09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (2906)

39. mál, verðtrygging sparifjár

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins nokkrar aths. í sambandi við það, sem hér hefur komið fram. — Ég þóttist taka eftir því réttilega, að frsm. þessa máls, 1. flm. málsins, benti á það í ræðu sinni, að verðtryggingu á sparifé yrði knapplega við komið án þess, að um leið yrði tekin upp sams konar verðtrygging eða vísitölubinding á útlánum almennt, enda ætla ég, að allir, sem um þessi mál vilja hugsa, hljóti að verða að viðurkenna, að það muni verða allörðugt viðfangs að ætla að halda uppi raunverulegri verðtryggingu á innistæðufé, án þess að vísitölubinding komi til í sambandi við útlán á þessu sama fé. Að vísu veitti ég því einnig athygli, að þáltill., sem hér er flutt, fjallar í rauninni aðeins um athugun á verðtryggingu á sparifé, en minnist ekki á hinn þáttinn. En þegar menn hafa komizt að þessari niðurstöðu, að verðtryggingin á sparifé muni verða örðug viðfangs, án þess að einnig komi til hliðstæð trygging á öllum útlánum eða flestum útlánum, þá kemur vandinn upp, þá reka menn sig á erfiðleikana við framkvæmdir í þessa átt, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv., sem hér var að ljúka við að tala og hefur eflaust hugsað allmikið um þessi mál. Ég tel því, að það sé enginn að bættari í sambandi við þessi mál að flytja till. eins og þá, sem hér liggur nú fyrir um einhliða verðtryggingu á sparifé, eða gefa almenningi í landinu og þá sérstaklega sparifjáreigendum eitthvað undir fótinn um það, að nú standi til með nefndarskipun að tryggja þá fyrir voða verðbólgunnar, án þess að það komi þá alveg skýrt fram um leið, hvaða örðugleikum þetta er bundið og undir hvaða vanda almenningur í landinu mundi gangast, um leið og slík verðtrygging yrði veitt, í sambandi við ýmislegt annað, sem við kemur almenningi í landinu.

Það er jafnvel minnzt á, að það mætti e.t.v. vísitölubinda öll svonefnd fjárfestingarlán, jafnvel þó að rekstrarlánin yrðu ekki öll vísitölubundin. Ég er hræddur um, að menn komist fljótlega að raun um, að þetta mundi ekki duga, rekstrarlánin yrðu hér að koma inn í líka, því að annars fengi þetta ekki staðizt. En jafnvel fjárfestingarlánin er miklum erfiðleikum bundið að vísitölubinda, þótt þau væru tekin öll og það mundi koma æðihart við marga, svo framarlega sem verðbólgan héldi áfram að geisa, en það er nú meginvandinn í því máli, sem hér er um að ræða. Auðvitað yrðu ýmsir aðilar, sem taka fjárfestingarlán, að reikna með því, í öllum heilbrigðum rekstri verða menn að gera það, að þeim takist að standa í skilum með sín fjárfestingarlán. Við skulum bara hugsa okkur eitthvert dæmi. Við skulum taka dæmi af því, að bæjarfélag eða einhver slíkur tekur fjárfestingarlán til þess að byggja höfn eða koma upp einhverju öðru mannvirki og auðvitað þarf þessi aðili að afla sér tekna til þess að standa undir þessu fjárfestingarláni. Ef þetta fjárfestingarlán er með þeim hætti, að það skríður jafnt og þétt fram, hækkar í sífellu, afborganirnar hækka, útgjöldin verða meiri af þessu stofnláni, þá gerir þessi aðili ekki annað en það, að hann verður að reikna með þessu í sínum útgjöldum, hækka sínar álögur, innheimta hærri hafnargjöld, í þessu tilfelli eða meiri tekjur af þessum framkvæmdum, sem fjárfestingarlánið hefði gengið til. Þannig mundi þetta yfirleitt verða í öllum tilfellum. Sama er að segja vitanlega um rekstrarlánin. Þegar menn veita því athygli, að það verður einnig að vísitölubinda slík útlán á móti því, ef á að verðtryggja öll innlán, þá er það líka alveg gefið mál, að þeir, sem eiga að standa undir rekstrarlánunum, verða að gera ráðstafanir til þess. að þeirra tekjur geti farið vaxandi á móti slíkum óvæntum útgjöldum.

Ég ætla, að menn komist fljótlega að þeirri niðurstöðu, þegar þessi mál eru athuguð, að í rauninni er hér ekki um neina björgun að ræða í sambandi við meginvandamálið, ekki nema þá að þessar aðgerðir leiddu beinlínis til þess, að hægt yrði að stöðva dýrtíðina. En ég held fyrir mitt leyti, að það séu allt aðrar og miklu stærri orsakir í rauninni til þess, að verðbólgan æðir yfir, heldur en þær, sem liggja í þessu atriði út af fyrir sig. Það er nefnilega hætt við því, ef verðbólgan heldur áfram, sem ég held að væru allar líkur til að hún mundi gera þrátt fyrir svona ráðstafanir, að útkoman af þessu verði einungia sú, að verðtryggingin á innstæðufé þýði í framkvæmd það sama og hækkaðir vextlr, ekkert annað. Og ég hélt satt að segja, að þeir væru nú að verða fleiri, en ekki færri, sem væru að sannfærast um það, að hinir háu vextir, sem hér hafa verið notaðir nú um skeið og áttu að vera til þess að draga úr vexti dýrtíðar og verðbólgu, hamla gegn útlánum og hafa þannig þau áhrif í efnahagskerfinu, að um meira jafnvægi yrði þar að ræða, — ég hélt, að þeir væru að verða fleiri, en ekki færri, sem hefðu sannfærzt um það, að þessir háu vextir verka öfugt. Þeir gera miklu frekar að kynda undir dýrtíðinni í landinu og gera erfiðleikana meiri en það, að þeir leysi vandann. En það, sem liggur raunverulega á bak við þennan tillöguflutning, tel ég, er sú ágæta löngun hjá flm. að reyna að finna ráð til þess að vernda sparifjáreigendur í landinu fyrir þeim áföllum, sem þeir hafa orðið fyrir og verða jafnan fyrir á dýrtíðartímum. Það er ofur eðlilegt, að reynt sé að finna ráð til þess. Núverandi hæstv. ríkisstj. fann það ráð við þessum vanda, að hún veitti innistæðueigendum í landinu hærri vexti, en þeir höfðu áður fengið. Ég held, að þeir hafi ekki grætt á þeirri ráðstöfun. Og ég efast líka um það, að sparifjáreigendur mundu græða á þessari ráðstöfun, þegar til lengdar lætur.

