaðarins til viðbótar því, sem áður var komið. Því miður er afgreiðsla fjárl. að ýmsu leyti sama marki brennd.“

Já, afgreiðsla fjárl. virðist vera með því marki brennd samkv. þessu, að þeir hafa ekkert lært frekar en íhaldið í borgarstjórn Reykjavíkur. Útgjöldin hækka og hækka, álögurnar á almenning keyra úr hófi fram, þeir virðast ekkert hafa lært. Því miður er sama sagan á Alþingi.

Þessi orð eru auðvitað alveg augljós merki um það, ef eitthvað má lesa út úr þeim um það, að þeir, sem skrifa leiðara Alþýðublaðsins, eru andvígir þessari leið, sem hér hefur verið farin. Þeir eru andvígir fjármálastjórninni í núv. ríkisstj. Þeir telja, að hér hefði átt að fara aðrar leiðir. Það vitanlega hlýtur að leiða til þess, að maður beinir því sérstaklega til hæstv. forsrh., þegar þetta liggur nú fyrir í fyrsta lagi um móttökur þær, sem leið þessi fær frá stjórnarandstöðunni og frá launþegasamtökunum og hann hlýtur að heyra og sjá að þessi leið fær einnig frá samstarfsflokki Sjálfstfl. í ríkisstj., þá taki hann nú málið til nýrrar endurskoðunar, þá hugsi hann sig um enn einu sinni.

Ég held, að það sé mikið glapræði að velja þá leið, sem hér á nú að fara, og hún geti ekki leitt til annars en þess, að á næsta ári verði harðar og miklar deilur m.a. á milli launþegasamtakanna í landinu og ríkisvaldsins og vinnuveitenda. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að eftir þann frest, sem gefinn var með samkomulaginu á s.l. sumri, ætlast verkalýðshreyfingin í landinu til þess, að í næstu samningum, sem fram fara á næsta vori, verði samið um kauphækkun. Öll rök mæla með því, að hægt sé að veita launþegunum í landinu kauphækkun. Framleiðslan vex jafnt og þétt, og þjóðarbúskapurinn sem heild er mjög hagstæður. Eftir þennan frest, sem gefinn var, verður ekki undan því vikizt að samþykkja einhverja kauphækkun. Hins vegar er auðvitað alveg gefið mál, að eftir að svo hefur verið haldið á málunum eins og hér er gert, t.d. gagnvart útflutningsframleiðslunni, að leggja á hana slíkar byrðar eins og ég hef gert hér að umtalsefni, þá er auðvitað alveg gefið mál, að útflutningsframleiðslan segir: Meira en þetta get ég ekki tekið á mig með nokkru móti. — Samningar takast ekki, og afleiðingarnar verða auðvitað stórátök, stórframleiðslustöðvanir, og ég verð að segja það, að ég get ekki séð, hvernig ríkisstj. getur ímyndað sér það, að hún geti sloppið lifandi út úr slíkum átökum.

Ég held því, að hæstv. ríkisstj., sjáandi það, hvernig þessi mál standa, ætti að taka málið til nýrrar athugunar og gefa sér tíma, jafnvel þó að það taki eins og einn mánuð, taki janúarmánuð, til að leita að nýjum leiðum út úr þessum vanda, sem skapazt hefur, og ég er ekki í neinum vafa um það fyrir mitt leyti, að það er hægt að finna miklu betri leiðir en hér er stungið upp á.