09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (2905)

39. mál, verðtrygging sparifjár

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég tel, að hér sé hreyft athyglisverðu máli og mín skoðun er sú, að hv. Alþingi beri að taka jákvæða afstöðu til þeirrar till., sem hér hefur verið flutt. Það hefur að vísu talsvert verið um það, bæði á yfirstandandi þingi og undanförnum þingum, að hv. stjórnarandstæðingar hafa flutt ýmsar till. um efnahagsmál, bæði einstaka þætti þeirra og jafnvel efnahagamálin í heild. En því miður er það þó svo um flestar þessara till. að mínu áliti, að þær eru með því marki brenndar, að ef samþ. hefðu verið, hefði það ekki verið spor í þá átt að leysa vandann, heldur þvert á móti, enda tilgangur margra þessara till. fyrst og fremst sá að veiða atkv. meðal hinna óþroskaðri kjósenda, frekar en að benda á raunhæfa lausn þessara mála. Hvað sem líður þessum öðrum till., verður það sama ekki sagt að mínu áliti um till. þá, sem hér liggur fyrir, og ber því einmitt sérstaklega að fagna.

Annars var það ekki tilgangur minn með því að standa hér upp að ræða hina almennu stjórnmálahlið þessa máls, heldur er ástæðan m.a. sú, að ég gerðist til þess fyrir 2 árum að flytja hér á hv. Alþingi till. um verðtryggingu lífeyris og líftrygginga, þannig að segja má, að sú till. sé skyld þeirri, sem hér er um að ræða, þó að hún væri að vísu allmiklu þrengri. Þessi till. var samþ. hér á hv. Alþingi og er skylt að geta þess, að hv. stjórnarandstöðuflokkar báðir sýndu því máli vinsemd, en ef svo hefði ekki verið, býst ég ekki við, að till. hefði náð fram að ganga, því að hún var það seint á ferðinni. Fyrir það er ég hv. stjórnarandstöðuflokkum þakklátur. Mér var síðan falið að semja álitsgerð um málið og lauk ég henni snemma á árinu 1963. Þó að svið þessarar till., eins og ég nefndi, væri að vísu allmiklu þrengra en þeirrar, sem hér liggur fyrir, þá var spurningin um það, hvort rétt væri að taka upp almenna verðtryggingu sparifjár, töluvert rædd í þessu áliti. Ég komst að vísu að þeirri niðurstöðu þá, að slíkt væri ekki tímabært, en benti þó á það, að þær aðstæður gætu skapazt í efnahagsmálum Íslendinga, að slík leið hlyti að koma mjög til álita og hvatti til þess, að það mál yrði áfram til athugunar. Eins og ég sagði, var frá þessari álitsgerð gengið í ársbyrjun 1963, en hefði það verið u.þ.b. hálfu ári síðar, eða eftir að sú verðbólgualda skall á, sem átti sér stað á seinni hluta ársins 1963, þá býst ég við, að ég hefði tekið dýpra í árinni í því efni.

Svo að farið sé aðeins fáeinum orðum um efnishlið þessa máls, þá er ég alveg sammála hv. 1. flm. um það, að ef tekin væri upp meira eða minna víðtæk verðtrygging sparifjár, mundi það vera verulegt spor í þá átt að koma á jafnvægi á lánamarkaðinum. En ekki þarf að fara í grafgötur um það, að nú er verulegt jafnvægisleysi á lánamarkaðinum. Þrátt fyrir þá háu vexti, sem eru, er ekki hægt að fullnægja eftirspurninni eftir lánsfé. Að vísu er það svo, gagnstætt því, sem stundum hefur verið haldið fram, að þetta ójafnvægi mundi auðvitað verða enn þá meira, ef vextirnir væru lækkaðir, en hvað sem því líður, er þetta ójafnvægi fyrir hendi og ég tel ekki vafa á því, að það mundi lagfærast, ef tekin væri upp víðtækari verðtrygging, en nú er. Eitt af fleiru, sem við það væri unnið, væri það, að með því móti ætti að vera hægt að útrýma hinum svarta lánamarkaði, sem jafnan er fyrir hendi, þegar svo stendur á sem hér er um að ræða og ætti ekki að vera ágreiningur um það, að slíkt væri spor í rétta átt. Þegar fólki eru allar bjargir bannaðar með að fá lán með ríkjandi vaxtakjörum, þá er hætta á því, að menn leiti á þennan svarta markað, alveg á sama hátt og þegar ekki er hægt að fá húsnæði með löglegum kjörum, þá myndast svartur húsaleigumarkaður. Það eru alveg sömu lögmálin, sem hér eru að verki.

