19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

106. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég hafði fyrr í þessum umr. beint ákveðinni spurningu til ríkisstj., sem var þess eðlis, að ég sætti mig ekki við að fá ekki einhver svör við henni einmitt nú við þessa umr., vegna þess að gert er ráð fyrir því, að 2. umr. málsins kunni að verða heldur stutt hér í þd. Ég beindi þeirri fsp. til ríkisstj., hvort hún teldi eftir þá athugun, sem ég tel alveg víst að hún hafi látið fara fram í þeim efnum, hvort hún teldi, að e.t.v. þyrfti að gera sérstakar efnahagsráðstafanir síðar í vetur til stuðnings sjávarútveginum vegna þeirra breyttu viðhorfa, sem nú skapast hjá honum við þessar ráðstafanir. Það er ekkert um það að villast, eins og ég gerði grein fyrir í minni ræðu, að t.d. frystihúsarekstrinum í landinu er gert að greiða með þeim ákvæðum, sem samþykkja á varðandi afgreiðslu fjárl., og svo þessu frv., — honum er gert að greiða stórfelldar fjárhæðir, sem ekki eru undir því, sem nemur 24% beinni launahækkun, án nokkurra sérstakra bóta og það án þess að reiknað sé með sérstöku hækkunarverði á fiski, sem þó hlýtur að verða líka. Ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því, hvort þessi framleiðslugrein getur staðið án sérstakra ráðstafana undir slíkum álögum sem þessum, og því spyr ég um það: Telur ríkisstj., að til þess geti komið eftir áramótin, að afla þurfi nýrra tekna til stuðnings sjávarútveginum sem beinni afleiðingu af afgreiðslu fjárl. og afgreiðslu þessa frv., eða telur hún, að það þurfi ekki meira að koma til heldur en það, sem hér er nú lagt til að samþykkt verði? Ég legg sem sagt mjög ríka áherzlu á það að fá hér í stuttu máll einhver svör við þessari spurningu. Og um leið vildi ég svo varpa fram annarri spurningu, sem mér finnst afar eðlilegt að hér séu gefin svör við, hefði auðvitað verið miklu eðlilegra, að hæstv. fjmrh. hefði svarað þeirri spurningu, en hún er um það, að þegar nú á að afla fjár í jafnríkum mæli eins og hér er lagt til, til þess að standa undir niðurgreiðslum, þá spyr ég: Er ætlunin að halda uppi á næsta ári sams konar niðurgreiðslum og verið hefur, eða er meiningin, að breytingar geti orðið á þessum niðurgreiðslum? Þegar menn biðja um tiltekna fjárupphæð til niðurgreiðslna, er ofur eðlilegt, að um það sé spurt: Í hvaða niðurgreiðslur á þetta að fara, — því að það skiptir líka launafólk í landinu mjög miklu máli, hvernig niðurgreiðslurnar eru framkvæmdar. — Ég vænti nú, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært í örstuttu máli að svara þessum spurningum mínum.