21.12.1964
Neðri deild: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

106. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, en eins og fram kemur í áliti meiri hl. n. á þskj. 212, hefur hún ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess, og munu minni hl. skila sérálíti um málið.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að söluskattur verði hækkaður úr 51/2 í 71/2 %, og auk þess nokkur breyting á hundraðshluta þeim, sem ætlaður er til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, eins og gerð er grein fyrir í 1. gr. frv. Meiri hl. n. hefur, eins og fram kemur í nál., lagt til, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 197 eftir afgreiðslu í Ed. Mér þykir það ekki ólíklegt, að þegar frá líður muni sú tilraun, sem hófst með svokölluðu júnísamkomulagi, verða talin merkileg og muni eiga eftir að marka nokkur spor í þróun efnahagsmála hér á landi. Af biturri reynslu undanfarinna ára og þá ekki hvað sízt af því, sem gerðist í lok ársins 1963, og af þeirri þróun, sem þar fylgdi á eftir á fyrstu mánuðum ársins 1964, var mönnum orðið það ljóst og þá einnig forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, að hinar troðnu slóðir í kaupgjaldsbaráttunni lágu út í ófæru. Þegar þessir aðilar því sneru sér til ríkisstj. á s.l. vori, má að vissu leyti segja, að það hafi verið brotið blað í sögunni. Tilmæli þeirra voru þau, að teknar skyldu upp viðræður um efnahagsmálin, sem stefndu að því að stöðva þá verðbólguþróun, sem undanfarið hafði magnazt mjög og stefndi efnahagslífinu í hættu. Að sjálfsögðu var ríkisstj. mjög fús til slíkra viðræðna, enda taldi hún það höfuðnauðsyn, að ná mætti samkomulagi, er miðaði að því að stöðva verðbólguþróunina, en það var aftur frumskilyrði fyrir því, að sá árangur, sem náðst hafði í efnahagsmálum á undanförnum árum, yrði ekki að engu. Í þessu sambandi er manni reyndar spurn, hvaða ríkisstj. hefði ekki verið mjög fús til slíkra viðræðna, eins og á stóð.

Árangurinn af þessum viðræðum, sem hófust um vorið 1964, varð hið svokallaða júnísamkomulag. En það má segja, að það hafi verið aðeins upphafið. Með því voru ekki öll vandamál leyst, en e.t.v. var það merkilegast við samkomulag það, að það sýndi glögglega vilja aðilanna til að leita að færum leiðum í mjög viðkvæmum málum, vilja til þess að losa sig við ýmsa rótgróna hleypidóma og taka málin upp til endurmats á nýjum grundvelli. En slíkt endurmat og slík byrjunarlausn sem fólst í samkomulaginu í júní kallaði að sjálfsögðu líka fram ýmis ný vandamál, þótt siðar yrði. Það er einmitt eitt af þeim vandamálum, sem við erum nú að glíma við í sambandi við þetta frv. Þetta frv. er afleiðing af júnísamkomulaginu, þótt það á hinn bóginn raski ekki í neinu grundvelli þess samkomulags. Slíkir hlutir sem þessir gerast ekki í einni svipan, þeir gerast venjulega á lengri tíma, ef ná á verulegum árangri.

Í þeim umr., sem fram hafa farið hér á hv. Alþingi og raunir einnig utan þess, aðallega í dagblöðunum, er ekki laust við, að menn hafi hleypt sér í nokkurn hita. Að nokkru leyti má segja, að það hafi stafað af misskilningi, sem upp kom, þar sem báðir aðilar, fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj., voru þó í góðri trú um sinn skilning. En ríkisstj. sýndi þá enn, hversu ríka áherzlu hún leggur á gildi júnísamkomulagsins, og eins og hæstv. forsrh. tók fram í upplýsingum sínum um málið í Ed., taldi hann það höfuðnauðsyn, að hvorugur aðili hefði nokkra ástæðu til þess að ætla, að reynt væri að hlunnfara hann í sambandi við þetta mál. Svo er það einnig, að menn eru ávallt viðkvæmir fyrir því, þegar leggja þarf á nýja skatta eða hækka þarf skatta, og það er ekkert sérstakt nú, þegar nauðsynlegt reynist að hækka söluskattinn. Það er að sjálfsögðu engri ríkisstj. eða stuðningsmönnum hennar nein sérstök ánægja að slíkum aðgerðum, þótt þessir aðilar verði hins vegar að taka á sig ábyrgðina af því, þar sem þeim hefur af meiri hl. þjóðarinnar, meiri hl. kjósenda í landinu í frjálsum kosningum, verið falið að stjórna landinu.

Því hefur verið haldið fram hér og það með réttu, og hefur það verið gert með allmiklum þunga af sumum hv. þm., að þessar aðgerðir muni íþyngja atvinnuvegunum og þá sérstaklega útflutningsatvinnuvegunum. Það má að vísu segja, að þetta komi að nokkru leyti úr ólíklegustu átt. Þessi rödd heyrðist ekki úr þessari átt t.d. í fyrra, þegar kaupgjaldið í landinu var hækkað á einu ári um 30—40%, en vissulega íþyngdi það líka útflutningsatvinnuvegunum óhóflega. En það er einnig gleðilegt tímanna tákn, að fleiri og fleiri virðast skilja — og ekki aðeins skilja, heldur líka viðurkenna, sem er raunar enn þá þýðingarmeira, viðurkenna þau meginlögmál, sem ráða í okkar efnahagskerfi. Einmitt um þetta er júnísamkomulagið mjög glöggt vitni. Það samkomulag lagði að sjálfsögðu einnig byrðar á útflutningsatvinnuvegina. Það var þá líka mikið í húfi, ekki sízt fyrir þessa atvinnuvegi, að takast mætti að stöðva verðbólguþróunina, sem er tvímælalaust versti óvinur útflutningsatvinnuveganna. Öllum er líka auðvitað ljóst, að þessar aðgerðir, sem nú er verið að ræða, leggja einnig byrðar á útflutningsatvinnuvegina. Það er einmitt skuggahliðin við þær. En með þeim er einnig verið að gera það mögulegt að greiða niður vöruverð og draga þar með úr hækkun vísitölu, sem ella mundi leiða til enn meiri kauphækkunar, enn meiri hækkunar kaupgjaldsins, sem yrði þá enn þyngri byrði fyrir atvinnuvegina, á sama tíma og verðlagið er greitt niður á þýðingarmiklum neyzluvörum almennings. Er það að sjálfsögðu til hagsbóta fyrir neytendur. Þannig verður að skoða málið frá öllum hliðum, þegar það er rætt.

Það, sem nú er að gerast í þessu, er þó aðeins eitt atvik í lengri sögu, og mér er næst að halda, að síðar meir muni þetta verða talið eitt smáatvik í þeirri sögu, sem mönnum hættir þó nú til að mikla fyrir sér, kannske um of. Þetta má þó ekki verða til þess, að menn missi sjónar á því meginatriði, sem hér verður að horfa á, en það er sjálfur sá andi, sem kom fram og lá til grundvallar júnísamkomulaginu. Og þrátt fyrir allt það, sem hér hefur verið sagt við umr. um þetta mál hér í þinginu, vil ég nú leyfa mér að trúa því, að sá andi, sem þá réð, fái að lifa áfram og eigi eftir að bera þann ávöxt, sem menn höfðu gert sér vonir um.

Ég læt nú þessu málí lokið, en ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 3. umr.