07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

99. mál, lánveitingar til íbúðarbygginga

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Ræða hv. síðasta ræðumanns gefur ekki beint tilefni til mikilla ræðuhalda af minni hálfu. Mér virtist hans málflutningur beinast einkum að því að færa rök fyrir því, að till. væri ekki orðin úrelt. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að hún hefði rétt á sér, þrátt fyrir það, sem er að gerast í veruleikanum í húsnæðismálunum. Mér finnst það hæpin niðurstaða. Að vísu er það alveg rétt, eins og hv. þm. sagði, að það sýnist vera um nokkuð sjálfsagða hluti að ræða, sem um getur í till. Ég get verið honum sammála um það. Þetta er meira að segja svo sjálfsagt, að ríkisstj. er í fullum gangi með að framkvæma það, ekki að tala um það. En mér þykir ástæða til þess að minnast aðeins á nokkur atriði, sem ræða hv. 11. þm. Reykv. gaf tilefni til.

Fyrsti liður þessarar till. fjallar um það, að auka eigi lánveitingar til byggingar nýrra íbúða, svo að unnt verði að lána til hverrar íbúðar af hóflegri stærð, hvar sem er á landinu, 2/3 hluta af byggingarkostnaði. Þetta er ákaflega góð stefnuyfirlýsing í þessum málum. En ég minnist þess að hafa heyrt slíkt fyrr, en hér í þessari till. Auðvitað hljóta allir, sem gera sér grein fyrir mikilvægi lánamála vegna húsbygginga, að viðurkenna það og í viðleitni sinni til að bæta úr ástandinu stefna að því, að lánin verði sem hæst og sem mestur hluti af byggingarkostnaðinum. Um það getur ekki verið neinn ágreiningur. En hv. ræðumaður fór nokkrum orðum um það, hve byggingarkostnaður hefði aukizt mikið og þess vegna væri meiri ástæða nú til átaka í þessum málum en áður. Ég held, að þetta þurfi nokkurrar athugunar við. Það segir ákaflega lítið, þó að byggingarkostnaður íbúðar sé nokkur hundruð þús. kr. meiri nú, en hann var árið 1958. Það gefur ekki fullkominn samanburð í þessu efni, því að það er margt annað, sem hefur breytzt, heldur en byggingarkostnaðurinn. Það hefur breytzt allt verðlag og kaupgjald í landinu. Þannig verður að taka ýmsa aðra þætti inn í dæmið, ef á að gera hér samanburð. En það vill svo til, að við höfum í þessu efni hjálpartæki til þess að gera þennan samanburð, og hví ekki að nota það og þeim mun fremur sem það er ákaflega handhægt. Ég á hér við hina opinberu byggingarvísitölu. Byggingarvísitalan hefur hækkað um 77% frá því í árslok 1958 þar til í dag. En með hækkun lánanna til íbúðabygginga, sem nú eru fyrirhuguð samkv. frv. því, sem liggur fyrir í Ed., hækka lánin, miðað við þennan sama tíma, um 280–300%, á sama tíma sem vísitalan hækkar um 77%. Nú veit ég, að þetta segir ekki allan sannleikann í þessu efni, en þetta segir mestan sannleikann í þessu efni. Til þess höfum við byggingarvísitölu, að við miðum við hana við slíkan samanburð sem þennan. Ég held, að fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í þessum efnum séu þess efnis, að það sé óþarfi, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, að setja á stofn sérstaka nefnd til þess að brýna hækkun lánanna fyrir hæstv. ríkisstj.

Annar þáttur till. fjallar um það, að jafna eigi aðstöðu manna til lánsfjár þannig, að heildarlán geti orðið svipuð til hvers manns miðað við sömu stærð íbúðar, hver sem hann er og hvar sem hann býr. Ég spyr: Hvað er þetta? Hvað þýðir þetta? Ég geri mér ekki grein fyrir, hvað tillögumenn meina með þessum lið till. Mér er ekki kunnugt um, að mönnum sé neitt mismunað eftir því, hvar þeir búa í landinu eða hver einstaklingurinn er. Mér er ekki kunnugt um það. Íbúðalánin hafa frá fyrstu tíð verið hin sömu, hvar sem er á landinu. Mér virðist, að hér sé um einhverja fáfræði að ræða, sem liggur til grundvallar þessum lið tillögunnar.

