19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

106. mál, söluskattur

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. eða tefja mjög lengi við þetta mál. En þó langar mig til þess að koma hér að vissum sjónarmiðum, sem hafa vaknað upp hjá mér, eftir að þetta mál kom fram hér á hv. Alþingi.

Ég efast um, að hv. alþm. hafi áður orðið slegnir slíkri undrun eins og nú, þegar söluskattshækkunin var lögð fram hér fyrir nokkrum dögum. Þetta frv. kom svo á óvart, að ég veit ekki til, að nokkrum þm., hvort heldur var í stjórnarliðinu eða í stjórnarandstöðunni, hafi dottið þetta í hug eða átt von á því, að þetta væri á döfinni. Um þetta hefur t.d. aldrei verið rætt í fjvn., og er ég sannfærður um, að engum fjvn.-manni úr hópi stjórnarsinna var kunnugt um, hvað var að gerast, fyrr en hríðin var skollin á. Þaðan af síður virtust blöð ríkisstj. hafa leitt hugann að þessu, því að ekki minnist ég þess, að þau hafi rætt eða boðað fyrir fram nauðsyn þess að stórhækka skattaálögur með skyndiráðstöfunum milli fjárlagaumr. og í önnum og umróti síðustu dagana fyrir þinghlé og fyrir jól. Hér er um svo fáheyrð vinnubrögð að ræða, að þau eiga sér áreiðanlega engin fordæmi. Þessi vinnubrögð eru svo vitaverð, að ef hér á landi ríkti yfirleitt venjulegt pólitískt siðgæði, hefði ríkisstj. hlotið að segja af sér þegar í stað. Hún hefði orðið að gera það, vegna þess fyrst og fremst, að fylgismenn hennar í þinginu hefðu neytt hana til þess. En hér á landi ríkir yfirleitt alls ekki pólitískt siðgæði. bað verður að segja hlutina eins og er, að ríkisstj, hefur ekkert aðhald af flokksmönnum sínum á Alþingi. Hún virðist geta komizt upp með hvað sem henni sýnist. Sannleikurinn er sá, að núv. ríkisstj. lafir í völdum sínum af þeirri einu náð, sem þinglið hennar veitir henni, en úti á meðal þjóðarinnar á ríkisstj. engu trausti að fagna, heldur sætir hún algerri fyrirlitningu alls þorra manna í landinu, og það er fullkomlega réttlætanlegt.