Þetta er fyrra atriðið, sem benda má á í sambandi við þá kosti, sem verðtryggingin mundi hafa í för með sér. En ég er einnig sammála hv. 1. flm. um það, að von er til þess, að verulegt skref væri stigið í þá átt að stöðva verðbólguþróunina, ef verðtrygging sparifjár væri tekin upp. Að vísu má segja, að með því einu að taka upp verðtryggingu sparifjár væri verðbólguþróunin ekki stöðvuð, en það mundi draga mjög úr hinum óhagstæðu áhrifum. sem verðbólgan hefur á efnahagslífið, ef slíkt skref væri tekið. En þessi óhagstæðu áhrif eru m.a. fólgin í því, að missi menn trú á verðgildi peninganna, verður mikil ásókn í það að koma lausafé í föst verðmæti, sem bæði verður til þess að örva verðbólguþróunina og leiðir í öðru lagi til óhagstæðrar gjaldeyrisaðstöðu, svo að hætta er á því, að grípa verði til meira eða minna víðtæks haftakerfis með þeim óþægindum, sem það skapar, þannig að þótt verðbólgan væri út af fyrir sig ekki stöðvuð með slíkri verðtryggingu, væri mjög dregið úr óhagstæðum áhrifum hennar og af því mundi aftur að mínu áliti leiða það, að menn mundu þá uppgötva smátt og smátt og verða það ljósara en nú er, að það græðir í rauninni enginn á verðbólguþróuninni, en það mundi auðvitað aftur skapa hagstæðari skilyrði fyrir því, að hana mætti stöðva. Í því sambandi má á það benda, að skuldarar, sem af eðlilegum ástæðum líta það a.m.k. ekki óhýru auga, þó að verðlagið hækki, af því að það dregur úr skuldabyrði þeirra, mundu ef tekin væri upp vísitölutrygging sparifjár og annarra peningakrafna, snúa við blaðinu og styðja ráðstafanir til þess að hefta verðbólguna, því að enginn kærir sig um, að nafnverð skulda hans komi til að hækka. Þetta eru þeir kostir, sem verðtryggingin mundi hafa í för með sér.

