19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

106. mál, söluskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Enn leggur ríkisstj. skattahækkunarfrv. fyrir þingið. Skv. því á söluskatturinn að hækka um hundruð milljóna. Þetta í ofanálag við allt, sem fyrir er, virðist benda til þess, að hræðslan, sem greip hv. stjórn s.l. sumar, þegar almenningi urðu kunnar gerðir hennar í skattamálum á síðasta þingi, sé nokkuð tekin að dvína. Þá varð hún skelfd í bili, enda mátti verða það; skattaálögurnar voru þannig í sumar, að meiri hlutinn af launum fjölda manna síðari hluta ársins var hrifsaður af þeim í opinber gjöld. Reiði fólks var svo mikil og almenn yfir þessum aðförum, að stjórnin sá sig til neydda að gefa í skyn, að hún vildi taka skattaálögurnar til endurskoðunar.

Hún skipaði nefnd til að skoða málin. Auðvitað gætti hún þess að skipa nefndina þannig, að hún gæti sjálf haft þar bæði tögl og hagldir.

Nefndin komst þó að þeirri niðurstöðu, að eitthvað þyrfti að gera til að afstýra neyðarástandi af völdum stjórnarstefnunnar. Hún lagði til, að veitt yrði kreppulán til þeirra, sem verst voru staddir, til að gera þeim mögulegt að greiða skattakröfur ríkisstj. Það er í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar, sem slíkri tillögu er hreyft, og þetta gerist í mesta góðæri hvað aflabrögð snertir, sem gengið hefur yfir landið.

Trúlega hafa ýmsir menn, sem báru einhvern snefil af trausti til ríkisstj., gert sér vonir um, eftir að nefndin var skipuð, að eitthvað ætti að gera til að létta lítið eitt mestu skattapláguna, t.d. nú fyrir jólin. En nú lítur út fyrir, að það hafi aldrei verið ætlun stjórnarinnar að gera nokkurn hlut í þessu máli og ekki einu sinni að veita kreppulánin. Að minnsta kosti sjást enn þá engir tilburðir í þá átt. Í staðinn fá menn þetta, sem hér liggur fyrir, stórkostlega hækkun söluskattsins.

Um þetta stjfrv. má segja, að það sé beint áframhald á verkum stjórnarinnar á liðnum árum. Hennar aðalstefnumál og viðfangsefni hefur verið frá fyrstu tíð að magna dýrtíðina í landinu og auka álögur á almenning. Hún hefur alltaf verið að lækka ísl. krónuna í verði og orðið mjög vel ágengt í því efni, enda beitt sér fyrst og fremst að því. Segja má, að krónan hafi lækkað með hverri tunglkomu, síðan núverandi stjórn kom til valda.

Íslenzka krónan á nefnilega einn erkifjanda. Sá höfuðóvinur hennar er Sjálfstfl. Um þetta vitnar Íslendingasagan síðasta aldarfjórðung.

Sumarið 1942 voru sjálfstæðismenn einir í ríkisstjórn í fáeina mánuði. Framsfl. var þá í stjórnarandstöðu, en hinir þingflokkarnir veittu stjórninni stuðning og hlutleysi. Á þessum stutta tíma tókst stjórninni að lækka krónuna gífurlega mikið í verði.

Tveim árum síðar hófst stjórnartímabil þriggja flokka, annarra en Framsfl., en sú stjórn lifði í tvö ár. Þar hafði Sjálfstfl. forustu, og á þeim tíma varð verðfall krónunnar alveg gífurlegt.

Árið 1959 kemur svo ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl., sú er enn hjarir, og allir vita, hvernig farið hefur um verðgildi okkar peninga síðan.

Sé þessi saga skoðuð, kemur í ljós, að verðgildisrýrnun ísl. krónunnar hefur orðið langsamlega mest á þeim tímum, þegar Sjálfstfl. hefur ráðið stjórnarfarinu.

Sjálfstfl. hefur valið fín nöfn á ríkisstjórnir sínar, bæði 1944 og 1959, ekki vantar það. Það er gamalt og þekkt bragð óprúttinna kaupahéðna að velja falleg nöfn á lélega vöru. En réttnefni á þær ríkisstjórnir, þar sem Sjálfstfl. er hæstráðandi, væri: Krónulækkunarstjórnir.

En þrátt fyrir allan þeirra fjármálaferil, þykjast ráðherrarnir og stuðningsmenn þeirra allaf vera stútfullir af ábyrgðartilfinningu í efnahagsmálum og umhyggju fyrir hag ríkissjóðsins. Hins vegar saka þeir aðra um ábyrgðarleysi í þeim efnum.