Þá er næsti liður till. að greiða fyrir mönnum með lánveitingu til að endurbæta íbúðir svo og að kaupa íbúðir til eigin nota. Hvað er átt við með þessu? Samkvæmt gildandi I. og reglugerðum er hægt að lána til þess að stækka íbúðir. Það er hægt að lána líka til þess að kaupa íbúðir, ef íbúðirnar eru nýjar. En það er rétt, að það er ekki gert ráð fyrir því, að húsnæðismálastjórn láni til þess að endurbæta gamlar íbúðir, án þess að þær séu stækkaðar eða til þess að kaupa gamlar íbúðir. Þetta hefur mönnum verið lengi ljóst og enn fremur ljóst, að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess að bæta hér úr. Ég er sammála flm. um, að það þarf að gera. En ég held, að það þurfi ekki að setja neina nefnd í þetta mál til þess að benda á þá þörf. Það mætti spyrja: Hvers vegna er það ekki gert? Hvers vegna leggur ríkisstj. það ekki til í frv. því, sem liggur fyrir Ed. nú? Ég hygg, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, hvers vegna það er ekki gert. Það er vegna þess, að auðvitað hafa möguleikarnir til lánsfjármagnsins ekki verið takmarkalausir. Það er mjög takmarkað, þrátt fyrir hina miklu nýju tekjustofna, sem ríkisstj. er nú að útvega, hvað er hægt að velta mikið fjármagn til íbúðarlánanna. Ég hygg, að það sé rétt stefna að leggja í bili megináherzlu á það að auka fjármagn til íbúðarlána til nýrra íbúða, koma þannig á því skipulagi, sem gert er ráð fyrir og júnísamkomulagið byggðist á, að hægt væri að fullnægja eftirspurninni eftir íbúðarlánum miðað við ákveðna byggingarþörf, eins og hún væri áætluð fyrir hvert ár. Og ég tel, að það sé svo mikið unnið, ef okkur tekst að gera þetta, að við ættum ekki að sýta það, þó að það yrði rétt aðeins bið á því að koma upp lánakerfi vegna kaupa og endurbóta á gömlum húsum, rétt aðeins meðan við erum að koma slíkri gerbreytingu og bættum háttum á skipulag lánamálanna.

Þá er einn liður, að bæjar- og sveitarfélög byggi íbúðir til að leigja húsnæðislausu fólki. Eins og hv. 11. þm. Reykv. benti á, er gert ráð fyrir þessu í frv. því, sem liggur fyrir Ed. Við erum sjálfsagt allir sammála um nauðsyn þessa, það er enginn ágreiningur um það og það ber enn að sama brunni, það þarf ekki að setja 7 manna nefnd til þess að minna ríkisstj. á það, sem hún er að gera.

Þá er að lokum talað um að lækka byggingarkostnaðinn í landinu. Þess gerist vissulega þörf og ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um, að það er eitt aðalatriðið í því að koma húsnæðismálunum í sem bezt horf og skipan þeirra mála. Hv. ræðumaður minntist í þessu sambandi á, að það hefði orðið lítið úr aðgerðum húsnæðismálastjórnar á þessu sviði. Og ég er honum sammála um þetta. Hv. ræðumaður benti á ýmsa liði í núgildandi l, þar sem húsnæðismálastjórn er falið að vinna að tilteknum málum á þessu sviði. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið harla lítið gert í þeim efnum og ég er honum sammála. En sumt, sem hann nefndi, eins og t.d. skýrslugerð um húsbyggingar, hefur einfaldlega ekki verið gert vegna þess, að aðrir aðilar í landinu hafa gert slíka hluti.