Nú er hugmyndin um verðtryggingu sparifjár engan veginn ný. Hún kom þegar fram að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni og var þá mikið rædd í ýmsum löndum. Hér á landi er þessi hugmynd ekki heldur ný. Það hafa öðru hverju síðan í byrjun fyrri áratugs verið skipaðar í það nefndir eða einstökum aðilum falið að gera athugun á þessum efnum. En þá vaknar sú spurning: Hvernig stendur á því, þar sem verðbólguvandamálið hefur svo víða reynzt erfitt úrlausnar, að þessi leið hefur ekki verið farin fyrir löngu í öllum þeim löndum, sem við verðbólguvandamállð eiga að stríða? Svarið við því er að mínu áliti það, að framkvæmd almennrar verðtryggingar sparifjár hlýtur að vera háð mjög miklum framkvæmdarörðugleikum. Að vísu eru þeir örðugleikar ekki óyfirstíganlegir. Að svo er, leiðir þegar af því, að slíkt fyrirkomulag hefur verið tekið upp í allmörgum löndum nú þegar, eins og réttilega er á minnzt í grg. fyrir þessari þáltill. En víða hefur það reynzt all miklum örðugleikum háð, og án þess að ég geti farið nánar út í það hér að ræða það, er þó eitt atriði, sem benda má á í sambandi við framkvæmdina á þessu. En sú spurning hlýtur auðvitað strax að koma upp: Hvað víðtæk á þessí verðtrygging að vera? Að gera verðtrygginguna svo víðtæka, að hún næði til allra lána, jafnt rekstrarlána og fjárfestingarlána, er auðsæjum annmörkum háð. Það má gera ráð fyrir því, að það mundi m.a. sæta mikilli mótspyrnu af hálfu atvinnuveganna, ef rekstrarlán til þeirra ættu að vera vísitölutryggð. Þó að slíkt væri auðvitað hægt að gera og það ástand gæti skapazt, að það væri varla önnur leið fyrir hendi, þá hygg ég, að það gæti varla verið álitamál, að mjög erfitt væri að taka upp slíka almenna verðtryggingu. Hitt hlýtur að mínu áliti hins vegar mjög að koma til álita, að gera verðtryggingu almenna, þegar um lán til fjárfestingar er að ræða, eins og nú þegar á sér stað í allstórum stíl, eins og hv. þm. er kunnugt, hvað snertir lán til íbúðar húsabygginga. Fasteignir og önnur slík verðmæti hækka jafnan í verði til samræmis við hinar almennu verðhækkanir, þannig að það ætti ekki að vera ofviða þeim, sem slík lán taka, þó að þau séu vísitölubundin. Gegn þessu mundi þá auðvitað aftur koma það, að þeir sparifjáreigendur, sem verðtryggingarinnar nytu, yrðu að kaupa hana því verði að festa fé sitt um skemmri eða lengri tíma, eftir því sem nánar væri ákveðið hverju sinni.

Það lítur í sjálfu sér mjög vel út, að verðtryggingin eigi að ná til fjárfestingarlána og bundins sparifjár, aftur á móti ekki til rekstrarlána og sparifjár, sem ekki er bundið. En einmitt það að kljúfa þannig lánamarkaðinn hefur reynzt vera talsverðum örðugleikum háð. Finnland er það eina Norðurlandanna, eftir því sem ég bezt veit, sem í verulegum mæli hefur tekið upp verðtryggingu sparifjár og peningakrafna, enda hafa Finnar átt við mjög erfiða verðbólgu að stríða. Og mér er kunnugt um það, að í Finnlandi hafa forstöðumenn lánastofnana yfirleitt verið því meir eða minna andvígir, að þetta fyrirkomulag væri tekið upp, enda hlýtur þetta að valda töluverðum erfíðleikum í rekstri slíkra stofnana. Nú hefur það verið þannig í Finnlandi, að sú leið hefur verið farin, sem álitlegust sýnist, að láta verðtrygginguna fyrst og fremst ná til fjárfestingarlána og aðeins til bundins sparifjár, hins vegar ekki til rekatrarlána og sparifjár, sem hægt er að hefja án uppsagnar. En af þessu hefur svo aftur leitt, að tilhneiging hefur verið til þess, að miklar færslur hafa verið milli hinna vísitölutryggðu reikninga og þeirra, sem ekki voru það. Þegar verðhækkanir hafa verið örar og almenningur hefur óttazt rýrnun á verðgildi peninganna, þá hefur spariféð eðlilega streymt yfir á hina vísitölutryggðu reikninga, en það hefur aftur leitt til þess, að lánastofnanir hafa átt í miklum örðugleikum með að fullnægja eftirspurn atvinnuveganna eftir rekstrarfé. Hins vegar hefur það á öðrum tímum komið fyrir, ef verðlag hefur verið stöðugt alllangan tíma, að þá hafa hreyfingarnar verið í hina gagnstæðu átt. Nú er það yfirleitt þannig, sem telja má raunar sjálfsagt, að vextir eru yfirleitt lægri af sparifé, sem er vísitölutryggt, heldur en af sparifé, sem ekki er það. Þegar fólk svo hefur búizt við því, að verðbólgan væri stöðvuð, þá hafa menn viljað njóta hinna hærri vaxta og flutt sparifé sitt af hinum vísitölutryggðu reikningum, en af því hefur þá aftur leitt, að lánastofnanirnar hafa lent í erfiðleikum með að fullnægja eftlrspurn eftir lánum til íbúðarhúsnæðis og öðrum fjárfestingarlánum.