Talsmenn stjórnarflokkanna eru nú t.d. byrjaðir að kyrja sönginn um ábyrgðarleysi framsóknarmanna, af því að þeir báru fram nokkrar brtt. við fjárlagafrv. fyrir nokkrum dögum, Um hvað voru þessar tillögur framsóknarmanna? Hæsta útgjaldatillagan, sem fulltrúar flokksins í fjvn. báru fram, var um 60 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til vegamála. Þetta var borið fram af brýnni þörf. Nýlega hefur verið lagður allhár skattur á landsmenn, sem verja á til vegaframkvæmda, en hann hrekkur skammt. Það er mjög mikil vöntun á fé til nýbyggingar vega og viðhalds vegum. Bifreiðum fjölgar stöðugt, og þær verða stærri en áður, og um leið þarf meira fé til að halda vegunum við. Það hefur skort mjög á, að vegaviðhaldið væri í lagi að undanförnu.

Þá fluttu framsóknarmenn tillögu um hækkun á framlagi til raforkusjóðs um rúmar 15 millj. Ríkisframlagið til þess sjóðs hefur ekkert hækkað að krónutölu síðan fyrir daga núv. stjórnar þrátt fyrir allar verðhækkanir og margföldun fjárlaganna á þessu tímabili. Öllum er ljós þörfin á meira fé til raforkuframkvæmda.

Enn má nefna tillögur framsóknarmanna um aukið framlag til hafnargerða. Aukin útgerð fiskiskipa er víða því aðeins möguleg, að hafnarskilyrði séu bætt til stórra muna.

Þeir fluttu einnig tillögu um nokkra hækkun á framlagi til bænda skv. samningi, er gerður var við verðlagningu landbúnaðarvara á s.l. hausti.

Þá báru þeir fram tillögu um aukið framlag til fiskleitar, síldarrannsókna og veiðitilrauna og aukið framlag til ýmiss konar rannsókna í þágu atvinnuveganna, einkum á vegum atvinnudeildar háskólans, og til byggingarannsóknastofnunar fyrir landbúnaðinn.

Enn fluttu þeir tillögu um framlag til kaupa á fiskirannsóknaskipi og aukið framlag til flugvallagerðar og flugöryggistækja. Enn má nefna tillögur framsóknarmanna um hækkun á framlögum til styrktar námsmönnum og einnig til Iðnaðarmálastofnunarinnar og til framhaldsnáms iðnaðarmanna erlendis.

Að lokum vil ég nefna tillögu framsóknarmanna úr Reykjavík um 5 millj. kr. fjárveitingu til byggingar nýs menntaskóla í Reykjavík.

Ég hef hér nefnt helztu tillögur framsóknarmanna við gjaldabálk fjárlagafrv. Við athugun á þeim sést, að þær eru um framlög til nauðsynlegra framkvæmda og aukna rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna, ásamt auknum framlögum til námsmanna. En auknar rannsóknir og aukin menntun ungra, dugandi manna, einkum á sviði vísinda og tækni, eru höfuðnauðsyn um þessar mundir. Þetta er nauðsynlegur grundvöllur undir framfarasókn þjóðarinnar á komandi tímum. Og hvað námu brtt. framsóknarmanna miklu? Mér reiknast, að tillögur þeirra um hækkun á gjaldabálki fjárlagafrv. nemi alls um 5 1/2% af tekjum ríkissjóðs á næsta ári, eins og þær eru áætlaðar á fjárlagafrv. nú, eftir 2. umr. þess, áður en sú mikla skattahækkun, sem nú er verið að ræða um, er komin inn í tekjubálk frv. Þetta er ekki mikið eða óvarlegt, þegar þess er gætt, að árið 1962 fóru ríkistekjurnar um 17.3% fram úr áætlun fjárlaga og um 14.7% árið 1963. Þetta sýnir allt annað en ábyrgðarleysi af hálfu framsóknarmanna. Fulltrúar Framsfl. í fjvn. báru einnig fram tillögur um, að 20 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkisins undanfarin ár skyldi nú varið til styrktar nýjum síldariðnaði og markaðsleitar í því sambandi. Hér er hreyft stórkostlegu nauðsynjamáli. Það er beinlínis skylda yfirvaldanna að reyna að finna markaði erlendis fyrir síld til manneldis, öðruvísi en saltaða í tunnum. Ef þetta tækist, gæti það öðru fremur skapað mjög aukna atvinnu í verstöðvum víða um land og stóraukið útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Það fé, sem notað væri í þessu skyni, mundi þá koma margfalt aftur inn í þjóðarbúið.

Einnig fluttu framsóknarmenn í fjvn. tillögu um, að öðrum 20 millj. af greiðsluafgangi undanfarinna ára skyldi varið til félagsheimilasjóðs, til greiðslu eftirstöðva vangoldinna framlaga til félagsheimila.