Núv. stjórnarflokkar hafa hangið í völdum s.l. 6 ár, og þótt kannske hafi ekki alltaf verið vakurt riðið í íslenzkri pólitík undanfarna áratugi, hefur þó fyrst keyrt um þvert bak á stjórnarferli þeirra flokka, sem nú fara með stjórn í landinu. Engin ríkisstj. hefur setzt að völdum með meira yfirlæti en núv. ríkisstj. Hún þóttist hafa ráð við hverjum vanda. Hún ætlaði að stjórna svo, að það skipti sköpum í íslenzku efnahagslífi. Haftakerfið átti að afnema, uppbóta- og styrkjastefnan var fordæmd, kaupgjaldsmál skyldu leyst með frjálsu samkomulagi launþega og vinnuveltenda, og umfram allt skyldi verðgildi gjaldmiðilsins og verðbólgan stöðvuð. En hvað hefur gerzt þessi 6 ár, sem ríkisstj. hefur v erið að völdum? Er styrkja- og uppbótakerfið úr sögunni? Það er síður en svo. Allt, sem ríkisstj. hafði um það að segja í upphafi, hefur reynzt blekking, enda mestan part byggt á furðulegum misskilningi á íslenzku efnahagslífi. Það er hægt að fordæma styrkja- og uppbótakerfið, og það er hægt að finna því flest til foráttu. En íslenzkir stjórnmálaforingjar ættu að hætta að heimska sig é því að fullyrða, að það sé auðvelt að komast út úr því. Það er nefnilega alls ekki auðvelt, enda hefur hæstv. ríkisstj. algerlega mistekizt það. Út af fyrir sig ætla ég ekki að lá henni það, en taumlaus blekkingarvaðall í þessu máli er alveg ófyrirgefanlegur. Hefur ríkisstj. staðið við það fyrirheit að láta launþega og vinnuveitendur frjálsa í samningum sínum um kaup og kjör? Nei, sannarlega ekki. Það er eitt þeirra stefnuskráratriða, sem hún hefur brotið hvað freklegast og aldrei látið afskiptalaust. Og hvað um verndun gjaldmiðilsins. Ekki annað en það, að ríkisstj. hefur tvívegis a.m.k. með beinum aðgerðum fellt gengi krónunnar og rýrt gjaldmiðilinn í verði með ýmsum öðrum aðgerðum. Og haldið þið, að það sé búið að stöðva verðbólguna og dýrtíðina? Í því efni hafa orð og efndir stangazt hvað mest á, þannig að verðbólguvöxturinn hefur aldrei verið ægilegri en þau 5—6 ár, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Þessi vöxtur hefur áreiðanlega aldrei verið meiri, og ríkisstj. kann þar engin ráð, þegar é reynir. Það má m.a. vitna til ræðu hæstv. forsrh. nú fyrir nokkrum dögum hér í hv. Alþingi, þegar hann var að velta vöngum yfir verðbólgunni og játaði, að hann kynni engin ráð við henni og vissi ekkert, hvað hann ætti að gera í þeim efnum né ríkisstj. Að sjálfsögðu var þessi hreinskilni hæstv. forsrh. mjög virðingarverð út af fyrir sig. En það veit ég, að hann skilur manna bezt, að þegar svo er komið, að æðsti stjórnmálaforingi landsins og sá, sem hefur forsæti í ríkisstj., játar í eyru alþjóðar, að hann kunni engin ráð í stærsta efnahagsböli þjóðarinnar, þá á hann að víkja úr forsætisráðherrasessi. Bjarni Benediktsson mundi ekki minnka við það að segja af sér ráðherradómi, eins og nú er komið málum fyrir honum og stjórn hans. Það er sjálfsögð skylda hans að fara frá völdum. Ef hann gerir sér þess ekki grein sjálfur, ættu flokksmenn hans að leiða honum það fyrir sjónir og hætta þessu vesældarkukli, sem viðgengst í stjórn landsins nú. Því fyrr sem það gerðist, því betra. En eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, er venjulegt, pólitískt siðferði ekki til í þessu landi, og meðan svo er, geri ég mér ekki heldur háar hugmyndir um, að ríkisstj. hafi þá reisn og þann myndarskap að segja af sér og leggja málin undir dóm kjósendanna, sem er þó það eina rétta, sem hægt er að gera.

Það er að mínu viti alveg augljóst. að ríkisstj. á sér ekkert annað markmið en lafa í völdum með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum, og þegar svo er komið, á ríkisstjórnin einskis manns virðingu, sem varla er heldur von. Slík ríkisstj. er bæði hrein þjóðarógæfa og hrein þjóðarsmán. Ég segi fyrir mig, að ég get unnt hæstv. forsrh. og samráðh. hans betra hlutskiptis en þess að koðna niður í fyrirlitlegu valdabrölti og pólitísku siðleysi. Ég vil benda á það í fullri vinsemd, að íslenzk þjóð hefur ekki efni á því að sóa þannig góðum mannsefnum. Okkur er nauðsyn að einbeita kröftum okkar og nota þá til góðra hluta og einkum að virða heiðarlegt framferði í pólitík sem öðru. En ég kalla það m.a. óheiðarleika í pólitík og pólitískt siðleysi að viðurkenna ekki ósigur sinn.