En þá kem ég að núgildandi ákvæðum um þessi efni. Þau voru sett 1957, þegar þáv. ríkisstj., vinstri stjórnin, gerði breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni, sem sett var 1955. Þá voru sett inn í l. flest þau ákvæði, sem um þetta fjalla og var húsnæðismálastjórn gert að sinna ákveðnum verkefnum. Mín skoðun var þá, að þessi lagasmíð væri óraunhæf og hún var óraunhæf í tíð vinstri stjórnarinnar og hún hefur verið óraunhæf síðan. Það má segja kannske, að það sé ámælisvert að þurrka ekki þessi spor vinstri stjórnarinnar út úr löggjöfinni. En það mætti segja, að dauður lagabókstafur gerði ekki mikið ógagn. Þó er það svo, að það er einmitt spurning, hvort það hafi ekki verið óskynsamlega að farið að ætla húsnæðismálastjórninni nokkurn tíma ýmislegt af þeim verkefnum, sem talin eru upp varðandi lækkun byggingarkostnaðar og það er einfaldlega vegna þess, að húsnæðismálastjórn hefur ekki haft fjármagn eða aðstöðu til þess sjálf að sinna þessum verkefnum. Til þess að gera það, þarf að setja upp öflugt skrifstofubákn og það þarf að setja upp rannsóknarstöðvar. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé ekki rétt að fara að setja upp nýjar stofnanir á þessu sviði. Það er miklu eðlilegra, miklu sjálfsagðara og raunar kemur ekki annað til greina, en að hagnýta í þessu skyni þær stofnanir, sem fyrir hendi eru í þjóðfélaginu og láta þær sinna þessum verkefnum. Ég nefni í því sambandi stofnun eins og Iðnaðarmálastofnun Íslands og atvinnudeild háskólans, byggingardeildina.

Nú er það svo, að starfsemi byggingardeildar atvinnudeildar háskólans hefur verið nauðalítil á undanförnum árum. Hins vegar er núna gert ráð fyrir því að efla þessa deild stórkostlega, þannig að hún fái aðstöðu til þess að vinna að rannsóknarstörfum í þágu byggingariðnaðarins. Og nú er málum svo háttað, að nýverið hefur verið ráðinn ágætur verkfræðingur, Haraldur Ásgeirsson, til að veita þessari deild forstöðu og til deildarinnar hafa verið ráðnir aðrir sérfræðingar. Ég tel að þetta sé spor í rétta átt. Ég hygg, að þegar afmáð verða síðustu spor vinstri stjórnarinnar af húsnæðislöggjöfinni, — það verður fyrr eða síðar gert, — þá eigi að setja ný ákvæði um skipan tæknimálanna í löggjöfina. Ég sé ekki, að það sé ástæða til þess að æðrast nokkuð, þótt það sé ekki gert eða gert ráð fyrir því í frv. ríkisstj., sem liggur fyrir Ed. Ég sé ekki, að það sé neitt athugavert við það, þó að við bíðum átekta með að forma þessa hluti í löggjöfinni, en leggjum þeim mun meiri áherzlu á það að forma þessa hluti í raunveruleikanum á þann veg, að við sköpum þeim stofnunum, sem fyrir eru í þjóðfélaginu og eiga eðli málsins samkv. að vinna að þessum málum, starfaskilyrði. Það er þetta, sem verið er nú að gera í sambandi við byggingardeild atvinnudeildar háskólans.

Ég sé ekki ástæðu, eins og ég sagði í upphafi, til að fara að halda neina almenna ræðu um húsnæðismálin í tilefni af þessari till., sem hér liggur fyrir. Ég veit, að hv. 11. þm. Reykv, hefur mikinn áhuga og góðan skilning á þessum málum og ég hygg, að við séum raunverulega sammála um flest, sem til framfara horfir í þessum málum. En mér sýnist, að þessi mál liggi núna þannig fyrir, að þegar við erum með í Alþ. frv., sem felur í sér einar mestu umbætur í þessum málum, sem hafa orðið á síðari árum, sé ekki beint ástæða til að fara að setja sérstaka nefnd í málið, til þess að athuga um hluti, sem ríkisstj. er að framkvæma og hefur ákveðið að framkvæma.