Það, sem ég vildi einkum segja í sambandi við þær umr. sem hér hafa farið fram, er þetta: Ég álít, að meginvandamálið í þessum efnum sé verðbólgan sjálf og það eigi að snúa sér að því með öðrum ráðum, en þessum, að finna leiðir til þess að hemja þessa verðbólgu og það sé höfuðatriðið. Það er alveg rétt, að það verður sennilega nokkuð erfitt að fá fulla samstöðu um ráðstafanir í þeim efnum og það þekkjum við vel af þeim umr., sem hafa farið fram á undanförnum árum, hér á Alþingi, um leiðir í þeim efnum. En ég held, að það þýði ekki þegar við þennan vanda er að glíma, verðbólguvandann, sem bitnar að vísu þungt á sparifjáreigendum og ýmsum öðrum, að líta undan, þora ekki að horfast í augu við vandamálið sjálft. Það er verðbólgu vandamálið, sem við er að glíma, og það þarf að reyna að ná samstöðu um það, hvernig á að stöðva verðbólguna, en ekki víkja sér undan vandanum á þennan hátt. Ég held, að það mundi ekki leysa vandann.

Við höfum á undanförnum árum búið við það ástand í okkar efnahagsmálum, að verðlag hefur farið ört hækkandi hér á Íslandi. Það hefur það gert þrátt fyrir það, þó að opinberar skýrslur sýni okkur, að verðlag á innfluttum vörum til landsins hefur fremur farið lækkandi, en hækkandi. Hverjar eru þá ástæðurnar? Sumir halda því fram, að ástæðurnar liggi í því, að kaupgjald sé almennt of hátt hér á landi og það valdi mestu um mikla dýrtíð hér. Á það hefur hins vegar verið bent, að kaupgjald verkafólks og annarra almennra launþega á Íslandi virðist nú vera nokkru lægra, en í nágrannalöndum okkar, en hins vegar kemur líka í ljós, að þjóðartekjur okkar á hvern mann í landinu eru fyllilega eins háar eða hærri. Þegar þessar staðreyndir liggja fyrir, sem ég held, að verði ekki mjög mikið deílt um, sýnist mér alveg augljóst, að það komi upp í þessu máli, að hér eru ýmsir aðrir aðilar, sem ráða þróuninni meir um verðlagsmálin og verða þess valdandi, að hér gengur yfir þessi mikla verðbólga. Þar tel ég, að komi mjög til ýmsir opinberir aðilar á Íslandi, sem verða þess valdandi, að kostnaður allur hér verður óvenjulega hár. Hér eru t.d. miklum mun hærri vextir, en í nálægum löndum og þeir spinna mjög upp á sig og eiga stóran þátt í hinu háa verðlagi í landinu. Hér er líka um það að ræða, að bæði ríki og bæjarfélög, taka tiltölulega mjög mikið til sín, innheimta tiltölulega mjög mikið. Þessir aðilar hafa lengi staðið í allmiklum framkvæmdum á ýmsu sviði og þetta verður til þess, að álögur þessara aðila á framleiðsluna í landinu eru þannig, að það getur ekki leitt til annars en þess, að verðlag verður hér tiltölulega hátt. Og ýmiss konar annar óeiginlegur kostnaður, milliliða er tiltölulega mikill hér. Það er því mín skoðun, að það þurfi að snúast að því hér, til þess að reyna að hamla gegn hækkandi verðlagi eða óeðlilegri hækkun á verðlagi hér fram yfir það, sem er í nálægum löndum, að lækka ýmsa þá kostnaðarliði í verðlaginu, sem eru úr hófi fram háir. En um það hefur ekki fengizt samstaða, þrátt fyrir það að hér hafa verið fluttar ýmsar till. í þá átt. Um það hefur ekki fengizt samstaða.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál hér lengur. Ég hef ekki á móti því, að nefnd eins og sú, sem stungið er upp á í þessari till., verði kosin, málið verði athugað, en ég tel mjög varhugavert að gefa nokkrar falskar vonir um það, hvernig megi losa sig við þennan mikla vanda, sem sívaxandi verðbólga er í okkar efnahagskerfi og hún er einnig fyrir sparifjáreigendur í landinu. Ég held um þá leið, sem hér er stungið upp á eða mest er rætt um, að ætla að taka upp einfalda verðtryggingu á spariinnlögum og þá um leið einnig á útlánum, að það muni fleiri komast að þeirri niðurstöðu en ég og það skilst mér reyndar að hafi þegar komið fram hjá þeim, sem þessi mál hafa athugað allvel, að sú leið er ekkert auðveld.