Á síðasta þingi var samþ. fyrir þinglokin þingsályktun um endurskoðun laga um félagsheimili og um eflingu félagsheimilasjóðs. Tillaga þessi var flutt af 5 hv. þm. Fyrsti flm. hennar var hv. forseti þessarar deildar, 2. þm. Vestf., en flm. voru 3 sjálfstæðismenn, 1 Alþýðuflokksmaður og 1 Framsóknarflokksmaður. Og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa þál., eins og hún var samþ. á Alþingi 13. maí s.l.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á gildandi lögum um félagsheimili, með það fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur og að eðlileg skilyrði heilbrigðs félags- og menningarlífs verði sköpuð í sem flestum byggðarlögum landsins. Jafnframt verði athugaðir möguleikar til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem fjárskortur félagsheimilasjóðs hefur valdið einstökum héruðum. Stefnt verði að því í hinni fyrirhuguðu löggjöf um félagsheimili, að forráðamönnum þeirra verði framvegis gert kleift að efla menningarlega fræðslu- og skemmtistarfsemi í ríkara mæli en unnt hefur verið fram að þessu. Endurskoðuninni skal lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.“

Nú er komið á þriðja mánuð, frá því að Alþ. kom saman, og ekkert hefur enn heyrzt um þessa endurskoðun, sem ríkisstj. var falið að láta framkvæma. Það var því ekkert óeðlilegt við það, þó að á þetta mál væri minnt í sambandi við meðferð fjárlaga, því að það er alveg rétt, sem hv. flm. þessarar till. sögðu í greinargerð með henni á síðasta þingi, að það veldur mörgum byggðarlögum erfiðleikum og stendur félagslífi þeirra fyrir þrifum, að þau hafa svo til engan stuðning hlotið frá félagsheimilasjóði þrátt fyrir löggjöf, sem um það gildir.

Ég hef með þessu viljað sýna fram á það, að ásakanir hv. stjórnarflokka um ábyrgðarleysi framsóknarmanna eru ekki á neinum rökum reistar, ekki minnstu.

En hvernig taka stjórnarflokkarnir því, þegar andstæðingar þeirra leggja fram brtt. við fjárlagafrv., sem stefna að því að bæta hag ríkissjóðs? Um þetta vil ég nefna dæmi.

Við 2. umr. fjárlaganna fyrir fáum dögum bar ég fram brtt. Hún var um það, að áfengisog tóbakseinkasala ríkisins skyldi hætta að selja mönnum áfengi og tóbak á kostnaðarverði. Sá ósiður hefur lengi legið hér í landi, að nokkrir menn, þar á meðal æðstu valdamenn í þjóðfélaginu, svo sem ráðh., hafa fengið vörur hjá áfengis- og tóbakseinkasölunni til eigin nota fyrir kostnaðarverð, en mjög mikill munur er á kostnaðarverði og útsöluverði á þessum einkasöluvörum. Forsetar Alþingis hafa einnig notið þessara fríðinda hjá einkasölunni, en þó eru þau takmörkunum háð hjá deildarforsetum og varaforsetum þingsins. Með till. minni var stefnt að því, að allir landsmenn skyldu njóta sömu viðskiptakjara hjá þessari ríkisverzlun, sem er augljóst réttlætismál. Og einnig mátti vænta þess, að samþykkt till. hefði í för með sér auknar tekjur í ríkissjóð af verzlunarrekstrinum. En hvernig var till. tekið? Var því ekki fagnað af ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar, þegar flutt var till. um að bæta hag ríkissjóðs? Nei, langt frá því. Þegar till. kom fram á Alþingi, kom ólundarsvipur á hæstv. ráðh., og sá svipur birtist einnig fljótlega á ásjónum annarra þm. stjórnarflokkanna. Þar með var umhyggja þeirra fyrir ríkissjóði skyndilega rokin út í veður og vind. Þeir greiddu allir, stjórnarflokksmenn á Alþingi, hver einasti, atkv. gegn till. minni. Það kom fyrir ekki, þótt styrkþegum áfengis- og tóbakseinkasölunnar, ráðh. og þingforsetum, væri bent á ákvæði í þingsköpum, sem leggur bann við því, að þm. greiði atkv. með fjárveitingu til sjálfs sín, en það voru einmitt atkv. þessara styrkþega sjálfra á Alþingi, sem réðu úrslitum um það, að till. mín var talin felld.