Núv. ríkisstj. hefur beðið ósigur, hæstv. forsrh. hefur beðið persónulegan ósigur, og hæstv. fjmrh. hefur beðið sinn persónulega ósigur. Trausti almennings hafa þeir glatað, og virðingu almennings munu þeir glata, ef þeir halda áfram að negla sig fasta við ráðherrastólana, eins og nú er komið. Söluskattshækkunin. sem nú er fyrirhuguð, er einhver ósvífnasta till., sem um getur í sögu Alþingis nú um langt skeið. Skattar hafa farið síhækkandi á þessu ári, og jafnvel blöð ríkisstj. hafa kveðið fast að orði um nauðsyn skattalækkunar, og almenningur hefur trúað því, að það væri ætlun ríkisstj. að létta skattabyrðar. Almenningur hefur haft fulla ástæðu til þess að álíta, að svo yrði. Skattahækkun var nokkuð, sem fólk átti sízt von á eftir þær umr., sem orðið hafa um skattamál í sumar og haust. Þess vegna kemur söluskattshækkunin nú eins og hnefahögg í andlit þjóðarinnar, hvers einasta manns, hvar í flokki sem hann stendur. Forsendurnar fyrir söluskattshækkuninni eru heldur ekkert annað en blekking. Því er haldið fram af hæstv. ríkisstj., sem ber þetta frv. fram, að ekki sé hægt að ná endum saman á fjárlagafrv. án skattahækkunar. Miðað við reynslu síðustu ára er þetta alveg rangt. Það er hægt að afgreiða hallalaus fjárlög nú án skattahækkunar, og það er skylda Alþingis að sjá um, að svo verði. Umframtekjur ríkissjóðs hafa skipt hundruðum millj. undanfarin ár, en það er stefna ríkisstj. að innheimta árlega sem mest af sköttum til þess að hafa umframtekjurnar sem allra hæstar. Stefna ríkisstj. í skattamálum hefur til þessa verið og er enn ofsköttunarstefna, og hún heldur fast við þá stefnu sína þrátt fyrir gefin loforð um skattalækkanir. Skattahækkunarfrv., sem hér liggur fyrir, sannar þetta bezt.

Tilgangurinn með þessu frv. er ekki sá að afla nauðsynlegra tekna til þess að mæta óhjákvæmilegum útgjöldum. Tilgangurinn er einfaldlega sá að fá mörg hundruð millj. í öruggar umframtekjur. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkistj. að blekkja einn eða neinn í sambandi við þennan tilgang sinn. Það liggur alveg ljóst fyrir, að hverju er stefnt. Ríkisstj. er að svíkja sín eigin loforð um skattalækkanir: Hún er að ganga á orð og eiða, sem hún hefur svarið frammi fyrir alþjóð. Þess vegna er ekki einasta rétt að fella þetta frv., heldur ætti ríkisstj. sjálf að falla á málinu.

En því miður er hætt við, að svo verði nú ekki, því að enn einu sinni mun bresta það pólitíska siðferðisþrek, sem vantar á Íslandi í dag. En ef slíkt siðferðísþrek væri fyrir hendi, hlyti þessi ríkisstj. að kolfalla á verkum sínum. Ellegar þá að sjálfstæðismenn skipti um forustu í flokki sínum, sem einnig er viss leið út úr þessari kreppu, sem við erum nú í. En hér á landi viðgengst sá ósiður, sem þykir óhæfa í öðrum lýðræðislöndum, að pólitískir foringjar streitist við að sitja, löngu eftir að þeir eru fallnir að virðingu og trausti, og sökkva sífellt dýpra og dýpra, sjálfum sér til hneisu og öllum landslýð til ömunar. Sú ríkisstj., sem nú situr við völd á Íslandi, á völd sín eingöngu undir þessum þjóðarósóma, sem þolir pólitískum foringjum að gera hverja óhæfuna á fætur annarri, án þess að þeir þurfi að svara til saka í flokki sínum.

Mín persónulega skoðun er sú, að ástæða hefði verið til þess að flytja formlegt vantraust á ríkisstj. og ræða það í útvarpsumr. tvö kvöld, eins og venja er til. En vantrauststill., sem aðeins nýtur stuðnings stjórnarandstöðuflokkanna; er þó kannske ekki mikils virði í sjálfu sér, því að ríkisstj., hversu aum sem hún er, stendur slíkt af sér. Það eina vantraust, sem verulega munar um, er það, að óbreyttir liðsmenn í stjórnarflokkunum og þó einkum úr þingflokkunum rísi upp gegn ofurvaldi forustumanna sinna og setji þeim stólinn fyrir dyrnar. Í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, var gullið tækifæri til þess að láta að sér kveða í þessu efni. En því miður sjást þess ekki merki, að svo ætli að verða. Ég harma það, því að af því má glögglega sjá, hversu fátækir íslenzkir stjórnmálamenn eru að siðferðisþreki og sönnum pólitískum manndómi.