Þetta er eitt þeirra atriða, sem á má benda. Og að mínu áliti er það í sjálfu sér ekki álitamál, að ef maður væri þeirrar trúar, að auðvelt mundi vera á næstu árum að stöðva verðbólguna eftir öðrum leiðum, þá mundi ég telja það æskilegustu lausnina. Það væri æskilegt að geta sloppið við að taka upp svo viðamikið kerfi, sem hér er um að ræða. Þess vegna snertir það að mínu áliti mjög kjarna þess máls, sem hér er um að ræða, þegar einn hv. þm. Alþb. komst þannig að orði, þegar frv. um útboð skuldabréfaláns ríkisins var hér til umr. fyrir fáum dögum, að hann sæi ekki ástæðu til þess að bjóða svo hagstæð kjör sem gert var með þessu láni, því að gera mætti sér vonir um það, að með júnísamkomulaginu í vor milli atvinnurekenda og launþegasamtakanna væri mörkuð ný stefna í verðlagsmálum, þannig að þess mætti vænta, að verðlagaþróunin yrði stöðugri á næstunni, en nú er. Eins og ég sagði áðan snertir þetta mjög kjarna þess máls, sem hér er um að ræða, því að væri sú skoðun rétt, sem ég mundi fyrir mitt leyti mjög óska, að vænta mætti þess, að sams konar samvinna, sem tókst um það á s.l. vori milli hagsmunasamtakanna og ríkisstj. að gera raunhæfa tilraun til þess að stöðva verðbólguþróunina, gæti haldið áfram, þá væri ekki ástæða til þess að fara þá krókaleið til stöðvunar verðbólgunni, sem hér er um að ræða. En valt er því að treysta að mínu áliti með tilliti til fenginnar reynslu og má í því efni segja, eins og í ýmsum öðrum hliðstæðum samböndum, að rétt er að vera búinn við því versta, því að það góða skaðar ekki. Og með tilliti til þessa tel ég, að hvað sem öðru líður, sé nú fyllilega tímabært að gera á því nánari athuganir, en hingað til hefur verið gert, hvort ekki geti komið til greina sem lausn á verðbólguvandamálinu að taka upp almenna verðtryggingu sparifjár. Að mínu áliti er það leið til þess að leysa þann vanda, sem hér er um að ræða, þó að vissulega sé hún að ýmsu leyti torfær. Í öðru lagi má á það benda, hvað sem því líður, hvort gera má sér vonir um það, að verðbólgan verði stöðvuð eftir öðrum leiðum en þessari, þá er það óbreytt skoðun mín, frá því að ég flutti þá þáltill., sem ég minntist á áðan um verðtryggingu lífeyris- og líftrygginga, að þegar um það er að ræða að binda fé til langs tíma, eins og þegar safna á í lífeyrissjóði og keyptar eru líftryggingar, þá eru engar líkur á því, að verðlagsþróunin verði svo stöðug næstu áratug, að það eigi ekki fullan rétt á sér að verðtryggja slíkt sparifé, hvað sem öðru líður, enda verið inn á þá braut farið í ýmsum nágrannalanda okkar, svo sem Norðurlöndunum öðrum en Finnlandi, þar sem verðbólgan hefur þó verið miklu minni, en hér hjá okkur.

Ég hef þessi orð svo ekki fleiri, en endurtek það að lokum, sem ég sagði í upphafi máls míns, að ég tel, að hv. Alþingi beri að taka jákvæða afstöðu til þeirrar till., sem hér hefur verið flutt.