Af hverju stafar þetta? Er hagur þessara manna svo bágborinn, að þeir geti ekki borgað sama verð og aðrir landsmenn fyrir vörur, sem þeir kaupa hjá einkasölum ríkisins? Ekki verður fallizt á, að svo sé. Ráðh. vorir fengu verulega kauphækkun í fyrra, eins og aðrir opinberir starfsmenn. Ég tel, að þeir hafi átt að fá þessa kauphækkun, því að ráðherralaun höfðu lengi verið óeðlilega lág hér á landi í samanburði við launagreiðslur til ýmissa annarra. Í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir, að ráðherralaun verði alls 1 millj. 872 þús. kr. á næsta ári, 1965. Sé deilt í þessa upphæð með ráðherratölunni 7, koma út um 267 þús. kr. í hlut hvers þeirra. Þessi laun eru rúmlega 150 þús. kr. hærri á hvern mann en ráðherralaunin voru fyrir 6 árum. Og eftir að ráðh. hafa fengið þessa launaviðbót, held ég, að óhætt sé að álykta, að þeir geti keypt mat og drykk og aðrar nauðsynjar handa sér og sínum án þess að njóta framfærslustyrks hjá einni af stofnunum ríkisins. En ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar eru á öðru máli. Atkvgr. á Alþingi um till. mína leiðir í ljós, að ráðh. og allir stuðningsmenn þeirra á þingi líta svo á, að ráðh. og þingforsetum sé alveg nauðsynlegt að hafa sem greiðastan aðgang að áfengi hjá ríkiseinkasölunni til þess að hressa sig á því annað veifið eftir amstur dægranna. Víst er það, að ráðh. hafa í mörgu að snúast og oft er þeim vandi á höndum. Starf þeirra getur oft verið dálítið lýjandi. Trúlega eru þeir líka mestir ferðamenn allra Íslendinga, ráðh. vorir, a.m.k. sumir þeirra. Það er löng leið frá Íslandi til Japans og Kína, og þó að farið sé í flugvélum, geta slíkar langferðir verið þreytandi og tekið á taugarnar. Auk slíkra ferðalaga um óravegu eru svo ákaflega tíðar ferðir ráðh. héðan til annarra Evrópulanda og Ameríku. Í því sambandi má minnast þess, að þegar einn af ráðh. kom úr síðustu Norðurlandaferð sinni fyrir nokkrum dögum, var hann óvenjulega léttbrýnn. Hann hafði sem sé orðið fyrir stórhappi á ferðalaginu, fundið nýjan skatt, sem ekki var farið að nota hér á landi. Stjórnin á aðeins eftir að finna fallegt íslenzkt nafn á skattinn. Og hver vill svo halda því fram, að allar fyrirmannaferðir til útlanda séu þýðingarlausar?

Stjórnarflokksmenn á Alþingi, 32 að tölu, eru ekki aðeins sammála um það, að ráðh. og forsetar þurfi að hafa greiðan aðgang að áfengi hjá einkasölunni. Þeir eru líka allir hjartanlega sammála um, að áfengið, sem þessir menn kaupa, þurfi að vera hræódýrt, þannig að þeir borgi aðeins lítinn hluta af því verði, sem aðrir viðskiptamenn greiða fyrir sömu vörutegundir. Sú nauðsyn er að þeirra dómi svo rík, að fyrir henni verður annað að þoka. Þá er ekki verið að hugsa um ríkisfjárhirzluna. Víst mætti spyrja þessa menn, hvers vegna þeir setja dálitlar fjárveitingar inn á fjárlagafrv. til eflingar bindindisstarfsemi í landinu, úr því að þeir telja áfengið svo nauðsynlega neyzluvöru, að sjálfsagt sé að veita æðstu mönnum þjóðarinnar opinberan styrk til að kaupa það og drekka. Það sýnist ekki gott samræmi í þessu.

Jólin eru bráðum komin. Það er oft mikið verzlað á jólaföstunni, jafnvel meira en á öðrum tímum árs. Þá kaupa menn ýmiss konar varning, og ekki verður því neitað, að margir fara gálauslega með peninga. Þeir meta lítils þær litlu krónur, sem stöðugt eru að verða minni og minni vegna aðgerða yfirvaldanna. Til dæmis um óviturlega peningaeyðslu eru kaup manna á áfengi og tóbaki. Sjálfsagt er mikil ös í vínbúðum ríkisins þessa dagana, en dálítill hópur viðskiptamanna fer bakdyramegin inn í þær búðir. Skyldu það vera svonefndir rónar, sem ekki vilja sýna sig á almannafæri við aðaldyr hinna fínu búða? Nei, ekki verður þessi hópur talinn í þeim flokki manna. Í þessum hópi eru fínir menn, ráðh. og forsetar. Það eru þeir, sem laumast inn um bakdyrnar til þess að krækja sér í glaðning fyrir ósköp litla borgun, og m.a. til þess að bakdyraferðir þeirra og sérstæðu viðskipti geti haldið áfram, á nú að hækka stórlega söluskatt á nauðsynjavörum almennings. Þannig er jólaboðskapur hæstv. ríkisstj. á því herrans ári 1964.