03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2961)

79. mál, ökuskóli

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Á s.l. hausti átti Pétur Pétursson sæti hér á hv. Alþ. í stað 5. þm. Vesturl. og flutti þá till. til þál.,. sem hér liggur fyrir nú. Þáltill. er örstutt. Leyfi ég mér til skýringar á málinu að lesa hana. Hún er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa löggjöf, svo fljótt sem verða má, um ökuskóla. Miða skal við að stórauka verklegt og bóklegt nám þeirra, sem ganga undir ökupróf og fá ökuskírteini. Löggjöf þessi skal undirbúin í samráði við lögreglustjóra og bifreiðaeftirlitið.“

Í grg. sinni bendir flm. á nauðsyn þess að gera meiri kröfur til ökuhæfni bifreiðarstjóra en gert er nú, sér í lagi með tilliti til hins stóraukna fjölda bifreiða, sem sífellt kemur á markaðinn.

Það þarf engum blöðum um það að fletta, og ég hygg, að um það geti allir hv. þm. verið sammála, að bifreiðainnflutningur hefur með riftun allra hafta í sambandi við innkaup á bifreiðum stóraukizt og miðað við okkar vegakerfi og eldri götur og vegi hefur samfara þessum stóraukna innflutningi áreiðanlega stórlega dregið úr öryggi vegfarenda og jafnframt bifreiðarstjóra í þessari mjög svo miklu umferð. Það ætti því ekki að þurfa að vera ágreiningsatriði, að gert væri allt, sem í mannlegu valdi stæði, til þess að auka þetta öryggi og bæta, svo sem verða má, með hliðsjón af þessum stóraukna fjölda bifreiða sem á markaðina kemur næstum mánaðarlega.

Ég vil því fyrir hönd flm. óska þess, að umr. um málið verði nú frestað, en till. vísað til hv. allshn.