09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (2907)

39. mál, verðtrygging sparifjár

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Mig langar til að segja hér örfá orð í tilefni af ræðu síðasta hv. ræðumanns. Hann byrjaði ræðu sína á því að tala um, að við með tillöguflutningi okkar reyndum að vekja falskar vonir, eins og hann orðaði það, hjá fólki um, að auðvelt væri að stöðva verðbólguna með því að taka upp verðtryggingu á sparifé. Og hann bætti við, að tillgr. bæri það ekki með sér, að jafnframt því, sem verðtrygging yrði tekin upp á innlánum í bankastofnanir landsins, ætti að koma vísitölubinding á útlán þess fjár. Það er að vísu rétt, að tillgr. sjálf talar hvergi um, að vísitölubinda skuli það verðtryggða sparifé, sem lánað verður út aftur. En ég hygg þó, að hverjum manni, sem eitthvað hefur um þessi mál hugsað og les sjálfa tillgr., sé ljóst, að eðlileg afleiðing af verðtryggingu sparifjár hljóti að verða sú, að vísitölubinda verði það innlánsfé, sem verðtryggt er og lánað út.

Till. gengur út á, að Alþingi kjósi 4 manna mþn. til þess að athuga, með hverjum hætti verði komið við verðtryggingu sparifjár. Ég hygg, að flestum sé það ljóst, að slíkt verður ekki gert nema vísitölubinda útlán þess fjár. Væri hins vegar svo, að einhverjum kynni að vera það hulið við lestur sjálfrar tillgr., er það mjög undirstrikað í þeirri grg., sem fylgir till., eins og kemur fram á bls. 3. Þar segir, með leyfi forseta, svo:

„Eðlilegt er að miða verðtryggingu sparifjárins við vísitölu neyzluverðlags, eins og hún er á hverjum tíma. Auðvitað yrði þá einnig að vísitölubinda útlán þess fjár með samsvarandi hætti.“

Hér er það alveg skýrt tekið fram, að forsenda þess, að þessari verðtryggingu sparifjárins verði komið á, er sú að vísitölubinda útlán þessa sama fjár.

Síðasti hv. ræðumaður virtist ekki hafa mikla trú á því, að verðtrygging sparifjár í sjálfu sér væri til þess fallin að hamla gegn vexti verðbólgu. Ég er honum ósammála um þetta atriði. Ég vil benda á þá staðreynd, að síðan verðbólguvandamálið fór að verða vandamál í íslenzku þjóðfélagi, eftir lok síðustu heimsstyrjaldar, hafa allir flokkar setið í ríkisstj. um lengri eða skemmri tíma. Örlög flestra eða allra þessara ríkisstj. hafa verið þau að hafa fallið í glímunni við verðbólgudrauginn. Ég held, að tillögur til lausnar á verðbólguvandamálinu hafi margar verið reyndar á þessum tíma, en með mjög misjöfnum árangri. Og mér er nær að halda, að almenn verðtrygging sparifjárins sé eina ráðstöfunin gegn verðbólgu, sem ekki hefur verið reynd hér á landi síðustu 15–20 árin og það er sannarlega fyrir því reynsla erlendis, að verðtrygging sparifjár og vísitölubinding útlána hefur einmitt gefizt mjög vel til þess að hamla á móti verðbólguaukningu. Ég held því, að það sé sjálfsagt með hliðsjón af því sem ég hef verið að segja fyrir Íslendinga að taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar, hvort það ráð, sem vel hefur gefizt víða erlendis, geti ekki einnig komið okkur að gagni í baráttunni við verðbólgudrauginn.